Ég vil samt byrja á því að segja að ég styð algjörlega og fullkomlega réttindabaráttu samkynhneigðra og hef megna andstyggð á þeirri skoðun að samkynhneigð sé synd. Tel hana fornfálega og heimskulega. Og á vissu leveli snýst málið einfaldlega um það að þótt séra Schram hafi rétt til að vera asni, þá þykir mér leitt að hann vilji vera það.
En málið snýst bara um fleira.
Það fyrsta sem mér finnst ömurlegt við málið er að hér er verið að beita sjóðum borgarinnar í pólitískum fjölmiðlaleik. Þessum styrk var veitt úr Kirkjubyggingarsjóði (ég er ekki að djóka) Reykjavíkurborgar og fyrir þeim sjóði fer prestur. Þetta er rúmlega hálfrar aldar gamall sjóður sem hefur það eitt að markmiði að fjármagna kirkjubyggingar. Þegar Íslenska kristskirkjan fékk úthlutað einhverju smotteríi úr sjóðnum fyrir stuttu þá lá þetta viðhorf sem nú er bannfært fullkomlega og algjörlega fyrir. Og kirkjur sem aldrei hafa farið leynt með að þær deila þessu viðhorfi hafa hingað til fengið úr þessum sjóði líka.
Á heimasíðu kirkjunnar má lesa pistil eftir pistil eftir séra Schram um þetta sama: uppgangur samkynhneigðar er skýrt dæmi um afhelgun. Jafnvel þótt menn hafi þessar hneigðir ber þeim að standast freistinguna. Guð fer ekki í neinar grafgötur með vilja sinn í þeim efnum. Ásælni samkynhneigðra í hjónabönd og fósturbörn er merki þess að eitthvað mikið sé að.
Séra Schram gek meira segja svo langt að semja sérstakan bækling þar sem hann hrópaði varnaðarorð sín til þeirra sem áttu að standa vörð um helgina.
Allt var þetta rækilega vottað og vitað þegar ákveðið var að afhenda kirkjunni pening. Ef einhver ætlar að halda öðru fram og fullyrða kinnroðalaust að borgin hafi hreinlega ekki vitað hvar séra Schram og kirkjan hans stóð í þessu efni – þá er viðkomandi annaðhvort að ljúga eða gersamlega vanhæfur.
Ef menn ætla að vera með einhverja sjóði sem verðlauna eða refsa vegna viðhorfa til samkynhneigðra þá er nokkurnveginn það heimskulegasta í heimi að einskorða sjóðinn við kirkjubyggingar. Þegar stjórnmálamenn eru farnir að verðlauna eða refsa trúfélögum vegna þess að boðskapurinn dillar í takt við hugmyndir stjórnmálamanna sjálfra þá eru menn komnir á hættulegar slóðir. Það er hvorki til marks um aðskilnað hins opinbera og trúfélaga, né til marks um raunverulegt trúfrelsi.
Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni er gefið í skyn að séra Schram hafi fyrirgert rétti sínum til styrks vegna mannréttindabrota. Hið rétta er auðvitað að hann missti styrkin vegna viðhorfa til mannréttindamála. Glæpur hans er „hugsanaglæpur.“ Að hugsa og orða hluti sem eru mörgum óþolandi. Ef sérann hefði raunverulega brotið lög og gerst sekur um glæp þá ætti að sjálfsögðu að trilla honum í dómssal og takast á við hann. Það verður ekki gert. Fyrst og síðast vegna þess að þær skoðanir sem séra Schram hefur á samkynhneigðum eru, þrátt fyrir að vera smekklausar og gamaldags, ekki á nokkurn hátt bort á lögum eða óleyfilegar.
Auðvitað veit ég að Íslenska kristskirkjan myndi aldrei láta sér detta í hug að sýna það umburðarlyndi að styrkja samkynhneigða eða leggja til aðstöðu svo hægt sé að halda homma- og lessumessu. Ég veit að hægt er að segja við séra Schram: „Nú ég hélt þú vildir hafa þetta svona, gerir þú það ekki við aðra sem þú vilt að aðrir geri þér?“ En þröngsýni og fornaldarsýn hans er barasta ekki issjúið.
Vestur í BNA tókst í ein átta ár að sveigja pólitískt afl undir trúarlegan áróður. Forsetinn, frelsuð fyllibytta, fór þar fremstur í flokki. Allt róttæka, kristna kerfið fór á fullt við að framleiða pólitíska embættismenn og koma þeim fyrir meðal lobbíista og þingmanna í Washington. Ríki var miskunnarlaust beitt í trúarlegum tilgangi. Á sama tíma varð til hersveit manna sem setti það á stefnuskrána að dulbúa kristna guðspeki sem náttúruvísindi. Baráttan við þann fjanda stendur enn í dag.
Þar sem trúfrelsi ríkir og það er tekið alvarlega og litið á það sem mannréttindi kemur ekki til greina að beita almannavaldinu í trúarlegum tilgangi. Þar forðast menn líka að beita því gegn trúarbrögðum. Menn hafa fyrst og fremst það hlutverk að sjá til þess að enginn þjóðfélagshópur (hvort sem það er trúfélag eða ekki) beiti frelsi sínu til að skerða frelsi annarra.
Og það er gríðarhrikaofboðslega mikilvægt að fólk reyni að skilja og sjá að það að „móðga“ einhvern er ekki raunveruleg frelsisskerðing. Það að koma upp í pontu á sunnudögum og vitna í Guð gamla um viðhorf hans til kvenna, Samverja eða samkynhneigðra er ekki raunveruleg frelsisskerðing. Það má tala. Það má reyna að sannfæra menn um eina og aðra vitleysu. Það má móðga. Þetta er bara fórnarkostnaðurinn sem við höfum ákveðið að færa eftir margra alda bitra reynslu af því að hafa „sannleikann“ og völdin á sömu hendi.
Hugsið ykkur ef kirkjan hagaði sér eins á móti. Hugsið ykkur ef hjálparstarf kirkjunnar neitaði að afhenda peninga, mjólk og brauð til samkynhneigðra. Þeir ættu að hafa fullan rétt á því ef þessi leikur á að ráða för. Hver skyldi geta fett fingur út í það að starfsfólk kirkjunnar kæmi í veg fyrir það að söfnunarfé kirkjugesta yrði notað til að hjálpa þeim sem fjárgjafar hafa andstyggð á?
Ætli það myndi ekki vekja heilaga öldu vandlætingar? Ætli það teldist ekki raunverulegt mannréttindabrot?
Raunar held ég að fáir staðir standi opnari þeim bersyndugustu í samfélaginu en einmitt þær kirkjur sem harðast predika gegn frávikum. Þótt Dagur Bé standi sveittur á Menningarnótt og steiki vöflur ofan í atkvæðin sín, þá sé ég hvorki hann né mannréttindastjóra borgarinnar standa í því að elda súpu ofan í innbrotsþjófa, fíkla og vændisfólk. Ég sé ekki að ráðhúsið haldi opið hús á sunnudögum þar sem reynt er að hella kærleik ofan um hálsmálið á þeim forsmáðu, þeim sem búið er að úthýsa annarsstaðar. Þetta er samt hvorttveggja það sem þeir söfnuðir gera sem harðast ganga fram í tali um syndlausan lífsstíl.
Ef „hommahatarinn“ er tilbúinn að sjóða handa hommanum súpu – hví skyldi homminn og vinir hans ekki umbera hann á móti?
Það er rangt að ýta trúfélögum út á jaðar samfélagsins og einangra þau. Í kristinni er þó almennt viðurkennt að allir hafi syndgað. Ef hinn opinberi vettvangur ætlar ekki að umbera neina „synd“ og ætlar að refsa fyrir hugsanaglæpi og það að láta of mikið á sér bera þá er hinn opinberi vettvangur að gera tvennt. Hann er að opna á þann möguleika að hver sem er, þar með taldir óumburðarlyndir, sölsi undir sig pólitísk völd og beiti þeim umfram það sem hlutleysi og frelsi býður – og það er verið að skapa óvinveitt jaðarsamfélög.
Á sama tíma og Reykjavíkurborg er að skíta upp á bak í dagvistunar- og skólamálum og afsakar eigið getuleysi með efnahagsástandinu og öðrum tilfallandi þáttum er borgin að fara í hart við trúfélag. Meðlimir trúfélagsins hafa allan rétt á að líta svo á að þeir séu ekki lengur velkomnir og gildir meðlimir í borgarsamfélaginu. Þeir geta sameinast og stofnað sína eigin skóla, sína eigin leikskóla, sína eigin dagvistun. Þeir geta orðið samfélag inni í samfélaginu.
Þeir geta líka opnað þessar stofnanir sínar fyrir öðru fólki. Venjulega fólkinu, mér og þér. Hvað myndir þú gera ef góðlátleg kirkjudeild myndi bjóða þér upp á dagvistun fyrir barnið þitt? Nokkuð sem borgin hefur reynst vanhæf um að bjóða. Og hún myndi jafnvel gera það frítt. Það eina sem fylgdi væri að stöku sinnum væri sungið um Jesú fyrir börnin og bæn með kaffinu. Sem er bara eins og að vera í sumarbúðum.
Og hvað ef til verður heimaskólahreyfing?
Meginröksemdin gegn aðgerðum Reykjavíkurborgar er sú að pólistísk yfirvöld og embættismenn borgarinnar eiga ekki að beita sér gegn mál- og trúfrelsi í pólitískum tilgangi. Þau eiga ekki að beita valdi sínu til að eilíeneita hópa í borgarsamfélaginu. Þau eiga að skapa stoðkerfi og vettvang til að við getum öll þrifist í einu samfélagi þrátt fyrir deildar meiningar og áherslur.
7 ummæli:
Fjölmiðlaleikur, vissulega, meiraðsegja greinilegur slíkur og hlálegur. Afskaplega fyrirsjáanleg tilraun bestaflokksbóhemanna til að slá sig til riddara með því að ráðast á fórnarlamb sem allir geta verið sammála um að sé þjóðarskömm.
Eða hvað?
Byrjum á byrjuninni. Kirkjubyggingarsjóður á ekki að vera til in the first place. Réttara hefði verið að leggja hann niður en að beita honum með þessum hætti. Því vissulega er það rétt að tilgangur Kirkjubyggingarsjóðs á ekki að vera að “refsa eða verðlauna vegna viðhorfa til samkynhneigðra.” En einhvers staðar verður að byrja að sporna gegn hatursáróðri. Málfrelsi er ekki skilyrðislaust. Það má tala. En það má ekki segja hvað sem er. Hatursáróður er brot á jafnréttislögum og mun alvarlegra mál en að “móðga” einhvern. Og þótt ekki sé hægt að banna þröngsýni og fornaldarsýn þá er alveg réttlætanlegt að gera ráðstafanir til þess að opinberu fé sé ekki varið til að dreifa hinu sama.
Þá er rétt að benda á að hjálparstarf kirkjunnar er ekki starfrækt af Hinni íslensku kristskirkju og því hæpið að blanda henni í röksemdafærslunna, rétt eins og það er stórlega vafasamt að setja innbrotsþjófa, fíkla og vændiskonur á sama bekk og samkynhneigða. Erfitt er að skilja annað út úr þessum pistli en að þessir fjórir hópar séu í raun angar af sama meiði, allavega út frá þessum orðum:
“Ef „hommahatarinn“ er tilbúinn að sjóða handa hommanum súpu – hví skyldi homminn og vinir hans ekki umbera hann á móti?”
Hér vakna tvær spurningar. Í fyrsta lagi: hvar hefur það komið fram að þessi tiltekni hommahatari hafi soðið súpu fyrir homma – jafnvel að gefinni þeirri hæpnu forsendu að hann hafi soðið ofan í Ísafjarðar-Beggu einhvern tímann? Í öðru lagi, hver er homminn sem þú gefur í skyn að vilji ekki umbera hann?
Dagvistun hinnar íslensku kristskirkju væri hins vegar klárlega eitthvað sem myndi slá í gegn hjá 101-elítunni.
1. Kirkjubyggingarsjóður er til. Hann veitir styrki til kirkjubygginga og hefur gert til annarra safnaða sem eru andvígir samkynhneigð. Þetta á ekki að koma neinum á óvart.
En þetta er afgreiðsla málsins og þessar eru forsendurnar.
2. Brot á lögum er verkefni dómsvaldsins að díla við, ekki framkvæmdavaldsins.
3. Allar kristnar kirkjur eru undir sömu sök seldar að þvi leyti að hafa grundvallarrit sem fordæmir samkynhneigð. Kristnar kirkjur sem jafnframt tala gegn samkynhneigð stunda umfangsmikið hjálparstarf.
4. Það sem þessi upptalning á þjóðfélagshópum átti að sýna var að jafnvel þótt kristnar „hommahatandi“ kirkjur tali um synd og skömm þá eru þær samt móttækilegri fyrir þeim sem lifa andstætt þeirra boðum – en hin borgaralegu, frjálslyndu yfirvöld. Nákvæmlega hver eldar súpu fyrir hvern er aukaatriði.
Já, það eru auðvitað heppilegt fyrir þjófa og vændiskonur að Jesús notaði þau sem dæmi en ekki homma og fíkla.
Sammála. Tel reyndar að hið opinbera ætti ekki að styrkja kirkjubyggingar en fyrst það gerir það þá á ekki að refsa fólki fyrir skoðanir sínar.
Í stað þess að reyna að þagga niður í þeim sem líta á samkynhneigð sem glæp eða sjúkdóm, ætti að halda umræðunni sem mest á lofti. Það á að svara fordómum með rökum en ekki refsingum.
Innilega sammála þessu og trúaður er ég sannarlega ekki. Sú staðreynd að mér finnist ég þurfa að taka það fram veitir líka ágætis innsýn í fyrirbærið sem þú ert að lýsa.
Eyjólfur
Reyndar eitt, þegar trúfélög taka bersynduga upp á arma sína þá er það ekki vegna þess að þau "umberi" þá heldur vegna þess að meðlimir þeirra telja að þeim beri skylda til að hjálpa þeim að snúa frá villu síns vegar. Ég er ansi hrædd um að mér yrði fljótlega úthýst úr Kristskirkju ef ég færi að boða þá skoðun mína að fólk eigi að fá að samrekkja þeim sem því bara sýnist á þeim forsendum sem því sýnist óháð kynferði.
Ég er hræddur um að þú yrðir rekin úr ráðhúsinu og úr eldhúsinu hjá Degi ef þú tækir upp á því sama þar.
Skrifa ummæli