Jón Baldvin skrifar innblásna grein þar sem hann hæðist að forseta Íslands. Greinin er mjög hvöss og reynir Jón af öllum mætti að draga Ólaf Ragnar ofan í drafið til sín og hinna svínana sem hafa gert íslensk stjórnmál síðustu ára og áratuga að viðbjóðslegum bitlingaleðjubolta.
Það er sosum ekki margt málefnalegt eða merkilegt við grein Jóns. Þó má festa hönd á eftirfarandi:
1. Það er óskiljanlegt (nema sem stönt) að ÓRG skuli hafa vísað máli til þjóðarinnar sem hann vissi sjálfur að væri ekki um neitt (þ.e. Icesave-málinu).
2. ÓRG, sem er ábyrgðarlaus, á að láta vera að brigsla þeim sem alla ábyrgðina bera (réttkjörnum stjórnvöldum) um vonda hluti og leyfa þeim að stjórna.
Annað í greininni er tilbrigði við þessi stef eða persónuníð um ÓRG.
Ókei. Skoðum þetta aðeins.
Sleppum öllum rökum um gjá milli þings og þjóðar, að ÓRG hafi verið búinn að lýsa því í kosningabaráttu að hann væri meira en tilbúinn að beita synjunarvaldi og öllu því sem ÓRG notaði sem rök fyrir synjun Icesave. Skoðum aðeins þetta: Var Icesave-málið ekki um neitt nema það hvort til væru aurar fyrir reikningum?
1. Icesave snérist um það hvort íslenska ríkið viðurkenndi ábyrgð sem stangaðist á við lagaskilning og réttlætistilfinningu þjóðarinnar. Og þegar maður er tilbúinn að gera eitthvað sem manni finnst bæði óréttlátt og ekki í verkahring manns – af því að manni er hótað öllu illu – þá er verið að kúga mann. Þjóðin var ennfremur að lýsa frati í núverandi og fyrrvernandi stjórnvöld landsins sem reyndu hvað þau gátu að fela málið fyrir þjóðinni – áttu hvern afleikinn á fætur öðrum og stórsköðuð málstað Íslands ofan í gegndarlausan hræðsluáróður. Svo mikið sköðuðu þau landið með fálmi og óðagoti í hrunina að þau voru ekki aðeins tilbúin að semja um hvað sem er fyrir smá frið heldur er eina hræðslu-röksemdin sem enn hefur ekki verið kyrkt í greip raunveruleikans sú að stjórnvöld hafi fokkað öllu upp sjálf. Og Jón Baldvin sem hefur nú notið eldanna frá þeim kolum sem brenndu göt á brjósthlíf landsins – skríður upp á dekk og heldur áfram að hóta þjóðinni og kenna ÓRG um allt. Eins og að allir þeir fjölmörgu sem neituðu Icesave og börðust fyrir synjun hafi verið ósjálfráða blábjánar og börn sem ÓRG átti að hafa vit fyrir. Menn vissu af áhættunni. En menn voru kannski orðnir doldið daufir gagnvart henni því Jón og þeir sem deila með honum tungu í þessu máli voru búnir að ljúga ógnum upp á þjóðina og verða uppvísir af því hvað eftir annað að lýsa skrímslum undir rúmum þar sem ekkert var nema ló og ryk.
2. Nú myndi ég hlæja væri ég ekki...ja, ég er reyndar að hlæja. Hoppar nú ekki fram á sviðið gamli kratakóngurinn og ætlar að tefla fram ábyrgð þingflokks samfylkingarinnar gegn ÓRG. Annaðhvort er JBH farinn að kalka eða hann treystir á að þjóðin sé það. Hér hrundi allt til grunna og þegar rykskýinu létti og ljósin voru kveikt mátti sjá Samfylkingarráðherra skjótast út í dimmu hornin á æðisgengnum flótta undan eigin ábyrgð. Eins og kakkalakkar í illa hirtri kompu skutust þeir inn um sprungur og glufur og hrópuðu: Sá sem gerir sitt besta er kvittur við sína ábyrgð. Eftir sat einn pattaralegur lakki sem komst ekki inn um sprunguna og þá hrópuðu kratakakkalakkarnir: „Takið hann!“ Enginn af flokksbræðrum JBH vildi hið minnsta kannast við að bera nokkra ábyrgð. Hvorki í orði né á borði. Enginn sýndi ábyrgð á mistökum sínum eða margvíslegum yfirsjónum (eins og þeirri sem JBH veifar nú yfir hausamótum okkar og kennir ÓRG um). Enginn þorði að leggja verk sín í dóm. Þvert á móti sögðu allir: „Við berum enga ábyrgð að lögum.“ Og svo skipar JBH forsetanum að halda munni vegna þess að hann þurfi ekki að hreinsa upp skítinn. Ábyrgðin liggi hjá stjórnvöldum. Halló! Ábyrgðin liggur hjá þjóðinni, Jón. Það erum við sem vöknum upp við skítalyktina á hverjum morgni. Ekki vel haldnir eldri borgarar sem vakna við það að saftin úr spena hins opinbera drýpur í augun á þeim Við, sem erum pínd með sköttum og þjónustuskerðingu. Ábyrgðin er öll okkar. Enginn annar vill kannast við hana.
Þetta er nebblega ekki leikur milli Bessastaða og hótelsvítanna í Brussell. Þetta er spurning um afkomu okkar og réttlætiskennd. Jón getur engum kennt um synjun Icesave nema þjóðinni sinni. Það var hún sem sagði stopp. Það var hún sem sagði nei. Það var hún sem sagði að nú væri nóg komið af endalausum embættisglöpum og glannaskap. Forsetinn var tæki en ekki prímus mótor.
Og meðan Jón dregur ÓRG niður í forina og hrín í eyrað á honum og reynir að fá okkur til að gleyma því að þarna er svín að berja á öðru svíni – þá er hollt að minnast þess að sama hvað manni kann að finnast um ÓRG þá hefur hann sýnt meira hugrekki og meiri ábyrgðarkennd en nokkur af þeim stjórnmálamönnum sem JBH er að móðgast fyrir. Og áður en kommentakerfið fyllist af froðufellandi forsetahöturum þá ætla ég bara að segja að ef ég stend í björtu báli þá er mér alveg sama þótt sá sem slökkti í mér hafi bara gert það af því honum var mál að míga.
7 ummæli:
Icesave snérist um það hvort íslenska ríkið viðurkenndi ábyrgð sem stangaðist á við lagaskilning og réttlætistilfinningu þjóðarinnar.
Í hugum sumra snérist Icesave um það. Þetta eins og svo margt annað er túlkunaratriði.
Alveg eins væri hægt að segja að Icesave hafi snúist um að íslendingar standi við gerða samninga.
A.m.k. þykir mér ódýrt að ætla að afgreiða Jón Baldvin með umdeildanlegri skilgreiningu.
Punktur JBH er væntanlega sá að ef ÓRG vissi allan tímann að Icesave væri tittlingaskítur, þá hefði verið farsælast að skrifa undir lögin í stað þess að skapa ólgu í samfélaginu og deilur við aðrar þjóðir.
En auðvitað vissi ÓRG það ekki neitt, ekki frekar en við hin. Hann ætti bara að sleppa því að halda því fram núna.
Og sá punktur JBH er alveg vonlaus. Forseti á ekki að synja lögum vegna þess að hann er ósammála þeim. Hann á að synja þeim ef hann telur að þingið sé að svína á þjóðinni með hrottalegum hætti.
Gleymdu ekki að þingmenn innan meirihlutans hvöttu ÓRG til að synja og lýstu þvingunum og kúgunum. Málið átti að berja í gegn óséð. Og svo með leynimöppu. Samþykkja átti vonlausan samning etc etc...
Kúkurinn er upp á bak vegna aðgerða stjórnvalda. Valdið kemur frá þjóðinni og ÓRG og þingið eiga að vera farvegir en ekki öfugt.
ÓRG snéri valdapíramídanum aftur við og þá stakkst oddurinn ekki lengur ofan í svörðinn.
Allar fabúleringar um innræti ÓRG eru algjörlega fráleitar nema hugmyndin sé að sýna fram á að þjóðin hafi látið hann plata sig.
Hann á að synja þeim ef hann telur að þingið sé að svína á þjóðinni með hrottalegum hætti.
Er málið ekki að ÓRG var ekki þeirrar skoðunar, ef eitthvað er að marka yfirlýsingar hans núna um að hann hafi alltaf vitað að eignir LÍ myndu duga fyrir kostnaði.
Ef það er rétt, hvernig var þá verið að "svína á þjóðinni með hroðalegum hætti"?
Samþykkja átti vonlausan samning etc etc...
Mundu að ÓRG var áður búinn að skrifa undir miklu verri samning.
Ég er ekki alveg að kaupa þennan málflutning. Sýnist hann ganga út frá því að þú hafir haft rétt fyrir þér vegna þess að samningur var felldur (að þú hafir unnið) og að Icesave málinu sé lokið. Því er því miður ekki lokið.
Hverjir eru svo að reyna að rífa umræðuna upp aftur? ÓRG og nei sinnar!
...þá er mér alveg sama þótt sá sem slökkti í mér hafi bara gert það af því honum var mál að míga
ÓRG var að segja að hann hefði vitað allan tímann að það væri enginn eldur. Hann pissaði bara á þig vegna þess að hann fékk kikk út úr því.
Hvaða eld slökkti ÓRG?
Það er sama breytan sem þú sleppir alltaf úr skoðun þinni á málinu. Og það er langmikilvægasta breytan.
Þingin mistókst að sanfæra þjóðina um að hún væri að tækla málið rétt. Og raunar tókst þinginu að sannfæra þjóðina um að það væri að tækla málið afleitlega. Við það kom rof í valdastrúktúrinn í landinu. Það myndaðist vantraust á milli þings og þjóðar. Svoleiðis vantraust getur átt sér stað á milli þings, þjóða og forseta í allar áttir.
Stjórnarskráin lýsir hvernig á að taka á vantrausti þings til forseta og þjóðar til þings. Þingi getur samþykkt vantraust á ÓRG hvenær sem er og JBH ætti að vera að krefjast þess í pistlinum ef einhver þungi væri í þessu hjá honum.
Ef þingið dettur úr takti við þjóðina er forsetinn öryggisventillinn.
ÓRG þurfti ekki og átti ekki að meta Icesave og láta mat sitt á því ráða för. Hann átti aðeins að meta hvort málið væri (orðið) þannig að þjóðin stæði andspænis þinginu í því. Því á endanum voru þingmenn að leggja þjóðina að veði.
Það var rétt greint hjá forsetanum. Hann lét gera rannsókn á undirskriftalista til að vera viss um að vilji þjóðarinnar væri á bak við kröfuna um atkvæðagreiðslu.
Þetta átti ekki að koma á óvart. ÓRG hafði beitt þessum rétti áður og hafði sagst myndu beita honum aftur ef þörf krefði.
Andstæðingar málsins vilja alltaf meina að það hafi verið heppni eða tilviljun að ÓRG fór að vilja þjóðarinnar (sem svo var staðfestur). Enda sé hann uppfullur af sjálfum sér og bla bla bla... þú þekkir þessa rökvillu.
Eldurinn sem logaði var eldurinn sem þingið kveikti með því að ráða ekki neitt við neitt, glata trausti almennings og vekja almenna tortryggni. Bálið sem slokknaði var endurvakið traust meirihluta þjóðarinnar á að kerfið virkaði eftir alltsaman. Að vilji meirihlutans væri tryggður gegn ofríki meirihluta Alþingis.
Þingin mistókst að sanfæra þjóðina um að hún væri að tækla málið rétt.
Þessari breytu má snúa við.
Hagsmunahópi og stjórnarandstöðu tókst að sannfæra þjóðina um að þingið væri ekki að gera rétt. Til þess var stundum beitt óvönduðum meðulum, sem m.a. stönguðustu á við málflutnings forsetans (eins og t.d. að málið snerist um hvort við myndum borga yfir höfuð). Ég er ekki að segja að öll rök gegn Icesave hafi verið óvönduð, en við hljótum að vera sammála um að mörg voru það og umræðan gegn samningnum var á köflum jafnvel hatrömm.
Í ljós hefur komið (ef eitthvað er að marka orð forsetans) að þetta var röng ályktun, það hefði verið rétt að ljúka málinu.
Varðandi stjórnarþingmennina sem báðu forsetann að hafna Icesave. Er einhver þeirra enn stjórnarþingmaður? Voru þau stjórnarþingmenn í raun?
Ég er enn ekki að kaupa gagnrýni þína á skrif Jóns og tel þó að það megi gagnrýna hann eins og alla aðra. Ég sé bara ekki betur en að gagnrýnin á forsetann sé réttmæt í þessu tilviki.
Ég held við komumst ekki mikið lengra með þetta :-)
Ég held þvert á móti að þetta hafi verið rétt ákvörðun.
Hin ranga ákvörðun í þessu máli er 100% trygging innlendra innistæðna.
Sem síðast þegar ég vissi var ekki komin í nein lög, heldur var pólitísk yfirlýsing eingöngu.
Það væri fróðlegt að vita hvort það hafi breyst.
Skrifa ummæli