13. ágúst 2011

Þvílíkur bjáni!

Bretland er „sjúki maðurinn“ í Evrópu. Hnignandi menningarríki fullt af misskildu stolti. Ef Evrópa væri matjurtagarður væri Bretland kartöflugras – allt það besta er oní mold.

Landið verður að taka markviss skref að því að verða alvöru velferðarríki áður en fasisminn nær tökum á landinu. Og það verður að taka harðar á glæpamenningu sem heldur hverfum í gíslingu og eyðileggur allar tilraunir til úrbóta. Það verður fólk að stjórna í landinu sem raunverulega þykir vænt um fólk – sama hvernig það er á litinn. Ekki einhver uppskafin skoffín sem eiga að vera holdtekjur þess sem einu sinni gerði Bretland „greit.“

Ég fullyrði að fólkið sem starfar í löggæslu, heilsugæslu, félagsþjónustu og menntakerfi landsins veit hvar vandamálin liggja. Stjórnvöld þurfa að bakka þetta fólk upp í stað þess að ala á endalausri tortryggni í þess garð.

Umbótasinnar eiga að fá meiri athygli. Uppbyggileg umræða. Húmanísk nálgun.

Fyrir ekki svo löngu voru sýndir í Bretlandi sjónvarpsþættir sem hétu „Draumaskóli Jamies.“ Í þáttunum reyndi Jamie Oliver að búa til „ofurskóla“ fyrir börn sem þrifust ekki í skólakerfinu. Hann fékk til liðs við sig þekkta, breska háskólamenn, leikara og fólk sem stóð fremst á sínu sviði. Þetta fólk átti svo að kenna unglingunum. Eða réttara sagt reyna að smita þá af þeirri ástríðu sem einkenndi þetta fólk.

Þetta reyndist erfitt verk. Unglingarnir áttu mjög erfitt með að sýna virðingu eða athygli. Kennararnir þurftu oft að taka á honum stóra sínum. Og hafa verður í huga að þetta var allt mjög virt fólk sem var vant heilum hópum af andaktugu fólki sem lepur upp hvert einasta orð. Skyndilega var þetta fólk sett í þá aðstöðu að bullandi athyglisbrostnir krakkar sögðu bara „só vatt?“ og toguðu í hárið á sessunautunum.

Það er ekki hægt að hjálpa svona börnum nema þykja vænt um þau. Að vilja einlæglega hjálpa krökkunum að komast yfir þann hjall sem þau eru föst á bak við. Að vera tilbúinn að gera ekki sömu kröfur um samskiptahæfni og maður gerir alla jafna – en standa samt fastur á þeim kröfum sem maður gerir.

Einn af kennurum Jamies var stórslys. Hann kenndi krökkunum sagnfræði og hafði undirbúið tímann með því að fá lánaða stórmerkilega og mjög verðmæta gripi úr sögu Bretlands sem hann sýndi krökkunum. Krökkunum þóttu gripirnir ekkert spes. Krakkarnir voru ekki dónalegir en þeim tókst hvorki, og raunar mjög skiljanlega, að sjá snilldina á bak við þessa dauðu hluti né að gera sér upp áhuga.

Kennarinn, David Starkey, lét þennan skort á áhuga fara nokkuð í taugarnar á sér og benti krökkunum á að þau ættu að vera þakklát – þau væru þarna vegna þess að þau væru „misheppnuð“ og ... Hann komst ekki mikið lengra því bekkurinn móðgaðist heiftarlega og ísköld stemmnind andúðar ríkti það sem eftir lifði kennslustundar. Starkey tókst þó með einstakri fimi að koma að einum fitubollubrandara til að „þagga niður í“ galgopa; þéttholda skemmtilegum strák sem fannst (fram að þessu) gaman að reyna að spæla kennara.

Nú hefur David Starkey komist aftur í fréttirnar. Nú vill hann meina að hvít börn Bretlandseyja hafi á einhvern hátt smitast af þeim svörtu. Og vandræðin stafi af því. Sjá má snilldina hér (það má líka smella á myndina).Nú er ég stækur stuðningsmaður málfrelsis. En um leið þess að málfrelsið sé notað til að reyna að komast að sannleikanum um hvert mál – jafnvel þegar það er óþægilegt.

David Starkey er ekki glæsilegur fulltrúi málfrelsis, manns sem þorir að segja það sem aðrir hugsa. Hann er einfaldlega forpokaður og illa áttaður mannhatandi rasisti. Fauskur sem er jafn stirðnaður og gamaldags í hugsun og fornminjarnar sem hann hefur í áratugi kynnt sjónvarpsáhorfendum.

Þegar hann fékk tækifæri til að „betra“ nokkra af fulltrúum vandræðabarna Bretlands mistókst honum herfilega. Hann sýndi börnunum yfirlæti og hroka og skorti allt næmi á krakkana. Og væntumþykju.

Við Íslendingar eigum að horfa til Bretlans með nokkrum alvöruþunga. Félagslega kerfið hér á landi er hægt og rólega að sigla í það far sem það hefur verið í nokkuð lengi þar. Ég kynnist og heyri æ oftar af nemendum sem nær ómögulegt er að hvetja áfram því markið er ekki sett á sjálfstæða þátttöku í samfélaginu – heldur á bætur, eins og mamma – og amma. Félagslega kerfið getur voða lítið gert ef sjálfsbjargarviðleitnin er lítil eða engin. Það er verið að bera í fjölskyldur fé og úrræði sem ekkert er gert með og ekkert verður úr. Frelsi fólks til að ráða yfir sjálfu sér veitir mönnum ákveðið vald til að veslast upp.

En menn eiga ekki að fá að gera börnunum sínum það að alast upp án framtíðar. Og það er þar sem við þurfum að leggja þungann. Það er hægt að ná til barna, t.d. í gegnum sjónvarp, netið og skólann.

En það þarf að bjarga þessum börnum með forvörnum. Veita þeim stuðningin áður en þau missa dampinn. Það er þúsundsinnum erfiðara að bjarga unglingi sem kominn er í uppgjöf en að koma í veg fyrir uppgjöfina.

Við sem samfélag eigum að tryggja að börnum sé ekki mismunað eftir aðstæðum og efnahag foreldra.

Ég keypti „skóladót“ fyrir 11 ára dóttur mína á dögunum. Það kostaði tæpar 20 þúsund krónur. Rúmlega helmingur af því var ný skólataska.

Fjölmargir foreldrar hafa ekki efni á því að kaupa allt sem er á „innkaupalistum“ hins ókeypis grunnskóla. Af hverju í ósköpunum þurfa börn að útvega blýanta, skæri og lím. Á hvaða vinnustöðum þurfa starfsmenn að kaupa pappír og önnur gögn?

Börn hinna efnaminni geta ekki æft íþróttir eða tekið þátt í félagsstarfi. Fá sjaldan ný föt. Fara sjaldan í bíó, Húsdýragarðinn eða í keilu. Sum fá ekki einu sinni að vera á leikskóla. Þeim er markvisst kennt frá unga aldri að Ísland skiptist í tvö samfélög: þá sem eiga og þá sem eiga ekki.

Auðvitað þarf þetta ekki að vera svona.

Hvert barn er fjárfesting sem borgar sig margfalt til baka. Hvað ætli manneskja þurfi að vinna lengi á vinnumarkaði áður en skatttekjurnar eru búnar að borga upp þá smáupphæð sem þarf til að hafa skólann í raun og veru gjaldfrjálsan? Hvað ætli sparist margir milljarðar í heilbrigðiskerfinu ef öll börn og unglingar hafa aðgang að íþróttum, hollum mat og heilbrigðum lífsstíl?

1 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Ég held að þetta sé bara besta grein sem ég hef lesið eftir þig. Það er nefnilega svo ofboðslega vont viðhorf að "velferðarkerfi" merki það sama og háar bætur.

Ég er hinsvegar hrædd um að það að "taka hart á" glæpagengjum sé ekki áhrifarík leið til að uppræta þau. Eins og þú bendir svo vel á eru það ákveðnar samfélagsaðstæður sem ala af sér gengjamenningu og meira ofbeldi gagnvart fólki sem hefur alist upp við mikla mismunun, án framtíðar og er brjálað af reiði (enda þótt sú reiði réttlæti auðvitað ekki það að bera eld að heimilum fólks) mun ekki draga úr vantrausti fólks á kerfinu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að yfirvöld viðurkenni að þau hafi brugðist. Án þess munu átökin bara harðna enn frekar.