25. júlí 2011

Íslenskir hryðjuverkamenn

Hatrið sem blossaði upp í íslensku umræðunni í kjölfar ódæðanna í Útey er viðbjóðslegt. Á alla kanta. Fæstir reyna að skilja atburðinn, skoða hann, lesa 2083 og rýna í náungann sem stóð á bak við herlegheitin. Flestir reyna að skýra atburðinn með hliðsjón af fyrirframstorknuðum tilhneigingum í þeirra eigin sjálfi. Hannes Hólmsteinn var dreginn inn í umræðuna. Amx. Og meira að segja Össur Skarphéðinsson. Menn vildu berja á óvinum sínum með óvættinni. „Hann er eins og þú, fattarðu það?“, „Þetta er í raun það sem þú ert að boða!“.

Lesið 2083. Ekki allt. Blaðið í gegnum það. Smám saman hverfur óttinn, hræðslan og hatrið – og maður fyllist vorkunn. Anders Behring Breivik er grey. Óhemju iðið grey – en grey engu að síður. Hann á mikið af hugsjónum sínum sameiginlegt með þúsundum Íslendinga. En þær hugsjónir eru ekki uppspretta morðanna. Þar bætist eitthvað annað við. Einhver brenglun, sem verður svo himinljós við lestur bókarinnar.

Raunveruleiki málsins er samt sá að voðaverkið getur haft afleiðingar. Sópað upp einhverri bylgju. Sjálfur var Anders undir miklum áhrifum af Unabombernum. Það er allteins víst að Anders hafi áhrif á einhvern annan. Þessi óværa, sem kalla má intelektjúal öfga-hægrimenn, er ekki svo auðdrepin.

Og það nægir ekki að benda á týpuna. Karlmenn sem eiga erfitt með að mynda félagsleg tengsl. Brenndir af rótlausu uppeldi. Áttu í óeðlilegu sambandi við móður sína. Menn sem hata samfélagið vegna þess að þeir finna að þeir eru ekki fullgildir þátttakendur í því – og vilja því breyta öllu samfélaginu svo það samrýmist þeirra skáldlegu- og sögulegu sýn á hvernig það á að vera. Menn sem þyrftu bara að fá á broddinn, eiga kærustu og slappa af. Maður getur nefnilega eins sagt femínista að fá sér að ríða og þegja. Koma sér fyrir í samfélaginu eins og það er – og láta það eftir öðru fólki að lifa eins og það vill. Hví skyldu afræktir hægri-öfgamenn ekki líka mega vilja vera aktívistar?

Einn þeirra sem sker sig úr í umfjöllun um þessi voðaverk núna er Haukur Már. Pistill hans um efnið er góður. Greining hans skörp. Hann ræðst þó smám saman að þeim viðhorfum sem Anders á sameiginleg með ýmsum róttækum hægri mönnum á Íslandi. Bendir á að árið 2009 hafi ein hryðjuverkaárás verið framkvæmd í Evrópu í nafni íslam. Af tæplega 300. Notar það til að benda á stórkostlegt ofmat þeirra sem hatast við múslima. Ýkjur á ógn.

Auðvitað ætti öfga-hægrimaður mjög auðvelt með að svara Hauki án þess að þola mikla skjálfta í heimsmynd sinni. Hann gæti til að mynda bent á að þessi eina árás múslima sé einmitt til marks um árangur þess að nota leyniþjónustur Evrópu gegn múslimskum hryðjuverkamönnum. Forvirkar aðgerðir séu hér að sanna sig, því þótt aðeins hafi verið gerð ein árás (á Ítalíu) þá hafi 110 íslamistar verið handteknir í forvirkum aðgerðum í Evrópu þetta sama ár. Sem er margfalt meiri fjöldi en handtekinn var hjá nokkrum öðrum hópi – fyrir utan aðskilnaðarsinna. En fyrir hvert hryðjuverk aðskilnaðarsinna voru handteknir 1,7 menn en fyrir hvert hryðjuverk íslamista voru handteknir 110.

Og hvaða hópur er hættulegastur (fyrir utan aðskilnaðarsinna). Hverjir fremja flest hryðjuverk í Evrópu af pólitískum ástæðum öðrum en þeim að vilja aðskilnað? Jú, vinstri menn. Það voru framin tíu sinnum fleiri hryðjuverk í Evrópu árið 2009 af öfga-vinstri mönnum en öfga-hægri. Það má því vel vera að menn ýki hættuna af íslömskum hryðjuverkamönnum – en menn vanmeta þá hættuna af öfgafullum vinstri mönnum.

Og auk þess myndi öfga-hægrimaðurinn líklega segja að þetta sanni að menn þurfi að herða róðurinn gegn vinstri mönnum og halda pressunni á múslimunum. Og í viðbót við það myndi hann benda á að það er ekki af einskærri hræslu við hryðjuverk sem hægri menn leggjast gegn „landnámi“ múslima. Heldur fyrst og fremst vegna menningarárekstra. Gettómyndunar og félagslegra vandamála. Auk þess sem múslimar séu hægt og rólega að leggja undir sig borgir Evrópu og ýta til hliðar þeirri menningu sem fyrir var.

Og það sé í besta falli hræsni hjá vinstri mönnum að vera sífellt að hvetja fólk til aktívisma, vera þyrnir í síðum andstæðinga sinna, valda eigna- og fjárhagstjóni til að handstýra samfélaginu í átt til sinna hugsjóna – en taka svo yfirmáta borgaralega afstöðu til þess þegar hægri menn reyna hið sama. Reyna að skilgreina það sem „hatursáróður“ og banna það. Hægri maður hatar ekki múslimann frekar en kristinn maður hatar homma eða vinstri maður hatar fjármagnseigandann. Hægri maðurinn hatar áhrif múslimans eins og kristni maðurinn hatar syndina og vinstri maðurinn áhrif auðmagnsins.

Einhvernveginn svona er heimsmynd hægri öfgamannsins. Hann trúir í einlægni á málstaðinn og telur tilgangslítið að ræða hann við aðra – því að til að umræðan geti orðið af einhverju viti þarf að virða málstað hins. Og hægri mönnum er markvisst og skipulega neitað um þá virðingu – af vinstri mönnum sem stýra umræðunni.

Það er engum hollt að festast í búri eigin skoðana. Það er ekki hollt að vera öfga-hægri maður. Það er heldur ekki hollt að vera öfga-vinstri maður. Það er ekki gott að líta á samfélag sitt sem múr sem maður þarf að mola niður – eða sem grjóthnullunga sem maður þarf að múra saman aftur. Lykillinn að lýðræðislegu samfélagi er tvítenntur. Í fyrsta lagi verður að vera hægt að ræða öll mál af yfirvegun. Það verður að mega sjokkera, takast á og umræðuvettvangurinn má ekki vera útgrafinn eftir pólitíska jarðsprengjulagningu – þar sem menn hamast við að neita að ræða við andstæðinga sína ef þeir stíga á sprengju, segja óheimilt orð – orða óheimila hugsun.

Í öðru lagi þarf að ala upp hæfari lýðræðisþegna. Það er kannski ljótt að segja þetta. En staðreyndin er samt sem áður sú að við, sem þjóð, erum, eins og fleiri þjóðir, næstum fullkomlega ófær um að leiða deilur til lykta. Við erum næstum jafn ófær um að ígrunda okkar eigin líf, skoðanir og hugsjónir. Skoðanir, hugsjónir og stefnur fjúka oftar en ekki upp í okkur með vindinum. Við tökum afstöðu með einu og gegn öðru því það fær okkur til að líða vel. Svona eins og manni leið þegar maður eignaðist flík eða hlut sem allir voru að reyna að eignast í grunnskóla. Og svo þjappast fólk saman í tvær eða fleiri fylkingar og keppast um að fá vald yfir öllu. Úr verður lotubundið einræði. Þar sem menn hamast við að komast á koppinn til að geta orðið allsráðandi um hríð – eða þar til hinn kemst að.

Við þurfum að slappa af. Taka tillit hvert til annars. Sá sem hefur vald á að hafa hugrekki til að beita því í annarra þágu. Taka jafnvel upp mál sem hann er í kjarnann ósammála. Og umræðan á að vera opin, heiðarleg og gegnsæ. Vondar skoðanir geta vissulega smitað út frá sér eins og vondur vírus. En það er betri leið að efla ónæmiskerfið en halda fólki í sóttkví.

Öfgamaður eins og Anders hefur þannig hugmyndir að þær myndu aldrei lifa af heiðarlega en fordómalausa lýðræðislega meðferð. Til þess eru þær of gloppóttar. Vissulega myndi eitthvað geta haft áhrif – en aldrei mjög skaðleg. Hefðu þessar hugmyndir fengið að fara í lýðræðislega deiglu gegn því að Anders þyrfti að þola öðrum það að mega vera gagnrýnir – þá hefði orðið til einhver syntesa. Einhver hugmynd sem hægt hefði verið að ræða áfram. Það sem Anders gerði í staðinn var að hnoða hugmyndum sínum inn í sprengju. Kasta henni inn í framtíðina (2083) og treysta á það að auðveldara væri að hafa áhrif á fólk í framtíðinni með því að skemma nútíðina.

Það er ekki að fara að gerast.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott kvöld.
Hvar finnur þú þessa tölfræði um skiptingu hryðjuverkamanna eftir pólitískum skoðunum í Evrópu 2009?
Matthías

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://www.consilium.europa.eu/uedocs/cmsUpload/TE-SAT%202010.pdf