Það, sem blasir við í fyrsta skipti í langan tíma, er að almenningur í evrópskum löndum er farinn að upplifa sig aftur sem burðarmenn. Gamla marxíska klisjan um að auðvaldið éti af svignum borðum hverra fætur eru titrandi, mjóslegnir líkamar verkamanna, getur hæglega gengið í endurnýjun lífdaga. Vofa kommúnismans getur farið aftur á kreik.
Því myndu einhverjir fagna vafalaust.
En ég fagna ekki.
Síðustu sextíuogeitthvað ár hafa verið fáheyrt tækifæri fyrir Evrópu að byggja nú í eitt skipti alvöru stoðir undir varanlegt frelsi og frið. Næstum allt núlifandi fólk í álfunni hefur lifað lífi sem hefur verið friðsælla og farsælla en líf nokkurra kynslóða í Evrópu frá alda öðli. En því miður þá finnst mér að þessi friður hafi verið dálítið rómverskur, Pax Romana.
Amma mín var jafngömul yngri dóttur minni þegar fótgönguliðar Hitlers þrömmuðu á blóðugum stígvélunum yfir Evrópu og hún var jafngömul eldri dóttur minni þegar sprengjan tætti íbúa Hírósjíma í öreindir. Afi minn var jafngamall syni mínum þegar Benito Mussolini tilkynnti pent að hann ætlaði héðanífrá að stýra Ítalíu og hann var jafngamall mér þegar liðsmenn Castrós tóku 71 stuðningsmann Batista af lífi. Þegar ég var þriggja daga gamall tók herstjórn við völdum í Argentínu.
Það er eiginlega óforskammað að mín kynslóð skuli upplifa heiminn sem friðsælan – án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Án þess að hafa lyft lita fingri til að berjast gegn mannlegri grimmd og heimsku. Og það er eiginlega meira en óforskammað, hálfgerð heimska, að halda að við séum vaxin upp úr stríði og blóðsúthellingum. Miklu nær er að líta svo á að nú standi yfir vopnahlé – sem stafi af tímabundnum ofskammti á ofbeldi eftir seinni heimsstyrjöldina.
Friðurinn er tálsýn. Alla mína ævi og hinar stuttu ævir barna minna það sem af er hafa stöðugar blóðsúthellingar átt sér stað. Og ekki bara í fjarlægum löndum. Dætur mínar léku sér þegar þær voru yngri í fótbolta við stelpur á svipuð reki sem kippt var hingað til lands úr blóðbaðinu í Júgóslavíu. Ein barnapían okkar fyrir tæpum áratug var alin upp við leyniskyttur áður en veruleiki hennar breyttist í popp og kók og kósí mynd á meðan við skutumst í bíó eða á tónleika.
Það hefði aldrei átt að leyfa okkur að gleyma því afhverju hér ríkir friður.
Hvert einasta mannsbarn í Evrópu ætti að fá friðaruppeldi og friðarfræðslu í skóla. Þekking á reglu pýþagórasar hefur aldrei skort hjá þeim kynslóðum manna sem ausið hafa blóði hvers annars um akra Evrópu. Þegar Newton fann upp örsmæðarreikninginn steig hann markvisst skref inn í nútímann. Þegar ég sat í menntaskóla og átti að læra hann skyldi ég alls ekki hvað þessi reikningur kæmi mér við. Nú veit ég að örsmæðarreikningur er frábært hjálpartæki þeim sem ætlar að skjóta sprengjum í hausinn á einhverjum.
Engin pólitísk hugmyndafræði hefði getað komið í veg fyrir hörmungar heimsins og tugmilljóna dauðsföll. Við vitum hvað klikkaði. Það sem klikkaði var áherslan á þig.
Áherslan á að hver einasti maður beri siðferðilega ábyrgð á sjálfum sér. Áherslan á að jafnvel þótt maður sé svangur og reiður þá réttlæti það ekki yfirgang og ofstopa í garð annarra. Áherslan á að jafnvel þótt maður telji þjóð sína svínbeygða og niðurlægða af erlendum öflum þá réttlæti það ekki ofsóknir gegn óvinum í manns eigin samfélagi.
Áherslan á að hver einasti maður skipti máli og njóti griða. Óháð skoðunum hans eða áliti þínu á honum að öðru leyti. Svo lengi sem hann virðir sömu grið.
Hver sú hugmyndafræði sem vill breyta heiminum án tillits til vilja fólksins í honum er hugmyndafræði sem við ættum að vara okkur á. Hver sú hugmyndafræði sem fullyrðir að fólk almennt og yfirleitt sé blint á sannleikann um tilveruna er varasöm.
Hver sú hugmyndafræði sem heggur í persónulegt frelsi og afnemur persónulega ábyrgð – er stórhættuleg.
Það ætti að vera öllum orðið löngu ljóst að tilraunir manna til að bæta heiminn með handafli hafa alltaf fyrr eða seinna endað sem ofsóknir eða ofbeldi.
Mér finnst grátlegt hve illa við höfum nýtt þann tíma friðar og farsældar sem okkur hefur verið gefinn. Við höfum ekki nýtt varið í að staga í seglin og herða siglutréð. Við höfum legið í makindum á þilfarinu og sleikt sólina. Þegar við sjáum blossa af eldingum við sjóndeildrhring og hvítfyssandi öldukófið bera við himininn hlaupa sum okkar niður í káetu og tauta óttaslegin fyrir munni sér á meðan aðrir safnast í stefnið og tala groddalega um að það væri aldeilis fjör að sigla í gegnum þetta – í staðinn fyrir þessa helvítis lognmollu alltaf hreint.
Skipið okkar þarfnast verulegra úrbóta ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á að komast klakklausari en ömmur okkar og afar í gegnum alvöru stórviðri .
Ég held það væri best að hætta að upphefja heimskuna og lesti hennar. Hætta persónuníði og lymskufullu lygakarpi. Hætta að skrifa eins og fávitar í athugasemdadálka fjölmiðlanna eða drulla yfir ráðamenn. Hætta að láta eins og samfélagið sé fullt af óvinum okkar – og stórvarasömu fólki. Það upprætir enginn hatur og grimmd með því að nota sífellt sterkara leitarljós eftir því sem óvinurinn verður óskýrari. Þvert á móti elur hann grimmd með sjálfum sér og hinum leitarhundunum sem hoppa yfir grindverk og troðast í gegnum runna því þeir töldu sig sjá refaskott.
Grimmdin býr í okkur sjálfum. Ábyrgðin á að veita henni viðnám býr sömuleiðis í okkur sjálfum.
Við erum sáralítið betur undirbúin en forfeður okkar undir raunverulegan skort. Ég held raunar að við séum verr búin undir. Við rjúkum út á torg og köstum ávaxtaskyri, sem keypt er í 10/11 á tvöþúsundkall kílóið, í Alþingishúsið vegna þess að við þurfum að fækka utanlandsferðum um eina á ári.
Það er hvorki röklega né siðferðilega óásættanlegt að spyrja hvað myndi stoppa svona fólk í að kasta óvinum sínum á bál ef vandámálin yrðu raunveruleg?
3 ummæli:
Afar vel að orðum komist. Takk.
Ester
Takk sömuleiðis
Eins og svo oft áður get ég tekið undir hvert einasta orð, hafandi lesið þetta blog um nokkurra mánaða skeið. Ætli ég sé ekki einhvers konar félagslegur frjálshyggjumaður en þó langt frá því að vera laissez-faire kapítalisti. Ég legg mig fram við að reisa ekki múra utan um eigin vit og finnst hryggilegt að sjá aðra gera það.
Sá rauði þráður sem liggur í gegnum flestar helstefnur sem mannskepnan hefur komið í framkvæmd er við vs hinir þátturinn. Réttlætingarnar hafa verið harla ólíkar - praktískt og hugmyndafræðilega - en eiga þetta þó sannarlega sameiginlegt.
Strauma og stefnur verður að vera hægt að ræða á opnu markaðstorgi hugmyndanna. Hörðustu rétthugsunarsinnar eru allt of gjarnir til að vilja úthýsa öðrum og senda út í ystu myrkur. Oftar en ekki ber slíkt vott um að fáránlegum hugmyndum sé gefið allt of mikið credit - eða fólki of lítið. Við, hinir upplýstu, verðum að passa upp á hina, þá óþvegnu. Og svo framvegis. Sorglegast er svo að viðkomandi reyni að skreyta sig með fjöðrum umburðarlyndis og frjálslyndis. Svei!
Eyjólfur
Skrifa ummæli