13. júlí 2011

Gillz er svo... æi þegiðu

Einu sinni var drengurinn á bakvið Gillz ungur og graður strákur sem reyndi að vekja athygli á sér á netninu með því að tala illa um femínista og fitubollur – auk þess að blása upp rækilega fótósjoppað alteregó sem var ekkert annað en heljarmenni með óþrjótandi álit á sjálfu sér.

Á þessum tíma voru svona alteregó nokkuð vinsæl. Fólk var enn að leika sér að netinu og ekki búið að helga forheimskandi samskiptavefjum alla sína orku og tíma. Mengella hét eitt. Hnakkus hét annað. 

Þessi alteregó áttu það öll sameiginleg að vera miklir töffarar. Vel ritfær (þótt Gillz hafi staðið hinum tveim nokkuð að baki í því), bráðgáfuð (dittó) og með óbilandi trú á sjálfum sér. Þau rifu kjaft og uppnefndu og hæddust að öllum sem tunga á festi.

Öll voru þau tölvuvert mikið lesin og vinsæl. Stundum vegna þess að á bakvið allan töffaraskapinn og hrokann leyndist heilmikil glóra. Það var í raun heilmikil samfélagsádeila sem hægt var að lesa út úr skrifunum ef víðsýnin var næg.

Allir eignuðust þessir bloggarar óvini – oft var það fólkið sem fjallað var um. En stundum var það háæruverðugt fólk sem hafði tekið að sér að vera samviska netsins. Sum fórnarlamba Gillz, Mengellu og Hnakkusar lágu í leyni mánuðum eða árum saman bara til þess að geta síðan skotið að eiturpillu þegar betur stæði á. Hefndin er best borin fram köld.

Þannig var það að Drífa Snædal birti á dögunum svona eins og af rælni gamlan pistil þar sem Gillz orðar henni öskrandi þörfina – og rúllaði með því að stað snjóbolta. Og kórinn fór af stað. Mjóróma og hikandi – en þó greinilegur: Nú skyldi fólk nota lokatækifærið til að segja sig úr símaskránni af hneykslan yfir því að kvenhatandi karlpúngur hefði fengið að hanna forsíðuna. 

Það er víst ekki boðlegt að bjóða upp á svona fyrirmyndir. 

Í sjálfu sér sæi ég ekkert að þessu upphlaupi ef ekki kæmi til jónsa-skekkjan í málinu. Jónsaskekkjan er þannig að það er ekki sama hvort Jónsi eða séra Jónsi segir eitthvað. Sumir íslenskir popparar mega rúllast um sviðin gargandi fullir eða útúrdópaðir og skreiðast síðan baksviðst þar sem þeir stunda óvarið kynlíf með barnungum stelpum á meðan aðrir mega ekki segja „hórur“ án þess að fá ágjöf. Og persónulega þekki ég „vammlausa“ femínista sem móðgast ægilega í hvert skipti sem meðlimir samfélagsins sýna skort á tillitssemi en stunda svo sjálfir reglulegar kannabisreykingar með vinum og kunningjum. Hvort skyldi vera skaðlegra ungu fólki - að poppari kalli stelpur hórur eða að femínisti viðhaldi dópsölu?

Í símaskrármálinu er jónsaskekkjan þannig að femínistar sjá ofsjónum yfir því að Gillz geri armbeygjur í símaskránni en gátu umborið það að Hugleikur sæi um hana. Þegar Hugleikur er þúsundsinnum svívirðilegri en Gillz varð nokkru sinni. Hugleikur grínast kinnroðalaust með misnotkun, morð og sjálfsmorð. Og hann höfðar alveg sérstaklega til barna (ólíkt bloggi Gillz á sínum tíma). Hann notar teiknimyndasögur til að ausa sjokkerandi efni yfir börn og unglinga. 

Og þótt ég persónulega sjái ekkert athugavert við Hugleik. Ekkert frekar en Gillz, Mengellu eða Hnakkus. Þá gef ég ekkert – ekki tommu – fyrir það að segja sig úr símaskránni út af Gillz. Hver sá, sem á annað borð er í aðstöðu til þess, er greinilega skráður í símaskrána þrátt fyrir aðkomu Hugleiks. Og er því hræsnari. 

6 ummæli:

Húni sagði...

ágætis lesning en samanburður þinn á Hugleiki og Gillz fellur um sjálfan sig, sjá grein Yrsu :

http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/6299

kv. Húni

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ehh...nei.

Ásgeir sagði...

Hvað koma kannabisreykingar femínisma við?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Femínisti er sá sem vill vinna gegn skaðsemi sem samfélagið verður fyrir vegna ýmislegra hugmynda, orða og athafna annars sjálfráða fólks. Sá sem stundar fíkniefnaviðskipti og -neyslu viðheldur skaðsemi sem samfélagið verður fyrir.

Ásgeir sagði...

Ehh...nei.

Nafnlaus sagði...

kannabis er ekki dóp heldur planta. Hljómar þá þannig "Hvort skyldi vera skaðlegra ungu fólki - að poppari kalli stelpur hórur eða að femínisti viðhaldi plöntusölu?"

...sem ég sé ekkert að :)