2. ágúst 2011

Öfgamennirnir í VantrúÁður en ég fór í sumarfrí frá Feisbúkk (sem meðal annars hefur í för með sér að ég get skrifað langhunda á þetta blogg og samt átt tíma afgangs fyrir allthvaðeina) skrifaði ég status sem var eitthvað á þá leið að ég ætti kannski barasta að ganga í Vantrú. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Mér var kurteislega og ákveðið bent á að það ætti ég alls ekki að gera. Ef ég fyndi hjá mér hvöt til að finna félag um hugsjónir mínar gæti ég gengið í Siðmennt en ég ætti að láta öfgamennina vera.

Þetta fékk mig auðvitað til að hugsa aðeins.

Öfgamaður (e. extremist) er einhver sem hefur svo ofsafengnar jaðarskoðanir að þær falla útfyrir það sem er almennt viðurkennt, annað hvort með hliðsjón af lýðræðislegum leikreglum eða almennu siðferði. Öfgarnar felast í hugmyndum og hugsjónum. Það sem öfgamaður er ekki, er sá sem setur fullkomlega boðlegar hugmyndir fram á ögrandi eða sjokkerandi hátt.

Ísland er löðrandi í öfgamönnum. Mönnum sem tjá sig um allt milli himins og jarðar á netinu eða í útvarpi. Vilja sjá hinn og þennan sviptan grundvallarréttindum, roðinn tjöru og fiðri, settan í gapastokk og síðan leiddan hring kringum landið með tilheyrandi limlestingum á sýslumörkum. Nasistum sem líta svo á að landið sé fullt af heilaþvegnum sauðum sem totti dúsu lýðræðisins á meðan þeir verða að gjalti í pottum fjölmenningarhyggjunnar eins og hægeldaður froskur.

En Vantrúarmenn eru ekki öfgamenn.

Þeir eru vissulega skrautlegur félagsskapur. Trúleysingjar eru það gjarnan. Til að mynda hefur athafnatrúleysi mikið aðdráttarafl á marga þá sem standa á jaðrinum á milli sérvisku og einhverfu. Einstaklingar með sérvisku á sviði rökvísi verða mjög gjarnan róttækir trúleysingjar – hvað sem líður almennri hæfni þeirra til mannlegra samskipta. En það gerir þá ekki að öfgamönnum.

Í Vantrú er líka eitthvað af dónum. Subbulegum pennum sem sulla í blekinu og taka það alls ekki nærri sér þótt eitthvað af því skvettist á samborgarana. Einn sá svaðalegasti er Þórður vinur minn Ingvarsson. Ég segi „vinur“ því einu sinni ákvað hann að skrifa um mig níð. Gott ef hann brigslaði mér ekki um að vera „helvítis hommi“ eða eitthvað álíka. Og ég hef svosem aldrei komist að því af hverju. Ég hef væntanlega skrifað eitthvað sem honum hefur mislíkað. Áreiðanlega um fíkniefnamál. Sem eru hans hjartans mál.

En meira að segja Þórður er ekki öfgamaður. Ég held meira að segja að hann sé drengur góður, málefnalegur og víðsýnn – svona allajafnan. En þegar illa liggur á honum eða egóið flögrar upp í einhverja létta maníu þá getur hann verið helvítis strigakjaftur og dóni.

En það er Vantrú til sæmdar að útskúfa ekki mönnum eins og Þórði. Ég held nefnilega að Vantrú sé nokkuð lýðræðislegt félag. Ég held, en veit svosem ekkert um það, að félagið starfi af töluverðum heilindum. Menn eru heilir í sínum hugsjónum og takast á, inn- og útbyrðis.

Og þeir sem tjá sig fyrir félagið opinberlega eru yfirleitt mjög málefnalegir.

Félagið hefur að vísu fullmikið óþol gagnvart trúarbrögðum til að ég gæti fyllilega samsamað mig með því.

Í öllum (alminlegum) lýðræðisríkjum fer fram efasemdaumræða. Í BNA hafa vísindamenn (trúlausir sem aðrir) þurft að standa upp til varnar vísindum og vísindafræðslu gegn ásælni sköpunarsinna sem í krafti almennrar vanþekkingar á undirstöðum vísindanna hafa reynt að blása moðreyk yfir allt sem talist getur ásættanlegt og faglegt við vísindakennslu í þeim tilgangi að hefja sköpunarsögu Biblíunnar upp á þann stall að hún geti talist jafngild kenning um uppruna mannsins.

Þá hafa loddarar og önnur óáran herjað með svo miklum krafti á þegna stórra lýðræðisríkja að menn hafa þurft að verða „draugabanar“ – hreinlega til verndar almenningi gegn fólki sem hefur suma af okkar minnstu meðbræðrum að féþúfu.

Ísland er svo menningarlega óþroskað að við hljótum fæst það sem kallast getur „ásættanlegt vísindauppeldi“. Raungreinakennsla er mjög slöpp. Við erum enn að burðast með eldgamlar hjátrúr og vitleysur sem við ættum að vera löngu búin að losna við. Ég ábyrgist að minnihluti Íslendinga þekkir grunnatriði þróunarkenningar Darwins til að mynda. Og hefur því í raun engan persónulegan þekkingarforða til að byggja á komi að því að að honum yrði sótt með hugmyndina um „vitræna hönnun.“

Miðlar, stjörnu- og talnaspekingar hafa að auki töluvert fé af fólki fyrir kukl. Allskyns óhefðbundar lækningar lofa árangri langt umfram það sem siðferðilega er hægt að gera. Á meðan ekki má selja þér kleinu án þess að hún komi úr vottuðu eldhúsi er ekkert gert úr því þótt einhver selji gagnslausar glitperlur og steina til að lækna krabbamein.

Í öllum öðrum löndum þykir sjálfsagt að til sé fólk sem hefur það að markmiði að flétta ofan af svikurum og benda á eðlilegar, raunsæjar útskýringar á fyrirbærum sem margir telja yfirnáttúruleg. Það eru enda ekki mannréttindi að fá að hafa skoðanir sínar óáreittur. Að auki er sá suðupottur sem myndast á mörkum raunhyggju og hjátrúar nauðsynlegur – og báðum til gagns. Stundum er nefnilega heilmikið vit í hjátrúnni. Sumar „óhefðbundnar“ lækningar geta með fyllingu tímans orðið bráðnauðsynlegar nútímavísindum. En ekkert slíkt gerist nema sótt sé að ruglinu, kuklinu og vitleysunni sem umlykur þær. Kappsfull gagnrýni er bálið sem eimar burt allt nema kjarnann.

Vantrú er ekki á nokkurn hátt öfgafélag. Öfgar mælast ekki í því hvort einhver traðkar á tám þeirra sem vilja hafa sínar bábyljur í friði. Öfgar mælast í þeim skoðunum sem haldið er á lofti. Það er ekkert ögrandi við boðskap Vantrúar – þótt aðfarirnar kunni stundum að vera það.

Þvert á móti er Vantrú bráðnauðsynlegt mótvægi í upplýstu nútímasamfélagi. Rödd efasemda í kór þar sem fullyrðingar eru alltof háværar.

25 ummæli:

gísli már sagði...

"Í öllum öðrum löndum þykir sjálfsagt að til sé fólk sem hefur það að markmiði að flétta ofan af svikurum og benda á eðlilegar, raunsæjar útskýringar á fyrirbærum sem margir telja yfirnáttúruleg."

Fólk: Lögreglumenn, geðlæknar,kennarar,prestar?

Plees explane

Annars stórfín grein annars,

Gísli,

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég skil ekki alveg spurninguna. Ég á bara við að það þykir sjálfsagt að til sé baráttufólk gegn hindurvitnum og hjátrú – eins og fyrir réttindum dýra eða hverjum öðrum lýðræðislegum málstað.

gísli már sagði...

Ok, hvað áttu þá við með "öllum öðrum löndum"?

G-Dogg,

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Öllum lýðræðisríkjum þar sem einhver hefð er komin á að menn takist á um stefnur og strauma. Það er öll ríki sem gera ráð fyrir lýðræðislega virkum þegnum. Löndin sem við berum okkur saman við, svona almennt og yfirleitt.

Allavega ekki Norður-Kóreu.

gísli már sagði...

Norður Kórea er nú það sér á báti að ekki ber að líkja henni við önnur lönd án útskýringa.

En það er nú alveg tekist á um stefnur og strauma hér finnst mér, varla gáfulegar, né voðalega upplýsandi. En eru þær eitthvað öðruvísi frá öðrum löndum, ef við undanskiljum NK?

G.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég held að Vantrú sé einmitt mikilvægt í umræðuflóruna. Við eigum ekki Randi, Harris, Dawkins, Hitchens. Við eigum ekki Derren Brown, Criss Angel. Við eigum ekki Bertrand Russell.

Það hefur af einhverjum ástæðum ekki tíðkast að halda uppi efasemdum á Íslandi. Baldur Brjánsson var líklega fyrstur í seinni tíð. Og kannski Brynjólfur Bjarnason þar á undan.

Það á að vera sjálfsagt að menn geti haldið fram málstað Randis, Dawkins eða Browns án þess að teljast öfgamenn.

gísli már sagði...

Satt það, og sammála um hlut vantrúar í umræðuni.


Þú segir að "efasemdir tíðkist ekki",
En aunhverja hluta vegna eru nú trúarbrögð furðulega lítið ráðandi hér á landi á,(miðað við tjah,...) sem útskýrir væntanlega hversvegna svona margir furða sig á vantrúarköllum og okkur guðleysingjum.Og skilja ekki tilganginn.

Trúin er umborin,en það er engin virðing borin fyrir henni.
Það er ekki hægt að bera virðingu fyrir einhverju sem þú þarft að beygja þig undir.

Ef það er borin virðing fyrir trú einhverstaðar, þá skil ég ekki orðið "virðing".

Annars, gaman af'essu.


Gístli

Tóti sagði...

Ég nennti nú ekki að lesa þetta til enda en vissuelga eru þessi ágætu drengir ekki öfgamenn. Þeir eru bara svo ógeðslega 12 ára og barnalegir í málflutningi sínum sem geengur ekki út á annað en að hrauna yfir lík og draug fyrri alda. Held þú sért aðeins of töff fyrir þennan lummulega félagsskap. Pælingin er alveg frábær en þessir guttar verða að fara að fá að ríða vegna þess að þeir eru kaþólskari an páfinn í bullinu.

Kristinn sagði...

Skemmtileg grein. Alltaf gaman þegar hanskinn er tekinn upp fyrir Vantrúarhópinn - sem er gott fólk og skemmtilegt. Og já, Þórður er mjög fínn gaur og stendur fyrir afar lýðræðislegum ritstjórnarhætti innan veggja Vantrúar. Það segi ég í fullri alvöru. Dólgslegur kjafturinn hefur ekkert með viðhorf hans til fólks að gera. Það er bara um stílbragð að ræða.

Varðandi orðið öfgar.

Vantrúarmenn eru að sjálfsögðu ekki öfgamenn í hefðbundnum skilningi. En þeir eru mjög gjarnan kallaðir öfgamenn og þess vegna er ágætt að reyna að henda reiður á hvað átt sé við, í stað þess að neita hinu augljósa.

Það sem átt er við er að þeir geri meira af einhverju en mörgum þykir gott; fari út í öfgar í þeim skilningi. Þeir eru óvægnir og ákveðnir í gagnrýni sinni á kirkjuna og hindurvitni almennt, þrátt fyrir að hefð sé fyrir því víðast hvar að taka dálítið mjúklega á fólki fyrir slíka hjátrú.

Málið er náttúrulega að fullt af fólki þykir vænt um hjátrú sína, hefðirnar og kenjarnar sem þeim fylgir. Öðrum þykir þetta dót bráðnauðsynlegt fyrir sálina (líðan sína) og enn aðrir eru raunverulega sannfærðir um að guðs-pælingarnar séu heilagar.

Mörgum þykir Vantrú taka öfgakenndan pól í hæðina með því að fjalla ískalt um þetta allt saman og gera lítið sem ekkert ráð fyrir því að hjátrú í einhverju formi geti verið jákvætt afl í heiminum, skapandi og seðjandi á hátt sem raunhyggjan er hugsanlega ekki. Á skala umburðarlyndis og mýktar gagnvart fjölbreytilegum hugðarefnum mannskepnunnar lendir Vantrú á mjög langt til hliðar við miðju og í þeim skilningi er félagið öfgakennt. En það má vissulega deila um hvort orðið öfgar eigi vel við um slíkt.

En í landi þar sem ríkisrekin kirkja vinnur að því leynt og ljóst að níða skóna af trúleysingjum er náttúrulega bara kómískt að kvarta yfir því að lítið vefrit fjalli kuldalega um hindurvitni. Þegar lóðin eru öll sett á vogarskálarnar verða það nefnilega ekki Vantrúarmenn sem mælast öfgafyllstir, heldur frekar orðljótir íhaldssmenn á borð við biskup þessa lands og hirð hans.

En hvað sem heildarjafnvæginu líður þykir mér að Vantrúarfólk geti farið að taka á ásökunum um öfgar með nýjum hætti. Í stað þess að skilgreina öfgar sem eitthvað sem hefur ekki með Vantrú að gera, ættu menn að leggja sig eftir því að skilja hvað fólk á við með orðinu og fjalla málefnalega um hvort hegðunin sem kölluð er öfgakennd sé réttlætanleg. Því það að snúa út úr með því að skilgreina orðið þannig að það geti ekki átt við um félagsskapinn er einmitt dæmi um nokkuð sem fólk kallar öfgar, og á þá við öfgakennda þrasgleði sem skilar sér ekki í uppbyggilegri umræðu.

En svo má deila um hvort það sé yfir höfuð uppbyggilegt að byrja umræðuna á ásökunum um öfgar :)

Gaman að þessu,
mbk,

Þórður Ingvarsson sagði...

Afsakið að ég hafi kallað þig "helvítis homma" einhverntíman fyrir langa, lifandis löngu síðan. Hefur þetta truflað þig í töluverðan tíma? Hefðir átt að láta mig vita að þú værir ekki mikið fyrir það að fólk væri að brigsla með kynhneigð þína. Lofa að gera þetta aldrei aftur. :)

En þakka þér fyrir blíðmælgina og þennan pistill.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Gísli, veit ekki með virðinguna. Ég held þú takir full djúpt í árinni með þessu síðasta kommenti. En ég held að það væri sterkur leikur hjá Vantrú að beina sjónum einnig að kuklurum. Mótlæti gegn kirkjunni er ærið úr öðrum áttum.

Kristinn, mikið gott kommentið þitt. Því þótt ég beri vissulega blak af vantrú þá er ég alls ekki aðdáandi öfgakenndrar eða ómálefnalegrar umræðu. Þótt ég telji hana oft vel fyrirgefanlega. Vantrú hefur gott af að fylgja þínum ráðum í þessu efni.

Þórður, vertu ævinlega velkominn. Þetta komment þitt hefur ekki plagað mig neitt – enda þykist ég vita að þú sért góður náungi. En ég les þig (oft mér til mikillar skemmtunar) mjög reglulega og hef bara svona asskoti gott minni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Og Þórður, kommentið um mig var svosem ekkert aðalatriði. Ég vildi tiltaka dæmi og treysti mér ekki til að vísa á pistil þinn um Sigurbjörn (eins og mig langaði til fyrst). Var hræddur um að með því skaðaði ég málstaðinn meira en að ég ynni honum gagn.

Þannig að ég tók syndirnar á mig – eins og einn góður maður gerði einu sinni.

Þórður Ingvarsson sagði...

Það var nú fallega gert af þér. Gaman hvað þessi Sigurbjörns-grein snerti marga. Sökum þess hvað hún var orðin gríðarlega vinsæl þá tók ég hana út fyrir stuttu í von um að fólk mundi nú lesa eitthvað annað eftir mig.

Helgi Briem sagði...

En ég held að það væri sterkur leikur hjá Vantrú að beina sjónum einnig að kuklurum. Mótlæti gegn kirkjunni er ærið úr öðrum áttum.

Ertu að grínast, Ragnar eða hefurðu aldrei lesið http://www.vantru.is?

Á Vantrú er urmull greina um kuklara.

Þær eru flokkaðar undir Kjaftæðisvaktin, Nýöld og Vísindi og trú.

Nafnlaus sagði...

Athugasemd Tóta er kostuleg alveg.

Hann í fyrsta lagi nennir ekki að lesa allan pistilinn, en kemur göslandi inn á athugasemdakerfið og inn í þær umræður sem hér eru, kallar menn nöfnum og er með leiðindi gagnvart vantrú.

"þeir eru bara svo ógeðslega 12 ára og barnalegir í málflutningi sínum..."

Ótrúlegt að maðurinn haldi þessu fram.
Munurinn á Vantrúarmönnum og síðan aðila eins og Tóta er að Vantrú kynnir sér báðar hliðar málsins og rökræðir þessa hluti frá a-ö. Þeir sem hafa orðið undir í rökræðum um þessi mál hafa orðið í einhverjum tilvikum sárir og reiðir og hafa komið á kreik þeim miskilningi að liðsmenn vantrúar séu m.a öfgamenn, dónar og meira að segja ofbeldismenn í allavega einu tilviki sem ég las.

Svona fólk á að hunsa. Þeir eyðileggja umræðuna.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Helgi, jú – ég hef lesið það. Hefði kannski átt að orða þetta aðeins öðruvísi. Barátta Vantrúar gegn þjóðkirkjunni og kristni er bara svo miklu meira áberandi á öllum sviðum. Kannski vegna þess sem Kristinn kemur inn á. Kirkjan er stór og sterk og þess vegna vekur það ekki eins mikla andúð að ráðast á hana.

Atlögur að kuklurum eru ekki mjög markvissar eða áberandi þótt þær séu vissulega til staðar.

Ekki það, Vantrú má haga sínum málum eins og félagið vill. Það er kannski bara mín persónulega skoðun að kirkjan sé alls ekki svo skaðlegt afl og mest af því sem hún gerir er bara ágætt. En ég hef af einhverjum litla þolinmæði gagnvart peningaplokkurum og gervivísindum.

Nafnlaus, athugasemt Tóta er þarflaust að ræða.

Helgi Briem sagði...

Mér finnst Ríkiskirkjan þvert á móti miklu verri en kuklararnir.

Þarna eru 140 manns á ofurlaunum (tvöföldum læknislaunum) beint frá skattborgurum þessa lands og við höfum ekkert við því að segja. Við bara borgum og borgum.

Allir hafa val um hvort þeir falla fyrir bullinu í kuklurum.

Eins og sagt er stundum, "fjárhættuspil er refsiskattur handa þeim sem nenntu ekki að læra stærðfræði".

Smáskammtalækningar eru refsiskattur á þá sem ekki skildu eitt einasta orð í náttúrufræðitímum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nú vil ég ekki, Helgi, meina þér þinna skoðana. Og þér er guðvelkomið að sjá eftir aurunum í prestana.

En ég kýs að líta þannig á málið að það sé hlutverk okkar að vernda þá minni í stað þess að reyna að saga lappirnar undan þeim stóru.

Þjóðkirkjan gerir fæstum mein og vinnur lítinn skaða. Og þótt hún fái vissulega skattfé er það töluvert annað mál en að plokka síðustu krónurnar af örvæntingarfullu og jafnvel veiku fólki.

Það hvarflar ekki að mér að líta á það sem réttlætanlegan „refsiskatt“.

Helgi Briem sagði...

Menn velja sér svo líka umfjöllunarefni eftir sýnileika þeirra og stærð.

Ólafur biskup er stærra og sýnilegra skotmark en Kolbrún grasalæknir og að marga mati eru hans verk skaðlegri. En um það má deila.

Sjálfur vildi að eftirlitsstofnanir leggðu miklu strangara mat á starfsemi Kolbrúnar, þar er ég þér að vissu leyti sammála. En enginn neyðir fólk til að leita til hennar og láta féfletta sig.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er hræddur um að við komumst ekki áfram með þessa rökræðu með svona áframhaldi. Mál Ólafs biskups er ömurlegt á alla kanta en varla sambærilegt við það sem hér er til umræðu eða einkennandi fyrir störf þjóðkirkjunnar. Dálítið svona eins og „Stalín var trúlaus, ergo...“

En ég er þeirrar skoðunar að þeir sem vilja hamast á þjóðkirkjunni eigi að fá það. Ég teldi bara klókt og þarft að hætta að hossast á henni af þessu afli og taka markvissar fyrir aðra þætti.

En svo lengi sem umræðan er málefnaleg er ég himinlifandi. Svo lengi sem hún er þörf er ég sáttur.

Þórður Ingvarsson sagði...

Þú vonandi veist það að þér er gvöðvelkomið að senda okkur lesendabréf/greinar sem heyrir undir málefni Vantrúar, sem "er að veita mótvægi við boðun hindurvitna og vinna gegn áhrifum þeirra í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum." (http://www.vantru.is/log-vantruar/) Það er ekki nauðsynlegt að ganga í félagið til að fá birtar greinar.

Just sayin´

Helgi Briem sagði...

Samanburður minn við Ólaf Skúlason nauðgara og barnaníðing var etv of harður.

Hins vegar er þjóðkirkjan stór og ríkur andstæðingar og margir starfsmenn hennar hika hvergi við að bera okkur Vantrúarmenn þyngstu sökum af engu tilefni.

Mér hefur td margoft verið sagt af prestum að útilokað sé að ég geti haft siðferðiskennd, verandi trúlaus. Slíkar persónuárásir hefur enginn skottulæknir leyft sér.

Auk þess er etv versti siðferðisbrestur kirkna að setja upp þessa uppdigtuðu valdastétt sem hefur aðgang að börnum og undirmálsfólki sem það getur notfært sér í skjóli embættisins.

Margir nýaldarloddarar og skottulæknir eru fátækir einherjar sem eru að reyna að skrapa sér einhverjar krónur á gráu svæði laganna. Þeir reyna að selja þér einhverjar bábiljur á borð við nálastungur og grasate en bera lítið frá borði. Ég hef stundum vílað fyrir mér að ráðast að slíku undirmálsfólki, sem þar að auki er oft velmeinandi. Það bara veit ekki betur.

En ég er svo sem sammála um það að í þjóðfélagi okkar leynast margir svikahrappar sem vert væri að benda á og koma upp um. Bæði innan trúarbragða, hjávísinda og hjálækninga.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ókei. Ég skil punktinn.

Get tekið sérstaklega undir næstsíðustu efnisgreinina.

Lærdómurinn er kannski sá að þetta er barátta sem best er að reyna að hafa ekki á persónulegum nótum?

Því þá fokkast allt upp.

Traustifreyr sagði...

Takk fyrir góða og málefnalega grein. Þú hittir naglann á höfuðið. Vantrú notar stór orð. Við notum orðalag sem kemur til með að særa og við vitum það. En við erum málefnaleg. Það eru nefninlega ekki mannréttindi að verða ekki móðgaður.

Ef það er til önnur leið til að berjast gegn kuklinu þá fögnum við þeim sem gera það. Til er félag sem heitir Raunfélagið. Það er á Facebook. Þeir eru kurteisir og málefnalegir og berjast aðeins gegn kuklinu. Endilega tékkið á þeim.

Það er rétt að við birtum mun fleiri greinar sem ráðast gegn þjóðkirkjunni heldur en gegn kuklurum.

Ástæðan er einföld. Það krefst mun meiri vinnu að skrifa grein gegn kuklinu heldur en þjóðkirkjunni. Það er ekkert mál að benda á að það sé ósanngjarnt að fólk þurfi að borga laun klerka hjá trúfélagi sem fólk er ekki meðlimir í o.þ.h.

En að skrifa grein sem gagnrýnir stoðfrumu meðferðir hjá vafasömum einstaklingum er töluverð vinna. Við getum ekki einfaldlega sagt, þetta er kjaftæði. Við þurfum að rökstyðja mál okkar með vísanir í rannsóknir ofl.

Það krefst gríðarlegrar vinnu. Vantrú er lítið félag með fáa penna. Við reynum að gera eins mikið og við getum. Satt best að segja held ég að við séum eina félagið (utan Raunfélagið) með yfirlýsta stefnu um að berjast gegn kuklinu.

Einnig eru þetta oft tilfinningamál. Fólk sem á um sárt að binda. Það er erfitt að benda örvæntingarfullu fólki á að það hafi eytt milljónum í kjaftæði og að meðferðin veiti enga von. Við veigrum okkur við því. Skiljanlega ekki satt?

En eins og Þórður Strigakjaftur benti á, við erum opin fyrir aðsendum greinum fyrir þá aðila sem nenna og vilja leggja þessa vinnu á sig.

Fólk getur skrifað undir leyninafni ef það vill ekki láta bendla sig við félagsskapinnn (af hvaða furðulegum ástæðum sem það kann að skipta). Þessar greinar þurfa að vera ýtarlega rökstuddar og með vísanir í rannsóknir, greinar o.þ.h.

Endilega byrjið að skrifa. Þörfin er mikil og mikið í húfi.

Þórður Ingvarsson sagði...

Mér finnst áherslan sem þetta litla félag leggur á ríkiskirkjuna vera alveg réttmæt.

Það er ýmislegt sem þessi undarlega stofnun hampar sem er dálítið vafasamt, jafnvel skaðlegt.

Eitt af því sem virðist vera mikið hampað er að forðast alla gagnrýni og (beinskeitta) umræðu.

Og svona hugsunarháttur; að forðast oft eftir fremsta megni að ræða um það sem er óþægilegt og tala frekar um eitthvað "fallegt og jákvætt" - er ekki mikil dyggð. Hún var gegnumgangandi í fjölmiðlum, hjá forstjórum, fjármálam- og stjórnmálamönnum fyrir ekki svo löngu síðan.

Þegar öll gagnrýni gagnvart þessu smáa og útþanda fjámálakerfi var túlkað sem öfund, almenn leiðindi og "barasta vitabaraekki um hvað þeir eru að tala". Breytti litlu að gagnrýnin hafi verði réttmæt, hún var bara ekkert skemmtileg.

Ein leiðinlegasta spurninginn sem ég hef ekki séð nein almennileg svör við er varðar ríkiskirkjuna er; Til hvers að hafa ríkiskirkju? Ég skil alveg að ríkið starræki mismunandi ráðuneyti til að sjá um mismunandi hluti er varðar innvols þjóðfélagsins. En ég skil ekki ríkiskirkjuna og nauðsyn hennar.

En þetta er bara svo leiðinlegt umræðuefni, og svörin er hægt að sjóða saman í svona er þetta bara og hefur alltaf verið og ef þetta væri ekki svona þá mundi allt fara til fjandans.

Sem er frekar lélegt svar.