24. júlí 2011

Lexían úr Útey (Uppfært)

Ódæðið í Útey er svo ofboðslegt að skilningur venjulegs manns nær varla utan um það. Og það sem við getum ekki skilið – getum við ekki nema að takmörkuðu leyti haft áhrif á. Hvað þá að við getum fundið til ábyrgðar vegna þess. Þetta áhrifa- og ábyrgðarleysi verður svo til þess að við freistumst stundum til að ofgera skilningsleysi okkar. Okkur líður betur þegar við þurfum ekki að taka inn á okkur vonda hluti og tilfinningar. Druslugangan í dag er til að mynda liður í slíkum sálfræðihernaði. Með því að einblína á „nauðgarann“ sem eina orsakavaldinn (sem skiptir máli) í kynferðisbrotum líður okkur betur. Við þurfum þá ekki að horfast í augu við staðreyndir eins og þær að umgengni „venjulegs“ fólks við áfengi, skemmtanir og kynlíf geti á stundum verið svo óheilbrigð og brengluð að það skapi gróðrastíu fyrir misnotkun. Við kippum út úr myndinni öllum breytum nema einni – vegna þess að þá líður okkur sjálfum betur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fórnarlamb nauðgara að þurfa ekki að burðast með meiri sektarkennd en nauðsynleg er. Og auðvitað á ekki að nauðga. Og nauðgari á sér ekki málsvarnir. Af því leiðir samt ekki að ýmsir þættir geta verið áhrifaþættir þegar kemur að nauðgunum – og (þetta er mikilvægt) með því að skoða þá þætti og greina væri hægt að fyrirbyggja slíka glæpi að einhverju leyti.



Þegar einhver drepur fjöldann allan af sárasaklausum unglingum er mjög freistandi að líta á það sem samhengislausa geðbilun, sturlaðs manns. Og að af atburðum sem þessum sé ekkert að læra annað en það að alltaf sé til sturlað fólk sem getur gert óskunda. 

Ég er hræddur um að atburðina á Útey verði að skoða í því samhengi að um er að ræða pólitískt hryðjuverk. Og raunar útpælt pólitískt hryðjuverk. Morðinginn skipulagði ódæðið í þaula með hliðsjón af pólitískum áhrifum þess. Það er mjög varasamt að ganga út frá því að eðli ódæðisins muni sjálfkrafa valda því að honum muni ekki takast ætlunarverk sitt að neinu leyti. Hryðjuverkin voru gríðarlega „vel“ skipulögð og úthugsuð. Hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera og hvers vegna. 



Bakgrunnur ódæðisins er þessi: Morðinginn telur að hin (kristna) evrópska menning hafi a.m.k. frá miðöldum háð baráttu fyrir tilveru sinni gegn framandi (oft íslömskum) menningarstraumum. Framan af hafi hin kristna menning barist harkalega fyrir tilveru sinni og átt sínar hetjur, sem flestar tóku á múhameðstrúuðum með járnglófum, eldi og brennisteini. Krossferðir voru landamæravarnir hinnar kristnu Evrópu. Með uppgangi nasisma og kommúnisma komst mikið rót á félagslegt umhverfi álfunnar og skortur á staðfestu leiddi til þess að kostnaðurinn við að uppræta fasismann var að umbera fram úr hófi marxismann. Marxisminn hafi síðan frá lokum seinna stríðs fengið að gegnsýra mikilvægar stoðir samfélaganna enda hafi marxistar tekið að sér að stýra ritun sögunnar og matreiðslu hennar – meðal annars þannig að vinstri sinnaðir hafi um langa hríð streymt inn á fjölmiðla og í kennslu. Einn af fylgifiskum þessarar marxísku hugsunar sé misskilin alþjóðahyggja sem í raun er fátt annað en afnám menningarlegra varna. Það sem hafi átt að vera uppspretta stolts hafi orðið (í meðförum marxistanna) ástæður til sektarkenndar. Þjóðerniskennd hafi orðið að hálfgerðu skammaryrði. Og talið hafi verið sjálfsagt að Evrópa yrði suðupottur mismunandi menningarstrauma. Og þangað hafi flykkst allra þjóða hyski án þess að ætla sér að aðlagast – heldur hafi þvert á móti verið um að ræða menningarlega landvinninga af gamla taginu þar sem Evrópa hafi verið orðin svo máttlaus af skömm, sektarkennd og marxískri innrætingu  að hún hafi orðið auðveld bráð. Þar stafi langmest hætta af íslam. Enda sé sá forni fjandi enn forn í skapi og eðli. Íslam hafi hreiðrað um sig í Evrópu og náð tökum á heilu borgunum og borgarhlutunum, jafnvel í landi eins og Noregi. Nú sé svo komið að tugir svæða í Noregi séu í raun eins og íslömsk gettó, lönd í landinu. Íslam sé óaðlögunarhæft við kristilegt, evrópskt samfélag. Það sé í raun ekki til eitt einasta dæmi þess að íslam hafi aðlagast „hýsilsamfélagi“ stórvandræðalaust. En fjölmörg dæmi séu um hið gagnstæða. Evrópa sé svo í stórkostlegri afneitun þegar kemur að vandanum og þar harðneiti menn að sjá þann árangur sem varð af þeirri ákvörðun sumra asíuþjóða að snúa af braut fjölmenningar á sínum tíma. Eða með öðrum orðum: fjölmenningarhyggja hefur hvergi skilað góðum árangri en andóf við hana hefur gert það. Og BNA séu alls ekki dæmi um vel heppnaða fjölmenningu – heldur einmitt einn af fáum raunhæfum möguleikum fjölmenningar, þ.e. að samfélagið klofni aftur í stéttir og til verði stéttskipt, sundrað þjóðfélag. 



Þetta er hin stjórnmálalega skýring sem er bakgrunnur ódæðisins. Og þetta er helvíti þéttur pakki. Það er á engan hátt hægt að segja að hér sé eingöngu um að ræða einfeldningslega óra sturlaðs manns. Þær skoðanir sem hér koma fram eiga óþægilega mikinn hljómgrunn meðal margra evrópskra þjóða. Svona skoðanir eiga sér bræður á Íslandi eins og annarsstaðar. Og ég held öllum sé ljóst að sannfæringarmáttur enhverrar svona ræðu getur orðið ofboðslegur ef áheyrandinn er t.d. venjulegur, fordómafullur, íslenskur búri.

En af hverju að drepa börn?

Jú, morðinginn hefur um árabil reynt að koma þessari skoðun sinni til almennings. Hann hefur ítrekað reynt að fá skoðanabræður sína til að stofna dagblað sem hann gæti skrifað í. Með takmörkuðum árangri. Hann hefur aukinheldur skrifað bók (sem er álíka löng og fyrstu fjórar Harry Potter bækurnar samanlagðar). Í bókinni lýsir hann því hvernig hægt er að breyta stríðinu við pólitíska rétthugsun (marxisma) og íslam í einn ristastóran fantasíustríðsleik. Hann hefur safnað vildarvinum á netinu og verið virkur í ýmsum netsamfélögum. En hann hefur ekkert komist áfram. Fyrst og fremst vegna þess að fjölmiðlar hafa ekki áhuga á að miðla þessari sýn – þeir vilja ekki einu sinni veita íslamistum það aðhald sem þeir þykjast veita öllum öðrum. Þvert á móti sé undirgefni við „fjölmenningarafstæðishyggjuna“ svo mikil að menn sjá ekki að marxisminn er í raun samskonar afl og íslamisminn og fasisminn. Og menn haldi því fastar í marxismann við að reyna að verja íslamismann fyrir fasismanum. Sem sé álíka gáfulegt og að reyna að útrýma arfa í ástralíu vegna þess að hann ógnar tilveru lúpínu – og að menn noti í varnirnar kanínur.



Morðinginn vildi fyrst og fremst athygli. Hann vildi gera eitthvað svo rótttækt að það myndi berast inn á hvert einasta heimili í Evrópu. Og að nógu margir myndu gefa því gaum sem hann væri að segja til að sá frjóum í nokkra huga. Það er, vekja upp fólk – sem síðan tæki til varna. 



Og skotmarkið: Útungunarstöðvar sósíaldemókrata í Noregi. Íslensk hliðstæða: Röskva. Uppeldisstöðvar þeirrar marxísku linkindar sem raular vögguvísu í eyru Norðmanna þegar þeir eiga að vera að hlusta á vakningaröskur. 

Aðferðinn: Dauði. Því málið er dauðans alvara. Menn hafa áður verndað hina evrópsku kristni með því að úthella blóði. Meira að segja blóði barna. Þá snéru menn aftur sem hetjur. Og þetta er aðferðin sem íslamistar beita nú þegar í Evrópu. Álíka fjöldi ungra stúlkna hefur orðið heiðursmorðum að bráð í Evrópu og drepinn var í Útey. 

Og þá að lexíunni. Hvað getum við lært af þessum atburðum?

Allar verulega hættulegar skoðanir eru hættulegar vegna þess að í þeim fléttast saman sannleikur og lygi á svo lymskulegan hátt að erfitt er að greina á milli. Versta vörn gegn slíkum skoðunum er að afneita þeim í heild sinni. Þá mun þeim sem hana boðar nægja að benda á sannleikskornin og afneitununa sem sönnun á því að skoðunin sé í heild sannleikanum samkvæm.

Samfélag sem tryggir skoðana- og málfrelsi á að komast hjá blóðsúthellingu ef vel er með hlutina farið. Slíkt samfélag þarf þó alltaf að gæta þess að skoða- og málfrelsi er ekki raunverulegt ef samfélagið leyfir hatursáróðri að festa rætur. Og hatursáróður er lúmskari en við gerum okkur yfirleitt grein fyrir. Hann hefur a.m.k. þrjár hliðar: svívirðingar, afneitun og hæðni. 

Við höfum skapað samfélag þar sem litið er á það sem sjálfsögð réttindi að hatast við hugsjónir og skoðanir annars fólks. Okkur nægir ekki lengur sú einfalda vernd að hver skuli umbera aðra upp að því marki sem þarf til svo hann verði sjálfur umborinn. Jafnvel á litla Íslandi, hinum ofalda unglingi í hópi Evrópuþjóða sem sigldi eins og korktappi í gegnum hörmungar síðustu aldar. Jafnvel hér einkennist samfélagið af skorti á umburðarlyndi og hatri á milli hópa. Það er talin sjálfsagður réttur, og jafnvel dygð, að hata Davíð Oddsson, Hannes Hólmstein og allt þeirra hyski. Sem til baka hatar Jóhönnu og hennar fólk. Evrópusinnar hata „þjóðernisremburnar“ sem til baka hata „landráðaliðið“. Hér er allt grasserandi í hatri. Börnum er frá unga aldri kennt að skipta sér í fylkingar. Og þótt við fullorðna fólkið þykjumst geta breitt dulu yfir hatur okkar hvert til annars – þá þarf ekki annað en að kíkja á knattspyrnuleik barna til að sjá þar hatur sem jafnast á við það besta sem hitlersæskan hafði upp á að bjóða.




Við þurfum aldrei að verja skoðanir okkar. Það er nóg að hafa skoðun. Og þegar menn hafa andstæðar skoðanir sem hvorugur telur sig þurfa að verja fyrir hinum þá hlaupa menn oft stystu leið í svívirðingar, afneitun og hæðni. Skoðanir eru hunsaðar og hæddar – en næstum aldrei ræddar.

Og í samfélagi þar sem sífellt er hrópað „urrrdan!“ og við hömumst við að hata hvert annað – þá kemur auðvitað að því að hatrið grípur einhverja heljartökum. Menn grípa til aðgerða. Kasta málningu í hús eða  snjóbolta í útrásarvíkinga. Stöðugt verða til hatursfrávik. Fólk sem missir sig á vald neikvæðni og haturs. Svona eins og sú staðreynd að frumur í líkama okkar bila, margar á mínútu. Það þarf ekki nema eina frumu til að valda banvænu krabbameini. Það vill okkur til happs að í langflestum tilvikum verður skemmdin í frumunni henni sjálfri að aldurtila eða að ónæmiskerfið sigrast á biluninni. En stundum. Stundum bila varnirnar. Og þá getur kostnaðurinn orðið mikill.

Ég er ekki að segja að hægt hefði verið að knúsa morðingjann í Útey og þá hefði þetta aldrei gerst. Ég er ekki heldur að segja að hann beri ekki ábyrgð á því sem hann gerði. En ég held ég megi fullyrða að við höfum skapað okkur mjög óheilnæmar aðstæður – og að hugsanlega hefði þetta aldrei farið svona ef menn hefðu í raun virkan vettvang til skoðanaskipta – og að við myndum ala hvert annað upp í því að mega tala – en verða líka að hlusta. 

Hin grimmdarlega aðferð sem morðinginn beitti er á skjön við allan okkar veruleika. Pólitísk hryðjuverk eru í okkar huga eitthvað sem tilheyrir fortíð – eða fjarlægð. Eitthvað sem Evrópa er vaxin upp úr og enginn myndi dirfast að beita í álfunni nema sturlað fólk. Það er þessvegna sérstaklega kaldranalegt að eitt af þeim hugðarefnum sem voru efst á baugi í pólitísku innrætingar- og útungnunarstöðinni í Útey – var siðferðilegur og pólitískur stuðningur við baráttu Palestínumanna gegn Ísrael. Sósíaldemókratar í Noregi (og Íslandi) setja sig nefnilega ekki í prinsippinu algjörlega upp á móti blóðugum árásum í pólitískum tilgangi. Svo lengi sem þær eiga sér stað í útlöndum.


Viðbót: Ef einhvern vantar sönnun þess að meginatriði niðurlagsins eru rétt þá er hægt að kíkja á þennan pistil og athugasemdirnar við hann. Krankleiki íslensks umræðusamfélags verður svo pínlega ljós.

21 comments:

Elín Sigurðardóttir sagði...

Takk fyrir mjög góðan pistil.

egillm sagði...

"Sósíaldemókratar í Noregi (og Íslandi) setja sig nefnilega ekki í prinsippinu algjörlega upp á móti blóðugum árásum í pólitískum tilgangi. Svo lengi sem þær eiga sér stað í útlöndum."

Ég hef nú ekki mikið fylgst með norskum stjórnmálum en aftur á móti hef ég aldrei tekið eftir neinum íslenskum stjórnmálamönnum styðja hryðjuverk palestínskra samtaka.

Það eru amk fréttir fyrir mér ef að stuðningur við Palestínu er sjálfkrafa stuðningur við hryðjuverk.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Auðvitað styðja fæstir hryðjuverk. En mjög margir norrænir sósíaldemókratar tækla palestínsk samtök með öðrum hætti en önnur samtök sem standa beint eða óbeint að hryðjuverkum. Og ég hef verið viðstaddur fund íslenskra vinstri manna þar sem því hefur verið haldið fram að undirokaðar þjóðir hafi náttúrulegan rétt til að beita vopnum gegn kúgurum sínum.

Nafnlaus sagði...

Hvílíkt bull, Hvílík uppsöfnuð heimska.

Jónas Kr.

Nafnlaus sagði...

2083 virðist copy/paste frá Unabomber:
http://www.nrk.no/nyheter/norge/1.7725223

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Kemur kannski ekki á óvart. Þemað hjá báðum er hið sama, þ.e. um hnignun samfélagsins og nauðsyn þess að hverfa aftur til einfaldari tíma. Persónuleikinn líka svipaður. Ef maður les smásögu Unabombersins „Ship of Fools“ þá sér maður kjarnann hjá báðum.

Annars, eftir því sem ég les meira í 2083 þá finnst mér verkið geldara, fyrirsjáanlegra og slappara.

DanTh sagði...

Jónas Kr. það er óþarfi að þú sért að lýsa sjálfsmynd þinni með þessari bull vitleysu.

Þessi grein er mjög góð samantekt á því ástandi sem vinstri menn hafa skapað í Evrópu með þægð sinni við öfgaöfl múslima. Öfgamenn eru hinsvegar, eins og dæmin sanna, til í öllum samfélögum og slíkir geðsjúklingar spyrja sig ekki um litarhátt né sekt eða sakleysi þeirra sem þeir drepa.

Ef ekki á að fara illa fyrir Evrópskri menningu og virðingu Evrópubúa fyrir mannréttindum, þá verða Evrópskir leiðtogar að fara að vakna frá sinnuleysi sínu gagnvart kúgandi öfgahópum innflytjenda.

Ps.
Ég er hér að tala um öfgamúslima en ekki múslima sem venjuleg friðelskandi fólk.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Í tilefni af tveim athugasemdum hér að ofan þá vil ég að það komi mjög skýrt fram að ég er alls ekki að lýsa mínum skoðunum hér að ofan (nema í niðurlaginu). Ég er aðeins að reyna að lýsa á sanngjarnan og raunsæjan hátt þeirri pólitík sem er á bak við þetta pólitíska hryðjuverk.

Skoðun mín er samt sú að jafnvel fólk með svona skoðanir eigi að fá að taka þátt í lýðræðislegri umræðu – og það sé vænlegri leið til að haga hlutum en sú að hatast við pólitíska andstæðinga og fjandgera þá.

Skoðanir þessa manns gera hann ekki að glæpamanni. Sú leið sem hann kaus að nota til að tjá þær gerir það.

Nafnlaus sagði...

Á maður að fá að tjá þá skoðun að það rétt sé að drepa unga sósíaldemókrata? Hvað ef maður leggur til að einhver laumi sér inn í sumarbúðir þeirra með hríðskotariffil? Er það innlegg í lýðræðislega umræðu?

Svo skil ég ekki alveg punktinn um Palestínu. Ert þú á móti öllu pólitísku ofbeldi? Getur aldrei verið réttlætanlegt að beita vopnum? Þú veist augljóslega að Ísraelsher beitir miklu meira valdi en Palestínumenn - einfaldlega vegna þess að þeir hafa yfir miklu meira valdi að ráða. Er ekki hægt að taka afstöðu í því máli? Vegna þess að hvorirtveggja beita pólitísku ofbeldi?

Nafnlaus sagði...

"Þessi grein er mjög góð samantekt á því ástandi sem vinstri menn hafa skapað í Evrópu með þægð sinni við öfgaöfl múslima. Öfgamenn eru hinsvegar, eins og dæmin sanna, til í öllum samfélögum og slíkir geðsjúklingar spyrja sig ekki um litarhátt né sekt eða sakleysi þeirra sem þeir drepa."

Fyrir utan að ég sé á þessu að sá sem þetta ritar er ekki allfjarri því að vera skoðanabróðir Breiviks, þá er deginum ljósara að sá maður spurði sig einmitt um sekt eða sakleysi þeirra sem hann drap. Hann drap unga meðlimi Verkamannaflokksins. Það var engin tilviljun. Það er einmitt sá flokkur sem ber mesta ábyrgð á "því ástandi sem vinstri menn hafa skapað í Evrópu með þægð sinni við öfgaöfl múslima" eins og Breivik hefði getað orðað það.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég tiltek hér að ofan þær málefnalegu skoðanir sem ég tel að eigi erindi í lýðræðislega umræðu. Þ.e. lýsingin á hinu pólitíska baklandi tilræðisins. Þær eiga erindi, þótt ekki væri nema vegna þess að þær eru nú þegar til staðar í ríkum máli.

Það er ennfremur sannfæring mín að upplýst, heiðarleg en öguð umræða sé mikið betur til þess fallin að flétta ofan af veilunum í þessari hugmyndafræði en hatur og þöggun.

Og já, ég er á móti öllu pólitísku ofbeldi. Og allri kúgun. Punktur. Og geri ekki meira með Palestínutenginguna en það (sem mér sýnist vera mjög skýrt) að í Palestínu er blóð og dauði daglegt brauð í pólitískri baráttu. Og að beinn eða óbeinn stuðningur norrænna pólistískra afla við hryðjuverk setji upp mjög kaldranalegt samhengi þegar þessi sömu öfl verða fórnarlömb slíkra aðgerða.

Ef við gætum bara hunskast til að tala saman og hætta að gera hvert annað tortryggilegt. Ef við gætum neitað okkur um þá freistingu að gera hvoru öðru upp annarlegar hvatir. Ef við getum hætt að sjá heiminn með einum gleraugum og hafna allri annarri sýn. Þá gætum við kannski líka hætt að drepa hvert annað til að leysa skoðanaágreining.

ingó sagði...

Já, ég er alveg sammála þér að það beri að taka pólitíkina í málinu alvarlega og fjalla um hana. Svo er ég ekki að reyna að gera þig tortryggilegan, ef það er það sem þú átt við. En internet-texti verður oft dálítið erfiður í núönsum. Ég er líka sammála þér Ragnar, að vera á móti ofbeldi. Hins vega er daglegur veruleiki í Palestínu blóðugur, eins og þú segir, og friðsamleg jafnt sem ófriðsamleg frelsisbarátta Palestínumanna hefur engan árangur borið. Er ekki dálítið auðvelt fyrir okkur að segja þeim að vera til friðs? (Ég veit að Ísraels-sinnar myndu beita svipuðum rökum, þeir óttast um öryggi sitt etc.) Og nú finnst mér ég vera orðinn of langorður um Palestínu sem er ekki í brennidepli hér.

Hins vegar legg ég fram sem punkt að þó svo að sumir meðlimir sósíaldemókratískra flokka tjái skilning sinn á vopnaðri baráttu í Palestínu (og víðar) þá eru þeir samt sem áður lengra frá ofbeldi heldur en þeir sem aðhyllast td. brottrekningu múslima úr evrópu eða í stuttu máli "skoðanir í anda Breiviks."

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Börnin og unglingarnir sem urðu Breivik að bráð voru að sjálfsögðu ekki á neinn hátt ofbeldisfólk. Í mesta falli var um að ræða fólk sem hafði samúð með örvæntingarfullum ofbeldisverkum suður í Palestínu. Það er ekki nokkur glóra í þeirri sýn að þau hafi á nokkurn hátt verðskuldað aftöku eða verið svikarar við föðurland sitt.

Skoðanabræður morðingjans, sem vilja hefja borgarastríð – eiga ekki að fá sæti á pallborðinu. En borgarastríðið er, þrátt fyrir allt, leið að markmiði. Ekki markmiðið sjálft. Og sum þessara markmiða eru alls ekki ólögleg/ósiðleg. Þótt það feli ekki í sér að maður þurfi að vera sammála þeim.

Og þar sem samskipti eru lítil eða engin; eitruð og ómarkviss – þá vex ekki úr þeim neitt frjótt. Þvert á móti ræktar maður upp ófreskjur.

Smári sagði...

Vel skrifuð grein. Það hefðu þó mátt vera einhver greinaskil á milli teiknuðu myndanna.

Ég held að það geti flestir verið sammála um að þjóðfélagsumræða mætti vera vandaðri og að fólk ætti alltaf að þurfa að verja skoðanir síar. En ég er ekki að sjá hvernig það ætti að geta gerst. Það er ekki hægt að þvinga fólk til þess að verja skoðanir sínar...

Húni Hilmarsson sagði...

þú afsakar þótt ég líti framhjá meginumræðu greinarinnar og einblíni á innganginn þar sem Druslugangan er til umræðu.

þín orð:

"með því að einblína á,,nauðgarann" sem eina orsakavaldinn".

1. hvers vegna seturðu gæsalappir utan um nauðgarann?

2. hvaða aðrir orsakavaldar eru til staðar þegar kemur að nauðgunum?

eru áfengi eða "druslulegur" klæðnaður orsakavaldar í þínum augum? ef svo er ættirðu að enduríhuga hvaða markmið þú telur Druslugönguna vera að reyna að ná og hvort boðskapurinn eigi þá erindi við þig.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Húni,

„Nauðgarinn“ er í gæsalöppum til aðgreiningar. Enda er hann gerður að ofurorsök, nægjanlegt og nauðsynlegt skilyrði nauðgunar í senn. Allar aðrar orsakir hreinsaðar burt.

Raunin er samtsemáður sú að nauðganir geta átt sér margþættar orsakir. Orsök er ekki það sama og ábyrgð, sjáðu til.

Og jafnvel þótt orsök sé ekki það sama og ábyrgð þá er ég þess fullviss að stundum sé ábyrgðin ekki eins manns. T.d. í tilvikum þar sem yfirvöld standa aðgerðarlaus hjá meðan fullorðnir menn fá að bera í unglingsstúlkur áfengi og eiturlyf í stað kynlífsgreiða – eða foreldrar sýna vítavert sinnuleysi.

Húni Hilmarsson sagði...

ég gæti ekki verið meir ósammála þér í meginatriðum Ragnar. grundvallaratriðum sem skipta máli.

" ,,Nauðgarinn"...er gerður að ofurorsök" segirðu.

en ekki hvað ? það er ekki Bakkus sem nauðgar, né Dolce & Gabbana eða hvaða annað fatamerki.

"margþættar orsakir" segirðu enn frekar.
nei og aftur nei!

það er ein orsök að nauðgunum; nauðgarinn.

það spila margir þættir inn í, þú nefnir þær réttilega breytur neðar í innganginum á greininni þinni, en það er bara ein orsök. sá aðili sem fulllvissar sig ekki um samþykki hins aðilans.

þetta er megin inntak Druslugöngunnar, framtak sem réttilega var farið í gang með eftir ummæli lögregluþjóns í Toronto sem og hér í Reykjavík.

Ummæli sem reyna að ýta ábyrgðinni frá gerendanum og yfir á fataval (og áfengisneyslu eða hvaða aðra breytu sem er) fórnalamba.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Húni, þér ber engin sérstök skylda til að vera sammála mér.

En jafnvel þótt maður vildi gjarnan að heimurinn væri svona dægilega svart-hvítur þá er hann það ekki. Orsakir eru miklu flóknari en svo að þú getir bara sagt „nauðgari“ er eina orsök „nauðgana“.

Nauðgun er kynferðisleg athöfn án samþykkis. Það eru alltaf a.m.k. tvær manneskjur í spilinu auk athafnar á milli þeirra.

Tökum dæmi:

Maður er búinn að verjast ágengri konu lengi. Hann hefur engan áhuga á að sofa hjá henni en hún er þrautseig í meira lagi. Eitt kvöld drekkur hann of mikið og fær þá hugmynd að það væri bara flippað að sofa hjá heinni. Þau sofa saman. Daginn eftir vaknar hann fullur iðrunar.

Veitti ofurölvaður maðurinn samþykki sitt? Er konan nauðgari?

Er fólk með mjög skerta dómgreind vegna fötlunar eða neyslu fært um að veita samþykki yfirleitt?

Hversu oft heldur þú að fólk „stundi kynlíf“ á Íslandi þannig að ákvörðun sé tekin við aðstæður þar sem viðkomandi er ekki fær um að standa vörð um vilja sinn í málinu?

Og telur þú að enginn beri ábyrgð á því þegar ungar stúlkur eru fyllilega og algjörlega „sjálfviljugar“ gerðar háðar fullorðnum eiturlyfjamógúlum sem misnota þær á alla kanta – og löggjafinn snýr sér undan og segir: „Hún vill þetta sjálf“ og lætur málið óáreitt. Ber barnavernd og lögregla enga ábyrgð á misnotkuninni?

Eða þegar móðir neitar að koma barni sínu til bjargar þegar það lendir í klóm pedófílsks föður. Kennir barninu jafnvel um. Horfir upp á misnotkun daglega en gerir ekkert í því.

Ætlarðu að segja mér að í öllum svona tilfellum þá komi nauðgun viðbrögðum lögreglu eða móðurinnar EKKERT við. Nauðgun snúist BARA og EINGÖNGU um nauðgarann. Og að það sé rakinn dónaskapur að ætlast til að lögregla og meðvirkar mæður axli sinn hluta ábyrgðarinnar. Og að það ætti að fara gönguferð um miðbæinn með meðvirkar mæður og vanhæfa barnaverndarstarfsmenn til að drilla þessi skilaboð inn í hausinn á fólki eins og mér?

Staðan er nefnilega sú, Hugi, að nauðgarar eru veruleiki sem herjar á marga. Í stað þess að ýta ábyrgðinni á þeim yfir á þá engöngu til þess að okkur geti liðið örlítið betur í sálinni – þá er þúsundsinnum betra að þeir axli ábyrgð sem hana eiga. Og reyni að uppræta glæpina í samræmi við það.

Húni sagði...

"Í stað þess að ýta ábyrgðinni á þeim yfir.." á nauðgarann "..þá er þúsundsinnum betra að þeir axli ábyrgð sem hana eiga."

þetta virðist vera gjáinn í skilningi okkar á milli.

mæður (ef meðvirkar) og bjúrókratar (ef vanhæfir) eru ábyrg fyrir sínum þáttum/hlutverkum, en dæma verður hvert einstaka mál útaf fyrir sig (t.d. mál Joseph Fritszl, Ólaf biskup, Jóns Stóra etc.)

besta mamma í heimi og besti skriffinnur veraldar eiga samt við ofurefli að etja og geta ekki komið í veg fyrir að nauðgarar/pedófílar nauðgi og misnoti, hvort sem það á sér stað í heimahúsi fjölskyldunnar, eiturlyfjapartíi, þjóðhátíð eða í skjóli kirkju.

í stuttu máli: ekki reyna að færa kastljósið/skuldina frá nauðgaranum yfir á mömmu og bjúrókrasíuna (né áfengisneyslu/fatavali etc. sjá Druslugönguna)

við getum amk verið sammála um síðustu línuna. að þurft sé að " að uppræta glæpina"

Þorlákur Axel sagði...

Staðhæfing þín - Ragnar - um stuðning norrænna sósíaldemókrata við hryðjuverk er beinlínis röng - ég skora á þig að draga hana til baka enda kallar þú eftir málefnalegri umræðu. Norrænir sósíaldemókratar styðja það að réttindi Palestínumanna nái fram að ganga, eint og t.d. Obama Bandaríkjaforseti gerir. Eitthvert tal "íslenskra vinstrimanna" á fundi sannar ekki staðhæfinguna. Norrænir sósíaldemókratar hafa stutt Ísraelsríki frá stofnun en að sjálfsögðu líka baráttu Palestínumanna fyrir réttindum sínum. Þú þarft heldur ekki að fara lengra en að hlusta á talsmenn Framfaraflokksins norska til þess að heyra hægri öfgarnar í norskum stjórnmálum. Hatursáróðurinn gegn norrænum sósíaldemókrötum var ekki að byrja á þessu ári og því miður er staðhæfingin um stuðning norrænna sósíaldemókrata við hryðjuverk, sem þú gerir að þinni, af þeim meiði - dæmi um lygarnar sem hægri öfgamenn beita í pólitískum tilgangi. Stendur þú enn við staðhæfinguna um stuðning norrænna sósíaldemókrata við hryðjuverk?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þorlákur, hlustaðu á þig. Sósíaldemókratar styðja aðeins óumdeild, sjálfsögð réttindi allra aðila við botn Miðjarðarhafs – allt annað er hatursáróður og lygi úr últrahægrinu.

Hvítt vs. svart.

Staðreyndin er þessi. Norrænir vinstrimenn hafa nálgast Palestínu út frá pragmatík. Þeir vita að þar hafa ráðið lögum og lofum menn og samtök með mikil tengsl í nútíð og fortíð við hryðjuverk. En með því að díla við þessi samtök og taka trúanlegar umbótavilja þeirra og breytta starfshætti sé einfaldast að finna lausn í deilunni.

Það vantaði ekki synderegisterið á bak við Arafat – þótt hann hafi að vísu ekki vilja gangast við öllu sem hann var líklega sekur um. Samt fékk hann líklega æðstu mannúðarverðlaun sem hin pólitískt rétthugsandi Skandinavía hefur upp á að bjóða.

Fatah inniheldur nærri 30 sinnum fleiri hermenn en stjórnmálamenn og það verður ekki komist hjá því að viðurkenna að Hamas verður með í stjórn Palestínska ríkisins, verði það viðurkennt af einhverjum þjóðum.

Hamas og Fatah hafa komið sér í þá aðstöðu sem þeir eru í dag með valdi, vopnaskaki og – já – hryðjuverkum (Þótt fatah sé mjög í mun að fjarlægja sig því í dag). Þetta eru samtök sem hafa sprengt sér leið að völdum.

Og hverjir standa tilbúnir að viðurkenna stjórn þeirra? Hverjir vilja gefa þessum samtökum, með þessa skuggalegu fortíð og vafasömu nútíð, gildi og pólitískan stuðning?

Jú, danskir og norskir kratar. Kratar sem eru meira að segja búnir að lofa þessum stuðningi ef þeir vinna kosningarnar sem eru á næsta leyti.

Stuðningur við hryðjuverk er miklu flóknara fyrirbæri en svo að maður þurfi að leggja blessun sína yfir yfirvofandi árásir. Ein, og alls ekki galin (og örugglega ekki últrahægri lygi) sýn á stuðning við hryðjuverk er að gera samtök pólitískt gildandi sem hafa komið sér til valda með hryðjuverkaárásum.

Auðvitað vilja kratar líta svo á að hér sé um illa nauðsyn að ræða. Þeir vilji ekki hryðjuverk, frekar en Jesú vilji vændi. Þetta sé pragmatísk leið að friði.

Og það er allt í lagi með það. En menn þurfa þá að þola mönnum aðra túlkun og aðra sýn. Og forðast það að láta sem þetta sé allt sjálfsagt og auðvitað og í raun eina boðlega skoðunin. Og gagnrýni sé ekkert annað en últrahægri lygi.

Það er allt últra við botn Miðjarðarhafs. Þar eru engin hvítþvegin lömb. Aðeins vígamóðir úlfar.

Ömurleg staða þar sem báðir aðilar liggja í sárum. Saklaust fólk liggur í valnum. Hjarta sumra slær til hægri og annarra til vinstri. Og börn og unglingar á norskri eyju dunda sér við að mála fána þar sem menn eru hvattir til að bojkotta Ísraelsríki – svona eins og móðgaðir múslimar eða (sem líklega er réttara) klappstýrur annars liðsins. Engir fánar krefjast þess að Palestínumenn hætti að drepa. Við höldum nefnilega með þeim og illska þeirra er örvæntingarfullt viðbragð við yfirþyrmandi illsku hinna.

Einhver ömurlegustu og ógeðslegustu hryðjuverk mannkynssögunnar voru unnin af mönnum sem síðan urðu fullgildir pólitískir leikmenn í augum norrænna jafnaðarmanna. Við skulum vona að sú tíð komi ekki að menn telji það illu heilli nauðsynlegt að semja við menn eins og Anders Breivik.