18. ágúst 2011

Þrýstingur á lyktir (væntanlegs) verkfalls þarf að koma utanfrá

Nú ætla ég að tala af fullkominni hreinskilni. Ég ætla að láta allan áróður lönd og leið og gera, svo fremi sem mér er unnt, grein fyrir málum.

Eins og staðan er núna stefnir í langt og erfitt verkfall leikskólakennara.

Það eru ekki bara kröfur leikskólakennara sem halda aftur af sambandi sveitarfélaga. Það sem sveitarfélögin óttast er halarófan sem kæmi á eftir. Það eru fjölmargir hópar sem vilja fá „leiðréttingu“ launa – enda hafa laun á landinu ekki þróast í takt við útgjöld hin síðari ár. Sveitarfélög með þúsundir starfsmanna hafa hingað til gert varfærna og frekar stutta samninga með litlum launahækkunum. Það er hin óskrifaða „þjóðarsátt.“

„Þjóðarsáttin“ hefur a.m.k. verið tvíbrotin á síðustu mánuðum, nú síðast af flugmönnum sem þvinguðu fram kröfur sínar með því að setja uppgripstímann í ferðaþjónustunni í uppnám. Og hún er þunn línan á milli raðverkfalla (sem virðast vera að myndast) og allsherjarverkfalla – sem vissulega eru möguleiki í stöðunni.

Enginn samfélagshópur hefur hag af allsherjarverkföllum. Á þeim tapa allir. En allir græða á því að vera þeir einu sem fara í verkfall (að því gefnu að þeim lykti farsællega). Þetta er fangadílemman. Stundum er eina leiðin til að hagnast sú að aðrir geri ekki það sama og þú.

Ef sveitarfélög láta hótun um verkföll duga til að ganga að kröfum leikskólakennara eru þau að senda veikleikamerki út í samfélagið sem mun valda þeim vanda með aðra viðsemjendur. Þau líta því svo á að það sé á þeirra ábyrgð að forða ekki verkfalli.

Annað er að verkföll leikskólakennara þurfa ekki að vera sveitarfélögunum mjög óheppileg. Það þarf ekki að borga laun þeim sem fara í verkfall. Og það er alls ekki víst að heildarkostnaður vegna málaflokksins hækki við það að verkfall eigi sér stað. Það fer þó auðvitað mikið eftir því hvort hægt er að halda öðrum starfsmönnum (sem í þessu tilfelli eru töluvert margir) að verki á meðan og innheimta leikskólagjöld að verulegu leyti áfram. Draumastaða sveitarfélaga er að verkfall loki ekki leikskólum því í því er bara fólgin sparnaður. Það þarf ekki margra mánaða verkfall til að spara þær upphæðir sem síðan þyrfti að punga út við gerð nýs samnings. Og því lengra sem verkfallið yrði, því hagstæðara fyrir sveitarfélögin.

Leikskólakennarar verða því að sjá til þess að sveitarfélögin þurfi að loka leikskólum. Að öðrum kosti er verkfallið ónýtt. En takist þeim það og leikskólarnir standa barnlausir en með fjölda fólks á launaskrá – gæti mótleikur sveitarfélaga verið að segja upp því fólki.

Aukaverkun af því að leikskólakennarar loki deildum með handafli er að með því tekst sveitarfélögunum kannski að gera þá að „vondu köllunum.“ Það fer eftir því hvernig það er gert. Ef reiðir leikskólakennarar verða með uppþot, ofbeldi eða leiðindi á skjám landsmanna og sjást í slag við venjulegt, örvæntingarfullt fólk sem verður að koma börnunum sínum í leikskólann til að komast í vinnuna – þá getur samúð með leikskólakennurum horfið furðu fljótt. Og þótt samúð sé vissulega ekki lykilatriði í verkfallinu, þá er töluvert til hennar vinnandi.

Ein leið til að verkfallinu ljúki fljótt er ef samfélagið lamast að stórum hluta. Það geta ekki allir mætt með börnin sín í vinnuna. Miklu líklegra er þó að aðeins takmarkaðir hlutar samfélagsins muni lamast. Það þarf ekki að vera svo slæmt fyrir sveitarfélögin. Manneskja sem vinnur á vegum sveitarfélags á ekki rétt á frídögum vegna leikskólaplássleysis. Fólk yrði miskunnarlaust sett í launalaus leyfi og þjónustuskerðingu skellt á reikning verkfallsins – og þá getur skipt máli hvorum megin samúðin er. Og enn myndu sveitarfélög spara sér pening.

Leikskólakennarar eiga aukinheldur digra verkfallssjóði. Þeir hafa ekki farið í verkfall óralengi og eiga auk þess möguleika á styrkjum og jafnvel lánum. Þeir munu ekki bakka út héðan af.

Það stefnir því í langt verkfall.

Og verkfallinu mun líklega ekki ljúka fyrr en það er búið að standa nógu lengi og vera nógu sársaukafullt til að lengd verkfallsins ein og sér feli í sér fælingarmátt fyrir aðra hópa sem íhuga verkföll.

Þá fyrst munu sveitarfélögin íhuga að láta að kröfum leikskólakennara. Jafnvel búin að hagnast verulega á meðan á verkfallinu stóð og almenningur búinn að skipta byrðinni á milli sín.

Þeir, sem verst munu koma út, eru fátækasta og félagslega veikasta fólkið. Fólkið sem er með börn á framfæri en lítinn stuðning frá fjölskyldu og vinum. Fólk sem allflest er í störfum sem krefjast þess að börnin séu annarsstaðar á meðan. Þetta fólk mun lenda í ægilegum vanda.

Þetta er staða sem ömurlegt er að lenda í. En svona standa málin hreinlega ef maður horfir hlutlaust á sviðið.

Það ömurlega er, að sveitarfélögin eru líklega alveg til í að semja við leikskólakennara. Þetta snýst ekki um þá. Þetta snýst um alla hina. Og þess vegna þurfum við að þjást áður en hægt er að halda áfram.

Það er vissulega enn von. Það er ekki lögmál að menn fylgi þessu til enda. En það er ári líklegt.

Ef leikskólakennarar og sveitarfélögin eiga ein að tefla þessa skák til enda, þá fer hún í bið.

Eina leiðin til að stytta verkfallið er ef almenningur rís upp og gerir þá kröfu almenna og háværa að verkfallinu ljúki. Að stjórnmálamennirnir sem stýra sjái, að pólitísk framtíð þeirra kann að vera að veði. Og að krafan verði svo kraftmikil og eindregin að menn sjái að hún fer langt umfram það sem aðrir (sem bíða og brýna verkfallsvopnið) mega búast við að fá sem stuðning.

Verkfallinu verður aðeins lokið á skömmum tíma með utanaðkomandi þrýstingi. Og þegar hann ratar á réttan stað – mun því ljúka í einni svipan.

Málin eru úr höndum leikskólakennara og komin á borð mitt – og þitt.

Okkur ber að sjá til þess að menn vakni af þessari skák – og klári málið. Hratt og örugglega.

Engin ummæli: