9. september 2011

Reykjavík: Veik stjórnmál, sterkir embættismenn.Vald spilli. Algjört vald gerspillir.

Þess vegna er best að dreifa valdi, helst þannig að hver og einn einstaklingur sé gerður hæfur til að ráða högum sínum að mestu leyti. Sú hæfni kemur ekki af sjálfri sér – en er samt sem áður hryggurinn í hverju lýðræðisríki. Við megum vera duglegri í lýðræðislegu uppeldi.

Besti flokkurinn tók yfir stjórnmálasviðið í Reykjavík eftir síðustu kosningar. Fyrst og fremst vegna þess að kjósendur vildu sýna stjórnmálaöflunum í tvo heimana. Ég held enginn þurfi að efast um heilindi Jóns Gnarr. Hann er pottþétt að reyna sitt allra besta. En hann er ekki sterkur stjórnmálamaður. Og besti flokkurinn er ekki sterkt stjórnmálaafl.

Stjórnmálaleg forysta í Reykjavík er mjög veik. En valdið liggur aldrei óbætt hjá garði. Þar sem valdi er til að dreifa munu einhverjir soga það til sín. Í Reykjavík eru það embættismenn. Sumir þeirra hafa sogað til sín gríðarleg völd í kjölfar þess að Besti flokkurinn tók við. Embættismenn borgarinnar eru margir hverjir eins fjarlægir hugmyndafræði Besta flokksins og mögulegt er. Eru jafnvel bara gamlir, forpokaðir þröngsýnistappar sem hindra raunverulegar framfarir. En þeir eru einhvernveginn ósnertanlegir því ein af fyrstu lexíunum sem Besti lærði við stjórnum borgarinnar var að stjórnmálamennirnir væru háðir þessum embættismönnum og millistjórnendum. Þeir voru svona eins og löngu, gulu gúmmíhanskarnir sem efnafræðingar nota gegnum op á glerbúrum þegar þeir fást við hættuleg efni. Einu snertifletirnir.

Ef Jón Gnarr talar við einstaklinga af „gólfinu“ fær hann að heyra eina hlið mála. En hann hefur ekki næga þekkingu eða reynslu til að setja þá hlið í raunverulegt samhengi. Samhengið fær hann hjá embættismanninum, sem þykist búa yfir heildarsýn. En heildarsýn embættismannana er oft alls engin heildarsýn. Heldur þröngsýn.

Ef Besti ætlar að eiga sér einhverja pólitíska framtíð, hvað þá hefja útrás á bestuninni þá verða þeir að vera sterkt pólitískt afl. Þeir eru það ekki núna. Sterkt pólitískt afl er ekki endilega afl sem sogar til sín mikil völd. Því þá skapast hættan á spillingu. Sterkt pólitískt afl getur verið afl sem deilir valdi og leyfir því ekki að safnast fyrir í flöskuhálsum embættismannanna.

Reykjavíkurborg er í dag miðstýrt sem sjaldan fyrr. Það gusast út miðlæg fyrirmæli í allar áttir. Tillögur MMR eru dæmi um það. Ýmsar sparnaðaraðgerðir eru það líka. Það komu t.a.m. út miðlæg sparnaðartilmæli um að stjórnendur ættu ekki að kaupa konfekt handa starfsmönnum um jólin. Borgin er búin að innleiða stimpilklukku í flestar stofnanir sínar. Miðstýringaráráttan er að taka öll völd. En miðstýring er einmitt skýrarsta einkenni embættismannavaldakerfis.

Jón þarf að stappa niður fótunum og fæla burt nokkrar blóðsjúgandi leðurblökur sem hanga pattaralegar í loftinu á hæðinni fyrir neðan.

Engin ummæli: