25. júlí 2011

Eigum við að umbera „hatursskoðanir“?

Bara svo það sé algjörlega á hreinu – þá tel ég að það sé rangt að hata. Hatur er andstyggilegt niðurrifsafl sem spillir öllu. Og hatur er lúmskt. Í því felst ekki bara óvild, heldur einnig háðung og hunsun.

En ég get ekki verið sammála (a.m.k. ekki án mjög róttækra fyrirvara) skoðunum eins og þessari:

„Ef við umberum hvaða ógeðslega þvætting sem er í opinberri umræðu út af rangsnúinni mannúð – hættum að amast við hatursfullu tali út af kyni, þjóð, kynhneigð eða öðru – þá veitum við hatrinu þar með visst lögmæti sem það má ekki fá. Þess vegna er reynt að sporna við hatursáróðri sem beinist að minnihlutahópum svokölluðum, menningarlegum eða etnískum. Hatursfull orðræða getur orðið eins og mengun í menningunni.“

Ég er svosem sammála hugsjóninni. Við eigum ekki að veita hatursfullum áróðri lögmæti. En það er hægt að takmarka lögmæti/réttmæti með fleiri aðferðum en að þöggun eða banni.

Þöggun/bann hefur nefnilega hliðarverkun. Með því að neita að umbera tilteknar skoðanir getur vel verið að við meinum þeim réttmætis en við eflum þær um leið. Eflum sannfæringu þeirra sem hafa þessar tilteknu skoðanir að þeir séu kúgaðir, undirokaðir og að samfélagið sé heilaþvegið og „sannleika“ haldið frá meðlimum þess.

Auk þess er ekki alltaf auðvelt að skilgreina hvað er hatursáróður og hvað ekki. Hafa útrásarvíkingar ekki orðið fórnarlömb gegndarlítils hatursáróðurs? Er ekki fólk sem hatast við trúleysingja? Og kirkjur? Má ekki hata neinn? Hæðast að „heimskulegum“ skoðunum? Hunsa „fífl“? Og hvar liggja mörkin? Á að hafa hemil á listamönnum? Söngvurum sem baula aggresíva texta sem fullir eru af fyrirlitningu og sjálfseyðingarhvöt? Á að stöðva ofbeldisfullar kvikmyndir og tölvuleiki (ef ódæðið í Útey hefði verið bíómynd eða tölvuleikur hefðu áhorfendur/spilarar fílað það í botn)?

Að lokum held ég að aðalröksemd þess að við eigum að umbera margar svokallaðar „hatursfullar“ skoðanir sé sú að þessar skoðanir eru nú þegar hluti af menningunni. Samræða venjulegs fólks er fordómafull og hatursmenguð. Og þótt fólk þori oft ekki að tala hátt um það á opinberum vettvangi þá nota menn sín á milli ofboðslega sjúklegan orðaforða þegar þeir tala um þá sem þeim er í nöp við. AMX-vefurinn sem eru aðalhíbýli heimskunnar á íslensku neti eru einfaldlega óritskoðaður vaðallinn í sumum hægir mönnum. Nákvæmlega eins tala vinstri menn. Og allir þar á milli.

Og ef skoðanir eru til staðar þá hverfa þær ekkert þótt þær séu ekki settar á blað eða ræddar í sjónvarpi. Ekki frekar en að framleiðni á gúmmístígvélum breytist við það að endurskrifa framleiðsluspár eins og Stóri bróðir reyndi í 1984.

Margar „óvinsælar“ skoðanir eru samfélaginu alls ekki skaðlegar. Myndir og tónlist sem hefur fengið nasahárin til að krullast í vammlausum foreldrum eru yfirleitt ofur eðlileg listræn tjáning. Sjokkerandi tjáning hefur aldrei drepið neinn. Voðaverk eiga sér alltaf miklu flóknari orsakir.

Og þær skoðanir, sem sannarlega eru heimskulegar, særandi og hættulegar, er hægt að opinbera sem slíkar. EF þær eru ræddar. Og EF þær eru það í raun og veru, en ekki aðeins að hálfheilögu mati einhverra beturvita. En það þarf að ræða þær. Og það opinberlega.

Við eigum ekki að búa til einhvern erkiengla-opinberan vettvang þar sem allir kannast aðeins við skárri hlið sína, hugsanir og gjörðir. Við erum ekki algóð. Það er margt skömmustulegt við eina manneskju. En það er skammast yfir miklu fleira. Könnumst við okkur. Það góða og hið slæma. Og ræðum saman án þess að kalla hvert annað ónefnum. Reynum að fást við andstæðinga okkar án þess að hata þá vegna þess sem við teljum þá standa fyrir. Gerum okkur ekki svo merkileg að telja að við ein sjáum að allir aðrir séu dáleiddir af falskri vitund – og séu tannhjól í gangverki sem þeir skilja ekki. Tæklum hvern mann sem mikilvægan hlekk sem á rétt á sínum skoðunum en ber skylda til að verja þær.

Engin ummæli: