2. ágúst 2011

Stefna og sturlun



Eiríkur Bergmann skrifaði grein þar sem hann færir rök fyrir því að ódæði Anders Breiviks verði ekki með fullu aðskilið frá þeirri pólitísku stefnu sem hann (og margir aðrir) aðhylltist.

Ég hef sjálfur haldið því fram að þvert á móti verði menn (í nafni málefnalegrar umræðu) að aðskilja suma þætti hugmyndafræðinnar (þá sem ekki hafa beinlínis með blóðugar árásir á samborgarana að gera) frá ódæðinu. Tölfræðin sýnir að róttækir vinstri menn og anarkistar eru miklu líklegri til hryðjuverka en ögahægrið – samt eru báðar stefnur (upp að vissu marki) eðlilegur hluti hins pólitíska litrófs í lýðræðisríki. Múslimar eru ekki hryðjuverkamenn þótt áberandi hryðjuverkamenn hafi verið múslimar. Svona má lengi halda áfram.

Hvað sem öðru líður þá verða menn að draga réttar ályktanir af því efni sem liggur fyrir. Því miður vantar nokkuð upp á að Eiríkur gerir það.

Íslandsórar

Eiríkur segir að Anders sé haldinn dæmigerðum Ísland-er-best-í-heimi-grillum. Enda nefni hann landið 23 sinnum á rúmlega 1500 blaðsíðum. Hann sé því með Ísland á heilanum.

Þeir, sem lesið hafa 2083, vita að þetta er tóm þvæla. Ástæða þess að Ísland er nefnt þó þetta oft í ritinu er undarleg tölfræðiárátta Anders. Hann vill sífellt vera að setja upp lista og greina prósentur. Ef hann hefði áráttu fyrir Íslandi þá myndi hann væntanlega fjalla um Ísland, eitt og sér, víðsvegar um ritið. En það gerir hann ekki. Ísland er alltaf nefnt í samhengi við önnur lönd. Nema einu sinni. Og það er í kafla sem Breivik skrifaði ekki sjálfur. Raunar nefnir Breivik Kýpur miklu oftar en Ísland. Og Holland. Og þykir honum Holland ekkert spes.

Þvert á móti má glögglega sjá að Anders Breivik telji Ísland frekar neðarlega í öllum forgangi. Hann telur litla eða enga ástæðu til að aðhafast sérstaklega hér. Það að hann sé haldinn „Íslandsórum“ er einfaldlega rangt.

Vissulega var Breivik með óra fyrir norrænni feðraveldismenningu. Og Ísland er þar með dæmt (skv skilgreiningu) til að vera þáttur í þeim órum. En Eiríkur bendir alveg sérstaklega á að Ísland sé nefnt það oft í ritinu að það sé til marks um Íslandsóra. Það er rangt.

 Ætlaði að útrýma Verkamannaflokknum

Eiríkur dregur þá ályktun af vali Breiviks á fórnarlömbum að hann hafi ætlað að „útrýma“ Verkamannaflokknum  vegna andstöðu  flokksins við öfgaöfl og þjóðernisstefnu. Auðvitað er þetta stórkostleg einföldun. Í ritinu 2083 kemur ekki mikið fram um skotmörk árásarinnar þann 22/7, fyrst og fremst vegna þess að ritið var sent út um allar trissur áður en Breivik vann ódæðið. En um val á fórnarlömbum er Breivik mjög nákvæmur. Óvinurinn er ekki Verkamannaflokkurinn. Óvinurinn er miklu víðtækari en svo. Hann flokkar óvini eftir mikilvægi í A, B og C flokk. Fyrstu tveir flokkarnir verðskulda dauðarefsingu.

Varla dettur nokkrum manni í hug að Breivik hafi talið sig geta útrýmt heilum stjórnmálaflokki með árásinni? Hann ætlaði að senda skilaboð. Mjög sterk skilaboð. Og þótt Verkamannaflokkurinn hafi orðið fyrir valinu þá er ekkert sem bendir til þess að Breivik hafi talið sig geta útrýmt honum eða að flokkurinn sé eina skotmarkið. Og það er ekkert sem tekur undir þau orð Eiríks að tilræðið hafi mistekist. Raunar bendir flest til þess að það hafi tekist næstum fullkomlega.

Hverju reiddust goðin...?

Það er hættulegt – og næstum óverjandi – að taka atburði eins og ódæðið í Útey, laga það til eftir hentisemi, og nota sem röksemd fyrir eigin skoðunum. Það á ekki að nota ýkjur og einfaldanir um svona viðburði. Það á að tala um þá eins og þeir eru. Heiðarleg sjálfsgagnrýni á okkur sem samfélag er svo miklu meira virði en augnablikssjálfsréttlæting pólitískra afla.

Þegar Íslendingar tóku kristni fór að gjósa. Heiðingjarnir (sem vegna pólitískra hryðjuverka og kúgunar höfðu orðið undir) bentu glaðhlakkalegir á að nú væri búið að espa upp reiði guðanna. Þá mun Snorri goði hafa bent á hraunið undir fótum þeirra – frá því löngu fyrir landnám – og mælt: „Hverju reiddust goðin þá er hér brann hraunið er vér nú stöndum á?“ Þótti kristnum seinni spælingin allgóð. En eftiráaðhyggja er þetta ekki bara góð spæling heldur góður mælikvarði á pólitískar deilur, jafnvel þær allra hörðustu. Látum ekki góða spælingu koma í stað sannleikans.

Sannleikurinn um nýnasísk öfl í Evrópu og kynþáttahatara á Íslandi er alveg nógu ógeðslegur, hættulegur og heimskulegur til að standa eins og hann er. Það þarf ekki að skreyta hann með stolnum fjöðrum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll. Ég leit á þessa tölfræði sem þú vísaðir á um daginn frá Interpol. Takk fyrir það. Að flokka anarkista og vinstri öfgamenn saman er auðvitað umdeilanlegt. Skýrslan segir margt um þau (örfáu) lönd sem tilkynna um hryðjuverk og hvað þar er lögð áhersla á. Athyglisverðast er þó að lesa kaflana um Extremism. Þar er lýst fjöldamörgum hryðjuverkum gegn sígaunum og öðrum innflytjendum (t.d. af þýskum nýnasistum) sem af einhverjum ástæðum eru ekki flokkuð sem hryðjuverk í yfirlitinu. Tölfræðin um 10 sinnum fleiri hryðjuverk vinstri öfgaafla en hægri á viðkomandi ári er því í besta falli vafasöm.
Matthías

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll aftur.

Er hjartanlega sammála því sem þú segir að ofan. Ég ræddi aðeins um þessa hættu sem stafar af öfgahægrinu hér:

http://maurildi.blogspot.com/2011/07/islenskir-hryjuverkamenn-ii.html

Baráttan gegn hryðjuverkum er pólitísk í eðli sínu og háð pólitískum einföldunum. Mér finnst full ástæða til að flokka árásir nýnasista á fólk í neðanjarðarlestum sem hryðjuverk.

En það sem hjálpar ekki er að viðhalda pólitískum einföldunum eða auka á þær – eins og þeir vilja gera sem núna nota Anders Breivik til að gefa í skyn að tilteknar algengar skoðanir séu í sjálfu sér hættulegar. Þá er orðið stutt í það að þessar skoðanir beri að banna.

En bann er ekki besta leiðin til að útrýma heimsku og hatri. Ekki frekar en að það að keyra fólk í gúlagið sé góð leið til að fækka drykkjufólki.

Nafnlaus sagði...

Maður sér hvað íslenskir lýðskrumarar eru fljótir að finna fjölina sína þegar svona mál koma upp. Þegar farið er að blanda Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum inn í rökræður um norska hryðjuverkamanninn og hugmyndafræði hans eru menn auðvitað að stimpla sig út úr vitrænni umræðu. Það sem hins vegar þarf að skoða betur er sú hvatning til ofbeldisverka sem svo víða er að finna í opinberri umræðu hér heima. Þegar talað er um að gefa út opið veiðileyfi á ákveðna stjórnmálamenn eða hengja þá upp á tánum er það kannski hugsað sem kaldranalegt grín en við höfum séð til hvers þannig hugsunarháttur getur leitt. Það þarf ekki nema einn gikk í veiðistöðina.
Matthías

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það sem við þurfum að gera er að þau okkar sem eru þess megnug (mikill meirihluti) þurfum að vanda umræðuna miklu meira. Lyfta henni á töluvert hærra plan og hætta að klappa fyrir öllu sem dillar í takti við pólitíska sannfæringu okkar sama hversu óvandað eða rætið það er. Við eigum að taka völdin á umræðuvellinum og koma upp þannig mannasiðum að þegar menn brjótast þar fram með hatursspýjur eða óþverra þá verði það svo berlega ljóst öllum sem það sjá.

Og svo þarf að kenna fólki upp í gegnum skyldunámið og áfram að vera virkt í skoðanamyndun og tjáningu. Það kemur ekkert að sjálfu sér.