17. ágúst 2011

Leikskólakennarar og niðurskurðarhnífurinn

Það eru tvær leiðir til að tryggja faglegt starf í skólum. Sú fyrri er að setja yfir skólana óumdeilt fagfólk sem veitir nægilega ríkulegt aðhald og leiðsögn til að starfsfólk skólanna haldi uppi metnaðarfullu starfi og láti ekki skólann grotna niður. Hin leið er að ráða til skólanna metnaðarfullt fagfólk sem tryggir starfið innanfrá.

Fyrir ekki svo löngu síðan var sýnd í kvikmyndahúsum bíómynd um ungbörn. Þar voru borin saman fyrsta æviár barna úr mismunandi menningarheimum. Niðurstaða myndarinnar var eiginlega sú að það skipti ekki máli hvort barnið væri í hátæknisamfélagi Japana eða úr moldarkofa í Afríku – öll börn þroskast á álíkum hraða fyrsta æviárið. Þau hjala, skríða, ganga – tala.

Lengi vel litu menn svo á að börn þroskuðust nokkuð sjálfkrafa fram eftir öllum aldri. Þess vegna var formlegt nám lítið og aumt fram eftir öllu.

Nú er hinsvegar vitað að árin sem líða á milli þess að barnið er eins árs og þar til það hefur grunnskólagöngu er langt frá því erfðafræðilega sjálfstýrandi tími. Það er gríðarlega mikilvægt að börn á þessum aldri verði fyrir örvun og þroskist ríkulega. Það býr nefnilega miklu meira í þeim en fram til þessa hefur endilega verið talin ástæða til að uppskera. Börnin geta lært erlend mál, áttað sig á stærðfræðilegum hugtökum, rannsakað heimin og sjálf sig – og afrekað ýmislegt annað, þótt þau séu lítil.

Þetta verður aldrei skýrara en ef „fötluð“ börn eru skoðuð. Það viðhorf var lengi vel ríkjandi að „fötlun“ væri óviðráðanlegt, líffræðilegt ástand. En nú hafa rannsóknir leitt í ljós að fjölmörg börn þurfa alls ekki að verða jafn „fötluð“ og þau hafa hingað til verið látin verða með afskipta- og ráðaleysi. Með markvissri, faglegri örvun er hægt að fyrirbyggja mörg af þeim einkennum sem annars koma fram. Fötlun þarf ætíð að skoða í samhengi við þær félagslegu aðstæður sem hún kemur fram í.

Fram undir grunnskólaaldur læra börn heilmikið. Persónuleiki þeirra mótast sem og viðhorfin. Þau hefja vegferð sem einstaklingar með misjafna hæfileika og þroskast á mjög misjöfnum hraða. Það er ekkert einsleitt við hóp sex ára barna. Það er ekkert sem réttlætir það að þar eigi að liggja neðri mörk menntunar.

Til allrar hamingju nýta Íslendingar leikskólana sína vel – þótt sveitarfélögin hafi alla tíð trassað mjög að sjá til þess að framboð sé í takt við eftirspurn. Nám leikskólakennara hefur aukinheldur verið stórlega bætt og aukið. Heil kynslóð fagfólks hefur komið fram. Fólk sem er að minnsta kosti jafn vel menntað og við grunnskólakennararnir.

En af einhverjum ástæðum hefur leikskólinn verið mjög alvarlega og harkalega vanræktur hin síðari ár.

Fyrir nokkrum árum voru sett ný lög um grunnskóla sem opnuðu á þann möguleika að hægt væri að reka saman grunn- og leikskóla. Sem auðvitað er frábært. Best væri að öll börn á Íslandi færu af leikskóla og yfir í grunnskóla á eigin forsendum og næstum án þess að verða vör við breytingu. Þau gætu jafnvel verið á báðum skólastigum í einu á tímabili. Grunnskólakennarar eiga fullt erindi inn á leikskóla og öfugt. Hagsmunir barnsins eru það sem skiptir máli.

Nú hefur hinsvegar komið í ljós að illa stæð sveitarfélög nýta þessa heimild í sparnaðarskyni. Og yfirleitt leikskólanum í óhag. Þá eru sameinaðir leik- og grunnskóli undir einni stjórn – algerlega á forsendum grunnskólans. Og jafnvel eru dæmi um leikskóla sem njóta engrar raunverulegrar fagstjórnar.

Og núna, í síðasta kreppuskoti, ruku sveitarstjórnarmenn á grunnskólana. Þeir reyndu, án tilætlaðs árangurs, að fórna faglegu starfi grunnskólanna í sparnaðarskyni. Reyndu að stytta skólaárið og skóladaginn. Nú þegar brjóta þau á hverjum einasta skóladegi lög með því að manna ekki forföll. Senda börn frekar ein heim til sín um miðjan skóladag þegar foreldrarnir halda að börnin séu á ábyrgð og stjórn skólans. Og af einhverjum ástæðum gerir enginn neitt. Ekki eitt einasta foreldri sendir inn kvörtun eða kærir það að barn þess sé sett út á götu á þeim tíma sem það er lagalega á ábyrgð skólans og á, lögum samkvæmt, að vera að njóta menntunar.

En sveitarfélögin þurftu að mestu frá að hverfa. Þau fengu ekki að stytta daginn eða skólaárið. Þau komust lítið áleiðis með að skerða rétt kennara. Þau gerðu sannarlega allt sem þau gátu. En það var ekki nóg. Þau vildu meira.

Það sem stöðvaði sveitarfélögin í örvæntingarfullri tilraun til niðurskurðar í grunnskólanum var öflug hagsmunagæsla og fagleg forysta. Grunnskólinn er skipaður fagfólki og á bak við hann stendur öflug sveit fagmanna. Og þótt yfirmönnum skólamála í sveitarfélögum hafi láðst að viðhalda faglegum metnaði þá mæti þeim svo öflug andspyrna innan ráðuneytisins og skólanna að þeir urðu að sætta sig við orðinn hlut. Og var niðurskurðurinn þó nægur, sársaukafullur og ólöglegur fyrir.

En leikskólinn hafði ekki sömu varnir. Þar er hlutfall fagmenntaðs fólks miklu lægra en í grunnskólanum. Þar er fyrir löngu orðið viðtekið að ekki sé nein sérstök skylda að uppfylla þörfina með þjónustu. Þar eru ekki eins öflug hagsmunasamtök að baki.

Og því var vaðið með niðurskurðarhnífinn í leikskólann. Skólar voru sameinaðir grunnskólum á forsendum grunnskólanna og algerlega án tillits til faglegra forsendna. Og nú síðast hlupu yfirmenn menntamála í Reykjavík til og ráku niðurskurðarhnífinn á kaf í leikskólana. Fylltu fyrst alla fagmenn í skólamálum af skelfingu og héldu mönnum í óvissu um það hvort hinn eða þessi leikskólinn myndi lifa af sem fagleg eining. Skólastjórnendum var att saman í viðbjóðslegu sýndarferli þar sem menn lentu jafnvel í því að þurfa að sitja til borðs með öðrum stjórnendum og flytja höfuðlausnarkvæði í þeirri von að hnífurinn endaði í einum sessunautanna.

Svo var rótað fram og aftur. Látið eins faglegt starf skipti ekki máli. Og gert var gert.

Niðurskurður Reykjavíkurborgar og víðar var árás á faglegt starf leikskólanna.

Þegar yfirmenn standa ekki vörð um faglegt starf skóla þá er eina vonin sú að þar starfi nægt fagfólk til að grípa til varna. Ein forsenda þess að fagfólk haldist í starfi er að því séu boðin sambærileg kjör og annarsstaðar. Mikið hefur vantað upp á það í kjörum leikskólakennara. Þeir duttu afturfyrir. Gleymdust. Voru ekki nógu harðir.

Slök kjör leikskólakennara stefna skólunum í hættu. Skólarnir eru eins og sjúklingur með viðvarandi blæðingu og áhugalausan lækni. Læknirinn (skólayfirvöldin) hefur þrátt fyrir fagurgala ekki sýnt neina framför. Þá þarf að treysta á að blæðingin stoppi af sjálfri sér.

Nú eru leikskólakennarar að setja fingurinn á sárið. Reyna að stöðva blæðinguna. Reyna að halda fagfólki í starfi og berjast fyrir því að leikskólinn sé valkostur fyrir fagmenn. Fyrir fólkið sem nú á að leiða börnin fyrstu skrefin í vegferð sem foreldrarnir klúðruðu.

Leikskólakennarar eru í nauðvörn. Það kemur enginn annar leikskólunum til varnar. Það er fullreynt.

Hvað sem öðru líður þá verður þjóðfélagið að senda skýr skilaboð um að það standi á bak við leikskólana sína. Að foreldrar vakni og stöðvi árásir sveitarstjórna. Leyfi þeim ekki að líta svo á að börn séu tölur í excel-skjali.

Ég styð leikskólakennara fyllilega í þessari baráttu og komandi verkfalli – og þótt fyrr hefði verið. Ég, og kollegar mínir, hefðum átt að standa upp fyrir löngu og slá skjaldborg um fyrsta skólastigið. En við gerðum ekki neitt, vorum of hrædd við blikandi egg niðurskurðarhnífsins. Lifðum í þeirri villu að það væri virkilega betra fyrir okkur sjálf að hann lenti í einhverjum öðrum en okkur.

Sem er álíka gáfulegt og að augað fagni því að sjá hnífinn rekinn í brjóstið en ekki andlitið.

Engin ummæli: