9. ágúst 2011

Samúðarrasismi

Það eru til a.m.k. tvær tegundir af rasisma. Munurinn felst í viðhorfi til þeirra sem rasisminn beinist gegn. Venjulegur, hefðbundinn rasismi er neikvæð tilfinning. Andúð á hópi sem maður (ranglega) telur í mikilvægum atriðum ólíkur manni sjálfum. Síðan er það samúðarrasisminn. Það er ekki jafn berlega neikvætt viðhorf – heldur einhverskonar vorkunn eða yfirlæti.

Hið sama gildir um fordóma almennt. Menn geta ýmist haft raunverulega andúð á þeim sem fordómarnir beinast gegn eða vorkunnsemi.

Slagorð Upplýsingarinnar er að allir menn séu jafningjar. Það þýðir ekki að allir séu eins. Aðeins að mismunurinn felist í aukaatriðum – en ekki aðalatriðum. Mennskan sé öllum mönnum meðfædd – eða í það minnsta möguleg.

Það, hvað felst í að vera maður, er svo umdeilanlegt. En það er nokkuð ljóst að það eru þeir eiginleikar sem sitja eftir þegar búið er að skera burt breytileikann: kynþátt, aldur, kynhneigð o.fl.

Um leið og menn fá meðfædd réttindi þá er alls ekki óskynsamlegt (þótt það sé ekki óumdeilanlegt) að með því fylgi ákveðnar skyldur. Í það minnsta skyldan til að virða meðfæddan rétt annarra á sama hátt og þeir skulu virða þinn rétt.

Ofan á þann grunn má svo byggja þá réttindagrind sem maður vill að styðji við samfélagið í heild. Hversu hátt sú grind eigi að ná upp í loftið ef viðfangsefni stjórnmálanna – því réttur til þess að almannavilji ráði þessu atriði á lýðræðislega hátt er einn af grunnréttunum. Sumir kjósa að hafa réttindi fá og almenn. Kosturinn við það er einfalt og skýrt kerfi sem (í orði a.m.k.) ætti að skapa ákveðið gegnsæi sem verður til þess að menn vita hvað þarf til ætli menn að koma sér áfram. Ekkert sé enda réttlátara en að hver uppskeri svo sem hann sái.

Aðrir telja (og ég er sammála þeim) að almenn grunnréttindi dugi ekki til. Markmiðið sé enda ekki kerfið sem slíkt heldur sú farsæld sem það á að koma til leiðar. Mannlífið er flókið og krefst því flóknari lausna en svo að setja almennar, fáar leikreglur.

En hvað þá með almennar skyldur?

Ein grundvallarskylda þess sem býr í samfélagi er að veitast ekki að öðrum með eignaspjöllum, ofbeldi eða ofsa. Sá, sem slíkt gerir, brýtur á rétti samborgaranna til lágmarksréttinda. Kann þó brotamaðurinn að eiga sér málsbætur. Flest innbrot eru framin af langt leiddum fíklum sem hlýða harðsvíruðum eiturlyfjasölum og afhenda þeim eigur annarra.

Barnaníðingar og nauðgarar eru gjarnan ógæfumenn, markaðir af erfiðri reynslu og ömurlegum félagslegum aðstæðum. Fangelsi flestra þjóða eru að mestu skipuð þeim sem fæðst hafa inn í slökustu félagslegu aðstæðurnar.

Samt er brotamaðurinn talinn bera ábyrgð. Og menn forðast að beina athyglinni annað. Það er til dæmis ein öruggasta leiðin til að vekja upp storm að finna nauðgurum málsbætur eða dreifa ábyrgðinni. Nauðgarinn er ábyrgur. Punktur. Hann kann að hafa verið fullur, einmana og vansæll. Hún kann að hafa gefið honum undir fótinn en hætt við á síðustu stundu. Aðstæður skipta ekki máli. Þú nauðgaðir. Þú ert ábyrgur.

Þú hefur þrátt fyrir allt ekki rétt til þess að veita samborgurunum líkamlegan og sálrænan skaða. Þú tókst við þeirri ábyrgð þegar þú fékkst meðfæddan rétt til þess sama. Og jafnvel þótt aðrir hafi ekki virt þann rétt gagnvart þér – þá berð þú samt ábyrgð gagnvart öðrum.

Það eru þó alltaf einhverjir sem ekki standa undir slíkri ábyrgð sökun andlegra takmarka, fötlunar eða annarra eiginleika sem eru þess valdandi að þeir eru ábyrgðarlausir.

Slíkt fólk er hvað varðar það allra mikilvægasta ólíkt okkur hinum. Ekki fulltíða „menn.“ Og nýtur ekki sama réttar og aðrir.

Nú hleypur ungt fólk um breskar borgir, ber fólk, stelur hlutum og brennir hús.

Þetta ástand féll ekki af himnum ofan og er ein besta röksemd þess að það er ekki nóg að setja fáar grundvallarreglur til að skapa farsælt samfélag. Ofbeldið og óhugnaðinn hefði verið hægt að fyrirbyggja ef samfélagið væri öðruvísi uppbyggt og samsett.

En, nú koma fram margir, sem kjósa að beina sjónum fyrst og fremst að þeim þáttum sem „urðu til þess“ að fólkið hagar sér svona. Á sama tíma og fólk er að missa eigur sínar og er skelfingu lostið – vilja margir deyfa þá almennu kröfu sem upp er komin um að fólkið sé látið sæta ábyrgð.

Slíkur málstaður angar af samúðarrasisma. Þótt fólki gangi gott eitt til þá er verið að beina sjónum að þeim þáttum sem afsaka brotamanninn í stað samúðar með fórnarlambinu. Það er ekkert nýtt. Það er algeng tilhneiging sem er t.a.m. algeng í kynferðisbrotamálum. En það er rasismi engu að síður.

Þegar maður talar um hóp fólks sem siðferðislega ábyrgðarlausan þá er maður að aðskilja fólkið frá sjálfum sér – neita þeim um grunnatriði mennskunnar. Og þótt maður telji að mennskan hafi verið fjarlægð af einhverjum öðrum; slæmum aðbúnaði, fordómum o.s.frv., þá er maður að taka þátt í því að viðhalda aðskilnaði á milli þeirra og okkar. Þeirra sem bera grundvallarábyrgð í samfélaginu – og hinna; ábyrgðarlausu, ómennsku.

Þú átt ekki að nauðga. Þú átt ekki að kveikja í húsum með skelfingu lostnu fólki innanborðs. Þú átt ekki að berja saklaust fólk eða ræna. Það er grundvallarreglan.

Það, að vilja beita félagslegum úrræðum til að bæta aðstæður undirokaðra hópa, þarf ekki að fela í sér að maður setjist í það yfirlætisfulla hásæti að telja meðlimi hópanna siðferðislega eftirbáta annarra. Fátækur, atvinnulaus svertingi er ekki sjálfsköpuð „byrði hvíta mannsins.“ Hann er sjálfstæð persóna sem ber lágmarksábyrgð og lágmarksréttinda. Það er síðan pólitík að berjast fyrir því að réttindin séu aukin í því skyni að hann (og aðrir) blómstri og efli samfélag sitt með þeim hætti sem mögulegt er.

Engin ummæli: