14. júní 2011

Terry Pratchett: Að kjósa dauðann

Þessi pistill er 2823 orð og inniheldur 6 myndir. Áætlaður lestrartími er 11 mínútur og 45 sek.


Líknardráp er líklega eitt erfiðasta siðferðilega umfjöllunarefni nútímans og ennfremur mest aðkallandi, nú þegar ljóst er orðið að ellin lengist, fæðingum fækkar og öldruðum fjölgar sem því nemur.

Líknardráp getur verið af tvennu tagi. Annarsvegar sjálfsmorð, þar sem einstaklingur fær aðstoð eða stuðning við að deyja, og hinsvegar einhverskonar aftaka, þar sem þrautir manneskju eru linaðar þrátt fyrir að hún sé ekki hæf til að taka afstöðu til þess sjálfs.

Í raun ætti aðeins síðarnefnda aðferðin að kallast líknardráp, því þar er áherslan á athafnir þess sem framkvæmir drápið. Sú aðferð sem sumstaðar er lögleg og allur debattinn snýst nú um er sjálfsvíg með stuðningi. Þá þarf sá sem deyja vill að framkvæma sjálfur lokaathöfnina, hvort sem í því felst að toga í spotta eða drekka eitur.

Mörkin á milli sjálfsvígs og annarra tegunda dauðsfalla eru alls ekki skýr. Sókrates tók inn eitur. Hann gerði það sjálfviljugur og af ráðnum hug. Samtsemáður væri fyllilega eðlilegt að segja að hann hafi verið tekinn af lífi – enda var hann aðeins að framfylgja dauðadómi sem hann fékk. Maður sem hleypur inn í brennandi hús til að bjarga barni eða sveigir bíl sínum fram af klettum til að forðast árekstur er jafnframt að verða valdur að dauða sínum þrátt fyrir að fyllilega sé eðlilegt að segja að slík dauðsföll flokkist undir slys. Og langt frá kjarna málsins, úti í móðu umræðunnar má spyrja hvort það sé sjálfsvíg að reykja eða stunda streitufullt líferni.

En þrátt fyrir að það sé erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað sjálfsvíg er þá er kjarni þessarar umræðu alls ekki svo flókinn. Ætti samfélagið að veita stuðning við sjálfsvíg að uppfylltum ákveðnum skilyrðum? Þau skilyrði væru eitthvað á þá leið að 1) óumdeilt væri að það væri vilji einstaklingsins, 2) að einstaklingurinn væri haldinn banvænum og ólæknandi sjúkdómi og loks mætti bæta við að 3) eðlilegt væri að líta svo á að áhrif sjúkdómsins væru óbærileg þrátt fyrir alla aðgengilega umönnun.

Mér sýnist í fljótu bragði að fáir færu að setja sig upp á móti slíkri aðstoð. Það virðist næstum ómennska að meina mönnum um útgönguleið þegar þeir standa frammi fyrir illvígum sjúkdómi án nokkurrar vonar um bata og vita fyrirfram að þeir munu líða gríðarlegar kvalir.


Að mínu viti eru fjórar meginástæður til að vera á móti sjálfsvígum. Þá fyrstu má kalla lífhelgisástæðuna. Samkvæmt henni er lífið heilagt og okkur ber skylda til að viðhalda því. Þessi ástæða getur verið tengd trúarbrögðum (og fjallar þá oftast um það að það sé ekki manna að enda lífið heldur Guðs) en hún getur líka verið trúlaus. Þeir sem aðhyllast lífhelgi munu seint samþykkja stuðning við sjálfsmorð – frekar en t.d. fóstureyðingar, aftökur eða jafnvel notkun getnaðarvarna.

Aðra ástæðuna má nefna sjálfselskuástæðuna. Samkvæmt henni er sjálfsvíg sjálfselska. Fólk vill losna undan eigin þjáningu en notar til þess aðferð sem hleður óhamingju á aðra, sérstaklega vini og ættingja. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun benda á að mjög margir sjálfsmorðingjar telji sér trú um það að þeir séu að gera öðrum greiða enda séu þeir öllum til ama og baggi á öllum. En þrátt fyrir að sjálfsmorðinginn komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið betra „að hann hefði ekki orðið til“ þá leiði ekki af því að það sé betra að hann fremji sjálfsmorð. Því sá vandi sem sjálfsmorðið leysi sé í raun leystur af hólmi af enn stærri og illskeyttari vandamálum.

Þriðju ástæðuna má kalla þá heimspekilegu. Samkvæmt henni er sjálfsvíg ævinlega órökrétt. Því með því að fremja sjálfsmorð ertu um leið að tortíma því sem þú ert að reyna að bjarga. Sá sem fremur sjálfsmorð vegna þess að hann getur ekki sofið undan kvölum – mun alls ekkert sofa betur eftir sjálfsmorðið. Hann mun eyðileggja þann sem á að njóta ávinningsins af sjálfsmorðinu um leið og hann fjarlægir sársaukann.

Loks má kalla fjórðu ástæðuna öngstrætisástæðuna. Samkvæmt henni breytir engu þótt sjálfsmorð virki fyllilega ásættanlegt eða eftirsóknarvert í hug þess sem ígrundar það því sú ígrundun fer fram í ákveðnu öngstræti. Öngstræti sem tilkomið er vegna óheilbrigðra eða sjúkra lifnaðarhátta eða tímabundinna kvala. Uppgjöf sé tilfallandi andlegt ástand sem líkja má við það þegar tölva frýs. Tölvan hefur verið að fást við verkefni sem reyndust henni um megn. En þegar tölva frýs er hvorki eðlilegt né æskilegt að bregðast við með því að mölva tölvuna í sundur – maður reynir að endurræsa hana. Það getur tekið tíma og erfiði en það er alltaf skárri kostur en að farga tölvunni. Þannig sé og ástatt um marga sem taka sitt eigið líf – þeir sniðgengu fjöldann allan af möguleikum til að gera líf sitt bærilegra. Þeir tortímdu sér á tímapunkti þar sem kannski var fulreynt að lifa „því lífi“ sem þeir höfðu „valið sér“ – en þeir gáfu sér og öðrum ekki tækifæri til að reyna að rata út úr öngstrætinu.


Í þætti Terry Pratchetts sem sýndur var á BBC í gærkvöldi fylgdumst við með þrem mönnum sem allir hugleiddu að fremja sjálfsmorð frekar en að lúta þeim örlögum að veslast upp af hræðilegum sjúkdómum. Einn mannanna var með MND, annar með MS og sá þriðji, Pratchett sjálfur, er með Alzheimers. Þeir tveir fyrrnefndu dóu í þættinum, þar af var dauði MND-sjúklingsins sýndur meira eða minna. Pratchett er enn ekki svo illa haldinn af sjúkdómnum að hann kjósi að deyja strax en hann hefur sett sér mörk: þegar hann er hættur að geta skrifað bækur heldur hann að hann muni ekki vilja lifa lengur. Vandamál hans er að þá kann að vera orðið of seint fyrir hann að fá þessa þjónustu því krafan er um að hann taki ákvörðunina heiskýr í kollinum. Hann stendur því frammi fyrir því að þurfa jafnvel að láta „svæfa sig“ fyrr en hann vill til að þurfa ekki að takast á við hin örlögin – sem eru skelfileg.

Eftir þáttinn hefur maður lagst verulega á sveif með stuðningsmönnum stuðnings við sjálfsvíg. Kemur þar aðallega tvennt til: Hið fyrra er að manni finnst ómaklegt af nokkrum manni að ætla sér að leggja þessum mönnum línurnar sem allir eru greinilega eldklárir, vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera og eru á endanum þeir sem þurfa að lifa með þjáningunum. Ef þessir menn eru ekki hæfir til að vera dómarar í eigin máli þá er það enginn. Hitt er að sá dauði sem þarna var sýndur var fallegur dauði, fullur af virðingu og friði – sem er meira en hægt er að segja um sjúkdómsstríðið (og yfirvofandi dauðann) sem annars hefði beðið.

Ef maður tekst á við röksemdirnar gegn sjálfsvígum frá sjónarhóli þessarar myndar þá er voða fátt um lífhelgisrökin að segja. Enda ekki hægt að rökræða slokknun lífs við þá sem ganga út frá þeim upphafspunkti að líf megi ekki slökkva. Það dugir að nefna að lífhelgisrökin hafa ekki nokkurn áhrifamátt á aðra en þá sem þegar eru sammála þeim og sá sem hyggst enda líf sitt af góðum og gildum ástæðum er engan veginn bundinn af niðurstöðu þeirra.

Sjálfselskurökin væri erfiðari viðureignar. Aðstandendur þeirra sem í þættinum voru vildu ekki að þeir myndu deyja og voru jafnvel verulega á móti því. Á móti má auðvitað nefna að aðstandendurnir myndu auðvitað ekki heldur kjósa þeim þá sjúkdómslegu sem framundan var. En sjálfselskurökin eru eiginlega aðeins virk að takmörkuðu leyti, þ.e. þegar sá sem vill deyja hefur þá meginskýringu á vilja sínum að vilja deyja til að auðvelda öðrum lífið. Þegar hinn væntanlegi sjálfsmorðingi upplifir sig sem bagga eða verðandi bagga á öðrum. Við slíkar aðstæður þarf sá sem hyggst fremja sjálfsvíg að gaumgæfa fleiri hliðar. Því sá sem deyr með þessum hætti skilur ævinlega eftir bagga á öðrum. Og ekki endilega bagga sem auðveldar er að bera.

Í tilfelli mannsins sem sást deyja í myndinni þá fór mig að gruna þegar á leið að þetta væri ein af meginástæðum þess að hann vildi deyja. Hann var alls ekki mjög illa haldinn af sjúkdómnum – en hann var gríðarlega viljasterkur og hafði mikið karisma. Mig grunar að konan hans hafi ekki haft mikið um ákvörðun hans að segja, hvorki að þessu sinni né oft áður. Þetta var maður sem gæti þótt það óhugsandi að vera upp á aðra kominn. En þá verður að huga að því að þótt hann hafi verið tilbúinn að fara þá er alls ekkert víst að konan hans hafi verið tilbúin að skilja við hann á þennan hátt – þótt hún hafi látið til leiðast. Og þótt hann hlífi henni við erfiðri umönnun þá þarf hún að lifa áfram með þeim tómleika sem fráfall hann skapast og hugsanlegri hættu á fangelsun vegna „aðstoðar“ við hann.

Hvað sem því líður þá held ég að sjálfselska sé raunverulegt issjú í þessu máli og að það sé ekki einkamál þess sjúka hvað hann leggur á sína nánustu og hvað ekki.


Heimspekilegu rökin eru lúmskari en þau virðast við fyrstu sýn. Þú myndir aldrei tala einhvern inn af gluggasyllu með þeim – en þau krefjast samt svars og svarið leiðir ýmislegt merkilegt í ljós. Vissulega tortímir þú sjálfum þér með sjálfsmorði. En, ef þú aðhyllist ekki lífhelgissýnina, þá má vel vera að þú hafir hvorteðer verið búinn að missa allt sem þú vildir varðveita. Hver og einn hefur sína eigin sýn á sjálfan sig og það sem gefur lífi hans gildi. Alveg eins og Pratchett heldur í það hálmstrá að þrátt fyrir að hafa bæði tapað minni og líkamlegu atgervi að miklu leyti þá heldur hann enn í sköpunargáfuna. Þegar hann missir hana þá er ekkert orðið eftir sem hann vill varðveita. Og þá getur hann, hræsnislaust, kosið að ljúka þessu lífi.

Það merkilega við heimspekilegu rökin er að þau eru ættuð frá Prússanum Immanuel Kant sem var hugfanginn af því að hanna viljareglur sem áttu að afmarka og takmarka breytni. Hann taldi sjálfsmorð órökrétt og þ.a.l. óboðleg. En hann hafði aðrar reglur, t.d. þá að maður skyldi aðeins breyta eftir þeirri viljareglu sem maður gæti, mótsagnarlaust, viljað sem almenna reglu. Þannig mátti maður ekki ljúga eða stela, því er allir myndu ljúga og stela þá myndi maður hvorteðer ekki hafa nein tök á því að ljúga eða stela – enginn myndi trúa neinu orði (en trúgirni er forsenda þess að lygar heppnist) og engu væri komið þannig fyrir að því væri hægt að stela. Svo rammt kvað að þessu að margir kantískir heimspekingar halda því fram að ef nasistar kæmu í búð þar sem þú værir að afgreiða og spyrðu þig hvort þú hefðir nokkuð séð Gyðinga koma hlaupandi þá yrðir þú að benda þeim í allri hreinskilni á að þeir væru að fela sig undir afgreiðsluborðinu. En svo mættir þú bæta við að þú hyggðist verja þá með lífi þínu. En ef við hugsun þetta aðeins áfram þá er nokkuð ljóst að þú kæmir ekki lifandi frá slíkri hreinskilni. Og þar liggur mótsögnin. Þú myndir tortíma sjálfum þér (með aðstoð að vísu) til að bjarga virðingu þinni eða manngildi. Og það er einmitt það sem stuðningsmenn sjálfsmorða vilja. Menn vilja að fólk sem kýs að deyja frekar en að glata öllu því sem það telur mest virði – fái að gera það.

Og þá er komið að lokarökunum, og þeim langsterkustu. Sá sem telur sig ekki hafa neitt til að lifa fyrir getur ekki rökstutt yfirvofandi sjálfsvíg með því einu að hann kjósi að lifa ekki lengur. Það má alltaf segja á móti að það séu fleiri sjónarhorn í málinu. Hví skyldi til dæmis MND-sjúklingurinn taka líf sitt sem þrátt fyrir allt er mun bærilegra en líf margra annarra. Fjöldinn allur af fólki er andlega og líkamlega fatlað og hefur samtsemáður hæfni til að lifa gefandi og heilbrigðu lífi. Sá, sem nýlega hefur fengið alvarlegan sjúkdóm, er hugsanlega ekki fær um að sjá möguleika sína til gefandilífs vegna þess að viðmiðin eru röng. Hann miðar líf sitt við sjálfan sig á öðru lífsskeiði. Hann gerir óraunhæfar kröfur til lífsins og metur lífið tilgangslaust vegna þess að hann sér ekki möguleikana sem þó bjóðast.

Árið 1969 rannsakaði Elísabet Kübler-Ross dauðvona fólk og greindi fimm stig sem fólk fer í gegnum fyrir dauða sinn. Fyrst er afneitun, þá reiði, þá samnungaumleitanur, þá þunglyndi og lokst sættir. Þessi fimm stig taka tíma. Sumir ná ekki að fara í gegnum þau öll.

Þessi fimm stig einkenna ekki aðeins dauðvona fólk heldur virðast vera nokkuð sammannleg þegar kemur að meiriháttar áföllum. Og hér má spyrja hvort áhersla á „þægilegri“ útgönguleið sé hugsanlega eðlilegt en ekki endanlegt viðbragð við yfirvofandi erfiðleikum og dauða. Slíkar pælingar fela ekki í sér neitt yfirlæti eða afneitun á persónulegri skoðun sjúklingsins. Þetta eru einfaldlega eðlilegrar spurningar þegar kemur að því að meta vilja sjúklings sem stendur frammi fyrir erfiðleikum.


Niðurstaða

Þrátt fyrir að þáttur Terry Pratchett hafi verið öflug röksemd fyrir stuðningi við sjálfsvíg, þá sitja eftir spurningar. Hvaða skilyrði ættu slík sjálfsvíg að uppfylla?

Mér finnst augljóst að skilyrðin þurfi að vera ströng. Því jafnvel þótt maður beri fulla virðingu fyrir viðkomandi þá er ekki sjálfgefið að það öngstræti sem hann upplifir sig í, sé eina slóðin sem í boði er. Fyrst og fremst stendur upp á okkur sem samfélag að bjóða upp á lífvænlegri valkosti. Sá sem fær alvarlegan sjúkdóm ætti að fá aðstoð við að deyja – en þó ekki fyrr en búið er að bjóða honum aðstoð við að lifa. Þar skortir mikið upp á. Fólk þarf annaðhvort að vera sterkefnað eða einstaklega vinamargt til að geta lifað góðu og innihaldsríku lífi á Íslandi hafi það fengið alvarlegan, langvinnan og hamlandi sjúkdóm.

Í þætti Pratchetts kom í ljós að mikill meirihluti þeirra sem fá samþykki fyrir aðstoð við sjálfsmorð – nýta sér það ekki. Þeim virðist einfaldlega vera þægð í því að geta ráðið örlögum sínum sjálft.



Gefðu manneskju vald yfir lífi sínu og örlögum og hún mun örugglega vilja lifa svo lengi sem kostur er.

Engin ummæli: