Þær eru sláandi fréttirnar um að stór hluti drengja sé svogottsem ólæs. Það er illa komið fyrir bókaþjóðinni.
Eflaust eru margar ástæður fyrir þessu.
Ég held að grundvallarástæðan sé skekkja í hugsun um markmið og tilgang lestrar.
Lestur er leið til upplýsinga- og áhrifamiðlunar. Lestur þjónar því að koma einhverju á framfæri. Og nema eitthvað.
Hrun lestrarmenningar á Íslandi tel ég megi rekja til þess að þjóðin hefur of lengi nálgast lestur sem neyslu. Menn neyta texta og bóka. Áður fyrr af mikilli áfergju vegna þess að annað var ekki í boði. Nú af hálfvelgju – því neysla annarra miðla er auðveldari og neytendavænni.
Svo lengi sem áherslan er ekki á tjáningu samhliða lestri er lesturinn dauðadæmdur. Texti er frábær leið til tjáningar en ekki nema miðlungsgóð leið til mötunar.
Drengirnir eru farnir annað í mat. Þeir eru svo sannarlega ekki ólæsir. Þeir eru bara læsir á annað. Sem væri svosem í góðu lagi ef ekki væri fyrir það að því læsi fylgir oft aðeins hæfni til að taka á móti – en ekki leggja af mörkum sjálfir.
En það er svosem ekki ástæða til að örvænta. Það er ekki eins og „læsa“ fólkið sé mikið skárra sjálft.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli