16. september 2011

Alvöru menn - veikir punktar
Við frúin fórum á forsýningu á Alvöru mönnum í Austurbæ í kvöld.

Eftir því litla sem ég kynnti mér er verkið eftir ástralskan uppistandara sem hefur farið að dunda við leikhús síðustu ár.

Það var afar þakklátur hópur gesta sem klappaði af krafti fyrir sýningunni í lokin. Sjálfum fannst mér hún fara seint af stað en batna þegar á leið.

Söguþráðurinn er í sjálfu sér ekki burðugur. Þrír menn fara með þeim fjórða í einhverja hemmingveiska sjálfsuppgötvunarferð á hitabeltiseyju. Þar tækla þeir vandamál eigin lífs og snúa betri og ríkari til baka. Eða snúa flestir til baka, það er ekki alveg kýrskýrt hvort þeir fari allir heim (sem raunar veldur því að það er örlítið antíklímax í blálokin á verkinu).

Mér varð hugsað til vinar míns sem er kraftajötunn mikill og kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að líkamlegu atgervi. Hann getur lyft eins og sauðnaut, hlaupið eins og hind og er rammur að afli. En um daginn var hann að gera æfingar sem fólu í sér að hann rúllaði sér um á frauðplasti og emjaði af sársauka þegar hann hitti á veika punkta, einhverjar sinar eða festur sem eru krumpaðar og bólgnar.

Þetta verk, eins og reyndar fleiri verk, er hannað eins og frauðplastrúllan. Í leikritið er stráð fjöldanum öllum af krísum og vandamálum sem dæmd eru til að hitta stóran hluta áhorfenda fyrir. Það er eins og fingri sé þrýst á veikan punkt. Og þegar það gerist upplifir áhorfandinn eitthvað meira en leikhús, hann upplifir ákveðna hreinsun. Og hvað ætti leikrit um miðaldrakrísur að gera annað en að veita eitt augnablik rennsli gegnum haughús áhorfendanna svo þeir geti gengið örlítið meira happí út?

Leikararnir eru fjórir, auk undirleikara. Egill Ólafsson löðrar af karisma og kynþokka – en leikur sitt hlutverk af mýkt. Jóhannes Haukur hefur pumpað sig í hörkuform og á að úsa af sjálfsöryggi og kynþokka – á yfirborðinu. Hann hefur þennan hæfileika að geta litið út eins og Brad Pitt þegar ljósið fellur á hann á ákveðinn hátt en þarf svo ekki nema snúa andlitinu ögn og breytist í Magga mix. Kjartan Guðjóns er úttaugaður skapofsamaður og er auðvitað með genamengi gamanleikarans. Jóhann G. púllar sjaplín á sitt hlutverk, mannsins sem heldur að hann sé heiðarlegur prinsippmaður en er í raun kúguð písl. Og Jóhann kann sinn sjaplín.

Í lokin er löng fylleríssena þar sem þeir þrír yngri þurfa að leika sig pöddufulla lengur en undir venjulegum kringumstæðum væri bærilegt – en það tekst. Og með því siglir leikritið í höfn.

Pálmi er með sitt á þurru og leikstjórnin er fín, sem og hljóðheimurinn og sviðsmyndin.

Ég var ekki alltaf alveg á sömu tíðni og salurinn þegar kom að gríninu. En það voru atriði og hendingar sem kitluðu hláturtaugar mínar töluvert.

Semsagt: Alvöru menn er ekki neitt tímamótaverk að neinu leyti en alveg ágætist kvöldstund. Leikararnir eru flottir saman og skila sínu vel. Leikritið smýgur undir bringspalirnar á venjulegu fólki (a.m.k. hjá körlum sem eru farnir að raka sig reglulega og konum sem eru hættar því) og þrýstir á veika punkta. Og það er bara hollt.

4 ummæli:

Þórunn Hrefna sagði...

"Hann hefur þennan hæfileika að geta litið út eins og Brad Pitt þegar ljósið fellur á hann á ákveðinn hátt en þarf svo ekki nema snúa andlitinu ögn og breytist í Magga mix."

Þetta er nú ansi gott. (En ég sleppi því að gera broskall vegna þess að ég veit að þér er ekkert um þá gefið).

Teitur Atlason sagði...

Mér finnst ekki við hæfi að dæma sýningu áður en hún er frumsýnd. Þetta er forsýning. Það sem þú sást var ekki fullburða útgáfa.

Þú ættir að taka þennan dóm út. Það er bara kurteisi.

Bjössi sagði...

Eftir lestur þessa leikdóms situr aðeins tvennt eftir: Breytt útlitssniðmát á bloggsíðunni og óþægilega hómóerótísk lýsing á Binna.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Teitur, frumsýningin er í kvöl, ég fór í gær. Allt sem mögulega gæti breyst milli þessarra tveggja sýninga fór ég lofsamlegum orðum um.

BG, ég var að lýsa þér en ekki Binna.