Mörgum „nafntoguðum“ bloggurum er sérstaklega mikið í nöp við „nafnleysingja.“
Telja að nafnleysi sé leið gungunnar til að segja hluti sem hún myndi aldrei þora að segja undir nafni.
Örlítið ríalítí-tékk kemur hér að góðum notum.
Nokkrir nafnlausir bloggarar hafa orðið frægir á Íslandi. Þeir eru flestir a.m.k. jafn frambærilegir rýnendur í samfélagið eins og aðrir. Nafnlaus bloggari byggir nefnilega smám saman upp mannorð. Mannorð getur komið í stað nafns.
Nafnlausir kommentarar eru vissulega af ýmsu tæi. En kommon, er fólk eitthvað betra þegar það kommentar á fréttir og blogg undir fullu nafni?
Nei, flest af því ógeðslegasta sem skrifað hefur verið á íslenska netinu hefur verið skrifað af nafngreindu fólki. Kommentin á dévaff eru yfirleitt ofsalega sorgleg blanda af heimsku og múgæsingi. Og það undir fullu nafni og mynd.
Það er nefnilega ekki svo að heiftin minnki við það að skrifa undir nafni. Heiftin blossar upp vegna þess að menn eru að tjá sig gegnum trefjaþræði en ekki feistúfeis. Þegar maður hatast undir fullu nafni dregur maður hinvegar hatrið og heiftina með sér út í raunverulega lífið. Vinir manns inna mann eftir því sem þeir sjá mann skrifa og þá þarf maður auðvitað að standa undir því. Eiturgufurnar af internetinu menga þannig kjötheima – meðan sá sem andskotaðist nafnlaust snýr sér að öðru.
Það væri auðvitað ágætt ef við gætum lært að meðtaka það sem sagt er en ekki það hver segir það.
Ein ástæða þess að ég skrifa löng blogg. Miklu lengri en ég myndi skrifa ef markmiðið væri að verða frægur og vinsæll – er að í þeim er ákveðinn fælingarmáttur. Ég fullyrði að lesendahópur Maurildanna er (þrátt fyrir að vera alls ekki of stór) í sérflokki í íslenskum bloggheimum. Lengd bloggsins, sem upphaflega var hugsað til að halda nemendum úti, heldur líka megninu af hálfvitunum úti.
Hálfvitarnir safnast saman þar sem eitthvað höfðar til þeirra.
Menn mættu hugsa um það næst þegar holskefla heimskunnar skellur á þeim.
5 ummæli:
Eyjan er búin að fjarlægja kommentasafnið sem er nauðsynlegt þegar til stendur að endurskrifa söguna.
Alveg er ég þér sammála um nafnleysið þegar við erum að tala um fróðleik og skoðanaskipti. Það sem skipir máli eru þær upplýsingar og skoðanir sem eru settar fram en ekki nafn þess sem skrifar. Ég hef aldrei skilið hvers vegna mér ætti að líða eitthvað betur við að vita að einhver sem ég þekki hvort sem er ekkert heiti Sigríður eða Jóhannes.
Hinsvegar skil ég að það fari fyrir brjóstið á fólki að vita ekkert um þann sem dreifir óhróðri um það. Vinur minn varð t.d. fyrir því að fá inn á bloggið sitt persónulegt skítkast sem gat eiginlega bara verið frá einhverjum sem þekkti hann vel. Mér finnst ósköp ómerkilegt að kasta skít úr launsátri og vona að þetta sé ekki algengt.
Ég er aftur á móti hissa á því að þú skrifir langa pistla í þeim tilgangi að halda hálfvitum frá. Ég skrifa oft stutt blogg einmitt vegna þess að hálfvitar þurfa öðrum fremur á visku minni að halda. Og þegar allt kemur til alls er margur hálfvitinn meðal þeirra sem hafa áhrif á örlög okkar.
Eins og Eva bendir á eru kostir og gallar við nafnleysið, en ég held að kostirnir geti verið meiri ef fólk kynni að haga sér eis og fólk. Því miður eru bara allt of margir sem haga sér eis og fífl.
Rétt hjá ykkur báðum.
Aðeins varðandi lengdina, Eva. Þá held ég það sé voða tilgangslítið að ausa „fávísa“ visku. Efast mjög um að það skili miklu.
Ég tek frekar þann pólinn í hæðina að veita aðhald fólki sem ég veit að er sjálfrýnið og heiðarlegt. Koma með nýjan vinkil ef því er að skipta.
Ástæða hinnar löngu rökræðu minnar við Skúla vin okkar hefur sáralítið með rasitana að gera t.a.m. Skoðanir þeirra munu ekki breytast. En við hin getum dregið lærdóm af því að kynnast þeim nánar. Í stað þess að gefa alltaf í skyn að þetta komi okkur ekki við. Rasistar séu allir fábjánar.
Þeir eru það alls ekki.
Sammála því að það þýðir ósköp lítið að reyna að hafa áhrif á skoðanir þeirra sem eru forhertir í einhverri trú eða pólitískri rétthugsun. Hinsvegar byrjar fólk einhversstaðar að mynda sér skoðun á hverju máli og ef fólk sem hefur ekki þolinmæði til að lesa langlokur, fær ekki tækifæri til að kynnast nema einu sjónarmiði, er ekki við öðru að búast en að það þrói með sér rörsýn.
Ég hef t.d. enga trú á því að hann séra Skúli átti sig á því hvað hugmyndafræði hans er skaðleg. Ég er hinsvegar viss um að einhver annar sem hefur áhyggjur af því að innflytjendur séu stórhættulegt fólk og er líklegur til að hallast að hugmyndum séra Skúla um yfirvofandi útrýmingu hvíta kynsins mun róast þegar hann heyrir rök gegn þeirri hættu.
Skrifa ummæli