1. september 2011

Eru mannréttindi fasti?

Í rökræðunni við Skúla rasista hafði ég á orði að mannréttindi mætti skerða ef nauðsyn bæri til. Við því brást Eva og vildi fá skýringu. Þar sem ég geri ekki ráð fyrir að Skúli hafi sérstakar áhyggjur af skerðingu mannréttinda ætla ég að skýra það sem ég á við hér.

Mannréttndi eru manngert hugtak. Þau hafa enga réttlætingu handan þessa heims. Með viðurkenningu þeirra er fallist á að menn séu mikilvægir í sjálfum sér og að valdi eins yfir öðrum séu takmörk sett. Um leið felst í hugtakinu mannréttindi óljós trú á það að einhver mynd jöfnunar lífsgæða sé öllum fyrir bestu.

Mannréttindi skiptast gróflega í tvennt. Neikvæð og jákvæð. Rétt frá byrðum og rétt til gæða.

Réttur frá byrðum er t.d. réttur til að vera ekki fangelsaður, pyntaður eða drepinn (að ósekju). Réttur til gæða er t.d. réttur til menntunar, viðurværis, málfrelsis o.fl.

Neikvæðu réttindin eru nauðsynleg til að jákvæðu réttindin hafi eitthvað inntak. Málfrelsi er lítils virði ef maður verður svo fangelsaður eða pyntaður vegna þess sem maður segir.

Inntak mannréttinda er breytilegt eftir stað og stund. Þau eru ekki óbreytanleg réttindi sammannleg. Það eina sem er úniversalt við þau er að þau eru skilyrðislaus. Þ.e. þeim fylgja engar skyldur aðrar en að vera maður (eða það á a.m.k. að heita svo).

Eina leiðin til að gera mannréttindi þannig að inntaki að þau séu óbreytanleg og almenn – er að gera inntak þeirra almennt. Allir menn eiga rétt á grunnframfærslu, menntun o.s.frv. sem getur þá þýtt mismunandi hluti eftir stað og stund.

En í sjálfu sér skiptir ekki máli hvor leiðin er farin.

Um skerðingu mannréttinda er best að segja bara hreint út að mannréttindi, svosem hugsana- og málfrelsi, ferða- og félagafrelsi – er nú þegar margvíslega skert. Við megum hvorki tjá okkur hvernig sem við viljum, fara hvert sem við viljum né stofna hverskyns félagsskap sem við viljum. Það er tekið af okkur frelsi til þess að efla hag heildarinnar. Yfirleitt er þetta réttlætt þannig að verið sé að skerða frelsi eins til að skaða annan. En það er nokkuð einföld skýring. Það má taka land af bónda til að leggja rafmagnslínu vegna virkjunar sem hann er jafnvel í prinsippinu á móti af umhverfisástæðum.  Það má dæma mann fyrir meiðyrði, jafnvel þótt hann segi satt. Sumar stórþjóðir hafa jafnvel séð ástæðu til að pynta fólk til að bjarga öðrum.

Samt eru eignarréttur og málfrelsi grundvallarmannréttindi.

Sá sem er ósáttur við túlkun og framkvæmd mannréttindamála hefur að mér sýnist tvær leiðir til að takast á við það.

Sú fyrsta felst í hversdagslegri pólitík, þ.e. að takast á við ríkjandi hagsmunamat. Í þeim flokki eru baráttumenn fyrir málfrelsi, eignarétti, hærri framfærslu, ókeypis skóla og skyldunámi upp 18. áram, umhverfisverndarsinnar og fleiri. Þetta fólk telur að sumar af þeim hömlum eða skortur á réttindavernd komi samfélaginu verr en önnur framkvæmd.

Önnur leiðin er sú að gefa mannréttindum (hvernig sem þau eru túlkuð) utankerfisvægi. Þ.e. hefja þau upp fyrir mengi þess manngerða og þess sem skiptar skoðanir má hafa – og krefjast þess að þau séu sett ofar allir pólitík. Í þessum flokki eru t.d. þeir sem berjast fyrir lífhelgi ófæddra barna af trúarlegum ástæðum – eða mannhelgi. Sem og sumar gerðir húmanista sem vilja skipa mannhelgi í sess sem enginn maður hefur rétt á að fikta við.

Ég samþykki ekki seinni leiðina. Og þar af leiðandi tel ég að mannréttindi snúist um hagsmunamat. Að skapa farsælt samfélag þar sem fara frjálsir og ábyrgir þegnar sem ekki þurfa að beygja sig undir viðhorf annarra séu þau þeim fjandsamleg.

Að því sögðu tel ég að farsælt samfélag sé ómögulegt að skapa nema takmarka frelsi hvers manns við sambærilegt frelsi annarra, veita góða undirstöðumenntun og stunda frjáls og öguð skoðanaskipti. Leið manna til áhrifa þarf svo að vera réttlát og með þeim hætti að stjórnun endurspegli upplýst val þegnanna.

Ég tel ennfremur óæskilegt að samfélag þar sem myndast gjá á milli vilja þjóðar og valdhafa (jafnvel þótt valdhafarnir hafi réttan málstað) bregðist við því með því að slá vörð um valdið og bíða þar til þjóðin missir áhugann. Þegar valdhafarnir (í víðri merkingu þess orðs) upplifa þjóðina á skjön við sig ber þeim í fyrsta lagi að íhuga sína stöðu og ef hún er tilkomin af frómum, skynsamlegum hvötum á að efla „undirstöðumenntunina“ og „skoðanaskiptin“ bæði að formi og innihaldi.

M.a. af þessum ástæðum tel ég að við eigum að ræða opnberlega við þá sem hafa andstæðar skoðanir og jafnvel andstyggilegar skoðanir. Ef menntakerfið gerir okkur kleift að nema þekkingu og taka afstöðu á yfirvegaða, heiðarlegan og skynsamlegan hátt – þá þurfum við ekki að óttast óvinsælar skoðanir eða öfga.

Þess vegna blogga ég. Þess vegna kenni ég.

3 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Þakka þér fyrir þennan ágæta pistil. Það hefur dottið út hjá þér einhver texti á eftir "stórþjóðir" um miðbik greinarinnar.

Ef ég skil þig rétt þá lítur þú svo á að engin mannréttindi megi skerða nema með þeim lögum sem sett eru á lýðræðislegan hátt (hvað telst lýðræðislegt er svo út af fyrir sig er efni í marga pistla), gilda um alla menn óháð erfðum, félagslegum þáttum og "verðleikum" og eru öllum aðgengileg. Leiðréttu mig endilega ef ég hef misskilið eitthvað.

Mér sýnist líka að við séum á sömu bylgjulengd hvað varðar þá afstöðu að mannréttindi séu pólitísk mál en ekki eins og þú orðar það "utan kerfis". Ég er t.d. mótfallin dauðarefsingu, ekki vegna þess að líf og dauði eigi aðeins að vera á valdi Gvuðs heldur vegna þess ég tel hagsmuni glæpamanna af því að fá að lifa mikilvægari en hagsmuni þolenda af því að fullnægja hefndarhvötinni. (Auk þess gera manneskjur mistök og það er ekki hægt að bæta fyrir rangan dóm eftir að dauðarefsingu hefur verið fullnægt.)

Mér sýnist það helst bera á milli okkar að ég lít ekki á lög sem slík sem skerðingu á mannréttindum þótt einstaka lög kunni að vera gölluð. Ég útskýri þetta nánar hér: http://www.norn.is/sapuopera/2011/09/mannrettindi.html

Ragnar Þór Pétursson sagði...

...Sumar stórþjóðir hafa jafnvel séð ástæðu til að pynta fólk til að bjarga öðrum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Rétt skilið hjá þér. Les pistilinn þinn og kommenta þar.