26. júlí 2011

Íslenskir hryðjuverkamenn II

Þrátt fyrir að íslensk umræðuhefð og stjórnmál hafi tileinkað sér flesta þá lesti sem lýtt geta mannlegt samfélag – þá er það nú samt sem áður svo að það er erfitt að ógna stöðugleika landsins. Hin þunna slikja siðmenningar er merkilega seig yfir þessu litla landi. Ef einhver ætlaði að ná markmiðum sínum með hryðjuverkum eða ofbeldi þá er næstum öruggt að hann myndi fæla allan þorra fólks frá málstað sínum.

Ég hef fengið nokkrar skammir héðan og þaðan fyrir að lýsa hinum pólitísku hugsjónum Anders Behrings. Einhevrjir hafa skilið það sem svo – að ég væri að boða þessar skoðanir eða lýsa mig sammála þeim. Auðvitað er ég ekki að því. Ég er aðeins að benda á að kjarninn í skoðunum hryðjuverkamannsins eru skoðanir sem nú þegar njóta allmikils stuðnings hér á landi og erlendis. Og þegar slíkar skoðanir hafa náð bólfestu þá er öllum fyrir bestu að ræða þær opinskátt og takast á við þær lýðræðislega. Pólitísk réthugsun má ekki vera svo yfirgengileg að við neitum að kannast við okkur eins og við erum. 

Anders Behring er algjörlega óáhugaverður einstaklingur í pólitísku samhengi nema fyrir þá staðreynd að hann er til marks um óhugnanlega undiröldu ofbeldis, haturs og brenglaðra hugsjóna í Evrópu. Við Íslendingar verðum ekki mikið varir við ógeðslegustu hliðarnar. Við erum enn upptekin af því að skammast yfir orðanotkun í athugasemdum við blogg. En öryggiskennd okkar er ekki fyllilega réttlætanleg. Austur í Rússlandi eiga sér stað svo viðurstyggilegir hlutir að maður hvítnar við tilhugsunina. Internetið er fullt af myndböndum af rússneskum öfgamönnum og glæpahyski að murrka lífið úr varnarlausum sakleysingjum, börnum, drykkjufólki og innflytjendum. Sjá t.d. hér (Ég get ekki varað nægilega við þessum tengli).



Og stundum gleymum við að fyrir tuttugu árum gekk evrópskt ferðamannaland af göflunum. Júgóslavía liðaðist í sundur og venjulegt fólk, sem áður hafði verið bakarar, rútubílstjórar eða kennarar, tók upp vopn í stríði sem var lítið annað en illa dulbúið kynþáttastríð. Jaðar Evrópu hefur logað – og logar enn. Það er grynnra á slikju siðmenningar en við höldum.

Gegn þessu vilja margir (sérstaklega kratar) stefna sterkum alþjóðlegum stofnunum. Sameinuðu þjóðunum. Evrópusambandinu. Menn vilja sölsa undir sig sem flest lönd og marka miðlæga, öfgalausa stefnu. Og í sjálfu sér er ekkert athugavert við slíka hugsjón. Maður sem vill í Evrópusambandið til að tryggja mannréttindi og frið í álfunni getur horft stoltur framan í hvern sem er (svo lengi sem hann er tilbúinn að horfa framhjá þeirri hræsni að sambandið (eins og SÞ) á einkennilega auðvelt með að sannfæra sjálft sig um að stríðsrekstur sé frábær leið til að tryggja frið (svo lengi sem sprengjur falla nógu langt frá Rín)).



En hin raunverulega vörn gegn hatri, fasisma og glæpum felst ekki í sterkum stofnunum. Ekkert ríki, ekkert ríkjasamband megnar að tryggja þann stöðugleika sem þarf til að fyrirbyggja átök og ógæfu. Lausnin felst í því að „framleiða“ lýðræðisþegna. Sjálfstæðar, gagnrýnar, hugsandi manneskjur sem ekki láta leiða sig áfram í blindni heldur eru uppsprettur eigin hugsjóna. Varðmenn eigin stefnumála. Fólk sem heldur í sín prinsipp í sól og skúrum. Fólk, sem með kennslu í gagnrýnni, yfirvegaðri hugsun, er bólusett fyrir kjaftæði, hatri og hleypidómum.

Með því að leggja metnað í lýðræðislegt uppeldi Íslendinga t.a.m. þá geta varnaglar gegn ógæfu orðið tugir eða hundruð þúsunda einstaklinga í stað örfárra tuga stjórnmálamanna. 

En í dag er staðan því miður þannig að á yfirborðinu stýrir atvinnustjórnmálastétt og heldur (að mestu) aftur af sér með pólitískri rétthugsun – en ef rist er upp torfa, iðum við undir – borgararnir, eins og feitir, andsetnir ánamaðkar og spýjum eitri í allar áttir. Valdið kemur ekki frá okkur frekar en að vatnið drottni yfir virkjuninni. 



Fjöldamorðin í Útey hafa sýnt okkur hversu auðveldlega við missum stjórn á okkur þegar við komumst í uppnám. Við ráðum ekki við hörmungarnar og spilum því eftir tilfinningunni. Lendum í sjálfstýringu. Gerum það sem við erum. 

Níels Ársælsson missti þetta út úr sér: „Fjöldamorð illvirkjanna Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ragnars Árnasonar á íbúum sjávarþorpanna á Vestfjörðum eru af sama meiði og fjöldamorðin í Noregi.“

Örn Johnson notaði tækifærið: „Mig hefur oft langað að segja þér það og nota tækifærið núna Karl [Th].
Þú ert viðbjóðslegur aumingi sem bókstaflega allt hugsandi fólk getur ekki annað en fyrirlitið.
Ég vorkenni foreldrum þínum fyrir þau mistök að hafa ekki drekkt þér í fæðingu.
En foreldrar þínir stigu náttúrulega ekki í vitið heldur.“

Og annað var eftir því.

Ísland er samt nokkuð óhult. Því þrátt fyrir allt þá er staða okkar skárri en víða annarsstaðar og skapgerðin stöðugri. Og þótt allar þjóðir geti orðið fyrir barðinu á illkynja krabbameinum eins og einyrkjanum Anders þá er líklegt að við myndum bregðast við eins og Noregur. Með því að þjappa okkur saman um hugsjónirnar sem sprengt væri gegn. 

En vandi Íslands er sá sami og Evrópu allrar. Fólkið er of fjarlægt lýðræðinu, of hugsjónalaust, of grunnhyggið. Við erum of makráð, löt og dofin. Því meira að segja öfgahugsjónir eins og þær sem börðust um hylli Evrópubúa eftir stríð – eru á vissan hátt vörn. Því þær venja mann á að hugsa. Og þótt hugsandi menn séu oft hættulegri en þeir sem ekkert hugsa – þá eru vanhugsandi þjóðir hættulegastar allra.



Roðinn í austri stafar þessi misserin af þeim bálum sem hatursglæpamenn kveikja. Lýðræðið er að flagna af jöðrum Evrópu. Það er ónýtt í Rússlandi, ónýtt á Grikklandi, ónýtt á Ítalíu. Spillingin, hinn andlegi fúkki lýðræðisins, er síst á undanhaldi. Fólk norðar í álfunni umber þetta svo lengi sem vandræðin halda sig á sjónarhringnum. Svo lengi sem björgunaraðgerðir kafa ekki of djúpt í veskin – og svo lengi sem af nógu er að taka í veskjunum.

Í vestri iðar Írland í fjárhagskröggum, í norðri Ísland. Og hvað með Bretland?

Ísland varð óvænt aukaleikari í dramanu um björgun Bretlands þegar sjóðir þjóðarinnar voru opnaðir til að reyna að bjarga trú á fjármálakerfi landsins og í ljós kom að í einni fjárhirslunni sat íslenskur og pattaralegur refur, búinn að éta alla seðlana. Bretland er orðið að rómarveldi okkar tíma. Brauð og leikar fyrir fjöldann. Fjölmiðlar leika hlutverk skylmingarþræla og ljóna sem tæta í sig óvini ríkisins. Pöpullinn lifir í hedónískri fátækt, andlegri og veraldlegri – en þó fyrst og fremst andlegri. Andlegt og líkamlegt heilbrigði stórra hópa jafnast á við vesöldina austur í Rússlandi. Og landið er iðandi púðurtunna fjölmenningar eftir að heimsveldið implóderaði og Bretland hætti að eiga útibú í öllum heimshornum og öll heimshorn áttu í staðinn útibú í Bretlandi. 



Uppáhalds bloggari öfgahægrisins, Fjordman, horfir löngunaraugum til Bretlands. Þar sér hann fram á að borgarastríðið hefjist. Endurreisnin. Viðreisn gamalla gilda, feðraveldis, einsleitni. Þeirra tíma þegar allt var einfalt og gott. Tíminn sem við lesum um í bókum og horfum á í myndum. Kolareykurinn svíður ekki í augun á ljósmynd.

Við skulum ekki halda eitt augnablik að Evrópusambandið eða Sameinuðu þjóðirnar megni að grípa upp stórveldin ef þau hrynja. Miklu líklegra er að björgunarreipið dragi önnur lönd með sér í sollinn.


„Það verður friður á okkar tímum“ sagði Chamberlain meira af óskhyggju en raunsæi. „Mín kynslóð er sú fyrsta sem getur íhugað þann möguleika að við gætum lifað heila ævi án þess að fara í stríð eða þurfa að senda börnin okkar í stríð.“ sagði Tony Blair.

Það eina sem við þurfum að fórna fyrir betri lýðræðisþegna er yfirborðskennd undirgefni við pólitíska rétthugsun. Við þurfum að opna huga okkar, líka fyrir þeim hugmyndum sem okkur eru andstyggilegar eða óeðlilegar. Við þurfum að gera þá kröfu á hvern einasta nemanda í hverjum einasta skóla að hann „nemi“ í námi sínu. Bæti einhverju við sig. Meitli persónuleika sinn og auðgist. En sé ekki eins og steindauð bókahilla með uppflettiritum. Markmið menntunar er ekki þekking. Orðið menntun vísar til mennskunnar. Þekking er aðeins einn þáttur. Og raunar mun minna virði en t.d. hæfni í öflun þekkingar. 

Og gagnvart þeim sem eru skriðnir úr skólum og verður litlu tauti við komið. Gagnvart þeim eigum við að vera broddflugur. Ráðast á skoðanir þeirra. Neyða þá til að hugsa um hugsanir sínar, verja yfirlýsingar sínar. Við eigum að sneiða hjá áróðri og hæðni, líka þegar hann fellur okkur í geð. Við eigum að vera aggresív, fríþenkjandi og hugrökk.



Þekktu sjálfan þig. Órannsakað líf er einskins virði. 

Menn vissu alveg hvað þeir voru að segja.

Hættan af þessu er hverfandi. Jú, maður mun örugglega traðka á klaufunum á einhverjum praktískum, heilögum kúm. Það er til fullt af gagnlegum hálfsannindum – eins og ógagnlegum. En illskan, hatrið og heimskan er ævinlega falin á bak við varnir sem hvöss, heiðarleg skynsemi bítur á. 

Mannkynið hefur alltaf hrasað reglulega og tapað sér í grimmd og heimsku. Heilar þjóðir hafa verið seldar undir rasisma, fasisma og aðra andstyggðar isma. Málfrelsið og gagnrýnin er líklega besti kanarífuglinn í námunni. 

2 ummæli:

Hjörvar sagði...

Tilsýndar hefur mér fundist þú ágætlega þenkjandi Ragnar, þótt ég sé oftar en ekki að hluta til eða algjörlega ósammála skoðunum þínum. Hér tek ég heilshugar undir hvert einasta orð. Mjög vel mælt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég þakka. Gott þegar menn finna sameiginlega fleti.