3. september 2011

Skúli og hvíti kynþátturinn (lokin)

Samantekt af umræðunni er hér (mæli með því fyrir þá sem detta inn)
Skúli: „Það er ekkert í lögum sem bannar þér að yfirgefa kynstofn þinn með því að blandast við annan en það er skýrt í lögum að þú mátt ekki hvetja til þess að aðrir geri slíkt sama.
Ragnar: „Ég skora á hvern einasta hvítan íslending að fjölga sér með fólki úr öðrum menningarheimum og af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja!“
Hér ætla ég að reyna að eiga markvissa rökræðu við rasistann Skúla Jakobsson. Fyrst og fremst í þeim tilgangi að fá hina rasísku hugmyndafræði á hreint og taka á henni með rökum. Ég vona að við getum báðir haldið okkur frá klisjum, órökstuddum fullyrðingum og uppnefnum.


Þeir sem eru þeirrar skoðunar að ekki skuli ræða við rasista mega halda þeirri skoðun útaf fyrir sig. Ég er á því að málfrelsið þoli vel „öfgaskoðanir.“


En byrjum þá (ég er feitletraður, Skúli ekki).


Upphafsspurning:
Skúli, þú segir að fyrir þér sé mælikvarði á dygðir það hvað kemur „hvíta kynstofninum“ best.Hvaða mælikvarða notar þú yfir það hversu vel/illa eitthvað kemur sér fyrir „hvíta kynstofninn?“
Svar:
Lögmál Náttúrunnar.Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð. Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni.“

Þá klofnaði rökræðan í tvennt, annarsvegar:
„Í viðtalinu við þig í DV segist þú ekki eiga börn. Ert þú að brjóta gegn lögmáli náttúrunnar með því? Gerir það þig að óvini mannkyns? Svikara?
„Ég er enn frjór, þannig að þó svo að ég eigi ekki enn barn/börn, svo ég viti til, þá hef ég ekki brugðist neinu, ennþá. Í trú minni er lögð áhersla á barneignir, ekki krafa. Hægt er að gera sinni tegund margt til framdráttar á margan annan mikilvægan hátt. Ekki er hægt að ætlast til alls af einum, er það?
 Sá sem ekki getur átt „hvít börn“ af einhverjum ástæðum er undanþeginn öllum skyldum til að fjölga hvítu fólki með æxlun, ekki satt?“ 
Nei, sá er alls ekki undanþeginn skyldum. Hér er aftur fyrsta svarið mitt: Lögmál Náttúrunnar.Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni. Eftir stendur "styðja og tryggja" er það ekki?


Hinsvegar:




Tegund, er í líffræði, skilgreind sem lífverur sem geta getið frjó afkvæmi. Menn geta, óháð lit, eignast börn hverjir með öðrum. Hvaða lögmál í náttúrunni segir að „aðeins“ þeim lífverum sem líkjast í sjónhendingu beri skylda til að viðhalda sér og fjölga?“ 
„Þú ættir frekar að beina þessari spurningu til t.d. Líffræðinga sem fara mikinn, reglulega, til verndar hinni eða þessari tegund í útrýmingarhættu. Ekki litlum fjármunum og tíma er varið í ýmiskonar verndunarstarfsemi. Ef þér finnst það svona fullkomlega tilgangslaust að tegund lifi áfram, þá skaltu láta þá aðila vita um villu síns vegar. Sjónhending, að þínu mati, er öðrum augljós og mikill munur. Því meira sem þú lærir um kynþætti, því auðveldara áttu með að greina hver er hver.“
Fyrst þetta snýst um „augljósan“ mun en ekki skilgreiningu vísindanna á „tegund“ þá langar mig að spyrja: Ber ljóshærðum að viðhalda ljóshærðum með því að forðast fólk með aðra hárliti? Ber lágvöxnum að makast hver með öðrum? Eða er blöndun eiginleika æskileg upp að einhverju marki?“


Lögmál Náttúrunnar.Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.
Í þessari setningu eru engin skilyrði til Hvítra um makaval innan Hvíta Kynsins. Yfirgripsmikil rannsókn sýndi að fólki er vel treystandi til að vita hvaða kynstofni það tilheyrir.Niðurstöður rannsóknar var birt í Febrúar hefti American Journal of Human Genetics. Rannsóknin er sú langstærsta fram að þessu, með 3.636 einstaklinga sem allir báru kennsl á sig sem annað hvort Hvíta, Afríku-Ameríkana, Austur-Asíska eða Rómansk Ameríska. Af þeim öllum, voru aðeins fimm einstaklingar sem DNA bar ekki saman við þann reit sem þeir hökuðu við í upphafi rannsóknarinnar. 5 af 3.636 er ekki há prósenta. 
Annars þá er skilgreining vísindanna á kynstofnum hlægilega tvískinnungsleg, oft á tíðum eða; Réttarmeinafræðingur verður, til að halda vinnunni, að vitna til um það að það sé ekki neitt sem heitir kynþáttur OG geta greint til um kynþátt fórnarlambs úr örfáum leifum eða beinum.Raunvísindi geta mjög vel og auðveldlega skilgreint kynþætti, það eru félags"vísindin" sem eru vandamálið í þeim efnum. 


Og þar með er rökræðan aftur runnin saman í einn þráð. Sumsé þennan:


Kynþættir eru til (þótt vísindamenn vilji oft gera lítið úr því) og það er heilög skylda alls lífs á jörðinni að viðhalda, styðja og styrkja hvíta kynstofninn sérstaklega.


Næsta spurning mín er því afar augljós:


Skúli, þegar þú segir að allt lífríkið sé skuldbundið til að viðhalda, styðja og styrkja einn tiltekinn kynstofn, á hverju byggir þú þá fullyrðingu öðru en þínum eigin skoðunum og skoðanabræðra þinna. Þú talar um að vísindin og fólk almennt geti vel greint sundur kynþætti. Það ber með sér að þú telur að yfirveguð rökhugsun skipti máli. Því spyr ég: hvaða rök eru fyrir því að allt líf á jörðu snúist um að varðveita hvítt fólk? Og áður en þú segir „lögmál náttúrunnar“ þá bið ég þig að útskýra hvaða rök þú hefur fyrir tilvist slíks lögmáls. Hvað þá gildi þess.


Við þessu brást Skúli og skerpti á þeirri sýn að ekki væri um að ræða lögmál alls lífs að varðveita hvítt fólk ( en ég hafði misskilið það þegar leið á þótt ég hafi skilið það rétt fyrst. Misskilningurinn stafaði af oggulítið loðnu orðalagi, t.d. hér: Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð. Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni.“


En fyrst sá misskilningur er úr vegi þá eru rök Skúla þessi:




Að sjálsögðu á ég við um kynslóðir Hvíts fólks fyrir Hvítt fólk í fyrstu setningu og að það sama gildir fyrir allt annað líf á jörðinni, þ.e.a.s., hver tegundakynslóð fyrir sína eigin tegund í annarri setningu....

Og inntur eftir rökum um „náttúrulögmálið“ benti Skúli, sem er virðingarvert, á margar heimildir. Þær eru taldar upp hér:



2. Lögmál Náttúrunnar. Getur séð meira um það hér, til dæmis:http://en.wikipedia.org/wiki/Physical_law Eða,kannski, er eitthvað af þessu:Hardy Weinberg Law or Population Principle, Mendel’s laws of inheritance, Cope's Law, Kleiber’s law, Williston’s Law, Dollo's Law, Egg Clutch Rule, Shelford's Law of Tolerances, Yerrel’s Law, Red Queen’s Effect, Rensch’s Rule of Body Sizing, Bergman's Law
27 Laws of EcologyLaws of allometric scaling‘The fractal nature of nature: power laws, ecological complexity and biodiversity.’............




Nú vill svo til að sumt af þessu þekki ég mætavel (er enda náttúrufræðikennari) og mér finnst vandséð hvernig sumt af þessu styður við hugmyndir Skúla um ágæti staðbundinnar þróunar (þ.e. þróun innan tiltekins „kynþáttar,“ í stað víðari tilraunamennsku í æxlun sem t.d. Red Queen's Effect snýst um. En til að umræðan fari ekki út um víðan völl kemur hér spurningin til Skúla (sorrí hvað hún er löng, en ef hún væri styttri væri erfiðara að halda sig við efnið):


Til að sýna fram á náttúrulögmálið (hvítir menn bera skyldu til að viðhalda sér og varðveita) nefnir þú m.a. lögmál Mendels um erfðir. Mig langar að spyrja þig um eitt því tengt. Og þú fyrirgefur vonandi formálann, ég vil bara tryggja að við séum á sömu síðu. 

Forsagan er sú að Darwin hafði fullyrt að lífverur ættu sér sameiginlega forfeður og þróuðust. Gegn því voru aðallega tvenn rök. Annarsvegar að jörðin væri of ung (og fyrir því voru bæði jarðfræðileg og guðfræðileg rök) en hinsvegar voru rök sem t.d. komu fram í frægri gagnrýni skoska verkfræðiprófessorsins Fleeming Jenkin. Rökin voru þessi: „Hugsaðu þér hvítan mann sem verður strandaglópur á eyðieyju. Þeir innfæddu hitta hann og sjá (og þetta mun líklega falla þér ágætlega í geð) að hann er öðruvísi en þeir. Þeir tigna hann því sem guð. Konur í hópi eyjaskeggja fara ekki varhluta af aðdráttarafli hans og sækja mjög í samfarir við hann. Mun hann því eiga haug af börnum. En, og hér taldi Jenkin að gallinn í kenningu Darwins lægi, börnin hans verða ekki hvít. Þau verða blönduð. Og þegar þau eignast sjálf börn þynnist blóð þeirra enn meira út. Smám saman verður enginn munur á afkomendum hvíta mannsins og hinna á eyjunni. “
 

Með þessum rökum taldi Jenkin sig hafa sannað að þróun gæti ekki átt sér stað. Jafnvel þótt stökkbreytt eintak kæmi fram myndu eiginleikar þess þynnast út. Kyrrstaða væri eina rökrétta niðurstaðan.
 

Kenning Mendels (sem þú vísar í) kollvarpar þessu og skýtur skildi fyrir Darwin (sem aldrei gaf þessari rýni mikinn gaum). Samkvæmt henni erfir hver einstaklingur (sem getinn er með kynæxlun) eiginleika sína frá báðum foreldrum. Sumir eiginleikar eru ríkjandi og koma fram í svipgerð (útliti) en aðrir eru víkjandi (og geta þá blundað í dvala í arfgerð einstaklingsins). Eiginleiki sem legið hefur í dvala getur komið fram síðar, í seinni kynslóðum. Þessa eiginleika köllum við „gen.“
 

Ef þú svo blandar saman Darwin og Mendel (og ert þá kominn með grunn nútíma líffræði) þá er niðurstaðan þessi: Það eru ekki kynþættir sem keppa um tilvist sína. Það eru einstök gen. Gen eru mishentug og þróunin sér til þess að þau gen sem hæfa best til að tryggja tilvist manna (a.m.k. upp að æxlunaraldri) hafa tilhneigingu til að berast milli kynslóða. Hvítur maður er ekki eining sem reynir að varðveita sig í heild sinni, heldur samansafn margbreytilegra gena sem sum koma ekki fram fyrr en eftir einhverjar kynslóðir. Með því að æxlast á sem fjölbreytilegastan hátt reynir lífveran (í þessu tilfelli maður) að safna í erfðamengi afkomenda sinna fjölbreyttari genum. Þau sterkustu munu svo lifa af í komandi kynslóðum.
 

Náttúrulögmálin sem þú segir að styðji hina rasísku kenningu virðast þvert á móti benda til þess að það séu alls ekki kynþættir sem ber að varðveita heldur einstakir eiginleikar manna (gen) sem dreifast á einstaklinga en ekki kynþætti. 
Og spurningin: Í ljósi þess að vísindin styðja alls ekki við þá skoðun að náttúrulögmálin reyni að varðveita „hvíta menn“ í heild sinni, heldur einstök gen (sem ekki eru á neinn hátt einstök fyrir hvíta menn) – hver er þá undirstaða þeirrar skyldu að hvítir menn megi aðeins æxlast með öðrum hvítum mönnum?
Gen eru afmarkaður bútur litning sem stýrir einhverjum eiginleika


Þessu svaraði Skúli þannig:


Að sjálfsögð styðja vísindin alls ekki "rasisma" á nokkurn hátt því ef þau reyndu það þá væri það vísindafólk án vinnu. Heldur funndu vísindin sniðuga "lausn" á vandanum með "einstök gen".
Ef spurningunni væri breytt, til dæmis, svona og send í Sjávarútvegs/og Landbúnarráðuneytið:"hver er þá undirstaða þeirrar skyldu að Íslenskir hestar/kýr/landnámshænsn.... megi aðeins æxlast með öðrum Íslenskum hestum/kúm/landnámshænsnum.....?"hvert heldur þú að svarið yrði???Sömu lögmál gilda um Hvíta kynstofninn og það sem býr að baki verndunarstefnu valdhafa Íslands um séreinkenni Íslenskra dýrategunda, sem og allra annarra dýrategunda á jörðinni. 
Hvítir eru með "einstök gen" sem litaðir kynstofnar eru ekki með, ertu sammála því Ragnar?


Hin „fullkomna“ enska blettakanína 



Og þá benti ég á á móti (og aftur er spurningin með langan aðdraganda til að draga umræðuna ekki um of á langinn):


Þetta er nú allt að breytast dálítið í meðförum hjá okkur. Heilög skylda sótt í lögmál náttúrunnar er orðin að kynbótum landnámshænunnar. 

Gott og vel.
 

En hugtakanotkun er enn dálítið á reiki hjá þér. Þú talar um íslenskar tegundir sem beri að varðveita. En málið er að „tegund“ þarf ekki að varðveita, hún varðveitir sig sjálf. Tegund getur ekki eignast frjó afkvæmi með annarri tegund. Og erfðafræðin og náttúrulögmálin (m.a. þau sem þú vísar á) segja að erfðafræðilegur fjölbreytileiki sé mjög æskilegur til að tryggja sem heppilegasta genablöndu og áframhaldandi þróun.
Þú ert heldur ekki að tala um undirtegund (sem er forstig þess að lífverur klofni í sitthvora tegundina). Til þess er mismunur kynþátta of lítill.
 

Það sem þú ert að lýsa eru stofnar. En stofnar eru einsleitir hópar innan sömu tegundar sem af einhverjum ástæðum hafa einangrast frá öðrum með þeim hætti að munur á milli þeirra verður greinilegur.
 

Stofnar myndast fyrst og fremst vegna landfræðilegrar einangrunar. Of lítill stofn eykur mjög hættu á úrkynjun. Allskyns fatlanir eða sjúkdómar sem eru víkjandi og myndu við eðlilegar aðstæður liggja í dvala koma fram vegna skorts á genafjölbreytni.
En það er einnig hægt að viðhalda stofni af vali. Menn geta kosið að rækta upp ákveðna eiginleika og stunda kynbætur. Þannig er til hugmynd um hina fullkomnu ensku „blettakanínu“ sem mér vitandi hefur aldrei verið ræktuð fullkomlega rétt. Menn vilja hafa blettina í nákvæmlega réttum lit og á réttum stöðum. Slík ræktun getur verið hobbí, hún getur líka verið af praktískum ástæðum. Menn geta verið að reyna að auka nyt kúa eða kjötmagn kálfa.
 

Hobbíræktun eða áhugamál réttlætir auðvitað ekki mannkynbætur. Þú skerðir ekki með stórkostlegum hætti frelsi fólks til að ráðstafa lífi sínu vegna þess að þig langar til að rækta upp hinn fullkomna rauðhaus eða stjórnmálamann.
 

Þá er eftir praktískar ástæður. Þær snúa alltaf af því að styðja við sérstaka mikilvæga eiginleika í fari skepnunnar. Kýr hafa þann tilgang að framleiða mjólk og hænur verpa. 
 

Gallinn við mannkynbætur er margþættur. Í fyrsta lagi (eins og hinn skjannahvíti Vilmundur Jónsson landlæknir benti á) eru menn ekki einnota skepnur eins og kýr eða hænur. Þótt menn vildu „rækta“ betri menn þá vita menn ekki hvar ætti að byrja. Tilraun til að útrýma slæmum eiginleika getur tekið með sér góða eiginleika um leið og haft ýmsar óútreiknanlegar afleiðingar.
 

En hinn gallinn er sá að mannkynbætur eru algjörlega ósamrýmanlegar við allar hugmyndir um mannréttindi og einstaklingsfrelsi. Og hafa vegna þeirra verið gerðar útlægar úr siðuðu samfélagi. Fólk á að hafa frelsi til eigin ákvarðana.
Og þá að spurningunni:
 

Tilraun þín til að réttlæta mikilvægi þess að viðhalda hvítum stofnum (sem þó mega blandast innbyrðis) með vísan í náttúrulögmál hefur brugðist. Þess í stað vísar þú til varðveislugildis eins og þegar stofn er ræktaður. Allar ákvarðanir um slíka ræktun eru teknar af mönnum og eru einmitt EKKI náttúrulögmál. Til þess að taka slíka ákvörðun fyrir heilan stofn manna þarf að afnema grundvallarrétt manna.

Telur þú afnám mannréttinda réttlætanlegt til að (tilþessaðgera) fámennur hópur manna fái að rækta hluta mannkyns eftir eigin höfði?
Ensk blettakanína




Skúli brást hratt við og beitti tangarsókn á nokkrum vígstöðvum.

Ég gæti eins spurt þig, Ragnar:

Getur fólk borið fyrir sig mannréttindum þegar það réttlætir og hvetur til útrýmingar á Hvítu fólki?

Og svo áttu eftir að svara þessari:

"Hvítir eru með "einstök gen" sem litaðir kynstofnar eru ekki með, ertu sammála því Ragnar?"



Svarið við þinni spurningu er: Nei.

Þú svaraðir henni sjálfur, að hluta til, með þessari setningu: Fólk á að hafa frelsi til eigin ákvarðana.

Það sem vantar er ábyrgð fólks á eigin ákvörðunum og að réttar upplýsingar séu til staðar til að réttar ákvarðanir geta verið teknar. 

Það er ýmislegt sem vantar inn í þetta hjá þér, Ragnar.

T.d. valfrelsi fólks til samskipta við annað fólk. Einsleitan fjölmenninga áróður valdhafa, akademíu og fjölmiðla síðustu áratugi í Hvítum löndum. Valdbeitingu valdhafa margra Hvítra landa til að koma í veg fyrir að Hvítt fólk geti valið sér að umgangast eingöngu annað Hvítt fólk. Sjá hér, t.d.: http://cofcc.org/category/anti-white/forced-integration/ 

Aðeins Hvítt fólk mótmælir Hvítu fólki að hittast sem Hvítt fólk. Áhrif bókstafstrúar samtímans, Pólitísk Rétthugsun, á túlkun niðurstaðna vísindalegra rannsókna, o.s.frv.



Eitt annað sem vert er að skoða, Ragnar, er að fljótlega eftir að Kommúnisminn beið hnekki við óumflýjanlegt fall Sovétsins þá fóru yfirlýstir Kommúnistar og margir "vinstri" menn (Socialists) skyndilega að tala endalaust um ýmiskonar réttindi og sögðust vera mannréttingasinni og/eða umhverfisverndarsinni. 

Ert þú það sem mig grunar, gamall Kommi, Ragnar?


Gamlir kommar (The Communist Party)

Og auðvitað svaraði ég spurningum sem beint var til mín með svona beinskeyttum hætti (þið afsakið endurtekninguna en það ber enn á misskilningi sem illa gengur að leiðrétta):

Skúli, nú verðum við að halda okkur fast. Iljarnar eru aðeins farnar að togast með hugmyndafræðilegu zyklonbé-gasblöðrunum á loft. Þú segir „nei.“ Ósk hluta fólks um að varðveita sérstaka kynstofna réttlætir ekki afnám mannréttinda. Með því ertu að segja að hvorki þú né aðrir geti tekið það val af öðru fólki að eiga börn með fólki af öðrum kynþáttum. Um það þarf ekki að deila. Það er alveg kýrskýrt.


Nema að því leyti að þú telur að þessu frelsi fylgi „ábyrgð.“ Og skyldan til að vera rétt „upplýstur“ um orsakir og afleiðingar ákvarðana sinna. 

Um þetta gætum við ekki verið meira sammála. Fólk á að vera frjálst að vali sínu en bæði upplýst og ábyrgt. 

Þess vegna skýtur dáltið skökku við að þú skulir í sama svari inna mig eftir því hvort hvítir menn hafi ekki „einstök“ gen, sem beri að varðveita.  Þetta er ekki sérlega upplýst spurning. Og hún byggir á róttækum misskilningi á erðafræði. „Ein-stök gen“ í þeirri merkingu sem hér er um að ræða merkir eitt-og-eitt gen. Ekki „framúrskarandi“ gen eða með varðveislugildi. 
 

Það má líkja þessu við að hver einasti maður sé gangandi fornbókasafn. Í hverju safni eru nokkur þúsund bækur. Þegar menn eignast börn gefa þeir helming bóka sinna til barna sinna. Börn eignast þannig jafnstór bókasöfn og foreldrarnir, bara blöndu beggja. Síðan kemur forvörður á svæðið og velur bestu bókasöfnin og þeir sem hafi góð söfn eignast frekar sín eigin börn og miðlar bókaarfinum áfram.Ef markmiðið væri að koma sér upp sem bestu safni þá væri óttalega heimskulegt að giftast bara konum sem eiga mjög lík söfn og maður sjálfur á. Þvert á móti myndi maður velja konu sem á sem ólíkast safn. Vegna þess að þar sem hennar bækur eru ólíkar manns eigin þá verður alltaf betri bókin valin. Sem kemur barninu manns til góða. 
 

Einstök gen eru eins og einstakar bækur. Ef eitthvað hefur varðveislugildi samkvæmt náttúrulögmálunum þá eru það genin. Þau berjast um að vera best miðað við aðstæður. Og náttúran sér til þess með náttúruvali að „hæfustu“ genin nái að yfirgefa genamengi mitt og þitt og mynda enn hæfari lífveru – ef við gætum þess að stunda fjölbreytta æxlun. Ef hvítir menn myndu aðeins eignast börn með hvítum konum þá takmörkum við möguleika genanna við minna erfðamengi. Náttúrulögmálin eru ekkert sérstaklega spennt fyrir því. En, eins og áður sagði, þá getur slík takmörkun komið til af tvennu: landfræðilegri einangrun (sem er ástæða þess að kynstofnar eru til) eða ákvörðun manna.

Vissulega eiga hvítir menn einhver gen sameiginlega sem eru þá „einstök“ í þeirri merkingu að þau eiga aðeins við um þá. En á sama hátt eru gen skítaflugunnar og svartrottunnar „einstök,“ sem og gen þess einhverfa og heilabilaða. Meira að segja gen svartadauðabakteríunnar eru einstök. Genin þín, Skúli, eru einstök – og mín líka. Rarití genanna segja ekkert um „varðveislugildi.“ Því þótt þú myndir skella þér úr sokkunum og búa til barn með þeldökkri konu þá væru gen þess ennþá einstakari en hin einsleitu gen hvítra Íslendinga. Munurinn væri hinsvegar sá, erfðafræðilega, að barnið þitt hefði um meiri fjölbreytni að velja og ef nógu margir fylgdu þínu fordæmi myndi kynstofninn örugglega batna (í skilningi erfðafræðinnar). 

Þú spyrð á móti. Er það ekki brot á mannréttindum að „útrýma“ hvítu fólki? Það sem liggur á bakvið þessa spurningu hjá þér er að sumu leyti rökréttur punktur. Evrópubúar stunduðu það að fara um heiminn og reyna að „aðlaga“ allan heiminn að sinni menningu. Reyndu að uppræta menningu og jafnvel kynstofna vegna þess að þeir töldu sig, hvítu mennina, æðri og sína menningu, hvítu menninguna, einnig æðri. Í trú á þessa hugmynd töldu sumir, kristnir Evrópubúar að þeir væru bara að hjálpa öðrum með því að losa þá undan óæðri menningu – jafnvel þótt það væri gert með valdi. Þú telur að nú sé hið sama að gerast með hvíta fólkið. Að í einhverskonar bakslagi við þessa groddalegu fortíð sé núna talið að allir kynstofnar og öll menning sé einhvers virði nema sú evrópska (hvíta). Allir aðrir kynstofnar og menningarkimar séu hvattir til að vera stoltir af arfleið sinni og útliti – en hvitt fólk eigi að ganga um með samviskubit og helst hætta að vera til.  
Ég vona að ég sé að lýsa skoðunum þínum á sanngjarnan hátt. Þessi röksemd finnst mér alveg skiljanleg og ég held meira að segja að það sé aðeins til í henni hjá þér. Það er ákveðin tilhneiging til að gera lítið úr þeim sem hafa verið staðnir að því að gera alltof mikið úr sjálfum sér. Þjóðverjar voru t.d. líklega mesta menningarþjóð Evrópu þar til þeir opinberuðu sig sem menningarlega úrkynjaðar og illgjarnar smásálir. Það er nefnilega svo að þótt saga margra „hvítra“ þjóða innihaldi margt til að vera stoltur af – þá er nú eitt og annað skammarvert þar líka. Og menn hafa vanið sig á að horfa frekar á það sem er nær í tíma eða stærra að umfangi.  

Og þá erum við komnir að mannréttindum. Sem þú styður (allavega í orði kveðnu) en getur þó ekki stillt þig um að spyrða saman við réttindatal gamalla komma. Skúli, ég er ekki gamall Kommi. Ég var að vísu meðlimur í hópi vinstri manna á menntaskólaárunum en rakst þar illa í flokki. Bæði hleypti ég upp stofnfundi róttækra sósíalista þegar mér þóttu hin pólitísku markmið orðin of róttæk og heimskuleg og var staðinn að því að spilla fyrir málstaðnum þegar blaðamaður vildi etja vinstri og hægri mönnum saman í kappræðum. Þú getur lesið það hér ef þú nennir. Þetta er öll mín pólitíska fortíð. Ég er ekki uppgjafarstalínisti með einhverja mannréttindaglýju í augunum sem ég kann ekki að losa mig við. Ég get hinsvegar stoltur sagt að ég hef alltaf reynt að veita andóf öllum hugmyndakerfum eða ranghugmyndum sem ég hef verið í smithættu af. Ég gagnrýni jafn harkalega skoðanabræður mína og andstæðinga. Og veiti sjálfum mér mikið vitsmunalegt aðhald. Reyni að losa mig við allar hugmyndir eða skoðanir sem ég hef tileinkað mér án þess að fyrir þeim sé næg innistaða. Getur þú sagt það sama, Skúli? 

En það er kannski í ætt við annað, Skúli, en söguskýring þín á réttindum ýmiskonar er ekki allskostar rétt. Grunnur mannréttinda hefur ekkert með gamla kommúnista að gera. Hann hefur hinsvegar allt með Upplýsinguna að gera. Thomas Paine, Frönsku byltinguna og þar fram eftir götunum. Þá hugmynd að í hverjum manni búi töluvert meiri hæfileikar en stéttskipt samfélag nær að virkja. Að menn séu sjálfstæðar vitsmunaverur sem hægt sé að næra og þroska til að stýra sér sjálfir að mikilsverðu leyti. Að það þurfi ekki „hámenntaða“ og hátimbraða sérfræðinga til að taka ákvarðanir fyrir allt annað fólk. Ég á þessa rökræðu við þig, Skúli, vegna þess að ég held að þú sért ekkert illmenni. Ég held þú sért ekki heimskur heldur. Þvert á móti gæti ég trúað að þú sért vel gefinn. En ég er nokkuð viss um það að þú hafir rangt fyrir þér um mikilvæga þætti og hafir ranga sýn á eitt og annað. Eins og náttúruvísindin. Og mannréttindi. 

Mannréttindi eru nefnilega þannig að þau gefa einstaklingsbundinn rétt og þau takmarkast af samskonar rétti annarra. Taktu eftir, þetta er gríðarlega mikilvægt. Mannréttindi þín takmarkast af mannréttindum annarra. Þú getur þessvegna ekki borið fyrir þig þínum réttindum og krafist þess að þú fáir að búa í samfélagi þar sem öðrum er meinað að búa. Þú átt ekki rétt til að búa í alhvítu samfélagi því að um leið myndir þú banna lituðum að búa í sama samfélagi. Þú mátt hinsvegar búa þar sem þú vilt, hugsa það sem þú vilt og gera það sem þú vilt (upp að ramma laganna) svo lengi sem í því felst ekki að þú bannir öðrum að búa þar sem þeir vilja, hugsa það sem þeir vilja og gera það sem þeir vilja (upp að sama ramma).Ef þér er það hjartans mál að búa með einsleitu fólki þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú og fólk með svipaða lífssýn rottið ykkur saman, byggið ykkur raðhús, grillið saman á sunnudögum og njótið þess að vera til. Eða flytjið til Raufarhafnar nokkrir tugir saman og yfirtakið bæjarpólitíkina og skapið samfélag að ykkar höfði. En það sem þið fáið ekki að gera er að mismuna fólki eftir kynþætti og öðrum þáttum. Allir menn njóta nefnilega mannréttinda óháð breytileika. 

Það að vilja mannréttindi sem fela í sér skert mannréttindi annarra er ekki mannréttindi – heldur afnám mannréttinda. 

En nú erum við búnir að ferðast þúsund mílur frá upphafspunktinum. Hann var þessi: „hvítt fólk ber náttúruleg skyldu til að varðveita húðlit sinn og einkenni.“ Og nú erum við að tala um hvort „hvítir einstaklingar hafa rétt til að búa í einsleitu samfélagi.“ Svarið við því er nei. Mannréttindi gefa okkur rétt til að vera fjölbreytt. Eru einmitt sett þvingaðri einsleitni til höfuðs. Þú getur ekki ákveðið að ég skuli mæta í kirkju á sunnudögum af því þú vilt ekki vera þar einn. Þú getur reynt að fá mig í kirkju en þú getur ekki reynt að fá mig til að samþykkja að ég og allir aðrir skuli skyldaðir í kirkju. Þar liggur línan.

En mannréttindi má skerða ef nauðsyn krefur. Ef þú getur bent á mjög mikilvæga ástæðu þá er hægt að skerða mannréttindi eða frelsi í þeim tilgangi að búa til farsælla samfélag.

Það er því næsta spurning: Skúli, telur þú að varðveisla hvíta kynstofnsins sé svo mikilvægt markmið að það sé ástæða til að skerða frelsi fólks til að viðhalda honum?

Skúla þótti þetta fullmikil þvæla og bað um meiri tíma til að svara vegna ýmissa ástæðna. Ég sá enga ástæðu til að fetta fingur út í það. En hann gat þó svarað lokaspurningunni með mjög afdráttarlausum hætti:


En svarið við spurningunni þinni Ragnar er einfalt: Það er EKKERT sem réttlætir útrýmingu kynstofns. (sjá lög S.Þ.)Varðveisla Hvíta kynstofnsins um ókomna framtíð er það mikilvæg, í mínum Hvíta huga, að EKKERT kemur því ofar né stendur því framar. 
Og til að hafa umræðuna sem knappasta, m.a. vegna lélegrar nettengingar hjá Skúla kom næsta spurning um hæl.


Þér hefur mistekist að sýna fram á að náttúrulögmál krefjist þess að kynstofnar séu varðveittir. Þér hefur líka mistekist að sýna fram á að það sé ekki eðlilegur þáttur mannréttinda að fá að velja sér maka eða berjast fyrir blönduðu samfélagi. Þín skoðun er sú að ekkert, þar með talin lög og réttur, komi ofar þeirri skoðun þinni að varðveita skuli hvíta kynstofna.
Telur þú (og þú mátt svara „já“ eða „nei“) að þér beri að berjast fyrir þessari sannfæringu þinni og verja hreinleika hvíta kynstofnins? 


Nú var komið að því að Skúli kæmi málum á hreint í eitt skipti fyrir öll. Hann byrjaði þó á að svara spurningunni afdráttarlaust.


Mér ber skylda til þess að fara eftir sannfæringu minni og berjast gegn því að Hvítu fólki sé útrýmt. 


Og bætti síðan við:



Ragnar, Þér hefur mistekist að átta þig á að mannréttindum og blönduð samfélög er aðeins beitt gegn Hvítu fólki og veldur útrýmingu þess, og að hvetja til þess er gróft lögbrot.
Þetta bull þitt um "Hvítir hafa verið svo vondir...bla.bla.bla" lýsir skoðunum mínum engan veginn en þetta lýsir þínu neikvæða áliti á Hvítu fólki alveg ljómandi vel.  
Mjög oft þá hefur and-Hvítt fólk notað þetta: 
"Hvítt fólk er vont og hefur gert svo voðalega marga vonda hluti að það á ekkert gott skilið."
Til að réttlæta þá útrýmingarherferð sem er í gangi. Sjálfshatur sumra Hvítra er hreint með ólíkindum.
Og þetta með mannréttindin.... 
Það sem þú styður og hvetur til er að Hvítu fólki skal útrýmt vegna þess að annað er brot á mannréttindum litaðra... 
Það sem þú ert að segja er þetta: 
Asía fyrir Asíubúa. Afríka fyrir svertingja. Hvít lönd fyrir alla. Þetta er ekki Afrískt vandamál. Enginn er að yfirflæða Afríku með öðrum en svertingjum og gefa þeim Jákvæða Mismunun, sérstök réttindi og forréttindi ásamt endurgjaldslausri heilsugæslu. Aðeins hvít lönd eru að gera þetta. Aðeins hvítir leiðtogar styðja þetta. Aðeins hvít börn þjást vegna þessara aðgerða. Þetta er þjóðarmorð.
Sem sagt, and-Hvíti Ragnar, þá eru mannréttindi þjóðarmorðs/útrýmingarlöggjöfinni æðri.
Hvers virði eru mannréttindi fólki sem hefur verið útrýmt??? 
Þetta sem þú segir hérna er lýsandi dæmi um það: 
"Ef þér er það hjartans mál að búa með einsleitu fólki þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú og fólk með svipaða lífssýn rottið ykkur saman, byggið ykkur raðhús, grillið saman á sunnudögum og njótið þess að vera til. Eða flytjið til Raufarhafnar nokkrir tugir saman og yfirtakið bæjarpólitíkina og skapið samfélag að ykkar höfði. En það sem þið fáið ekki að gera er að mismuna fólki eftir kynþætti og öðrum þáttum. Allir menn njóta nefnilega mannréttinda óháð breytileika." 
Enn og aftur þá lestu ekki það sem ég póstaði.' 
Þetta er það sem gerist þegar Hvítt fólk reynir að hópa sig saman: http://cofcc.org/category/anti-white/forced-integration/ 
En þegar litaður hópur kemur saman og setur Hvítt fólk í löndunum í útrýmingarhættu:
http://stopwhitegenocide.praag.org/?tag=zimbabwe 
Þá fagna and-Hvítir (and-rasistar) því og hvetja þá lituðu til dáða og bera fyrir sig mannréttindum....
Hvers vegna erum við að segja að and-rasistar eru and-hvítir? 
And-rasistar munu ekki segja að þeir séu and-hvítir. Þeir munu bregða sér í leikbúning. Sá leikbúningur getur verið "Mannréttindasinnaður Aðgerðar Leikbúningur", "Verndun Minnihluta Leikbúningur", "Mér Er Alveg Sama Leikbúningur" eða "Frjáls Vilji Leikbúningur". Eða, þá geta þeir búið til leikbúninga sem passa aðstæðum.  
Eitt dæmi er "Frjáls Blöndun." Fyrir okkur sem styðja hvíta; er það ekki nokkuð augljóst að hvort sem blöndun milli hvíts og svarts sé "frjáls vilji" eða nauðgun, þá verður útkoman blandað barn? And-hvítir munu í þessu tilviki setja á sig "Frjáls Vilji Leikbúninginn" og segja að þeir "raunverulega" styðja frjálsan vilja. Það er vegna þess að í þessu tilviki þá er það slæmt fyrir okkar hvíta kynstofn. Það er þess vegna sem þeir eru svona uppteknir af frjálsum vilja. 
Þegar þeir sem styðja hvíta eru fyrir rétti eða eru bannaðir, þá fara þeir and-hvítu úr "Frjáls Vilji leikbúningnum" og klæða sig í "Verndun Minnihluta Leikbúninginn." Núna segjast þeir vera "raunverulega" áhugasamir um að vernda minnihlutahópa. Í þessu tilfelli þá vinnur "frjáls vilji", okkur sem styðjum hvíta, í hag. Það gefur okkur tækifæri að verjast. Það er þess vegna sem and-hvítir eru ekki "frjáls vilji" lengur.  
Þegar hvítt fólk réði í Ródesíu, núna Zimbabwe, þá settu and-hvítir upp "Mannréttindasinnaða Aðgerðar Leikbúninginn" og sögðust vera "raunverulega" áhugasamir um að verja MannRéttindi. Það var þegar hvítir voru sagðir kúga svarta. Núna, þegar hvítum er slátrað, þeir eru reknir af löndum sínum og eru á lista um hóp sem er í bráðri útrýmingarhættu, þá eru and-hvítir/MannRéttinda aðgerðarsinnarnir horfnir. Þeir eru ekki lengur áhugasamir um að "Vernda Minnihlutahópa" lengur vegna þess að minnihlutahópurinn er hvítur. Núna setja þeir upp "Mér Er Alveg Sama Leikbúninginn." 

Nú þótti mér kominn tími til að fá fram kjarna rökræðunnar. Og spurði því Skúla:
Staðan er þessi: Þú stefnir saman tvennum „mannréttindum“. Annarsvegar rétti hvítra til að vera áfram hvítir gegn réttindum þeirra sem vilja blanda kynstofninum.
Þú telur að rétturinn til að vera áfram hvítur sé æðri réttinum til að blandast.
Enda sé blöndun þjóðarmorð á hvítum. Og þjóðarmorð sé svo alvarlegur glæpur að það er ekki hægt að tala um það sem nein alvöru „mannréttindi“ að vera frjáls til að framkvæma þjóðarmorð.
Jafnframt telur þú að þér beri skylda til að fylgja þessari sannfæringu þinni og berjast gegn „útrýmingu“ hvítra.
Er þetta ekki rétt skilið hjá mér?
Skúli svaraði þessu með ögn nánari skilgreiningu á þjóðarmorði:



Þegar hvatt er til, stutt eða á annan hátt unnið er að blöndun á Hvíta kynstofninum þá er það skipulögð útrýming/þjóðarmorð.Lögin gegn þess háttar glæpastarfsemi eru skýr, yfirgripsmikil og ítarleg. Já, þegar hvatt er til þjóðarmorðs þá er það glæpur gegn mannkyninu.Það er ekkert í lögum sem bannar þér að yfirgefa kynstofn þinn með því að blandast við annan en það er skýrt í lögum að þú mátt ekki hvetja til þess að aðrir geri slíkt sama.Telur þú að þú hafir gerst brotlegur við lög, Ragnar, með því sem þú hefur póstað hér hingað til???  

Og trompaði svo með því að demba á mig möntrunni.

Þá var auðvitað kjörið að spyrja:

Skúli, áður en ég svara þessu, langar mig að vita eitt: Þýddir þú þessa möntru á íslensku?
En tækla síðan efnislega þetta með þjóðarmorðin:

Skúli, það er eins með hugtakið „þjóðarmorð“ og hugtakið „mannréttindi.“ Þetta eru hugtök sett af mönnum í tilteknum pólitískum tilgangi. Til þess að geta notað það, að ég tali ekki um að nota það í lögfræðilegum skilningi verður maður að nota þau rétt. Eða í það minnsta útskýra að öðrum kosti notkun sína í þaula. 

Þjóðarmorð er alvarlegur glæpur. Sameinuðu þjóðirnar komu sér saman um það í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar. Ísland skrifaði undir sáttmálann 14. maí 1949 og innleiddi hann að fullu rúmum þrem mánuðum seinna. Það gerði Ísland alveg fyrirvaralaust (sem er meira en hægt er að segja um mörg önnur lönd). Sáttmálinn er mjög skýr og nokkuð mikil samstaða var um aðalatriði hans, utan það að Stalín tók ekki í mál að pólitískar ofsóknir flokkuðust sem þjóðarmorð (skiljanlega kannski). Skilgreiningin á þjóðarmorði (í lögfræðilegum skilningi nær því sjaldnast yfir slíkar ofsóknir þótt það hafi sannarlega verið uppi á borðum á sínum tíma).
 

Hér getur þú lesið herlegheitin. Ég hef á tilfinningunni að þú hafi ekki lesið þetta. 
Þú sérð strax að önnur og þriðja grein eru það sem málið snýst um. 
 

Þjóðarmorð er semsagt þegar eftirtaldar aðgerðir eru framkvæmdar í þeim tilgangieyðahluta eða öllu leyti þjóðflokki, kynþætti eða trúfélagi
  

  1. Dráp á meðlimum  
  2. Að valda líkamstjóni eða andlegum skaða 
  3. Að sjá til þess að lífsskilyrði hópsins leiði af sér eyðingu 
  4. Að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir barnsfæðingar  
  5. Nauðungarflutningar barna til annarra hópa 

Sök manna er síðan vítt skilgreind. Það er nóg að gerast sekur um að hvetja til þjóðarmorðs. Það þarf ekki að standa að því sjálfur.
 

Svona til að setja hlutina í samhengi þá eru þín rök þau að þetta:


 

sé sambærilegt við þetta:




Ég veit ekki hvort þú hugsaðir það til enda þegar þú lést sannfærast af því að blöndun kynþátta og menningar væri þjóðarmorð gegn hvítum – þá værir þú að fullyrða að það væri brot á lögum. Manngerðum lögum. Vegna þess að af því leiðir óhjákvæmilega að ef þú teldir þig hafa raunverulega pottþétt mál í höndunum þá gætir þú sannað það með málsókn. Ég ætla því að gera þér málið ofsalega auðvelt
 

Ég skora á hvern einasta hvítan íslending að fjölga sér með fólki úr öðrum menningarheimum og af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja! 
 

Nú hef ég opinberlega og óhikað, undir fullu nafni, hvatt til þess sem þú kallar þjóðarmorð. Ef þetta er sannarlega refsivert og þú heldur virkilega að í þessu felist hvatning til morða, pyntinga, geldinga, kúgunar eða nauðungarflutninga barna – þá bið ég þig að skokka vinsamlegast niður á næstu löggustöð og kæra mig.
En munt þú gera það? Nei, að sjálfsögðu ekki. Vegna þess að lög og reglur snúast ekki um brenglaðar óskhyggjur. Þau snúast um vilja löggjafans og túlkun dómara.
En ég skora á þig. Kærðu mig! Plís! 

Þó er miklu líklegra að þú segir að dómstólum sé ekki treystandi, þeir taki þátt í samsærinu. Ég muni hljóta minn dóm, á efsta degi, þegar „rétthugsandi“ valdhafar hafa steypt þeim spilltu af stóli. Eða eitthvað álíka. 
 

Gott og vel. En öll slík rök eru hætt að snúast um brot á lögum og sáttmálum SÞ. Þau eru farin að snúast um að þér (og skoðanabræðrum þínum) finnist að það ættu að vera önnur lög. Lög sem setja viðhald hvíta kynstofnsins ofan almennu valfrelsi.
Lögin um þjóðarmorð banna hvorki márum né hútúum, bosníu-serbum né japönum að æxlast sín á milli. Lögin um þjóðarmorð snúast ekki um að viðhalda kynstofnum hvað sem það kostar. Þau snúast um að taka af öðru fólki réttinn til að tortíma kynstofnum eða öðrum hópum sem mönnum er í nöp við.
 

Á Íslandi í dag eru þrír hópar: innfæddir (sem rekja ættir sínar innanlands svo langt sem augað eygir), aðfluttir (sem rekja ættir sínar algjörlega utan lands) og blendingjar (sem rekja ættir sínar í báðar áttir). Enginn af þessum hópum hvetur til eða reynir að stuðla að útrýmingu hinna. Nema einn.
 

Það eru skoðanabræður þínir sem vilja tryggja það að síðarnefndu tveir hóparnir hverfi vegna þess að þeir líta svo á að til þess að hvíti hópurinn sé til, megi helst enginn annar hópur vera til.
 

Þú getur rakið allar þínar möntrur (varstu búinn að svara hvort þú þýddir hana?) og kópípeist hástafaáróður. En förum aðeins yfir sviðið:
 

1. Þú sagðir að náttúrulögmálin styddu skyldu til að varðveita einstaka kynstofna. Það er rangt. 
 
2. Þú sagðir að mannréttindi þín styddu hvítt land. Það er rangt. 
3. Þú sagðir að hvatning til kynblöndunar væru þjóðarmorð.  

Það er tvennt sem hefur einkennt þessa rökræðu öðru fremur. Hið fyrra er að þú ert ekki sérlega vel heima í því sem þú notar sem rök. Þú veist lítið eða ekkert um náttúruvísindi. Samt notar þú þau sem rök frameftir öllu. Þú veist lítið eða ekkert um mannréttindalöggjöf. Samt notar þú hana sem meginrök. Þú veist lítið eða ekkert um þjóðarmorð. Samt notar þú þau sem meginrök.
 

Þetta ber allt að sama brunni. Þú vilt ekki að samfélagið breytist. Þú vilt að hvítir verði áfram hvítir. Þú vilt að fólk haldi sig í upprunalöndum sínum.
 

Það eru engin rök eða ígrunduð hugsun sem stendur að baki þessum vilja þínum. Þetta er bara eitthvað sem þú vilt. Ofsalega mikið. 
 

Og síðan reynir þú að sannfæra sjálfan þig og aðra um það að þessi skoðun sé rækilega rökstudd með reglum og lögum. Þú peistar sömu möntrurnar í hverri einustu rökræðu. Reynir að nálgast málið alltaf frá sömu hliðinni. 
 

Þú hefur tiltekið þrenn rök. Vísindin, mannréttindi og þjóðarmorð. Ég hef þegar sýnt fram á að fyrstu tvö eru ógild. 
 

Ég hef ennfremur gefið þér lokatækifæri til að gefa málstað þínum eitthvað vægi. Eina leiðin til þess að þú getir haldið áfram að boða áróður á þessu blessaða landi er ef þú stendur við stóru orðin og kærir mig fyrir að hvetja til þjóðarmorðs. Láttu dómskerfið bakka þig upp.  Þú segir að að sé heilög skylda þín.

En þú munt ekki gera það. Því þú veist að hvorki dómskerfið, vísindin né nokkuð annað sem er almennt og viðtekið bakkar upp fullyrðingar þínar.
 

Spurningin er því þessi: Ætlar þú að kæra mig fyrir að hvetja til þjóðarmorðs? Og ef ekki, telur þú að barátta þín sé hafin yfir lög og reglur? Og að þú megir beita ólöglegum aðgerðum í þágu baráttunnar?
Hér var augljóslega komið að niðurlotum rökræðunnar. Skúli kvaddi með stæl:

Takk kærlega fyrir þetta, and-Hvíti Ragnar:"Ég skora á hvern einasta hvítan íslending að fjölga sér með fólki úr öðrum menningarheimum og af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja!"
Þú ert öðrum and-Hvítum sannarlega til sóma!
Eins og svo oft áður þá svarar þú þínum eigin spurningum: "Þau snúast um vilja löggjafans og túlkun dómara."
Vill bara minna þig á að "vilji og túlkun" breytast oftast við aðra dómara og aðra valdhafa. 
Þú gafst mér nákvæmlega það sem ég ætlaði að fá þegar ég byrjaði að bulla við þig, and-Hvíti Ragnar. Og þar sem ég hef náð markmiði mínu og rúmlega það..........

Þá var ekki nema eitt eftir. Kveðja Skúla.

Sæll, Skúli minn. Takk sömuleiðis fyrir rökræðurnar. Þær voru mjög afhjúpandi. Þær fóru ekki einu sinni út um þúfur fyrr en þarna í blálokin. Mig langar hinsvegar að taka þetta saman fyrir þig. Þú hugsar kannski út í það sem ég segi nú. 
Þú og skoðanabræður þínir munuð aldrei verða valdhafar í þessu landi. Því fyrr sem þú gerir þér grein fyrir því, þeim mun betra fyrir þig. Þú getur þá notað orku þína í eitthvað annað.  
Þrátt fyrir allt held ég að þú sért ekki illmenni og ekki heimskur. En ég held að þú sért mjög ráðvilltur og óupplýstur. 
Þegar þessar rökræður hófust hélst þú (og heldur líklega enn) að afstaða þín til kynþáttamála væri rökrétt og byggði ekki aðeins á traustum vísindalegum grunni, heldur einnig lögum og rétti. Það, sem þú fullyrtir að væri skýrt og klárt lögbrot, varð á endanum opinberað það sem það er: órar um byltingu. 
Þér væri nær að hætta að tala um þjóðarmorð, mannréttindi og lögmál náttúrunnar í þeim tilgangi að boða boðskap þinn. Hvar sem þú munt stinga niður með þessi orð á vörunum mun vonandi hér eftir koma einhver og afhjúpa það sem það er. Þvælu og óupplýstar lygar.  
Segðu bara eins og er. Þú fílar hvítt fólk best.  
Þú munt svo reyna að réttlæta þetta val þitt með hverjum þeim rökum sem þér finnst henta.
Þú fílar ekki svertingja. Vilt þá ekki nálægt þér. Skilur ekki fólk sem óttast ekki útlendinga.
Nóg um það. Hafðu þetta í huga: þú segir að maður eigi að berjast fyrir hagsmunum sínum og frelsi. Þú telur að æðsta skylda þín sé við kynþátt þinn. Ekki fólkið – heldur húðlitinn. Kynþátturinn þinn er nefnilega þannig að fólk með sama húðlit og þú hefur margvíslegar skoðanir á því hvernig það vill lifa lífinu. Og fyrir sumu þessu fólki skiptir ekki máli nákvæmlega hvernig börnin þeirra eru á litlin. Bara að þau séu gott fólk. 
Það eru mannréttindi að fá að tjá huga sinn. Þú nýtur þess réttar. Hann verður ekki einu sinni tekinn af þér þótt þú verðir uppvís að þvælu. En sá réttur, sem þú nýtir óspart, sprettur ekki upp úr auðninni. Hann er þáttur í þeirri hugsun að hver maður skuli haga lífi sínu eins og hann vill. Það er bara eitt skilyrði, Skúli. Þú mátt ekki lifa þínu lífi þannig að það skerði frelsi annarra til að ráða sínu.  
Þú vilt fara gegn þessum rétti. Ekki vegna þess að það sé náttúrulögmál, mannréttindi eða vegna yfirvofandi þjóðarmorðs. Þú vilt fara gegn þessum rétti því þú vilt að aðrir vilji það sem þú vilt. Þú vilt alræði. Ekki lýðræði. En þú nýtir til þess lýðræðislegan rétt.
Sjáðu til, Skúli. Lýðræðið umber margt. En það má taka það til alvarlegrar umhugsunar hvort það eigi að líða að það sé nýtt til þess að ráðast gegn kjarna þess. Það er dálítið eins og að veita byssuleyfi þeim sem yfirlýst og opinberlega hafa sagst ætla að nota byssurnar til að skjóta leyfisveitendur. 
Það eru málefnaleg rök – að krefjast þess að fólk eins og þú verði dæmt til fangelsisvistar fyrir hatursáróður, lygar og andlýðræðisleg vinnubrögð. Það veit tútti, að ef þú kæmist í aðstöðu til þess að beita kúgun eða fangelsun til að ota þínum tota myndir þú ekki hika – ekki augnablik.  
En lýðræðið er fallegra en þú. Það umber þig. Það hlustar á þig. Því þykir meira að segja svolítið vænt um þig. Ef ég hitti þig á förnum vegi myndi mig frekar langa til að bjóða þér upp á bjór en að slá þig. Þú mátt herma það upp á mig einhverntíma.
En lýðræðið er um leið kröfuhart. Það krefst svara og skýringa. Krefst þess að menn segi ekki annað en þeir geta sæmilega rökstutt. 
Það er lýðræðið sem hefur opinberað þig sem það sem þú ert. Fölan, einmana karl með heimsveldisóra 
Hafi verið ætlunarverk þitt að opinbera það, þá gekk þér dável.
Takk fyrir samræðurnar. Vertu sæll.



53 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að spurningin sé of flókin fyrir Skúla, prófaðu að einfalda hana.

Skúli Jakobsson sagði...

Lögmál Náttúrunnar.
Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.
Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir þetta, Skúli. Þetta fer vel af stað.

Allt líf á jörðinni semsagt ber skyldu til að viðhalda sér, frá dreifkjörnungum til manna.

Tvær spurningar tengdar því?

1. Í viðtalinu við þig í DV segist þú ekki eiga börn. Ert þú að brjóta gegn lögmáli náttúrunnar með því? Gerir það þig að óvini mannkyns? Svikara?

2. Tegund, er í líffræði, skilgreind sem lífverur sem geta getið frjó afkvæmi. Menn geta, óháð lit, eignast börn hverjir með öðrum. Hvaða lögmál í náttúrunni segir að „aðeins“ þeim lífverum sem líkjast í sjónhendingu beri skylda til að viðhalda sér og fjölga?

Nafnlaus sagði...

Innan Lögmálum Náttúrunar er hvergi að finna viðurkenndar skyldur, hvað sem það þýðir, og enn þá síður "heilaga" ábyrgð.

Og ég ætla líka að leyfa mér að efast um að langflest líf á jörðinni finni skyldu til þess, heilaga eður ei, "að styðja, fjölga og tryggja"
tilveru "hvíta kynsins".

T.d kólibrífuglinn smávaxni, hefur ekki sýnt eina einustu tilburði til almenns viðhalds á nokkru manndýri, hvítu né öðru!

Og svo má benda á, að td. hákarlar, krókódílar og flóðhestar, hafa sýnt hegðun sem bendir til flests annars en þeir hafi nokkurn áhuga á að viðhalda fjölgun kynstofna fólks yfirhöfuð.

Eða ertu máski trúaður soldið, Skúli? Það myndi skýra ýmislegt.

Gísli Már,

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Við skulum reyna að halda okkur á einni línu ef þér er sama, Gísli. Annars er hætt við að allt fari út um allt.

Einhversstaðar hefur komið fram að Skúli er trúaður. En auðvitað heldur hann því ekki fram að hver einasta lífvera á jörðinni hafi þann tilgang að viðhalda hvítu fólki. Kólibrífuglar og berklabakterían meðtaldar.

Skúli, leggjum spurningu 2 á hilluna eitt augnablik og gefðu okkur svar við spurningu 1.

Hvaða rétt hefur þú til að bregðast (heilagri) skyldu þinni til að eignast börn með hvítri konu?

Höldum svo áfram þaðan.

Nafnlaus sagði...

Fair enough,

Þetta vefsvæði þitt virðist samt vera eitt af fáum sem hægt er að lesa og kommenta án þess að allt fari í helbera geðsturlun.

Held ró minni, en fylgist með, fylgist með.

Gíslung.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Kommentið þitt var mjög gott. Ég ætlaði sjálfur að hafa þetta sem aðra spurninguna en var að vona að við dyttum ekki í Guð skapaði hvítan mann til að drottna yfir jörðinni alveg strax.

Það eina sem ég óttast er að ef athugasemdir koma úr of mörgum áttum þá losni um allt og Skúli, eða skoðanabræður hans, bregðist við með löngum copy/paste ræðum um And-Hvíta And-rasista og útrýmingu.

Var að vona að við gætum farið fetið (allavega framanaf).

Skúli Jakobsson sagði...

Yfirlætisfullur.
Er það orð sem kom strax í huga minn þegar ég las yfir pósta þína Ragnar.
Ef þessi "tónn" á að halda áfram þá mun ég ekki halda áfram.

Hver tegund ber skylda til að styðja, fjölga og tryggja tilveru SINNAR eigin tegundar. Hélt að þetta væri svo augljóst að ekki þyrfti að taka það fram. En að sjálfsögðu þá finnast einhverjir sem geta lesið undarlegustu hluti úr einfaldri setningu og slengt svo fram barnalegum fullyrðingum og hlöðnum spurningum.
Væri vel þegið ef Gísli Már héldi ró sinni (pólitískum rétttrúnaðar ofsa) í skorðum.

1. Ég er enn frjór, þannig að þó svo að ég eigi ekki enn barn/börn, svo ég viti til, þá hef ég ekki brugðist neinu, ennþá. Í trú minni er lögð áhersla á barneignir, ekki krafa. Hægt er að gera sinni tegund margt til framdráttar á margan annan mikilvægan hátt. Ekki er hægt að ætlast til alls af einum, er það?

2. Þú ættir frekar að beina þessari spurningu til t.d. Líffræðinga sem fara mikinn, reglulega, til verndar hinni eða þessari tegund í útrýmingarhættu.
Ekki litlum fjármunum og tíma er varið í ýmiskonar verndunarstarfsemi. Ef þér finnst það svona fullkomlega tilgangslaust að tegund lifi áfram, þá skaltu láta þá aðila vita um villu síns vegar.
Sjónhending, að þínu mati, er öðrum augljós og mikill munur. Því meira sem þú lærir um kynþætti, því auðveldara áttu með að greina hver er hver.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir þetta, Skúli.

Ég er hræddur við að við verðum að sætta okkur við að líka kannski ekki fullkomlega við „tóninn“ hvor hjá öðrum. Við erum ekki tvær móðgunargjarnar prímadonnur. Ef svo væri væri þetta samtal ekki að eiga sér stað. Við hljótum að gera þá kröfu til hvors annars að vera málefnalegir og markvissir, fyrst og fremst.

Tvær spurningar út frá þessu:


1. Sá sem ekki getur átt „hvít börn“ af einhverjum ástðum er undanþeginn öllum skyldum til að fjölga hvítu fólki með æxlun, ekki satt?“

og

2. Fyrst þetta snýst um „augljósan“ mun en ekki skilgreiningu vísindanna á „tegund“ þá langar mig að spyrja: Ber ljóshærðum að viðhalda ljóshærðum með því að forðast fólk með aðra hárliti? Ber lágvöxnum að makast hver með öðrum? Eða er blöndun eiginleika æskileg upp að einhverju marki?“

Skúli Jakobsson sagði...

Sjáum til hvernig þetta þróast.

1. Nei, sá er alls ekki undanþeginn skyldum. Hér er aftur fyrsta svarið mitt: Lögmál Náttúrunnar.
Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.
Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni.
Eftir stendu "styðja og tryggja" er það ekki?

2. Lestu ekki fyrri svör frá mér, Ragnar?
Hvað af þessu skilur þú ekki, Ragnar?
Lögmál Náttúrunnar.
Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.

Í þessari setningu eru engin skilyrði til Hvítra um makaval innan Hvíta Kynsins.

Eða þetta svar:
"Sjónhending, að þínu mati, er öðrum augljós og mikill munur. Því meira sem þú lærir um kynþætti, því auðveldara áttu með að greina hver er hver."

Það varst þú sem notaðir orðið "Sjónhending" í annarri spurningu þinni og því var ég að svara en ekki "skilgreiningu vísindanna á „tegund“.



Yfirgripsmikil rannsókn sýndi að fólki er vel treystandi til að vita hvaða kynstofni það tilheyrir.
Niðurstöður rannsóknar var birt í Febrúar hefti American Journal of Human Genetics. Rannsóknin er sú langstærsta fram að þessu, með 3.636 einstaklinga sem allir báru kennsl á sig sem annað hvort Hvíta, Afríku-Ameríkana, Austur-Asíska eða Rómansk Ameríska. Af þeim öllum, voru aðeins fimm einstaklingar sem DNA bar ekki saman við þann reit sem þeir hökuðu við í upphafi rannsóknarinnar.
5 af 3.636 er ekki há prósenta.

Annars þá er skilgreining vísindanna á kynstofnum hlægilega tvískinnungsleg, oft á tíðum eða; Réttarmeinafræðingur verður, til að halda vinnunni, að vitna til um það að það sé ekki neitt sem heitir kynþáttur OG geta greint til um kynþátt fórnarlambs úr örfáum leifum eða beinum.
Raunvísindi geta mjög vel og auðveldlega skilgreint kynþætti, það eru félags"vísindin" sem eru vandamálið í þeim efnum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Skúli, þegar þú segir að allt lífríkið sé skuldbundið til að viðhalda, styðja og styrkja einn tiltekinn kynstofn, á hverju byggir þú þá fullyrðingu öðru en þínum eigin skoðunum og skoðanabræðra þinna. Þú talar um að vísindin og fólk almennt geti vel greint sundur kynþætti. Það ber með sér að þú telur að yfirveguð rökhugsun skipti máli. Því spyr ég: hvaða rök eru fyrir því að allt líf á jörðu snúist um að varðveita hvítt fólk?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Og áður en þú segir „lögmál náttúrunnar“ þá bið ég þig að útskýra hvaða rök þú hefur fyrir tilvist slíks lögmáls. Hvað þá gildi þess.

Skúli Jakobsson sagði...

Ragnar......
1.
Ertu vísvitandi að misskilja þetta:
"Það er viðurkennd skylda og heilög ábyrgð hverrar kynslóðar að styðja, fjölga og tryggja á öllum tímum tilveru Hvíta Kynsins á þessari jörð.
Þetta lögmál á við um allt líf á jörðinni."
þér til skemmtunar eða þarf að hluta allt niður í minnstu smáatriði til að þú áttir þig á einföldustu atriðum???

Að sjálsögðu á ég við um kynslóðir Hvíts fólks fyrir Hvítt fólk í fyrstu setningu og að það sama gildir fyrir allt annað líf á jörðinni, þ.e.a.s., hver tegundakynslóð fyrir sína eigin tegund í annarri setningu....

"allt líf á jörðu snúist um að varðveita hvítt fólk?"
Ragnar.....virkilega? ROFL

2.
Lögmál Náttúrunnar.
Getur séð meira um það hér, til dæmis:
http://en.wikipedia.org/wiki/Physical_law
Eða,kannski, er eitthvað af þessu:
Hardy Weinberg Law or Population Principle, Mendel’s laws of inheritance, Cope's Law, Kleiber’s law, Williston’s Law, Dollo's Law, Egg Clutch Rule, Shelford's Law of Tolerances, Yerrel’s Law, Red Queen’s Effect, Rensch’s Rule of Body Sizing, Bergman's Law

27 Laws of Ecology
Laws of allometric scaling
‘The fractal nature of nature: power laws, ecological complexity and biodiversity.’............

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Til að sýna fram á náttúrulögmálið (hvítir menn bera skyldu til að viðhalda sér og varðveita) nefnir þú m.a. lögmál Mendels um erfðir. Mig langar að spyrja þig um eitt því tengt. Og þú fyrirgefur vonandi formálann, ég vil bara tryggja að við séum á sömu síðu.
Forsagan er sú að Darwin hafði fullyrt að lífverur ættu sér sameiginlega forfeður og þróuðust. Gegn því voru aðallega tvenn rök. Annarsvegar að jörðin væri of ung (og fyrir því voru bæði jarðfræðileg og guðfræðileg rök) en hinsvegar voru rök sem t.d. komu fram í frægri gagnrýni skoska verkfræðiprófessorsins Fleeming Jenkin. Rökin voru þessi: „Hugsaðu þér hvítan mann sem verður strandaglópur á eyðieyju. Þeir innfæddu hitta hann og sjá (og þetta mun líklega falla þér ágætlega í geð) að hann er öðruvísi en þeir. Þeir tigna hann því sem guð. Konur í hópi eyjaskeggja fara ekki varhluta af aðdráttarafli hans og sækja mjög í samfarir við hann. Mun hann því eiga haug af börnum. En, og hér taldi Jenkin að gallinn í kenningu Darwins lægi, börnin hans verða ekki hvít. Þau verða blönduð. Og þegar þau eignast sjálf börn þynnist blóð þeirra enn meira út. Smám saman verður enginn munur á afkomendum hvíta mannsins og hinna á eyjunni.
Með þessum rökum taldi Jenkin sig hafa sannað að þróun gæti ekki átt sér stað. Jafnvel þótt stökkbreytt eintak kæmi fram myndu eiginleikar þess þynnast út. Kyrrstaða væri eina rökrétta niðurstaðan.
Kenning Mendels (sem þú vísar í) kollvarpar þessu og skýtur skildi fyrir Darwin (sem aldrei gaf þessari rýni mikinn gaum). Samkvæmt henni erfir hver einstaklingur (sem getinn er með kynæxlun) eiginleika sína frá báðum foreldrum. Sumir eiginleikar eru ríkjandi og koma fram í svipgerð (útliti) en aðrir eru víkjandi (og geta þá blundað í dvala í arfgerð einstaklingsins). Eiginleiki sem legið hefur í dvala getur komið fram síðar, í seinni kynslóðum. Þessa eiginleika köllum við „gen.“
Ef þú svo blandar saman Darwin og Mendel (og ert þá kominn með grunn nútíma líffræði) þá er niðurstaðan þessi: Það eru ekki kynþættir sem keppa um tilvist sína. Það eru einstök gen. Gen eru mishentug og þróunin sér til þess að þau gen sem hæfa best til að tryggja tilvist manna (a.m.k. upp að æxlunaraldri) hafa tilhneigingu til að berast milli kynslóða. Hvítur maður er ekki eining sem reynir að varðveita sig í heild sinni, heldur samansafn margbreytilegra gena sem sum koma ekki fram fyrr en eftir einhverjar kynslóðir. Með því að æxlast á sem fjölbreytilegastan hátt reynir lífveran (í þessu tilfelli maður) að safna í erfðamengi afkomenda sinna fjölbreyttari genum. Þau sterkustu munu svo lifa af í komandi kynslóðum.
Náttúrulögmálin sem þú segir að styðji hina rasísku kenningu virðast þvert á móti benda til þess að það séu alls ekki kynþættir sem ber að varðveita heldur einstakir eiginleikar manna (gen) sem dreifast á einstaklinga en ekki kynþætti.
Og spurningin: Í ljósi þess að vísindin styðja alls ekki við þá skoðun að náttúrulögmálin reyni að varðveita „hvíta menn“ í heild sinni, heldur einstök gen (sem ekki eru á neinn hátt einstök fyrir hvíta menn) – hver er þá undirstaða þeirrar skyldu að hvítir menn megi aðeins æxlast með öðrum hvítum mönnum?

Jon Frimann sagði...

Hugmyndin um kynþætti manna er í öllum atriðum röng.

Líffræðilega og náttúrulega þá er mannkynið bara ein tegund og ekkert annað. Alveg óháð litarhafti. Enda er það DNA sem ákvarðar tegunda, ekki húðliturinn.

Hugmyndafræðin um kynþætti var fundin upp fyrr á tímum til þess að réttlæta mismunun á fólki og þrælahald. Annar var ekki tilgangurinn, og er ekki annar í dag.

Enda hefur það sannast að þeir sem aðhyllast þessa stefnu eru í raun ekki að gera neitt annað en að taka undir löngu dauða hugmyndafræði og reyna að viðhalda henni.

Íslendingar sem dæmi eru að mestu leiti upprunir frá mið-austurlöndum fyrir rúmlega 3000 árum síðan, ef mig misminnir ekki staðreyndinar.

Í nær sögunni, það er á síðustu 1000 árum hafa íslendingar blandast umtalsvert. Þó svo að minni blöndun hafi átt sér stað á síðustu 400 árum en þar á undan.

Þessi blöndun sést ekki á fólki, enda eru flestir með ráðandi gen sem gefur fólki ljóst útlit, en það eru alveg til dæmi þess að fólk sem er al-íslenskt og á íslenska foreldra í báðar ættir hafi fæðst með mismunandi húðlit, hárlit og augnlit.

Annars er Skúli til skammar og lifir greinilega ennþá á 18 öldinni hugmyndafræðilega séð.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Við skulum reyna að stilla okkur um að skammst um of, Jón. Innlegg þitt er upplýsandi en rökræðunnar vegna er ég tilbúinn að samþykkja tilvist kynþátta, þótt það sé kannski ekki í strangvísindalegri merkingu. Skúli bendir réttilega á að „kynþáttur“ er hugtak með innihald, við merkjum okkur eftir kynþætti við hin og þessi tækifærin.

En við skulum bíða og sjá hvað Skúli segir við síðustu spurningu minni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ekki þar fyrir að menn mega endilega koma með athugasemdir, eins og þú gerðir Jón. En ég bið menn að

1) láta athugasemdina snerta rökræðuna með beinum hætti (þ.e. styrkja eða andæfa rökum mínum eða Skúla)

og

2) forðast uppnefni og persónuníð. Það skiptir ekki máli þótt fólki finnist annar okkar algjör bjáni. Við eigum báðir rétt á okkar skoðun og sýnum hvor öðrum og öðru fólki þá virðingu að rökræða skoðanir okkar án heiftar.

Skúli Jakobsson sagði...

Að sjálfsögð styðja vísindin alls ekki "rasisma" á nokkurn hátt því ef þau reyndu það þá væri það vísindafólk án vinnu. Heldur funndu vísindin sniðuga "lausn" á vandanum með "einstök gen".

Ef spurningunni væri breytt, til dæmis, svona og send í Sjávarútvegs/og Landbúnarráðuneytið:
"hver er þá undirstaða þeirrar skyldu að Íslenskir hestar/kýr/landnámshænsn.... megi aðeins æxlast með öðrum Íslenskum hestum/kúm/landnámshænsnum.....?"
hvert heldur þú að svarið yrði???
Sömu lögmál gilda um Hvíta kynstofninn og það sem býr að baki verndunarstefnu valdhafa Íslands um séreinkenni Íslenskra dýrategunda, sem og allra annarra dýrategunda á jörðinni.

Hvítir eru með "einstök gen" sem litaðir kynstofnar eru ekki með, ertu sammála því Ragnar?

p.s. Jón Frímann er til skammar og lifir greinilega eftir bókstafstrú Pólitískrar Rétthugsunar og með útrýmingu Hvíta kynstofnsins að leiðarljósi.
Stóðst ekki mátið, Ragnar :)

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir svarið, Skúli. Ég hef reyndar heilmikinn húmor fyrir péessinu hjá þér.

Þetta er nú allt að breytast dálítið í meðförum hjá okkur. Heilög skylda sótt í lögmál náttúrunnar eru orðin að kynbótum landnámshænunnar.

Gott og vel.

En hugtakanotkun er enn dálítið á reiki hjá þér. Þú talar um íslenskar tegundir sem beri að varðveita. En málið er að „tegund“ þarf ekki að varðveita, hún varðveitir sig sjálf. Tegund getur ekki eignast frjó afkvæmi með annarri tegund. Og erfðafræðin og náttúrulögmálin (m.a. þau sem þú vísar á) segja að erfðafræðilegur fjölbreytileiki sé mjög æskilegur til að tryggja sem heppilegasta genablöndu og áframhaldandi þróun.

Þú ert heldur ekki að tala um undirtegund (sem er forstig þess að lífverur klofni í sitthvora tegundina). Til þess er mismunur kynþátta og lítill.

Það sem þú ert að lýsa eru stofnar. En stofn eru einsleitir hópar innan sömu tegundar sem af einhverjum ástæðum hafa einangrast frá öðrum með þeim hætti að munur á milli þeirra verður greinilegur.

Stofnar myndast fyrst og fremst vegna landfræðilegrar einangrunar. Of lítill stofn eykur mjög hættu á úrkynjun. Allskyns fatlanir eða sjúkdómar sem eru víkjandi og myndu við eðlilegar aðstæður liggja í dvala koma fram vegna skorts á genafjölbreytni.

En það er einnig hægt að viðhalda stofni af vali. Menn geta kosið að rækta upp ákveðna eiginleika og stunda kynbætur. Þannig er til hugmynd um hina fullkomnu ensku „blettakanínu“ sem mér vitandi hefur aldrei verið ræktuð fullkomlega rétt. Menn vilja hafa blettina í nákvæmlega réttum lit og á réttum stöðum. Slík ræktun getur verið hobbí, hún getur líka verið af praktískum ástæðum. Menn geta verið að reyna að auka nyt kúa eða kjötmagn kálfa.

Hobbíræktun eða áhugamál réttlætir auðvitað ekki mannkynbætur. Þú skerðir ekki með stórkostlegum hætti frelsi fólks til að ráðstafa lífi sínu vegna þess að þig langar til að rækta upp hinn fullkomna rauðhaus eða stjórnmálamann.

Þá er eftir praktískar ástæður. Þær snúa alltaf af því að styðja við sérstaka mikilvæga eiginleika í fari skepnunnar. Kýr hafa þann tilgang að framleiða mjólk og hænur verpa.

Gallinn við mannkynbætur er margþættur. Í fyrsta lagi (eins og hinn skjannahvíti Vilmundur Gylfason landlæknir benti á) eru menn ekki einnota skepnur eins og kýr eða hænur. Þótt menn vildu „rækta“ betri menn þá vita menn ekki hvar ætti að byrja. Tilraun til að útrýma slæmum eiginleika getur tekið með sér góða eiginleika um leið og haft ýmsar óútreiknanlegar afleiðingar.

En hinn gallinn er sá að mannkynbætur eru algjörlega ósamrýmanlegar við allar hugmyndir um mannréttindi og einstaklingsfrelsi. Og hafa vegna þeirra verið gerðar útlægar úr siðuðu samfélagi. Fólk á að hafa frelsi til eigin ákvarðana.

Og þá að spurningunni:

Tilraun þín til að réttlæta mikilvægi þess að viðhalda hvítum stofnum (sem þó mega blandast innbyrðis) með vísan í náttúrulögmál hefur brugðist. Þess í stað vísar þú til varðveislugildis eins og þegar stofn er ræktaður. Allar ákvarðanir um slíka ræktun eru teknar af mönnum og eru einmitt EKKI náttúrulögmál. Til þess að taka slíka ákvörðun fyrir heilan stofn manna þarf að afnema grundvallarrétt manna.

Telur þú afnám mannréttinda réttlætanlegt til að (tilþessaðgera) fámennur hópur manna fái að rækta hluta mannkyns eftir eigin höfði?

Skúli Jakobsson sagði...

Ég gæti eins spurt þig, Ragnar:
Getur fólk borið fyrir sig mannréttindum þegar það réttlætir og hvetur til útrýmingar á Hvítu fólki?

Og svo áttu eftir að svara þessari:
"Hvítir eru með "einstök gen" sem litaðir kynstofnar eru ekki með, ertu sammála því Ragnar?"


Svarið við þinni spurningu er: Nei.
Þú svaraðir henni sjálfur, að hluta til, með þessari setningu: Fólk á að hafa frelsi til eigin ákvarðana.
Það sem vantar er ábyrgð fólks á eigin ákvörðunum og að réttar upplýsingar séu til staðar til að réttar ákvarðanir geta verið teknar.

Það er ýmislegt sem vantar inn í þetta hjá þér, Ragnar.
T.d. valfrelsi fólks til samskipta við annað fólk. Einsleitan fjölmenninga áróður valdhafa, akademíu og fjölmiðla síðustu áratugi í Hvítum löndum. Valdbeitingu valdhafa margra Hvítra landa til að koma í veg fyrir að Hvítt fólk geti valið sér að umgangast eingöngu annað Hvítt fólk. Sjá hér, t.d.: http://cofcc.org/category/anti-white/forced-integration/
Aðeins Hvítt fólk mótmælir Hvítu fólki að hittast sem Hvítt fólk. Áhrif bókstafstrúar samtímans, Pólitísk Rétthugsun, á túlkun niðurstaðna vísindalegra rannsókna, o.s.frv.


Eitt annað sem vert er að skoða, Ragnar, er að fljótlega eftir að Kommúnisminn beið hnekki við óumflýjanlegt fall Sovétsins þá fóru yfirlýstir Kommúnistar og margir "vinstri" menn (Socialists) skyndilega að tala endalaust um ýmiskonar réttindi og sögðust vera mannréttingasinni og/eða umhverfisverndarsinni.
Ert þú það sem mig grunar, gamall Kommi, Ragnar?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Skúli, bú verðum við að halda okkur fast. Iljarnar eru aðeins farnar að togast með hugmyndafræðilegu zyklonbé-gasblöðrunum á loft. Þú segir „nei.“ Ósk hluta fólks um að varðveita sérstaka kynstofna réttlætir ekki afnám mannréttinda. Með því ertu að segja að hvorki þú né aðrir geti tekið það val af öðru fólki að eiga börn með fólki af öðrum kynþáttum. Um það þarf ekki að deila. Það er alveg kýrskýrt.

Nema að því leyti að þú telur að þessu frelsi fylgi „ábyrgð.“ Og skyldan til að vera rétt „upplýstur“ um orsakir og afleiðingar ákvarðana sinna. 

Um þetta gætum við ekki verið meira sammála. Fólk á að vera frjálst að vali sínu en bæði upplýst og ábyrgt. 

Þess vegna skýtur dáltið skökku við að þú skulir í sama svari inna mig eftir því hvort hvítir menn hafi ekki „einstök“ gen, sem beri að varðveita.  Þetta er ekki sérlega upplýst spurning. Og hún byggir á róttækum misskilningi á erðafræði. „Ein-stök gen“ í þeirri merkingu sem hér er um að ræða merkir eitt-og-eitt gen. Ekki „framúrskarandi“ gen eða með varðveislugildi. 
Það má líkja þessu við að hver einasti maður sé gangandi fornbókasafn. Í hverju safni eru nokkur þúsund bækur. Þegar menn eignast börn gefa þeir helming bóka sinna til barna sinna. Börn eignast þannig jafnstór bókasöfn og foreldrarnir, bara blöndu beggja. Síðan kemur forvörður á svæðið og velur bestu bókasöfnin og þeir sem hafi góð söfn eignist frekar sín eigin börn og miðli bókaarfinum áfram.Ef markmiðið væri að koma sér upp sem bestu safni þá væri óttalega heimskulegt að giftast bara konum sem eiga mjög lík söfn og maður sjálfur á. Þvert á móti myndi maður velja konu sem á sem ólíkast safn. Vegna þess að þar sem hennar bækur eru ólíkar manns eigin þá verður alltaf betri bókin valin. Sem kemur barninu manns til góða. 
Einstök gen eru eins og einstakar bækur. Ef eitthvað hefur varðveislugildi samkvæmt náttúrulögmálunum þá eru það genin. Þau berjast um að vera best miðað við aðstæður. Og náttúran sér til þess með náttúruvali að „hæfustu“ genin nái að yfirgefa genamengi mitt og þitt og mynda enn hæfari lífveru – ef við gætum þess að stunda fjölbreytta æxlun. Ef hvítir menn myndu aðeins eignast börn með hvítum konum þá takmörkum við möguleika genanna við minna erfðamengi. Náttúrulögmálin eru ekkert sérstaklega spennt fyrir því. En, eins og áður sagði, þá getur slík takmörkun komið til af tvennu: landfræðilegri einangrun (sem er ástæða þess að kynstofnar eru til) eða ákvörðun manna.

Vissulega eiga hvítir menn einhver gen sameiginlega sem eru þá „einstök“ í þeirri merkingu að þau eiga aðeins við um þá. En á sama hátt eru gen skítaflugunnar og svartrottunnar „einstök,“ sem og gen þess einhverfa og heilabilaða. Meira að segja gen svartadauðabakteríunnar eru einstök. Genin þín, Skúli, eru einstök – og mín líka. Rarití genanna segja ekkert um „varðveislugildi.“ Því þótt þú myndir skella þér úr sokkunum og búa til barn með þeldökkri konu þá væru gen þess ennþá einstakari en hin einsleitu gen hvítra Íslendinga. Munurinn væri hinsvegar sá, erfðafræðilega, að barnið þitt hefði um meiri fjölbreytni að velja og ef nógu margir fylgdu þínu fordæmi myndi kynstofninn örugglega batna (í skilningi erfðafræðinnar). 

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú spyrð á móti. Er það ekki brot á mannréttindum að „útrýma“ hvítu fólki? Það sem liggur á bakvið þessa spurningu hjá þér er að sumu leyti rökréttur punktur. Evrópubúar stunduðu það að fara um heiminn og reyna að „aðlaga“ allan heiminn að sinni menningu. Reyndu að uppræta menningu og jafnvel kynstofna vegna þess að þeir töldu sig, hvítu mennina, æðri og sína menningu, hvítu menninguna, einnig æðri. Í trú á þessa hugmynd töldu sumir, kristnir Evrópubúar að þeir væru bara að hjálpa öðrum með því að losa þá undan óæðri menningu – jafnvel þótt það væri gert með valdi. Þú telur að nú sé hið sama að gerast með hvíta fólkið. Að í einhverskonar bakslagi við þessa groddalegu fortíð sé núna talið að allir kynstofnar og öll menning sé einhvers virði nema sú evrópska (hvíta). Allir aðrir kynstofnar og menningarkimar séu hvattir til að vera stoltir af arfleið sinni og útliti – en hvitt fólk eigi að ganga um með samviskubit og helst hætta að vera til. Ég vona að ég sé að lýsa skoðunum þínum á sanngjarnan hátt. Þessi röksemd finnst mér alveg skiljanleg og ég held meira að segja að það sé aðeins til í henni hjá þér. Það er ákveðin tilhneiging til að gera lítið úr þeim sem hafa verið staðnir að því að gera alltof mikið úr sjálfum sér. Þjóðverjar voru t.d. líklega mesta menningarþjóð Evrópu þar til þeir opinberuðu sig sem menningarlega úrkynjaðar og illgjarnar smásálir. Það er nefnilega svo að þótt saga margra „hvítra“ þjóða innihaldi margt til að vera stoltur af – þá er nú eitt og annað skammarvert þar líka. Og menn hafa vanið sig á að horfa frekar á það sem er nær í tíma eða stærra að umfangi.  

Og þá erum við komnir að mannréttindum. Sem þú styður (allavega í orði kveðnu) en getur þó ekki stillt þig um að spyrða saman við réttindatal gamalla komma. Skúli, ég er ekki gamall Kommi. Ég var að vísu meðlimur í hópi vinstri manna á menntaskólaárunum en rakst þar illa í flokki. Bæði leysti ég upp stofnfund róttækra sósíalista þegar mér þóttu hin pólitísku markmið orðin of róttæk og heimskuleg og var staðinn að því að spilla fyrir málstaðnum þegar blaðamaður vildi etja vinstri og hægri mönnum saman í kappræðum. Þú getur lesið það hér ef þú nennir. Þetta er öll mín pólitíska fortíð. Ég er ekki uppgjafarstalínisti með einhverja mannréttindaglýju í augunum sem ég kann ekki að losa mig við. Ég get hinsvegar stoltur sagt að ég hef alltaf reynt að veita andóf öllum hugmyndakerfum eða ranghugmyndum sem ég hef verið í smithættu af. Ég gagnrýni jafn harkalega skoðanabræður mína og andstæðinga. Og veiti sjálfum mér mikið vitsmunalegt aðhald. Reyni að losa mig við allar hugmyndir eða skoðanir sem ég hef tileinkað mér án þess að fyrir þeim sé næg innistaða. Getur þú sagt það sama, Skúli? 

Ragnar Þór Pétursson sagði...

En það er kannski í ætt við annað, Skúli, en söguskýring þín á réttindum ýmiskonar er ekki allskostar rétt. Grunnur mannréttinda hefur ekkert með gamla kommúnista að gera. Hann hefur hinsvegar allt með Upplýsinguna að gera. Thomas Paine, Frönsku byltinguna og þar fram eftir götunum. Þá hugmynd að í hverjum manni búi töluvert meiri hæfileikar en stéttskipt samfélag nær að virkja. Að menn séu sjálfstæðar vitsmunaverur sem hægt sé að næra og þroska til að stýra sér sjálfir að mikilsverðu leyti. Að það þurfi ekki „hámenntaða“ og hátimbraða sérfræðinga til að taka ákvarðanir fyrir allt annað fólk. Ég á þessa rökræðu við þig, Skúli, vegna þess að ég held að þú sért ekkert illmenni. Ég held þú sért ekki heimskur heldur. Þvert á móti gæti ég trúað að þú sért vel gefinn. En ég er nokkuð viss um það að þú hafir rangt fyrir þér um mikilvæga þætti og hafir ranga sýn á eitt og annað. Eins og náttúruvísindin. Og mannréttindi. 

Mannréttindi eru nefnilega þannig að þau gefa einstaklingsbundinn rétt og þau takmarkast af samskonar rétti annarra. Taktu eftir, þetta er gríðarlega mikilvægt. Mannréttindi þín takmarkast af mannréttindum annarra. Þú getur þessvegna ekki borið fyrir þig þínum réttindum og krafist þess að þú fáir að búa í samfélagi þar sem öðrum er meinað að búa. Þú átt ekki rétt til að búa í alhvítu samfélagi því að um leið myndir þú banna lituðum að búa í sama samfélagi. Þú mátt hinsvegar búa þar sem þú vilt, hugsa það sem þú vilt og gera það sem þú vilt (upp að ramma laganna) svo lengi sem í því felst ekki að þú bannir öðrum að búa þar sem þeir vilja, hugsa það sem þeir vilja og gera það sem þeir vilja (upp að sama ramma).Ef þér er það hjartans mál að búa með einsleitu fólki þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú og fólk með svipaða lífssýn rottið ykkur saman, byggið ykkur raðhús, grillið saman á sunnudögum og njótið þess að vera til. Eða flytjið til Raufarhafnar nokkrir tugir saman og yfirtakið bæjarpólitíkina og skapið samfélag að ykkar höfði. En það sem þið fáið ekki að gera er að mismuna fólki eftir kynþætti og öðrum þáttum. Allir menn njóta nefnilega mannréttinda óháð breytileika. 

Það að vilja mannréttindi sem fela í sér skert mannréttindi annarra er ekki mannréttindi – heldur afnám mannréttinda. 

En nú erum við búnir að ferðast þúsund mílur frá upphafspunktinum. Hann var þessi: „hvítt fólk ber náttúruleg skyldu til að varðveita húðlit sinn og einkenni.“ Og nú erum við að tala um hvort „hvítir einstaklingar hafa rétt til að búa í einsleitu samfélagi.“ Svarið við því er nei. Mannréttindi gefa okkur rétt til að vera fjölbreytt. Eru einmitt sett þvingaðri einsleitni til höfuðs. Þú getur ekki ákveðið að ég skuli mæta í kirkju á sunnudögum af því þú vilt ekki vera þar einn. Þú getur reynt að fá mig í kirkju en þú getur ekki reynt að fá mig til að samþykkja að ég og allir aðrir skuli skyldaðir í kirkju. Þar liggur línan.

En mannréttindi má skerða ef nauðsyn krefur. Ef þú getur bent á mjög mikilvæga ástæðu þá er hægt að skerða mannréttindi eða frelsi í þeim tilgangi að búa til farsælla samfélag.

Það er því næsta spurning: Skúli, telur þú að varðveisla hvíta kynstofnsins sé svo mikilvægt markmið að það sé ástæða til að skerða frelsi fólks til að viðhalda honum?

Nafnlaus sagði...

Þessi rökræða er mjög vísindaleg og ábyggilega gagnlegt að fá innspil frá náttúrufræðikennara til að skerpa hugtakanotkun í þessum fræðum.

En af hverju kallarðu það mannréttindi að fá að að sofa hjá fólki með annað litarhaft? Hefur það komið einhversstaðar fram? Það liggur fyrir að kynhvötinni eru settar margvíslegar skorður og það eru fyrir hendi takmarkanir á makavali í því samfélagi sem við lifum án þess að það séu endilega talin brot á mannréttindum. Þessar takmarkanir byggja ekki endilega á neinum vísindum. Stúlkur undir lögaldri eiga t.d. ekki að eignast barn með gömlum köllum og það þarf ekki frekari rökstuðning fyrir því fyrirkomulagi en að það sé ógeðslegt. Mér skilst að svipaður rökstuðningur gegn litarhaftsblöndun hafi þótt frambærilegur í Suður Afríku og dugi enn í sumum kreðsum.

Er óhugsandi að byggja kynþáttavernd á svipuðum sjónarmiðum? Þarf endilega eitthvað vísindalegt grunnlag?

Í mínum huga gengur upp að skilja orðið “náttúra” í “lögmál náttúrunnar” sem andstæðuna við ónáttúru. Í þeim skilningi er það andstætt lögmáli náttúrunnar að svala fýsnum sínum með/á óæskilegum partnerum. Ekki vegna þess að það liggi einhver vísindaleg kenning þar að baki, heldur vegna þess að það sé viðurstyggð öllu eðlilegu fólki.

Grímur

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Grímur, takk fyrir innleggið. Ég vona að Skúli taki eftir því líka. Ég opnaði einmitt glufu fyrir einhverskonar svona umræðu í lok síðasta svars. Er hægt að réttlæta vrndun hvítra með mikilvægum rökum (og skerða þar mað frelsi annarra).

Ef Skúli kýs að fara aðra leið í framhaldinu skal ég snúa mér að þínu kommenti í lok umræðunnar.

Ég ætla að halda mig í rökræðunni við Skúla enn um sinn.

Eva sagði...

Ragnar, ég er almennt mjög hrifin af málflutningi þínum en ég hegg eftir einni málsgrein sem slær mig illa.

"En mannréttindi má skerða ef nauðsyn krefur."

Mig langar að spyrja þig nánar út í þetta Ragnar en þar sem ég vil ekki trufla þessa áhugaverðu rökræðu eða fara með hana í aðra átt, fer ég ekki sérstaklega fram á að þú svarir henni á þessum þræði frekar en þér finnst passa. Ég met það hinsvegar við þig ef þú tekur þér einhverntíma við tækifæri nokkrar mínútur til að hugleiða þetta og svara eftirfarandi spurningum:

Er það rétt skilið hjá mér að þú lítir á mannréttindi sem grundvallarréttindi sem allir menn eiga að njóta, án tillits til erfða og bakgrunns, óháð því hvort viðkomandi verðskuldi góða framkomu eður ei og að þau réttindi takmarkist af sömu réttindum annarra?

Ef svarið er já, hvaða mannréttindi má þá skerða ef nauðsyn krefur?

Hvaða nauðsyn gæti krafist þess að mannréttindi séu skert?

Hver á að meta nauðsyn þess að skerða mannréttindi?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég skal gera pistil fljótlega út frá þessum spurningum, Eva.

Eva sagði...

Ég er með margar spurningar til séra Skúla en vil ekki trufla þessa ágætu rökræðu með þeim. Séra Skúli svarar þeim kannski þegar þið ljúkið ykkar samræðu :)

savar sagði...

Það er grundvallargalli í rökfærslu Skúla að það vantar sannfærandi rök fyrir því að það eigi að vernda sérstaklega kynstofna. Vissulega eru kynstofnar til, enginn efast um það, en það eitt og sér þýðir ekki að það beri að verna þá sérstaklega og þá sérstaklega þann hvíta. Til þess þyrfti að sýna fram á að í hvíta kynstofninum felist slík grundavallarverðmæti að í lagi sé hefta frelsi fólks til að velja sér maka og fjölga sér með fólki af hvaða kynstofni sem það kýs.


Það er ekki nóg að vísa bara í einhverjar trúarsetningar. Slík rök er ekki hægt að sannreyna og því eru þau ekkert annað en skoðun. persónulega skoðun. Það dugar ekki til að sannfæra neinn nema þann sem þegar hefur fyrir sömu trúarskoðun eða svipað skoðanakerfi.

Á meðan þetta er ekki rökstutt kyrfilega er þetta rökræða um órökstuddar fullyrðingar, eða ólíkann smekk.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hjartanlega sammál.

Eva sagði...

Þetta er ekki bara spurning um hvort er ástæða til að vernda kynstofna eða ekki. Það efast enginn um að til er hvítt fólk, svart og einhver litbrigði þar á milli og ef engin blöndun hefði átt sér stað í þúsund ár þá væri þetta einfalt. Spurningin er hinsvegar hvað við ættum þá að gera við blendinga. Ef þetta snýst um erfðir þá getum við ekki notað þá aðferð að skrá barn einfaldlega af sama kynþætti og móðir þess er skráð (en hún getur þessvegna verið blendingur líka.) Nýnazistar eru heldur ekki með sömu skilgreiningu á hvíta kynstofninum og vísindamenn. Þeir flokka allavega Gyðinga, Tyrki og Mexíkana sem "skítaskinn" og treglega gengur að fá skilgreiningu þeirra á hreint.

Skúli Jakobsson sagði...

Ja há...!!!
Ég spyr einfaldrar spurninga og fæ heilan haug af bulli sem hvetur til áframhaldandi Hvítrar útrýmingar.
En gaman....

Og svo eru mér lögð orð í munn, sumu sleppt og annað rangtúlkað. Þetta er nákvæmlega eins og ég bjóst við.
Til hamingju Ragnar, þú stendur undir væntingum.
Takk fyrir upplýsingarnar um pólitíska fortíð þína.

Vona að þið and-Hvítu þolið smá bið eftir svari vegna anna hjá mér og lélegrar Internet tengingar þessa daganna.


En svarið við spurningunni þinni Ragnar er einfalt:
Það er EKKERT sem réttlætir útrýmingu kynstofns. (sjá lög S.Þ.)
Varðveisla Hvíta kynstofnsins um ókomna framtíð er það mikilvæg, í mínum Hvíta huga, að EKKERT kemur því ofar né stendur því framar.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég vil endilega fá að vita hvar ég legg þér orð í munn eða rangtúlka þig. Ég er að reyna að gera það ekki.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll, Skúli. Þér er sannarlag fyrirgefið þótt það taki tíma að svara. Engin pressa hérna megin. Ég veit þó af nokkrum sem fygjast spenntir með því sem fram fer.

Við getum líka einfaldað þetta mjög. Ég veit ekki hvort þú sást það en ég setti upp einfaldari útgáfu af rökræðunni með kjarnaröksemdum. Hún er hér:

http://maurildi.blogspot.com/2011/09/samantekt-rokru-okkar-skula-rasista.html

Ekki hika við að kvarta ef þér finnst ég ekki segja það sem þú varst að meina. Ég var virkilega að reyna að tína til sterkustu röksemdir okkar beggja.

En svo má líta svo á að svarið við spurningunni sé komið. Þú segir að ekkert réttlæti „útrýmingu“ kynstofn, það sé þjóðarmorð og ekkert stendur því framar. Með þessari ofboðslegu áherslu á EKKERT hlýt ég að telja að mannréttindi, eins og réttur minn til að berjast fyrir mótttöku flóttamanna og æxlast með fólki af öðrum lit – þurfi að víkja fyrir kröfunni um varðveislu kynstofnsins.

Gott og vel.

Fáum þá næstu spurningu.

Þér hefur mistekist að sýna fram á að náttúrulögmál krefjist þess að kynstofnar séu varðveittir. Þér hefur líka mistekist að sýna fram á að það sé ekki eðlilegur þáttur mannréttinda að fá að velja sér maka eða berjast fyrir blönduðu samfélagi. Þín skoðun er sú að ekkert, þar með talin lög og réttur, komi ofar þeirri skoðun þinni að varðveita skuli hvíta kynstofna.

Telur þú (og þú mátt svara „já“ eða „nei“) að þér beri að verjast fyrir þessari sannfæringu þinni og verja hreinleika hvíta kynstofnins?

Jon Frimann sagði...

"And-hvítir" er uppspuna hugtak kynþáttahatara og ný-nasista eins og Skúla. Þetta er notað til þess að komast fram hjá stimpli í þjóðfélaginu.

Það hefur mistekist og mun halda áfram að mistakast.

Ég ítreka einnig þá staðreynd að kynstofnar eru ekki til. Tegundir eru viðurkennt vísindalegt hugtak á þessu. Maðurinn er ein tegund, óháð litarhafti.

Þó eru til vísindalegar rannsóknir sem benda til þess að mannkynið sé að fara skipta sér í tvær tegundir og hugsanlega sé komin fram undir-tegund í mannkynið. Það er ekkert sem ekki hefur gerist áður í sögunni.

Við verðum hinsvegar lítið vör við þessa breytingu, enda gengur hún yfir á tugum þúsundum ára.

"Rök" Skúla og annara af hans meiði eru ennfremur ekki nein rök. Bara réttlæting á því hatri sem hann hefur í garð allra þeirra sem koma frá öðrum menningar og tungumálasvæðum heimsins. Slíkt er ekki réttlætanleg skoðun að mínu mati.

Rök eru ekki jöfn, og skoðanir ekki heldur og ég meðhöndla þær samkvæmt því.

Skúli Jakobsson sagði...

Ragnar, Þér hefur mistekist að átta þig á að mannréttindum og blönduð samfélög er aðeins beitt gegn Hvítu fólki og veldur útrýmingu þess, og að hvetja til þess er gróft lögbrot.

Þetta bull þitt um "Hvítir hafa verið svo vondir...bla.bla.bla" lýsir skoðunum mínum engan veginn en þetta lýsir þínu neikvæða áliti á Hvítu fólki alveg ljómandi vel.
Mjög oft þá hefur and-Hvítt fólk notað þetta:
"Hvítt fólk er vont og hefur gert svo voðalega marga vonda hluti að það á ekkert gott skilið."
Til að réttlæta þá útrýmingarherferð sem er í gangi. Sjálfshatur sumra Hvítra er hreint með ólíkindum.

Og þetta með mannréttindin....
Það sem þú styður og hvetur til er að Hvítu fólki skal útrýmt vegna þess að annað er brot á mannréttindum litaðra...
Það sem þú ert að segja er þetta:
Asía fyrir Asíubúa. Afríka fyrir svertingja. Hvít lönd fyrir alla. Þetta er ekki Afrískt vandamál. Enginn er að yfirflæða Afríku með öðrum en svertingjum og gefa þeim Jákvæða Mismunun, sérstök réttindi og forréttindi ásamt endurgjaldslausri heilsugæslu. Aðeins hvít lönd eru að gera þetta. Aðeins hvítir leiðtogar styðja þetta. Aðeins hvít börn þjást vegna þessara aðgerða. Þetta er þjóðarmorð.

Sem sagt, and-Hvíti Ragnar, þá eru mannréttindi þjóðarmorðs/útrýmingarlöggjöfinni æðri.
Hvers virði eru mannréttindi fólki sem hefur verið útrýmt???

Þetta sem þú segir hérna er lýsandi dæmi um það:
"Ef þér er það hjartans mál að búa með einsleitu fólki þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú og fólk með svipaða lífssýn rottið ykkur saman, byggið ykkur raðhús, grillið saman á sunnudögum og njótið þess að vera til. Eða flytjið til Raufarhafnar nokkrir tugir saman og yfirtakið bæjarpólitíkina og skapið samfélag að ykkar höfði. En það sem þið fáið ekki að gera er að mismuna fólki eftir kynþætti og öðrum þáttum. Allir menn njóta nefnilega mannréttinda óháð breytileika."

Enn og aftur þá lestu ekki það sem ég póstaði.
Þetta er það sem gerist þegar Hvítt fólk reynir að hópa sig saman: http://cofcc.org/category/anti-white/forced-integration/
En þegar litaður hópur kemur saman og setur Hvítt fólk í löndunum í útrýmingarhættu:
http://stopwhitegenocide.praag.org/?tag=zimbabwe
Þá fagna and-Hvítir (and-rasistar) því og hvetja þá lituðu til dáða og bera fyrir sig mannréttindum....


And-rasistar er dulorð um and-Hvíta.

Skúli Jakobsson sagði...

Hvers vegna erum við að segja að and-rasistar eru and-hvítir?

And-rasistar munu ekki segja að þeir séu and-hvítir. Þeir munu bregða sér í leikbúning. Sá leikbúningur getur verið "Mannréttindasinnaður Aðgerðar Leikbúningur", "Verndun Minnihluta Leikbúningur", "Mér Er Alveg Sama Leikbúningur" eða "Frjáls Vilji Leikbúningur". Eða, þá geta þeir búið til leikbúninga sem passa aðstæðum.

Eitt dæmi er "Frjáls Blöndun." Fyrir okkur sem styðja hvíta; er það ekki nokkuð augljóst að hvort sem blöndun milli hvíts og svarts sé "frjáls vilji" eða nauðgun, þá verður útkoman blandað barn? And-hvítir munu í þessu tilviki setja á sig "Frjáls Vilji Leikbúninginn" og segja að þeir "raunverulega" styðja frjálsan vilja. Það er vegna þess að í þessu tilviki þá er það slæmt fyrir okkar hvíta kynstofn. Það er þess vegna sem þeir eru svona uppteknir af frjálsum vilja.

Þegar þeir sem styðja hvíta eru fyrir rétti eða eru bannaðir, þá fara þeir and-hvítu úr "Frjáls Vilji leikbúningnum" og klæða sig í "Verndun Minnihluta Leikbúninginn." Núna segjast þeir vera "raunverulega" áhugasamir um að vernda minnihlutahópa. Í þessu tilfelli þá vinnur "frjáls vilji", okkur sem styðjum hvíta, í hag. Það gefur okkur tækifæri að verjast. Það er þess vegna sem and-hvítir eru ekki "frjáls vilji" lengur.

Þegar hvítt fólk réði í Ródesíu, núna Zimbabwe, þá settu and-hvítir upp "Mannréttindasinnaða Aðgerðar Leikbúninginn" og sögðust vera "raunverulega" áhugasamir um að verja MannRéttindi. Það var þegar hvítir voru sagðir kúga svarta. Núna, þegar hvítum er slátrað, þeir eru reknir af löndum sínum og eru á lista um hóp sem er í bráðri útrýmingarhættu, þá eru and-hvítir/MannRéttinda aðgerðarsinnarnir horfnir. Þeir eru ekki lengur áhugasamir um að "Vernda Minnihlutahópa" lengur vegna þess að minnihlutahópurinn er hvítur. Núna setja þeir upp "Mér Er Alveg Sama Leikbúninginn."
p.s. Jón Frímann, þú ert Hvítum and-Hvítum svikurum til fyrirmyndar.

Skúli Jakobsson sagði...

Svar við spurningunni:
Mér ber skylda til þess að fara eftir sannfæringu minni og berjast gegn því að Hvítu fólki sé útrýmt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir þetta ítarlega svar, Skúli.

Staðan er þessi: Þú stefnir saman tvennum „mannréttindum“. Annarsvegar rétti hvítra til að vera áfram hvítir gegn réttindum þeirra sem vilja blanda kynstofninum.

Þú telur að rétturinn til að vera áfram hvítur sé æðri réttinum til að blandast.

Enda sé blöndun þjóðarmorð á hvítum. Og þjóðarmorð sé svo alvarlegur glæpur að það er ekki hægt að tala um það sem nein alvöru „mannréttindi“ að vera frjáls til að framkvæma þjóðarmorð.

Jafnframt telur þú að þér beri skylda til að fylgja þessari sannfæringu þinni og berjast gegn „útrýmingu“ hvítra.

Er þetta ekki rétt skilið hjá mér.

Flott að fá bara já eða nei.

Skúli Jakobsson sagði...

Staðan er þessi, and-Hvíti Ragnar, eins og ég hef svo ítrekað bent á:

Allir segja að það er til þetta KYNÞÁTTA vandamál. Allir segja að þetta KYNÞÁTTA vandamál leysist þegar þriðji heimurinn flæðir inn í ÖLL Hvít lönd og AÐEINS inn í Hvít lönd.
Holland og Belgía eru orðin álíka þéttbýl og Japan eða Suður Kórea, en enginn segir að Japan eða Suður Kórea munu leysa þetta KYNÞÁTTA vandamál með því að flytja inn milljónir af þriðja heims búum og (tilvitnun) samlagast(tilvitnun lokið) með þeim.
Allir segja að hin endanlega lausn á þessu KYNÞÁTTA vandamáli er þegar ÖLL Hvít lönd og AÐEINS Hvít lönd munu "samlagast," þ.e.a.s. giftast, öllum þessum and-Hvítu.
Hvað ef ég segði að það væri til þetta KYNÞÁTTA vandamál og að þetta KYNÞÁTTA vandamál væri aðeins hægt að leysa ef hundruð milljóna af öðru en svörtu fólki væri flutt inn í ÖLL svört lönd og AÐEINS svört lönd?
Hversu lengi mun það taka alla að skilja það að ég er ekki að tala um KYNÞÁTTA vandamál. Heldur, að ég væri að tala um endalega lausn á SVARTA vandamálinu?
Og hversu fljótt myndu allir andlega heilbrigðir svartir menn taka eftir þessu og hvers konar svartur brjálæðingur myndi ekki mótmæla þessu?
En ef ég segi þann augljósa sannleika um yfirstandandi áætlun um þjóðarmorð á mínum kynþætti, Hvíta kynþættinum, þá eru Umburðarlyndir og sómakærir íhaldsmenn sammála um að ég sé nasistisemvilldrepasexmilljónirjúða.
Þau segja að þau séu and-rasistar. Þau eru í raun and-Hvít.

Þegar hvatt er til, stutt eða á annan hátt unnið er að blöndun á Hvíta kynstofninum þá er það skipulögð útrýming/þjóðarmorð.
Lögin gegn þess háttar glæpastarfsemi eru skýr, yfirgripsmikil og ítarleg.


Já, þegar hvatt er til þjóðarmorðs þá er það glæpur gegn mannkyninu.

Það er ekkert í lögum sem bannar þér að yfirgefa kynstofn þinn með því að blandast við annan en það er skýrt í lögum að þú mátt ekki hvetja til þess að aðrir geri slíkt sama.

Telur þú að þú hafir gerst brotlegur við lög, Ragnar, með því sem þú hefur póstað hér hingað til???

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Skúli, áður en ég svara þessu, langar mig að vita eitt: Þýddir þú þessa möntru á íslensku?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Skúli, það er eins með hugtakið „þjóðarmorð“ og hugtakið „mannréttindi.“ Þetta eru hugtök sett af mönnum í tilteknum pólitískum tilgangi. Til þess að geta notað það, að ég tali ekki um að nota það í lögfræðilegum skilningi verður maður að nota þau rétt. Eða í það minnsta útskýra að öðrum kosti notkun sína í þaula.

Þjóðarmorð er alvarlegur glæpur. Sameinuðu þjóðirnar komu sér saman um það í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar. Ísland skrifaði undir sáttmálann 14. maí 1949 og innleiddi hann að fullu rúmum þrem mánuðum seinna. Það gerði Ísland alveg fyrirvaralaust (sem er meira en hægt er að segja um mörg önnur lönd). Sáttmálinn er mjög skýr og nokkuð mikil samstaða var um aðalatriði hans, utan það að Stalín tók ekki í mál að pólitískar ofsóknir flokkuðust sem þjóðarmorð (skiljanlega kannski). Skilgreiningin á þjóðarmorði (í lögfræðilegum skilningi nær því sjaldnast yfir slíkar ofsóknir þótt það hafi sannarlega verið uppi á borðum á sínum tíma).

Hér getur þú lesið herlegheitin. Ég hef á tilfinningunni að þú hafi ekki lesið þetta.
Þú sérð strax að önnur og þriðja grein eru það sem málið snýst um.

Þjóðarmorð er semsagt þegar eftirtaldar aðgerðir eru framkvæmdar í þeim tilgangi að eyða að hluta eða öllu leyti þjóðflokki, kynþætti eða trúfélagi:

Dráp á meðlimum
Að valda líkamstjóni eða andlegum skaða
Að sjá til þess að lífsskilyrði hópsins leiði af sér eyðingu
Að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir barnsfæðingar
Nauðungarflutningar barna til annarra hópa

Sök manna er síðan vítt skilgreind. Það er nóg að gerast sekur um að hvetja til þjóðarmorðs. Það þarf ekki að standa að því sjálfur.

Svona til að setja hlutina í samhengi þá eru þín rök þau að þetta:

(sjá mynd í færslunni sjálfri)



sé sambærilegt við þetta:


(sjá mynd)


Ég veit ekki hvort þú hugsaðir það til enda þegar þú lést sannfærast af því að blöndun kynþátta og menningar væri þjóðarmorð gegn hvítum – þá værir þú að fullyrða að það væri brot á lögum. Manngerðum lögum. Vegna þess að af því leiðir óhjákvæmilega að ef þú teldir þig hafa raunverulega pottþétt mál í höndunum þá gætir þú sannað það með málsókn. Ég ætla því að gera þér málið ofsalega auðvelt

Ég skora á hvern einasta hvítan íslending að fjölga sér með fólki úr öðrum menningarheimum og af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja!

Nú hef ég opinberlega og óhikað, undir fullu nafni, hvatt til þess sem þú kallar þjóðarmorð. Ef þetta er sannarlega refsivert og þú heldur virkilega að í þessu felist hvatning til morða, pyntinga, geldinga, kúgunar eða nauðungarflutninga barna – þá bið ég þig að skokka vinsamlegast niður á næstu löggustöð og kæra mig.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

En munt þú gera það? Nei, að sjálfsögðu ekki. Vegna þess að lög og reglur snúast ekki um brenglaðar óskhyggjur. Þau snúast um vilja löggjafans og túlkun dómara.
En ég skora á þig. Kærðu mig! Plís!

Þó er miklu líklegra að þú segir að dómstólum sé ekki treystandi, þeir taki þátt í samsærinu. Ég muni hljóta minn dóm, á efsta degi, þegar „rétthugsandi“ valdhafar hafa steypt þeim spilltu af stóli. Eða eitthvað álíka.

Gott og vel. En öll slík rök eru hætt að snúast um brot á lögum og sáttmálum SÞ. Þau eru farin að snúast um að þér (og skoðanabræðrum þínum) finnist að það ættu að vera önnur lög. Lög sem setja viðhald hvíta kynstofnsins ofan almennu valfrelsi.
Lögin um þjóðarmorð banna hvorki márum né hútúum, bosníu-serbum né japönum að æxlast sín á milli. Lögin um þjóðarmorð snúast ekki um að viðhalda kynstofnum hvað sem það kostar. Þau snúast um að taka af öðru fólki réttinn til að tortíma kynstofnum eða öðrum hópum sem mönnum er í nöp við.

Á Íslandi í dag eru þrír hópar: innfæddir (sem rekja ættir sínar innanlands svo langt sem augað eygir), aðfluttir (sem rekja ættir sínar algjörlega utan lands) og blendingjar (sem rekja ættir sínar í báðar áttir). Enginn af þessum hópum hvetur til eða reynir að stuðla að útrýmingu hinna. Nema einn.

Það eru skoðanabræður þínir sem vilja tryggja það að síðarnefndu tveir hóparnir hverfi vegna þess að þeir líta svo á að til þess að hvíti hópurinn sé til, megi helst enginn annar hópur vera til.

Þú getur rakið allar þínar möntrur (varstu búinn að svara hvort þú þýddir hana?) og kópípeist hástafaáróður. En förum aðeins yfir sviðið:

1. Þú sagðir að náttúrulögmálin styddu skyldu til að varðveita einstaka kynstofna. Það er rangt.
2. Þú sagðir að mannréttindi þín styddu hvítt land. Það er rangt.
3. Þú sagðir að hvatning til kynblöndunar væru þjóðarmorð.

Það er tvennt sem hefur einkennt þessa rökræðu öðru fremur. Hið fyrra er að þú ert ekki sérlega vel heima í því sem þú notar sem rök. Þú veist lítið eða ekkert um náttúruvísindi. Samt notar þú þau sem rök frameftir öllu. Þú veist lítið eða ekkert um mannréttindalöggjöf. Samt notar þú hana sem meginrök. Þú veist lítið eða ekkert um þjóðarmorð. Samt notar þú þau sem meginrök.

Þetta ber allt að sama brunni. Þú vilt ekki að samfélagið breytist. Þú vilt að hvítir verði áfram hvítir. Þú vilt að fólk haldi sig í upprunalöndum sínum.

Það eru engin rök eða ígrunduð hugsun sem stendur að baki þessum vilja þínum. Þetta er bara eitthvað sem þú vilt. Ofsalega mikið.

Og síðan reynir þú að sannfæra sjálfan þig og aðra um það að þessi skoðun sé rækilega rökstudd með reglum og lögum. Þú peistar sömu möntrurnar í hverri einustu rökræðu. Reynir að nálgast málið alltaf frá sömu hliðinni.

Þú hefur tiltekið þrenn rök. Vísindin, mannréttindi og þjóðarmorð. Ég hef þegar sýnt fram á að fyrstu tvö eru ógild.

Ég hef ennfremur gefið þér lokatækifæri til að gefa málstað þínum eitthvað vægi. Eina leiðin til þess að þú getir haldið áfram að boða áróður á þessu blessaða landi er ef þú stendur við stóru orðin og kærir mig fyrir að hvetja til þjóðarmorðs. Láttu dómskerfið bakka þig upp. Þú segir að að sé heilög skylda þín.

En þú munt ekki gera það. Því þú veist að hvorki dómskerfið, vísindin né nokkuð annað sem er almennt og viðtekið bakkar upp fullyrðingar þínar.

Spurningin er því þessi: Ætlar þú að kæra mig fyrir að hvetja til þjóðarmorðs? Og ef ekki, telur þú að barátta þín sé hafin yfir lög og reglur? Og að þú megir beita ólöglegum aðgerðum í þágu baráttunnar?

Skúli Jakobsson sagði...

Takk kærlega fyrir þetta, and-Hvíti Ragnar:
"Ég skora á hvern einasta hvítan íslending að fjölga sér með fólki úr öðrum menningarheimum og af öðrum kynþáttum ef það er vilji beggja!"

Þú ert öðrum and-Hvítum sannarlega til sóma!

Eins og svo oft áður þá svarar þú þínum eigin spurningum: "Þau snúast um vilja löggjafans og túlkun dómara."

Vill bara minna þig á að "vilji og túlkun" breytast oftast við aðra dómara og aðra valdhafa.

Þú gafst mér nákvæmlega það sem ég ætlaði að fá þegar ég byrjaði að bulla við þig, and-Hvíti Ragnar. Og þar sem ég hef náð markmiði mínu og rúmlega það..........

Jon Frimann sagði...

Tæknilega séð þá er hvítt fólk ekki til. Enda er hérna eingöngu um að ræða gen sem ræður húðlit fólks. Þetta er þróun sem á sér stað vegna búsetu fólks yfir langan tíma (tugþúsundir ára).

Kynþáttahugmyndafræðin á svo upptök sín á 16 til 20 öldinni, með öllum þeim hryllingi sem fylgdi þessari hugmyndafræði.

pseudo-hugtök Skúla hafa ekkert að segja í þessari umræðu.

Hugmyndafræðin sjálf er ónýt og sagan sannar og sýnir að þessi gerð af hugmyndafræði er mjög villimannsleg og á ekki heima í siðuðu samfélagi.

Enda er það svo að í mörgum ríkjum Evrópu er þessi hugmyndafræði bönnuð með lögum vegna ofbeldisfullrar sögu og afleiðinga þessar hugmyndafræði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll, Skúli minn. Takk sömuleiðis fyrir rökræðurnar. Þær voru mjög afhjúpandi. Þær fóru ekki einu sinni út um þúfur fyrr en þarna í blálokin. Mig langar hinsvegar að taka þetta saman fyrir þig. Þú hugsar kannski út í það sem ég segi nú.
Þú og skoðanabræður þínir munuð aldrei verða valdhafar í þessu landi. Því fyrr sem þú gerir þér grein fyrir því, þeim mun betra fyrir þig. Þú getur þá notað orku þína í eitthvað annað.
Þrátt fyrir allt held ég að þú sért ekki illmenni og ekki heimskur. En ég held að þú sért mjög ráðvilltur og óupplýstur.
Þegar þessar rökræður hófust hélst þú (og heldur líklega enn) að afstaða þín til kynþáttamála væri rökrétt og byggði ekki aðeins á traustum vísindalegum grunni, heldur einnig lögum og rétti. Það, sem þú fullyrtir að væri skýrt og klárt lögbrot, varð á endanum opinberað það sem það er: órar um byltingu.
Þér væri nær að hætta að tala um þjóðarmorð, mannréttindi og lögmál náttúrunnar í þeim tilgangi að boða boðskap þinn. Hvar sem þú munt stinga niður með þessi orð á vörunum mun vonandi hér eftir koma einhver og afhjúpa það sem það er. Þvælu og óupplýstar lygar.
Segðu bara eins og er. Þú fílar hvítt fólk best.
Þú munt svo reyna að réttlæta þetta val þitt með hverjum þeim rökum sem þér finnst henta.
Þú fílar ekki svertingja. Vilt þá ekki nálægt þér. Skilur ekki fólk sem óttast ekki útlendinga.
Nóg um það. Hafðu þetta í huga: þú segir að maður eigi að berjast fyrir hagsmunum sínum og frelsi. Þú telur að æðsta skylda þín sé við kynþátt þinn. Ekki fólkið – heldur húðlitinn. Kynþátturinn þinn er nefnilega þannig að fólk með sama húðlit og þú hefur margvíslegar skoðanir á því hvernig það vill lifa lífinu. Og fyrir sumu þessu fólki skiptir ekki máli nákvæmlega hvernig börnin þeirra eru á litlin. Bara að þau séu gott fólk.
Það eru mannréttindi að fá að tjá huga sinn. Þú nýtur þess réttar. Hann verður ekki einu sinni tekinn af þér þótt þú verðir uppvís að þvælu. En sá réttur, sem þú nýtir óspart, sprettur ekki upp úr auðninni. Hann er þáttur í þeirri hugsun að hver maður skuli haga lífi sínu eins og hann vill. Það er bara eitt skilyrði, Skúli. Þú mátt ekki lifa þínu lífi þannig að það skerði frelsi annarra til að ráða sínu.
Þú vilt fara gegn þessum rétti. Ekki vegna þess að það sé náttúrulögmál, mannréttindi eða vegna yfirvofandi þjóðarmorðs. Þú vilt fara gegn þessum rétti því þú vilt að aðrir vilji það sem þú vilt. Þú vilt alræði. Ekki lýðræði. En þú nýtir til þess lýðræðislegan rétt.
Sjáðu til, Skúli. Lýðræðið umber margt. En það má taka það til alvarlegrar umhugsunar hvort það eigi að líða að það sé nýtt til þess að ráðast gegn kjarna þess. Það er dálítið eins og að veita byssuleyfi þeim sem yfirlýst og opinberlega hafa sagst ætla að nota byssurnar til að skjóta leyfisveitendur.
Það eru málefnaleg rök – að krefjast þess að fólk eins og þú verði dæmt til fangelsisvistar fyrir hatursáróður, lygar og andlýðræðisleg vinnubrögð. Það veit tútti, að ef þú kæmist í aðstöðu til þess að beita kúgun eða fangelsun til að ota þínum tota myndir þú ekki hika – ekki augnablik.
En lýðræðið er fallegra en þú. Það umber þig. Það hlustar á þig. Því þykir meira að segja svolítið vænt um þig. Ef ég hitti þig á förnum vegi myndi mig frekar langa til að bjóða þér upp á bjór en að slá þig. Þú mátt herma það upp á mig einhverntíma.
En lýðræðið er um leið kröfuhart. Það krefst svara og skýringa. Krefst þess að menn segi ekki annað en þeir geta sæmilega rökstutt.
Það er lýðræðið sem hefur opinberað þig sem það sem þú ert. Fölan, einmana karl með heimsveldisóra
Hafi verið ætlunarverk þitt að opinbera það, þá gekk þér dável.
Takk fyrir samræðurnar. Vertu sæll.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Orðið er laust.

Bjössi sagði...

Ég er kennari í grunnskóla í Reykjavík. Mér finnst skoðanir Skúla afar áhugaverðar. Mig langar að bjóða honum að koma í heimsókn í skólann minn og ræða lífssýn sína við nemendur mína. Ég er meira að segja tilbúinn til þess, ef þess yrði óskað, að biðja svarta strákinn í átttunda bekk og filippínsku stelpuna í níunda bekk að vera úti á meðan. Skúli, ef þú lest þetta og ert til í að mæta, sendu mér línu á bjornkennari@gmail.com

Skúli Jakobsson sagði...

Þetta var of mikil freisting enda stenst ég allt nema freistingar. LOL

And-Hvít Ragnar, "rökræður" voru þetta ekki heldur það sem ég vissi fyrir en langaði að fá fram.
Útrýmingarþráhyggja þín gagnvart Hvítu fólki.

Aldrei að segja aldrei, and-Hvíti Ragnar. ;)

Þetta "sálfræðimat" þitt á mér er fantasía þín.
Aumkunarverð tröllasaga komin úr sjúkum huga.

Eftir stendur það augljósa. Virk þáttaka þín í lögbrotum.
Eða eins og Mantran lýsir svo vel á einfaldan hátt:

Allir segja að það er til þetta KYNÞÁTTA vandamál. Allir segja að þetta KYNÞÁTTA vandamál leysist þegar þriðji heimurinn flæðir inn í ÖLL Hvít lönd og AÐEINS inn í Hvít lönd.
Holland og Belgía eru orðin álíka þéttbýl og Japan eða Suður Kórea, en enginn segir að Japan eða Suður Kórea munu leysa þetta KYNÞÁTTA vandamál með því að flytja inn milljónir af þriðja heims búum og (tilvitnun) samlagast(tilvitnun lokið) með þeim.
Allir segja að hin endanlega lausn á þessu KYNÞÁTTA vandamáli er þegar ÖLL Hvít lönd og AÐEINS Hvít lönd munu "samlagast," þ.e.a.s. giftast, öllum þessum and-Hvítu.
Hvað ef ég segði að það væri til þetta KYNÞÁTTA vandamál og að þetta KYNÞÁTTA vandamál væri aðeins hægt að leysa ef hundruð milljóna af öðru en svörtu fólki væri flutt inn í ÖLL svört lönd og AÐEINS svört lönd?
Hversu lengi mun það taka alla að skilja það að ég er ekki að tala um KYNÞÁTTA vandamál. Heldur, að ég væri að tala um endalega lausn á SVARTA vandamálinu?
Og hversu fljótt myndu allir andlega heilbrigðir svartir menn taka eftir þessu og hvers konar svartur brjálæðingur myndi ekki mótmæla þessu?
En ef ég segi þann augljósa sannleika um yfirstandandi áætlun um þjóðarmorð á mínum kynþætti, Hvíta kynþættinum, þá eru Umburðarlyndir og sómakærir íhaldsmenn sammála um að ég sé nasistisemvilldrepasexmilljónirjúða.
Þau segja að þau séu and-rasistar. Þau eru í raun and-Hvít.
And-rasisti er dulorð um and-Hvíta.

@Bjössi:
Takk fyrir áhugavert boð en ég er hræddur um að tímasetningin er afleidd.
Margt breytist með tímanum og ég er viss um að af þessu getur orðið í nánustu framtíð.

@Jón Frímann:
Þú þjáist af Lysenkoisma:
Lysenkoism – Þegar einhver aðili, stjórnvald eða stofnun, krefst þess að ALLIR í hópi eða samfélagi, beri skylda til að taka þátt í einhverju svo ótrúlega og augljóslega heimsku,
þvingar þau til þess, sem hefur svo hreint skelfilegar afleiðingar.
Lysenkoism – Sovétska Geggjunin sem neyddi bændur til að sá hveitifræjum um hávetur, bilunin sem hélt því fram að hveitifræin gætu "lært" að vera vetrarhveiti.....milljónir sultu svo í kjölfarið.

p.s. þigg kaffi frekar með smá mjólkurslettu til stuðnings Íslenskum landbúnaði, Hvítum landbúnaði.

Bjössi sagði...

Ókei, ég er að kenna í allan vetur. Þú mátt hafa samband hvenær sem þér hentar.

Nafnlaus sagði...

Svitjod, gerdi illa genad folk ofrjott og kom bara agaetlega ut ur tvi... allavegana eru Svijar taldir med fallegustu tjodum i heimi, haha :) Kanske aettu Islendingar ad banna ljotu og feitu folki ad eignast born, kanske faum vid fleiri Miss World fyrir vikid ?

Nafnlaus sagði...

Vandamalid er ekki kynstofn Skuli, vandamalid er menning/truarbrogd/uppeldi. Vid erum oll eins ef vid njotum sama umhverfis.

Nafnlaus sagði...

Mer datt i hug "kannabis" tegar eg las allt tetta um mannrettindi einstaklinga....
Rikid bannar okkur stanzlaust ad gera hluti sem skada ekki adra og hefur ekkert visindalegt tvi til studnings... Eg vil reykja kannabis, en mer er bannad tad. Afhverju ma ekki banna folki ad rida utlendingum ?