11. ágúst 2011

Þetta snýst um vald!


Þegar Bertrand Russell, hin mikli aktívisti og friðarsinni, var tælplega sextugur skrifaði hann mjög aðgengilega bók um það hvernig best væri að höndla hamingjuna. Í bókinni þurfti hann að díla við þá mýtu að þunglyndi væri einkenni gáfna – að fólk með nægilega greind yrði næstum sjálfkrafa óhamingjusamt vegna þess að það „sæi“ á einhvern hátt „í gegnum“ eitthvað, sem væri grunnur hamingju annarra. Russell hafnaði þessari sýn með ágætum rökum og úr ágætri aðstöðu til þess – enda fáir þess umkomnir að ætla að trompa Russell með gáfum – eða rökum.

Gáfumannaþunglyndi er, samkvæmt Russell, spurning um skapgerð. Skap getur mótað röksemdir okkar en röksemdir móta illa skap. Þú þrætir engan úr fýlu. En fyrir hverja röksemd sem sá þunglyndi dregur á flot til að undirstrika ömurleika þessa táradals sem við erum dæmd til fangavistar í er hægt að draga á flot a.m.k. jafn sterka röksemd um það að lífið sé stórkostlegt og fágætt tækifæri. En jafnvel slík rökræða er gagnslítil. Hinn stóri sannleikur í málinu er sá að það er óumdeilanlega betra að lifa lífinu hamingjusamur. Og Russell trúði því að hver sem sæi í raun raunhæfa leið til þess að verða hamingjusamari myndi grípa hana. En að samfélagið og ýmsir þættir verði þess valdandi að hamingjan lendi neðar á blaði hjá ofboðslega mörgum en ástæða er til.

Það er þessi punktur um „skap“, sem mig langar að taka upp. Og víkka hann út. Það vill nefnilega svo til að „viðhorf“ hafa sömu áhrif á rökhugsun og skap. Þegar við höfum komið okkur upp viðhorfum, heimsmynd (sem hjá flestum byggir á a.m.k. dágóðum skammti af fordómum og órökstuddum tilfinningum) – þá hefur þetta viðhorf tilhneigingu til að stýra rökhugsun okkar um alla mögulega hluti. Eins og til dæmis óeirðirnar í Bretlandi.

Bráðgáfað fólk kemst að gersamlega mismunandi niðurstöðum og nær ekki að rökræða sig saman vegna þess að viðhorfin sem liggja til grundvallar meina þeim að fallast á röksemdir sem stangast á við heimsmyndina.

Annarsvegar höfum við hóp fólks sem lítur á óeirðarfólkið sem skríl, hugsjónalausan og gráðugan múg. Hinsvegar fólk sem lítur á óeirðarfólkið sem undirokaða stétt í baráttu við valdið og auðmagnið. Síðari hópurinn lítur gjarnan á lögregluna sem illt og undirokandi afl – en fyrri hópurinn er alls ekki andvígur því að kúpla löggunni burt fyrir herinn.

Hildur skrifaði glósu um skrif mín um málið og skýrði þar á mjög heiðarlegan hátt frá því að hún sé byrjuð að tileinka sér þá aðferð þegar hún á erfitt með að taka afstöðu að taka afstöðu með þeim valdaminni. Og að þegar vald skuli fært til þá sé góð regla að flytja það frá þeim sem hafa meira af því til þeirra sem hafa minna. Og með þessu móti skapist í hennar huga ákveðin samúð með mótmælendum sem standa andspænis lögreglu og öðrum yfirvöldum, jafnvel þótt hún sé aldrei til í að leggja blessun sína yfir ofbeldi.

Ég ætla ekki að fara í pælingar um það hvort hægt sé að lýsa sig skilyrðislaust á móti ofbeldi en hafa samt samúð með fólki sem lemur saklaust fólk og kveikir í húsum. Ég held það sé ekki hægt. Ég ætla samt að tala aðeins um valdið.

Fréttaskýrendur sem lýsa mótmælendum lýsa tveim tegundum af fólki. Sú fyrri er „venjulegt“ fólk, stuðningsfulltrúar og börn auðmanna, sem hrífst með ólátunum án þess að vera á nokkurn hátt á barmi örvæntingar. Ég sá einmitt eina stelpu á Twitter á öðru kvöldi ólátanna sem skrifaði: „Eignaðist fullt af nýju stöffi! #riots Whoop! Whoop!“ Fyrir þessu fólki er þetta bara eins og ein stór útsala. Möguleiki til að skapa vesen eða eignast flott dót af því að það er enginn til að stoppa það.

Ég hygg að enginn, ekki einu sinni vinstri sinnaðir umbótasinnar, hafi sérstaka samúð með svona fólki. Og ætla því ekki að eyða fleiri orðum í það.

En svo er það hinn hópurinn. Hópurinn sem fréttaskýrendur, sérstaklega vinstri sinnaðir, vilja beina athyglinni að. Það er hópur ungra karla sem eru svo samofnir gengjamenningu þessara hverfa að fyrir þeim er áhættan á handtöku ákaflega lítil fæling. „A way of life“ eins og einn samúðarfullur greinandi sagði á SKY í gærkvöldi. Þetta fólk verður ekki fælt með löggum eða hermönnum – þvert á móti er maður að auka líkur á langvinnu borgarastríði.

Ég vil meina að þessir menn beri meginábyrgð á ástandinu. Og að þessum mönnum sé sáralítil vorkunn. Og ég vil reyna að sýna fram á að jafnvel þótt maður tileinki sér hina rawslísku fjalldalareglu sem Hildur fer eftir – þá sé niðurstaðan sú að á þessum mönnum (og þeirri menningu sem tilheyrir þeim) beri að taka af fullri hörku og alvöru.

Vald er pínulítið snúið hugtak. Það er svo margt sem spilar inn í. Í sem einföldustu máli þá er til yfirvald og síðan persónulegt vald. Gott lýðræðisríki gætir þess að áhrif á yfirvaldið sé hluti af persónulegu valdi. Samt er vald venjulegs fólks yfir yfirvöldum ákaflega lítið. Eitt skitið atkvæði á fjögurra ára fresti. Sumir myndi jafnvel ganga svo langt að segja að vald venjulegra kjósenda sé lítið annað en persónulegt vald.

Hin ofboðslega gengjamenning sem herjar á sumar af stærstu borgum Bretlans hefur sogað til sín vald yfir heilum hverfum og borgarhlutum. Fólk er ekki óhult vegna þess að klíkur og gengi ráða lögum og lofum allt umhverfis það. Grunnskólar og félagsleg úrræði virka ekki vegna þess að þau standast ekki samkeppni við „lögmál götunnar.“ Tryllt, hedónísk og óþroskuð unglingamenning sogar til sín hvern unglinginn á fætur öðrum þrátt fyrir góðan vilja félagsmálayfirvalda og menntayfirvalda til að breyta þessu til batnaðar. Hnífa- og skotárásir eru daglegt brauð. Rasismi (allra kynþátta) blómstrar.

Og þessu er gríðarlega erfitt að breyta vegna þess að valdið í þessum hverfum hefur sogast umhverfis þessar svartholsklíkur.

Það er nefnilega svo að í Bretlandi eru ekki að takast á valdalaus ungmenni og lögreglan. Þótt maður vildi svo ofsalega að svo væri til þess að allt stemmdi fallega og vel við heimsmyndina. Rósturnar núna eru gengi að sýna „yfirvaldinu“ hver ræður í raun – og að þau geti gert það sem þau vilja. Eina raunverulega réttlætingin sem óróaseggir hafa sýnt gagnvart fórnarlömbum sínum er að þeir séu að taka hluti af þeim ríku. Refsa þeim sem hafa það „skárra“ en þeir í hverfunum. Nokkuð sem á sér ansi skýra hliðstæðu í Kristalsnótt nasistanna, þegar Gyðingabúðir fengu loksins að finna fyrir því hvernig er að eiga aur þar sem hatursfull smámenni eru blönk.

Hinir raunverulega valdalausu eru fórnarlömb árásanna. Fólkið sem var barið, misþyrmt og þorir ekki út úr húsum sínum. Fólk sem horfir á húsin sín, búðirnar sínar og bílana sína brenna. Níræður maður sem á rakarastofu sem hann hefur ekki efni á að tryggja sem kemur að stofunni sinni í rústum, búið að brjóta og bramla og stela öllu smálegu.

Með engu skynsamlegu móti er hægt að réttlæta það að saklaust fólk verði fyrir ofbeldi vegna þess að gengjum í hverfum er uppsigað við lögregluna. Punktur. Ætti ekki að þurfa að ræða það frekar.

Og þessi gengi, sem enginn efast um að eru drifkrafturinn í ólátunum, eru ekki hinir valdalausu. Hinir valdalausu. Þeir sem við ættum móralsk og praktískt að styðja. Eru íbúar þessara hverfa sem hafa búið undir ofurvaldi þessara gengja alltof lengi. Eru drengirnir sem þurfa að þola ofbeldi, hótanir og kúgun. Eru barnungir gerðir háðir áfengi og eiturlyfjum og látnir fremja ódæði til að fá inngöngu. Eru allar stúlkurnar sem eru hin raunverulegu fórnarlömb ofboðslegar kvenfyrirlitningar og kúgunar. Ganga manna á milli og veita kynferðislega greiða. Sitja svo einar uppi með börn alltof ungar sem þær megna síðan ekki að forða frá sömu örlögum og þær sjálfar hafa þurft að lúta. Eru gamla fólkið sem hírist inni í íbúðum dauðhrætt við að labba fram hjá ungmennahópum eða kvarta undan hávaða eða spellvirkjum.

Þessi afskiptu hverfi eru full af valdalausu fólki sem ber að hjálpa og ber að hafa samúð með. Gengin eru stór þáttur í vandamálinu. Þau eru ekki á nokkurn hátt réttlætanleg eða eðlileg. Maður á ekki að hafa samúð með ótýndum glæpamönnum sem sjálfir hafa það sæmilegt vegna þess að þeir ríkja yfir nágrönnum sínum.

Ofbeldi er aðeins réttlætanlegt í sjálfsvörn. Að mínu mati er svo augljóst að óeirðarseggirnir í Bretlandi eru ekki í sjálfsvörn. Þeir eru annarsvegar gráðugir og ofdekraðir krakkar og hinsvegar ofbeldisseggir sem eru loks að sýna heiminum hvað íbúar þessara hverfa hafa þurft að þola á bak við tjöldin.

Auðvitað eiga bresks stjórnvöld ekki að sýna svona fólki mikla samúð eða skilning. Það á að uppræta svona gengi með öllum tiltækum ráðum. Það á að beita almannavaldinu til að hrifsa glæpavaldið af gengjunum. Og það á að skapa andrými til þess að skólakerfið og félagslega kerfið geti byggt eitthvað upp í þessum hverfum án þess að glæpamenn rífi það jafnóðum niður.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hin ofboðslega gengjamenning sprettur ekki upp í tómarúmi heldur er hún skilgetið afkvæmi samfélagsins þar sem hún lifir og dafnar. Samfélags sem sjórnmálamenn og valdastéttir hafa skapað og vakið upp. Mary Shelly skrifaði um þetta ágæta bók.