Það er svo að þegar menn nálgast efni úr gjörólíkum áttum þá tekur oft dálítinn tíma að komast niður á sameiginlegan grunn. En það er markmið allrar samræðu. Hún er útötuð í misskilningi og rangölum – en í minna mæli eftir því sem líður á ef samræðan er góð.
Kjarninn í því sem ég er að segja er að femínísk jafnaðarbarátta, sem snýst um að auka tölfræðilegan jöfnuð kynjanna geti haft tvennskonar neikvæðar afleiðingar. Hið fyrra er að konur fara þá að mæla gildi sitt og verðleika með hliðsjón af mælikvörðum sem tilheyra kerfi sem þær hafa að einhverju leyti staðið fyrir utan – og er af þeim sökum oft mjög karllægt. Þetta festi kerfið í sessi euk þess sem þessi kerfi eru oft hönnuð þannig að þau eru valdakerfi, þar sem sókn fólks eftir völdum innan kerfis, hefur m.a. þær afleiðingar að sá sem hreiðrar um sig innan þess hefur tilhneigingu til að reyna að viðhalda stöðu sinni í stað þess að nota vald sitt til að breyta kerfinu eða dreifa völdum.
Hið seinna er að með því að mæla frekar þá þætti þar sem karlar mælast „hærri“ en konur og líta svo á að þeir séu til marks um vald eða eitthvað annað æskilegt, þá horfi menn ekki til þátta þar sem konur mælast hærri en menn. Eða annarra ómældra þátta. Hunsa þá jafnvel skipulega. Og baráttan snýst þá um, eða a.m.k. hafi þær afleiðingar, að þar sem konur hafa einhver gæði fram yfir karla – er gert lítið úr þeim gæðum eða þeim jafnvel afneitað – því áherslan er öll á þá leið að konur séu undir.
Dæmi um þetta er umræða okkar Gústa um að mæla annarsvegar lengd vinnuviku og hinsvegar laun fyrir vinnuvikuna. Ég persónulega, og margir aðrir af báðum kynjum, kysi heldur að stytta vinnuvikuna en auka launin um, segjum, 10%. Vinnan er þegar allt kemur til alls leið að því marki að hámarka tíma sinn utan vinnu og gæði hans.
Ef við nú mælum vinnuvikur kynjanna og laun, þá kemur í ljós að laun kvenna eru lægri en vinnuvikan líka að meðaltali styttri (þótt það sé ekki skýring á launamun). Hér hefur hvort kyn ákveðið forskot á hitt. En fyrirframstilling hugarfarsins á konur sem fórnarlömb kerfis veldur því að sjónarhornið skekkist. Og áherslan fer á að hækka konur allstaðar þar sem karlar eru „hærra skráðir.“ Þá verður til einhæft „jöfnunarkerfi“ sem samfélagið tekur upp án þess að það skili endilega samfélagsbótum. Styttri vinnuvika getur jafnvel orðið neikvæð og verið túlkuð sem kynbundinn „skortur“ á yfirvinnu. Sem beri að leiðrétta. Gæðin eru ekki metin útaffyrir sig – heldur eru sum gæði vanmetin og önnur ofmetin.
Í staðinn fyrir þetta vil ég að hver einstaklingur geri það upp við sig hvað það er sem skiptir hann mestu máli. Einn hugsar um há laun, annar eitthvað allt annað. Samfélagið leggist á árarnar við að skilgreina persónulegt athafnasvæði utan um hvern og einn og menn komi sér saman um að hver maður eigi rétt á ákveðnu mengi möguleika (án þess að hið opinbera sé endilega að skipta sér af nákvæmlega hvaða möguleikar eru í boði). Að hið opinbera stuðli að fjölbreytni og þjálfun (t.d. í menntakerfinu) í að nýta sér fjölbreytnina og meta líf sitt á frumlegan hátt. Menn séu enda ekki steyptir í mót, hvorki kynjamót né önnur, og meðaltalsútreikningar út frá engu öðru en kynferði megi ekki verða stýrandi. Frekar en meðaltalsútreikningar út frá öðrum þáttum.
Gústi vill meina að réttindabarátta fari alltaf og yfirleitt þannig fram að tiltekinn „einsleitur“ hópur berjist fyrir „sig“. Síðan fylgi hver hópur öðrum. Þannig smitist persónulegt frelsi og vald yfir á minnihlutahópa, einn af öðrum.
Þessu er ég ekki sammála. Þvert á móti tel ég að sú aðgerð að „búa til“ þessa minnihlutahópa sem berjast á fyrir – sé einmitt ein leið í að minnka persónulegt frelsi. Þegar sagt er að þú tilheyrir tilteknum hópi, sem síðan er borinn saman við aðra hópa (en sífellt þannig að bent sé á það sem gerir hópinn að eftirbátum) er verið að hafa veruleg áhrif á þig. Það, að alltaf er verið að tönnlast á launamun kynjanna t.a.m. eða hlutfalli kvenkyns háskólakennara, sendir þau skilaboð til kvenna að konur eigi að fá hærri laun og verða háskólakennarar. Eins og þessi markmið séu óumdeild. Gústi kallar þetta að vera „metinn að verðleikum.“ En ég get ekki verið sammála því að verðleikar séu á neinn markverðan hátt mældir með launaumslögum eða gráðum. Sjálfur valdi ég mér starf þar sem verðleikar mínir endurspeglast alls ekki í launum. Ég gæti auðveldlega verið í miklu betur launuðu starfi, og mér hefur oft boðist það. Það eina sem ég fer fram á er að laun séu nógu há til þess að ég geti sinnt starfinu og boðið mér og mínum upp á mannsæmandi líf. Ég myndi ekki einu sinni vilja ofurlaun. Teldi þau bæði óþörf og spillandi.
Gústi, og aðrir, benda á að viðhorf mitt sé í raun femínískt. Það sé eitthvað á þessa leið sem femínistar vilji. Það sem angri mig sé komið til af praktískum ástæðum. Menn þurfi að taka mið af samfélaginu eins og það er og þetta séu leiðirnar sem virki best. Ef menn ætluðu að ganga jafn langt og ég og setja öll gildi á flot og leyfa hverri persónu að afmarka sig fyrir sig, þá myndi ekkert gerast. Eða gerast alltof hægt. Femínistar vilji almenn mannréttindi, þeir byrji bara á kynjavinklinum.
Þegar menn segja þetta þá eru menn að nota pragmatisma sem réttlætingu. Menn stíga styttri skref en þeir kysu, vegna þess að lengri skref skila ekki sama árangri. Menn þurfi á vissan hátt að „spila innan kerfis.“
En þegar menn ætla að nota pragmatisma sem rök þá verða menn að standa og falla með virkni þeirra aðferða sem þeir kjósa.
Vissulega hafa réttindi kvenna aukist. En femínistar geta ekki eignað sér allan heiður af því. Mannréttindi hafa verið á hægri uppleið í nokkrar aldir. Femínistar hafa vissulega haft áhrif – og mikilvæg áhrif – en hugmyndafræðileg „matreiðsla“ hugsjónanna ber þess alls ekki merki að þær séu einhver „light“ útgáfa sem eigi að virka betur eða höfða betur til almennings. Þvert á móti virðast femínistar hafa næstum lygilegt lag á því að ýta á alla röngu takkana á samborgurum sínum. Og þótt femínistar líti nú yfirleitt svo á að það sé til marks um slakan samskiptaþroska óvina sinna, þá sannar það eitt: Femínistar þora alveg að taka óvinsæla hugmyndaafstöðu og berjast fyrir henni.
Þess vegna finnst mér tómahljóð í því þegar mér er sagt að það sem ég vilji sé vissulega lokatakmark margra femínista, en menn séu með aðrar (einfaldari) áherslur vegna þess að þær gangi betur í lýðinn – virki betur. Ég held að barátta femínista gæti varla virkað mikið verr oft á tíðum.
Þá gæti einhver sagt að aðferðir femínista séu kannski ekki hugsaðar til að „heilla“ lýðinn til fylgilags við málstaðinn – en þær virki betur.
Því verð ég einfaldlega að svara þannig að ég get ekki sætt mig við þá hugmynafræði að líf fólks sé bætt hvort sem það vill það eða ekki. Það að búa í samfélagi við aðra menn tel ég leggja þá skyldu á herðar manni að vinna fólk til fylgist við málstað en ekki beita því fyrir málstaðinn með góðu eða illu. Raunveruleg valdefling er persónuleg, og hún hefur djúpar rætur í brjósti hvers og eins.
Gústi benti reyndar á að mín hugmynd væri óljós í framkvæmd. Með því gefur hann í skyn að femínismi eins og hann er ástundaður sé a.m.k. ljósari. Ég hlýt að fela lesandanum sjálfdæmi um það hvort er óljósari hugmynd: Sú, að áherslan skuli á að hver manneskja (óháð því sem mögulega sameinar hana öðrum) skuli hafa tækifæri til að velja sér leið í lífinu eða hugmyndin á bak við jafnaðarfemínisma. Sem nóta bene er krónísk flækja misvísandi stefna og strauma. Ég hef þegar sýnt fram á að með því að miða við tölfræði sem virkar „körlum í hag,“ getur það gerst að leitast sé við að styrkja eitthvað sem alls ekki er svo eftirsóknarvert. En þar fyrir utan þarf femínistinn alltaf að meta hverja hugmynd og máta hana við flókinn vef samfélagsins. Reikna út skaðsemi og gagnsemi sem er vægast sagt illa skilgreind og óljós. Virkur femínisti er í sífelldri spennu þar sem hugmyndastraumar stangast á innbyrðis. Kvenleiki líkamans er gott dæmi. Í aðra röndina er kvenlíkaminn valdeflingartæki eða eitthvað sem ástæða er til að opinbera sem eitthvað fallegt sem maður er stoltur af. Í hina röndina er líkaminn eitthvað sem aðrir kúga með því að njóta – og maður á að berjast gegn því að hann sé notaður sem sjálfstæður hlutur. Það er mjög auðvelt að glata áttum innan femínismans. Eflaust trúa einhverjir því að þetta sé rökrétt afleiðing af því að hugmyndafræðin enduspegli flókinn heim. Ég held að hér spili líka rullu hvernig til hennar er stofnað. Hugmyndafræðin er svo losaraleg að endalausar flækjur eru óumflýjanlegar. Það er enda neyðarúrræði í öllum rökræðum við femínista að hann segir: „Þú skilur ekki femínisma!“
Femínistarnir skilja ekki femínismann sjálfir. Og eru yfirleitt alls ekki tregir við að viðurkenna það. Femínismi er ekki ólíkur kristninni. Það má finna rök fyrir öllum mögulegum og ómögulegum afstöðum innan hans. Og það er þetta flækjustig og þessi misvísandi skilaboð sem hafa gert það að þjóðaríþrótt andstæðinga femínisma að leita að mótsögnum í málflutningi þess og menn eru óþreytandi við að benda á þegar femínistar virðast ekki tala fyrir jafnrétti heldur sérrétti.
Ég hafna því alfarið að ég sé að berjast fyrri óljósari réttindahugmynd er sú útgáfa femínisma er, sem ég er að andæfa.
Og við þá sem halda því fram að hugmyndir mínir endurspegli bara femínisma og því sé umræðan dauð frá upphafi, ég geti ekki andmælt einhverju með því að bera það saman við það sjálft, vil ég segja þetta: Hugmyndir mínar eru ekki femínismi. Þær koma kynferði ekki við. Þær snúast hvorki um konur nér karla. Í þeim er ekki einn einasti stafur um það að leggja skuli hina eða þessa áhersluna vegna kynferðis. Ef þetta er það sem femínistar vilja – þá eru þeir ekki femínistar heldur.
Hvað er þá femínismi? Jú, ef eitthvað er að marka það sem Gústi heldur fram, er femínismi fyrribæri eins og valtýskan. Einhverskonar málamiðlun í sjálfstæðisbaráttu. Fyrirbæri sem hefur það að markmiði að leggja sjálft sig niður.
En svo við höldum okkur við kaldranalegan félagslegan raunveruleika. Þá hefur sú tilhneiging verið almenn að þeir sem ná valdi á öðru fólki vilja sjaldnast sleppa því aftur. Hvort sem það hafi verið hugmyndin til að byrja með eða ekki. Svisslendingar hafa t.a.m. langa hefð fyrir beinu, milliliðalausu lýðræði. Það var aflagt í síðara stríði vegna sérstakra aðstæðna. Í staðinn tóku við „lýðelskandi“ fulltrúar þjóðarinnar. Eftir stríð töldu stjórnmálamennirnir algjört óráð að setja valdið aftur í hendur almennings. Almenningur þurfti að rísa upp og taka sér valdið aftur, sem fyrir þá hafði verið geymt.
Eins er með hverja þá hugmyndafræði sem hefur það að markmiði að leggja sig niður. Henni leggst alltaf eitthvað til.
1 ummæli:
Eins og mér finnst áhugavert að líta á hlutina frá öðru sjónarhorni, t.d. að spyrja hvort halli ekki alveg eins á karla, þar sem þeir vinna lengri vinnuviku, þá felst munurinn hér einmitt í því hvort við erum þolendur eður ei. Ég hef gagnrýnt það sem ég kalla fórnarlambsfeminisma, þ.e. tilhneiginguna til að túlka sem flesta hluti sem árás hins illa feðraveldis á konur. Ég get hinsvegar ómögulega túlkað óánægju með kynbundinn launamun á þann hátt. Konan ákveður nefnilega ekki launin sín sjálf. Karlinum er hinsvegar frjálst að hafna yfirvinnu.
Eða er það ekki annars? Konur virðast körlum ólíklegri til að fara fram á launahækkun. Eru karlar ólíklegri til að afþakka yfirvinnu?
Ég er svosem alveg sammála því að laun og titlar eru ekki góður mælikvarði á verðleika fólks en hugmyndin er samt sem áður svo rótgróin í menningu okkar að ég, sem þó berst gegn henni, finn hana iðulega læðast aftan að mér. Á meðan þetta gildismat er svona áberandi hljótum við allavega að krefjast launajafnréttis þótt sú áhersla styrki um leið þetta bilaða gildismat. Að vera jafnaðarsinnaður anarkisti er álíka vonlaust og að vera syndlaus kristlingur eða siðrænn neytandi.
Og svo er það þetta hundleiðinlega sjónarhorn sem samt skiptir máli; ég vil fá sömu laun og karlinn sem vinnur sömu vinnu, hvað sem karllægu kerfi líður, bara vegna þess að mig munar um þennan 30.000 kall. Þegar mann vantar 30.000 krónur verða þær nefnilega helvíti raunveruleg gæði. Og kannski er það einmitt þessvegna sem við mælum þau.
Skrifa ummæli