19. september 2011

Grimmd og refsing

Ein af áhugaverðari rannsóknum síðari tíma var unnin við háskólann í Kaliforníu af James Fallon prófessor. Forsaga málsins var sú að James hafði sérhæft sig í rannsóknum af afbrigðilegri heilastarfsemi – og sérstaklega þeim þáttum sem greina mátti með heilamyndatökum. Dag einn fær hann bunka af heilamyndum sem hann er beðinn um að skoða og greina.

Þegar hann var hálfnaður með bunkann sá hann að þrátt fyrir að myndirnar væru margvíslegar og langt frá því að bera vott um einsleita heilastarfsemi þá var ákveðinn hópur mynda sem bar mjög greinileg og sterk sameiginleg einkenni. Þessi einkenni voru lítil eða engin heilastarfsemi í ennisblaði (beint ofan við augun) og augljós minnkuð virkni á ákveðnum stöðum í gagnaugablaði.

Það stórmerkilega er að allar þessar myndir tilheyrðum einum hópi manna: dæmdum morðingjum.

Hér var í fyrsta skipti komin nokkuð áreiðanleg vísbending um að morðingjar gætu verið líffræðilega ólíkir öðru fólki. Eða a.m.k. ein gerð morðingja.

Rannsóknir á genum hafa einnig rennt sterkum stoðum undir að svo geti verið.

Þetta vekur allskyns spurningar. Siðferðilegar, lagalegar og líffræðilegar. Það er t.d. freistandi að álykta að heilamyndir gætu orðið öflugt vopn í búri hins langa arms laganna og dómsvaldsins.

En þá að því sem gerði rannsóknina svo sérstaklega áhugaverða.

James Fallon var að ræða rannsóknir sínar í fjölskylduboði þegar mamma hans sagði að hann ætti að skoða sína eigin ætt. Ættin hafði nefnilega geymt óhugnanlegan sannleik því James var blóðskyldur einkennilega fjölmennum hópi morðingja – og Lizzie Borden (sem raunar var sýknuð af því að slátra foreldrum sínum með öxi) var frænka hans.

James gerði sem mamma hans bauð og tók bæði blóðprufur og heilamyndir af heilum ættlegg. Þegar hann skoðaði myndirnar varð hann fyrir nokkrum létti en um leið vonbrigðum. Heilarnir voru allavega og engin sérstök merki um morðfýsn. Þar til hann kom að síðustu myndinni. Í ætt hans reyndist vera einn lifandi einstaklingur sem hafði heilastarfsemi sem samsvaraði fullkomlega heilastarfsemi morðingjanna: vanvirkni í ennis- og gagnaugablöðum. Og það var heili hans sjálfs.

Fyrst um sinn vildi hann sem minnst gera með niðurstöðuna og gekk reyndar svo langt að álykta að hér með væri komin afsönnun þess að tengsl væru milli líffræðilegra „annmarka“ og alvarlegra glæpa. En konan hans og aðrir nánir fjölskyldumeðlimir fengu hann til að hugsa sig betur um. Hann hafði sjálfur oft skotið fólki skelk í bringu með ofstopa og átakafýsn, hann virkaði raunar oft eins og tveir persónuleikar – og bar skýr merki siðblindu. Hann gat nefnt atburði á ævi sinni þar sem hann hafði augljóslega gert siðferðilega rangt – en jafnvel nú, þegar hann hugsaði til baka, var honum slétt sama.

Nánari rannsóknir leiddu í ljós að þessi líffræðilegu, sameiginlegu einkenni morðingja voru ekki það eina sem skipti máli. Þeir deildu allir uppeldiseiginleikum einnig. Þeir höfðu allir verið beittir andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi.

Þessi rannsókn skerpti mjög á mörkunum milli atlætis og erfða. Og rannsóknin er enn í gangi. Og þetta skiptir máli. Þessi arfgerð hefur í fyrsta skipti verið notuð sem vörn í morðmáli. Þar forðaði hún manni sem framdi viðbjóðslegan glæp frá dauðadómi.

En hver er ábyrgur?

Ef eitthvað þá sýnir þessi saga öll fram á eina staðreynd. Samfélagið verður að taka á sig það hlutverk – og sinna því vel – að hlífa börnum og unglingum við grimmd. Líkamlegt og andlegt ofbeldi má ekki þrífast í nokkru skjóli. Barn, sem beitt er ofbeldi á viðkvæmum mótunaraldi, er á engan hátt þess megnugt að sporna gegn djúpstæðum, skaðlegum áhrifum þess. En situr að sama skapi eitt uppi með ábyrgðina þegar þessi áhrif brjótast seinna út sem andfélagsleg eða ofbeldiskennd hegðun.

Öll þessi saga kallar síðan á umfjöllun um það upp að hvaða marki og með hvaða leiðum betrun er möguleg. Samfélag getur unnið gegn hatursfullum og ofbeldiskenndum áhrifum glataðar æsku með kærleik og skilningi seinna meir. Þótt það sé freistandi að heimta blóð og tryllast í hvert sinn sem dæmdum morðingja er sýnd mannleg virðing eða hlýja (hvort sem hann fær að fara óhandjárnaður í klippingu eða starfa sem lögmaður eftir afplánun) þá er mikilvægt að við skiljum að grimmd okkar í garð morðingjanna er blóðskyld grimmd morðingjanna til fórnarlamba sinna. Við erum ekki gamall og hefnigjarn guð sem krefst þess að fá fá fórnarlamb til að tyggja á í stað fórnarlambsins sem var í óleyfi tekið frá honum.

Það er algjörlega nauðsynlegt að rannsóknirnar haldi áfram og að í framhaldinu verði betrunin skoðuð. Með hvaða hætti má betra svona menn. Það er hætt við að þær rannsóknir fari ekki fram af miklu kappi í BNA.

Engin ummæli: