16. júlí 2011

Harry Potter, Kristur og við


Þegar Harry Potter varð æði stóð hópur fólks á varðbergi og reyndi að halda börnum frá bókunum. Þar fóru fremstir í flokki kristnir einstaklingar sem töldu að bókaflokkurinn tæki á kukli og galdri með ótilhlýðilegri léttúð. Enda taki almættið af öll tvímæli í fimmtu mósebók, 18. kafla, 10. versi (og áfram):

„Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður 11eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. 12Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér.“

Ég veit ekki hvort það er útaf þessari gagnrýni – sem á tíðum var ansi hörð – sem J.K.Rowling, höfundur Potters, tókst svo gottsem á endanum að breyta bókaflokknum um galdrastrákinn í trúarlegt áróðursrit. Undir lokin á ævintýrinu er Rowling komin fast upp að hlið C.S. Lewis í kristilegri innrætingu.

Eða kannski stóð þetta alltaf til. Bækurnar voru sjö (sem er heilög tala). Ævintýrið í heild er um leitina að eilífu lífi, völdum og auði. Illskan er táknuð sem naðra. Til að sigrast á dauðanum þarf hetjan að deyja.

Auk þess er sagan öll útbíuð í kristnum minnum.

Sem er skondið, því kristnu börnunum var markvisst haldið frá bókunum. Og þar sem þessi þykki, kristni þráður varð fyrst alveg ljós í allra síðustu bókinni þá er fjöldinn allur af trúlausum foreldrum búinn að bera í börnin sín trúarlegan áróður án þess að vita af því.

Og það skyldi enginn halda að Harry Potter sé áhrifalaus. Þau börn sem ólust upp með sögunum eru mörg hver meira en lítið móttækileg fyrir heimsmyndinni og hugsjónunum sem sagan boðar. Og oft er ísmeygilegasti áróðurinn sá, sem skapar endurhljóm í huga meðtakandans. Við kunnum nefnilega ekki vel að greina á milli kunnugleika og trúverðugleika.

En þá að lykilspurningunni. Á Harry Potter erindi í almenna skóla? Má lesa hana með og halda henni að skólabörnum?

En ef höfundurinn hefði verið prestur?

Engin ummæli: