10. ágúst 2011

Að byggja upp gott samfélag

Réttlátt samfélag er ekki sjálfkrafa gott samfélag. Þú getur haft skýrar og afmarkaðar reglur og algjört jafnrétti hvað varðar formleg réttindi – en samt haft vont, sundrað og stéttskipt samfélag. Réttlæti er enda ekki nóg – en það er samt nauðsynlegt. Markmiðið er farsælt samfélag. Samfélag farsæls fólks.

Af ýmsum ástæðum (sem ég ætla ekki að telja upp hér enda yfrið nógu langorður fyrir) tel ég að nauðsynlegt skilyrði farsældar sé frelsi. En ekki bara formlegt frelsi – heldur athafnir sem markast af frelsi. Sá maður er farsæll sem hefur eitthvað um líf sitt að segja og tekur ákvarðanir sem varða eigið líf.

Og ég er bölvaður pósitívisti að því leyti að ég held að raunverulega frjálsir menn kjósi heldur að vera hamingjusamir en óhamingjusamir.

Það má samt ekki gleyma að þótt farsæld sé að vissu leyti mikilvægari en réttlætið þá réttlætir það ekki óréttlæti sem leiðir til farsældar. Það má ekki taka refsifanga og breyta þeim í líffæragjafa af því að með því móti bjargar maður lífi fólks sem hefur miklu betri áhrif á heiminn en fangarnir sem dóu.

Ég færði rök fyrir því í pistli í gær að ákveðnar skyldur fylgi réttindum. Grundvallarskyldan er skylda til að valda öðru fólki ekki skaða. Þessi skylda tengist þeim grundvallarrétti að verða ekki fyrir skaða af öðrum. Rétturinn er í raun gagnslaus án skyldunnar.

Og ég held að þessari skyldu verði ekki aflétt af neinum nema þeim sem sökum líffræðilegra annmarka eru ófærir um að standa undir henni. Og jafnframt hef ég þá, kannski kaldlyndu, skoðun að sá sem ekki getur staðið undir þessari skyldu – hann hafi misst eða skorti einn mikilsverðasta þátt mennskunnar.

Það getur hinsvegar verið neyðarréttur manns að þegar hann lendir í því að einhver vanvirðir þennan rétt gagnvart honum þá geti hann, á meðan hann er í hættu staddur, valdið viðkomandi skaða í sjálfsvörn.

Mig langar að trúa því að þessi réttur sé hafinn yfir pólitískt karp. Að samfélög þurfi ekki að fást við stjórnmálaöfl sem vilja með markvissum hætti svipta fólk lífi, friði og eigum. En að sama skapi vil ég trúa því að vandleg ígrundun leiði í ljós að þessar grunnskyldur séu að sama skapi hafðar yfir vafa. Að sama hvað allri pólitík líður, slælegum aðstæðum eða mismunun að öðru leyti – þá hafi menn aldrei rétt til að valda saklausum skaða með þeim hætti sem t.d. er nú að gerast í Bretlandi.

Og ég held það sé nokkuð mikilvægt að menn sameinist um þessa sýn vegna þess að ég held að andúð okkar á svona ranglæti sé meðfædd og skynsamleg og ef maður missir sjónar á þessum sannindum (t.d. vegna pólitískrar heimsmyndar þar sem verslunareigandinn nýtur sjálfkrafa minni samúðar en unglingurinn úr gettóinu) þá getur maður ýtt venjulegu, öfgalausu fólki í átt til þeirra hatursstefna sem alltaf lúra á hægri jaðri hins pólitíska sviðs.

Fólk hefur á öllum tíðum þurft að þola ofsóknir, hatur og andúð. Menn eru víða um heim geymdir í búrum fyrir litlar eða engar sakir. Merkasta menningarþjóð Evrópu gekk af göflunum í almennu, samhentu átaki fyrir einum mannsaldri. En samt sem áður hefur aldrei verið réttlætanlegt að ganga á bak grundvallarréttindum manna.

Sovétmenn voru bornir á sigurstól eftir að hafa kæft fasismann í Evrópu. Á leið sinni stunduðu sovéskir hermenn skipulegar nauðganir, gripdeildir og morð. Það var normið frekar en undantekningin. Það gerði það samt ekki réttlætanlegt. Og í raun ekki „skiljanlegt“ í öðrum en ísköldum fræðilegum skilningi þess orðs. Í útrýmingarbúðum sátu menn sem menningin hafði yfirgefið. Hver sem er gat dáið hvenær sem er. Ok kúgunar og ótta var mörgum um megn. En samt var rangt (og kannski alveg sérstaklega rangt) að fá aukaskammt af brauði og súpu fyrir að misþyrma samföngum sínum. Og stela sér til matar frá veiklulegri mönnum. Menn báru nefnilega áfram mannlegar skyldur þótt næstum enginn virti þeirra mannlega rétt. A.m.k. gagnvart saklausum. Og raunar tóku fangar víðsvegar um Þriðja ríkið upp á því að taka upp dauðarefsingu gagnvart matarþjófum til að vernda þennan grunnrétt. Ef einhver var gripinn við að stela mat frá samfanga þá var hann oft drepinn eða látinn deyja.

En, eins og ég sagði áðan, þessi grunnréttindi eru ekki nóg. Þau skapa ekki sjálfkrafa farsæld. Og farsæld er markmið mannlegs lífs. Ekki bara það að halda sér á lífi.

Leitin að farsæld er pólitísk. Og um leiðina að henni má vera ósammála. Hver og einn á að hafa sína rödd og bannað er að hafa röddina af fólki sem maður er ósammála. Síðan eiga menn að fá að nota þessa rödd til pólitískra áhrifa, hvort sem það er með áróðri eða atkvæði.

En það má hvorki kjósa yfir sig né reka áróður fyrir ranglæti.

Ég er þeirrar skoðunar að gott samfélag sé best upp byggt þannig að fólk sé gert ábyrgt fyrir eigin lífi. Og að samfélagið tryggi að til sé „nægileg fjölbreytni“ til þess að hver einasti meðlimur þess hafi raunverulegan möguleika á því að skapa sitt eigið líf. Það er ekki nóg að horfa á formleg réttindi. Það verður að horfa á stöðuna eins og hún er. Ef fjöldinn allur af fólki í samfélaginu lifir lífi sem það hefur lítið vald yfir og er í raun dæmt til að lifa (sökum fátæktar, fáfræðis eða annarra ástæðna) þá held ég að komin sé ástæða til að aðhafast.

Ég held nefnilega að farsæld sé illa möguleg án þess að maður hafi sjálfur tekið persónulega ákvörðun um líf sitt. Og ég treysti á það að fólki myndi almennt og yfirleitt nota aukið frelsi vel.

Í íslensku samhengi tel ég mikilvægast að taka á aðstæðum og kjörum einstæðra foreldra, öryrkja og aldraðra. Því þetta eru allt hópar sem öðrum fremur einkennast af valþröng. Margt gamalt fólk fær vasapeninga! Og fær ekki að ráða því sjálft hvenær það fer í bað!!!

Í landi eins og Bretlandi þarf að bæta aðstæður og kjör þess fólks sem nú hleypur um og brýtur og bramlar. Og fjölda annarra sem búa þar við ömurlegar og ómannúðlegar aðstæður.

En við þurfum síðan öll á því að halda að höndla ábyrgð okkar betur og vera sjálfstæðari í hugsunum og gjörðum. Það þarf að kenna börnum frá unga aldri að þau geti haft áhrif – og þjálfa þau í að taka þessa ábyrgð á sig. Það þýðir ekki að veita fólki frelsi sem aldrei hefur fengið ábyrgðaruppeldi. Sjáið Bretland þar sem unglingar úr sumum hverfum stökkva eins og flær á áfengi, tóbak og kannabisefni um leið og þeir geta – auk þess sem þeir fara að stunda ábyrgðarlaust kynlíf mjög ungir. Og smíða með þessu líferni í raun en minni fangaklefa utan um sig en þeir þyrftu. Breskar unglingsstelpur verða óléttar í hrönnum (reykja jafnvel og drekka alla meðgönguna) og eyða svo næstu áratugum í að ala upp næstu kynslóð – þegar þær hafa varla fengið uppeldi sjálfar.

Ef frelsi er sett upp sem pólitísk markmið þá verður að fylgja ábyrgð. En ábyrgðin kemur af sjálfu sér ef frelsið er innleitt á eðlilegan hátt. Það vilja enda allir frekar vera hamingjusamir ef þeir hafa tök á því.

Skólar sem byggja á því að kennarar eru einvaldar og nemendur skulu hlýða, aðlagast og vera góðir – vinna gegn skynsamlegum markmiðum með samfélagi. Í Bretlandi og Bandaríkjunum eru skólar orðnir partur af formlegum (en ekki raunverulegum) réttindum barnanna. Það geta allir komist til álna EF þeir eru þægir, duglegri og gera lexíurnar sínar. Eða svo halda menn. Auðvitað er það rugl. Skólakerfi þessara landa eru samkeppnismiðuð. Það verður alltaf fleyttur ofan af „rjóminn“ og botnfallið lendir í vanda.

Skólinn á að vera uppeldisstofnun þar sem nemandinn lærir að hafa áhrif og bera ábyrgð. Skólinn á að vera lýðræðislegur og hvetja börn til þess að hugsa sjálfstætt og hafa skoðanir. Rökræður eiga ekki að einskorðast við þessi augnablik áður en barnið er sent til skólastjórans í tyftun.

En – og þetta er mikilvægt en – það á aldrei að samþykkja eða telja eðlilega hegðun eins og þá sem er í gangi í Bretlandi núna. Víst er aðstaða þessa fólks slæm. Vissulega er lítil athygli á vanda þeirra. Og vissulega geta svona óeirðir á endanum skilað aðgerðum sem annars er erfitt að fá. En þetta eru tugþúsunda og jafnvel milljóna hverfi. Úti á götu eru nokkur hundruð manns. Það er fjöldinn allur af fólki í þessum hverfum sem ekki dettur í hug að taka ógæfu sína út á saklausu fólki. Ber harm sinn í hljóði.

Það er í því fólki sem viðreisn þessara hverfa liggur. Það fólk hefur til að bera siðferðilegan grunn sem hægt er að byggja á. Það eru milljónir Breta sem þurfa ekkert annað en tækifæri. Sem þarf ekki einu sinni að kosta mikið – og mun borga sig upp.

Og hið sama gildir á Íslandi. Það eru alltof margir fangar eigin aðstæðna og úrræðaleysis. Oft þarf ekki annað en menntun, því þrengstu búrin eru oft þau sem við (en enginn annar) steypum yfir okkur sjálf.

Engin ummæli: