8. september 2011

Lausn á busavandamálinu

Pistill minn um busana hefur vakið hörð viðbrögð. Mörg þúsund hafa lesið hann og mörgum busunaraðdáandanum hitnað í hamsi. Ég hef verið sálgreindur (frekar illa), úthrópaður og einn langaði til að berja mig til að leggja áherslu á að busun væri ekki ofbeldi.

Það sem flestir eru hinsvegar sammála um er að nokkrir aðilar komi óorði á busavígslur með ofbeldisfullum og niðurlægjandi athöfnum – sem eru úr takti við það sem flestir gera.

Pistill minn byggði á þeirri sálfræðilegu staðreynd að kúgun og drottnunargirni eru sammannlegar tilfinningar. Illskan er okkur í blóð borin. Ef við fáum tækifæri til þess mun mikill meirihluti okkar ekki láta samúð stöðva sig frá því að fremja voðaverk. Busavígslur eru arfur af kúgun og valdníðslu. Þær eru sprottnar úr þörf manna til að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Busareglurnar sem ég nefndi sýna þennan skyldleika mjög vel.

En busavíglsur eru fleira. Þær eru móttökuferli (þótt sumir hafi viljað gera mun meira úr því í kommentum hér en efni standa til). Í flestum tilfellum enda samskipti busa og böðla í lok busavígslu og eru hverfandi upp frá því. Businn hefur oftast ekki komist inn í hóp eldri nemenda á neinn hátt sem skiptir máli. En nóg um það. En busavígslur eru líka leikur.

Og það er leikurinn sem gerir þær skemmtilegar og spennandi. Og sú athygli sem maður fær. Að vera alltaf viðbúinn einhverju en samt svo óviðbúinn þegar það gerist.

Rauði krossinn (minnir mig) stóð fyrir námskeiðum um aðstæður og kjör flóttamanna. Þá voru unglingar látnir upplifa kjör óvelkominna. Þeir voru eltir og yfirheyrðir og látnir sæta kúgunum. Flestum þótti þetta ofsalega gaman. Jafnvel svo gaman að boðskapurinn kann að hafa fallið í ófrjóa jörð hjá einhverjum. Fólkið sem að þessu stóð var ekki að beita neinn ofbeldi í alvöru. Þetta var leikið. Leikur.

Busavígslur geta vel verið leikur. En til að þær séu það vantar tvennt. Í fyrsta lagi leikreglur og í öðru lagi upplýst samþykki allra leikenda. Leikreglur verða að vera skýrar og menn að vita hvað þeir eru að samþykkja – og það sem mikilvægara er, það verður að vera alveg á hreinu hvernig maður kúplar sig út úr einhverju sem manni líst ekki á. Meira að segja leðurklæddir svipuperrar hafa lausnarorð, sem drottnar yfir drottnaranum í leiknum.

Og eldri nemendur þurfa að fara til þeirra yngri, fræða þá um busavígsluna (sýna jafnvel myndir) og leyfa krökkunum síðan sjálfum að ákveða hvort þau eru með. Kenna þeim líka hvernig á að stoppa ef málin ganga of langt. Umsjónarkennarar ættu að vera með í þessu ferli og safna upplýsingum um það hvort einhver heilsufarsvandamál, t.d. ofnæmi eru til staðar. Það er ekkert grín að vera píndur til að drekka ógeðsdrykk og uppgötva svo eftirá að hann var kryddaður með bráðaofnæmisvaka.
Þeir sem ætla að vera með gætu t.d. gengið með barmnælu eða eitthvað merki sem þeir svo taka af sér ef þeim er nóg boðið eða ef þeir vilja ekki vera með.

Síðan þarf að stoppa af þá sem verða uppvísir að því að ganga of langt. Banna þeim frekari þátttöku til að byrja með og tækla þá sem hverja aðra ofbeldisseggi.

Með öðrum orðum: Busar og böðlar þurfa að mætast sem jafningjar og hafa jafn mikið vald yfir atburðarásinni. Að öðrum kosti er sköpuð gróðrastía fyrir ofbeldi, kúgun og smásálarskap.

Er það ekki augljóst?

2 ummæli:

Bjössi sagði...

Þú ert þarna að leggja til að tekið verði upp BDSM-siðferði í busun.

Er það meira eða minna sjúkt en núverandi ástand?

Ræðið.

Nafnlaus sagði...

Sú gagnkvæma virðing þátttakenda fyrir hverjum öðrum og fyrir reglum leiksins í BDSM mætti nú vera fyrirmynd á sem flestum sviðum.