2. ágúst 2011

Alræði lýðræðisins - Mannréttindaráð Reykjavíkur.

Árið 2007 kom út þessi skýrsla. Þar er gerð grein fyrir því hvernig samstarfi grunn- og leikskóla við kirkjuna er háttað. Skýrsluna samdi hópur fólks sem hafði hagsmuna að gæta í málinu. Fyrsta niðurstaða hópsins er þessi:


„Það er samdóma álit starfshópsins að mikilvægt sé að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa.“


Þessar starfsreglur eru nú til og voru samdar í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Til stendur að afgreiða þær á næstunni. Starfsreglurnar má sjá hér.


Reglurnar hafa breyst nokkuð – enda voru þær róttækari og afdráttarlausari í upphafi en þær eru nú. En samt er enn nokkur andstaða við reglurnar, sérstaklega frá trúuðu fólki sem finnst, sumpart réttilega, verið að gagnrýna trú þess og trúarlegt uppeldi.


Ég skrifaði þennan pistil um málið þegar stjórn félags trúarbragðakennara gagnrýndi með mjög harkalegu orðbragði tillögurnar.


Í dag sá ég svo grein frá konu sem gagnrýnir málið formsins vegna. Það sé ólýðræðislegt. Greinin ber titilinn „Alræði lýðræðisins.“ Hún hefur þegar hlotið nokkur viðbrögð.


Ég ætla núna að skoða þessa grein. Fyrst lið fyrir lið og taka svo athugasemdir mínar saman í lokin.


Fyrir liggur í borgarráði að taka fyrir tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um hertar reglur um aðkomu trúar og lífsskoðunarfélaga að skólum Reykjavíkurborgar. Nokkur umræða hefur átt sér stað um þessi mál og á að afgreiða endanlega núna í byrjun ágúst. 


Þetta er ekki rétt. Hér er ekki um að ræða „hertar reglur“ um aðkomu trúar- og lífsskoðunarfélaga að skólum. Hér er um að ræða fyrstu og einu reglurnar sem munu hafa gilt um þessi mál. Og það að beiðni starfshóps sem m.a. innihélt starfsmann Biskupsstofu.



Sem foreldri fjögurra skólabarna er mér nokkuð brugðið að ekki hafi verið leitað álits skólasamfélagsins sjálfs. Sem virkt foreldri innan þess vil ég benda á að skv. lögum skal sérhver skóli á landinu hafa skólaráð. Innan skólaráðs sitja fulltrúar allra í skólasamfélaginu: foreldar, kennarar og nemendur ásamt fulltrúa grenndarsamfélags. Þetta ráð á að geta haft áhrif á þá skólastefnu sem hver og einn skóli telur að eigi að gilda innan skólans.

Þetta er rétt. Ég sit sjálfur í skólaráði míns skóla (sem foreldri og kennari) og hefði viljað sjá þetta mál lagt á borð okkar. Í skólaráðum skulu fara fram lýðræðislegar umræður um störf og stefnu skólanna. Hinsvegar er augljóst að hver og einn skóli getur ekki markað sér stefnu um hvað sem er. Skólaráð er ráðgefandi (eins og nafnið ber með sér), það getur ekki ákveðið stefnu og störf skóla í smáatriðum – enda ber það ekki þá ábyrgð sem fylgir slíkum ákvörðunum. Þá ábyrgð bera kennarar (og annað starfsfólk), stjórnendur, sveitarfélög og ráðuneytið. En aðalatriðið í þessari grein hennar er hárrétt og ég er sammála því.


Á þessum tímum sem við lifum þar sem umræða um almennt og borgaralegt lýðræði er hávær þykir mér einkennileg þróun hjá Reykjavíkurborg að ætla að taka slíkar ákvarðanir í trássi við skoðun skólasamfélagsins. Við viljum lifa í lýðræðslegu samfélagi þar sem lýðræðið virkar að sönnu. 


Ég er svosem sammála þessu en hlýt að benda á að mjög margt við starfsemi skóla er ekki háð lýðræðislegum ferlum. Má þar nefna námskrárgerð en tillögur MRR eiga einmitt mjög margt skylt við námskrár. Þegar námskrá er samin er það gert út frá hugsjónalegum, faglegum og fræðilegum forsendum. Eins á við um tillögur MMR sem eru afrakstur faglegrar vinnu hóps hagsmunaaðila. 


Ekki þar fyrir að ég hef lengi haft horn í síðu miðlægrar og óraunhæfrar námskrárgerðar og ætla mér sannarlega ekki að bera blak af skorti á lýðræðislegu samráði MMR að þessu leyti.


Eða ætlum við að láta yfirvöld ákveða allt fyrir okkur og börn okkar? Að setja slíkar hömlur á skólastarf sem Reykjavíkurborg stingur upp á tel ég beinlínis hættulegt og minna á fyrri tíma einræðisstefnur sem ætluðu sér leynt og ljóst að útrýma öllum skoðunum nema sinni eigin. Þar á meðal má nefna Hitler, sem fjarlægði fermingarfræðslu úr skólanum vegna þess að hún stangaðist á við hans eigin hugmyndafræði.
Hér fór Hildur með það. Þetta er þvílíkt samansafn af rökvillum, vitleysu og heimsku að maður verður bara hálfglaður að hún fékk ekki að fara með puttana í tillögurnar á lýðræðislegum vettvangi. Ekki ein hugsun úr þessum bálki er þess virði að ræða hana.




Ég vænti þess að íslenskt samfélag sé ekki svo illa statt að það meini skólasamfélaginu sjálfu að ráða fram úr þeim málum sem upp koma. 



Þessi vinna fór öll af stað vegna þess að skólasamfélagið sjálft réð ekki við verkefnið. Aukinn fjölbreytileiki samfélagsins leiddi smám saman til þess að einsleitt og íhaldssamt skólaumhverfi mismunaði börnum. Börn voru í auknum mæli farin að sitja hjá og missa af skólastarfi vegna skoðana foreldra sinna eða ytri aðstæðna.


Það ætti að vera til umræðu í skólunum en ekki hjá yfirvaldinu hvort ekki megi hengja upp auglýsingar um trúarlegar uppákomur eða dreifa Nýja Testamentinu innan skólans.
Auðvitað á það að vera til umræðu. Og það er það sumstaðar. En megnið af skólafólki vindur sér undan þessari umræðu. Ég reyndi að hefja hana í vetur í mínum skóla. Það varð ekkert úr því. Ég mætti að Aðalfund FG og vildi taka þetta mál til afgreiðslu þar. Þar vildi kennaraforystan ekki snerta á því með töngum. Skólasamfélagið er ráðvillt og óviljugt að leysa málið.


 Að hampa einni heimsmynd á sama tíma og önnur er tortryggð og litin hornauga er mjög á skjön við þá fjölmenningu sem er á Íslandi. 


Ö, nei. Margar heimsmyndir eru tortryggðar (og réttilega svo). Og þetta að sumt sé tortryggt og öðru hampað eru engin rök gegn tillögum MRR. Það er einmitt í þeim tillögum verið að reyna að stuðla að jafnrétti lífsskoðana. Að engin af hinum fjölmörgu ágætu lífsskoðunum íslenska fjölmenningarsamfélagsins sé innrætt börnum í skólum umfram aðrar. Það má kynna lífsskoðanir, trúarbrögð og álitamál (svo lengi sem kennarinn er tilbúinn að bera ábyrgð á þeirri nálgun sem hann velur) en það má ekki boða trú eins umfram annars. Og skólinn á ekki að vera vettvangur trúarlegrar iðkunar.




Þessari tillögu vil ég því mótmæla harðlega. Ég legg til að við látum þetta mál algerlega falla niður og væntum þess í stað fjörugrar umræðu innan skólans, í skólarráðum landsins og búumst við meiri fjölbreytni innan skólasamfélagsins þar sem foreldrar, kennarar og börnin taka virkari þátt í þróun skólans en ekki yfirvöld.



Hin fjörlega umræða er þögn. Ég er í sjálfu sér sammála að ég hefði viljað sjá þessa umræðu. En ég vil ekki sjá það að foreldrar sem „hampa“ tilteknum lífsskoðunum geti með einum eða öðrum hætti „hertekið“ skólaráðin til að sveigja skólastarfið á sveif með sér og sínum. Meðlimir skólaráðs eru fulltrúar fjölbreyttra hópa. Það eru fleiri skoðanir á sumum málum en fjöldi fulltrúa í skólaráðinu. Það er því algjörlega ljóst að fulltrúar í skólaráðum verða að hafa hagsmuni heildarinnar í huga. En stundum blindast menn af eigin hagsmunum. Eigin skoðunum. Eigin lífsskoðunum. Skólaráð bera ekki ábyrgð. Og því ber að takmarka völd þeirra.


Tillögur MRR eru rökrétt afleiðing af því að skólasamfélagið hefur átt í vandræðum með þessi mál. Allur gangur hefur verið á samstarfi skóla og presta. Það sem einum þykir hörmulegt, þykir öðrum fallegt. Prestur hefur m.a.s. sagt að það sé börnum gott að finna að þau eru ólík öðrum börnum – í minnihluta. Mismununin er í eins augum góð og nauðsynleg!


Tillögur MRR eru afleiðing faglegrar vinnu og snúast um að tryggja réttindi allra barna – og halda skólanum (sem skyldunámsstofnun) hlutlausum um trúmál.


Ég held reyndar að trúarbrögð séu ekki svona hættuleg. Og ég hef aðra sýn á skólan en þá að hann sé hlutlaus fræðslustofnun. Ég mun vafalaust rökstyðja þá skoðun mína síðar. 


En það breytir því ekki að tillögur MRR eru skynsamlegar og settar fram eftir langan, faglegan feril. Öll högg Hildar sem lúta að innihaldi tillagnanna eru vindhögg. Gagnrýnin er öll á formið. 


Þessar tillögur á að samþykkja. Þetta er hnútur sem enginn þorir að höggva á – en verður að höggvast.


Síðan má þó bæta því við að það er ekki einkamál Reykvíkinga hvernig staðið er að mannréttindamálum. Það má því spyrja hvort málið hefði ekki átt að fara alla leið til Ráðuneytisins. En í því umhverfi þagnar og ráðaleysis þá er að vissu leyti gleðilegt að einhver skuli hafa tekið af skarið. 

Engin ummæli: