13. júní 2011

Neysluþjóðfélagið

Þessi pistill er 1588 orð og inniheldur 4 myndir. Áætlaður lestrartími er 6 mínútur og 40 sek.

Líf Íslendingsins er af einhverjum ástæðum þannig að honum er bráðmikilvægt að „hefja sig upp yfir“ það með reglulegu millibili. Á þeim aldri sem við eigum að vera að læra tökin á tilverunni, búum við óaðfinnanlega heilsu, hugrekki og hugmyndaflug – látum við nægja að lyfta okkur upp í kemíska vímu við vægast sagt fyrirsjáanleg og einhæf skilyrði. Við köllum þetta djamm.



Tannhjól djammmenningarinnar eru smurð með áfengi. Litlu hjólin sem snúast hraðast eru smurð með öflugri efnum. Áfengið er eiginlega nauðsynlegt. Ekki vegna þess að án þess gæti maður ekki „djammað“. Alls ekki. Sá sem kann að djamma á annað borð er yfirleitt fullfær um það ófullur. Áfengið er nauðsynlegt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að áfengið skapar spennu. Gerir það að verkum að maður veit aldrei fyllilega fyrirfram hvað kvöldið mun bera í skauti sér. Og þessi spenna, kynferðisleg sem önnur, er ekki lítið skemmtileg. En fyrst og fremst er áfengið nauðsynlegt vegna þess að án þess myndi maður eiginlega ekki nenna þessu. Áfengisvíman er svo miklu skemmtilegri í að komast en á að horfa – og það að vera ófullur á djamminu er álíka mannbætandi og að skeina fullorðnum á elliheimili eða sambýli. Það reynir gríðarlega á taugar náungakærleika og virðingar.




Svo verður djamm auðvitað bara vani á endanum og viðheldur sjálfu sér þar til maður finnur sér eitthvað betra að gera.

Maður fær eiginlega öran hjartslátt og ónot í magann ef maður hugsar um alla hæfileikana og möguleikana sem fara til spillis vegna þess að heilar þjóðir kunna ekki að grípa gæsina. Oscar Wilde sagði að æskunni væri sóað á þá ungu. Það er hárrétt. Það er skelfilegt að sá sem æsku sinnar og úthalds vegna gæti verið að kafa með hákörlum eða klífa fjallatinda; vegna útgeislunar og persónutöfra gæti verið að heilla fólk upp úr skónum á ströndum Indónesíu eða eiga eldheit ástarsambönd í Brasilíu; vegna æsku sinnar og hugrekkis gæti verið í framandi námi í fjarlægum heimshluta eða unnið sem hirðir á krókudílabúgarði – að allri þessari æsku sé sóað í íslenska djammið. Og þann daufa og forheimskandi heim sem við höfum þar skapað okkur.



Djamm er neysla. Byggir á neyslu og væri eiginlega óhugsandi án hennar. Þegar djammskeiðinu lýkur tekur við næsta neyslutímabil. Og svo næsta. Og næsta. Þar til holdtekja hins vel heppnaða Íslendings eyðir ævikvöldinu spígsporandi um grafarbakka Evrópu, sólarstrendur á Spáni. Þangað fer stórneytandinn til að deyja. Eða upp í Skorradal.



Svo horfa menn með vandlætingu á unga fólkið. Unglingana sem eru að stíga sín fyrstu skref til þessa sama andlausa lífs. Reyna að mála skrattann á vegginn og kenna kynslóðarmun um allt sem miður er. Fullorðið fólk í stífpressuðum buxum á leið heim úr Hörpu sem mætir augadrukknum, skríkjandi unglingum hangandi í landaflösku – getur ekki með nokkru móti greint handbragð sitt á þeim vegi sem unglingarnir eru að feta. Samt væri þessi vegur ekki þarna ef menn hefðu ekki skilið hann eftir handa unglingunum.

„Unglingavandamálin“ svokölluðu eru alls ekki unglingunum að kenna. Það er rígfullorðið fólk sem eitrar heim unglingana og býr þar til vandamál. Unglingarnir eru fórnarlömb en ekki gerendur.



Það eru „fullorðnir“ menn sem hanga eins og hýenur utan í veikluðustu stelpunum í barnahjörðini, lokka þær til fylgilags við sig, fylla þær af eitri og viðbjóði og henda svo frá sér eins og notuðum skeinipappír. Það eru „fullorðnir“ menn sem hafa haldið uppi þeim forheimskandi og svívirðilega áróðri að kannabisefni séu fullkomlega meinlaus og náttúruleg. Það eru „fullorðnir“ menn sem framleiða og selja landa. Það eru „fullorðnir“ menn sem útvega börnum áfengi og hleypa þeim inn á skemmtistaði.

Það erum við, fullorðna fólkið, sem bjóðum nýrri kynslóð í sollinn þar sem haltur leiðir blindan á sinn rétta bás. Það erum líka við, fullorðna fólkið, sem virðumst ekki sjá að það stendur upp á okkur að bjóða upp á eitthvað nýtt, eitthvað ferskt – eitthvað sem raunverulega þroskar og veitir lífsfyllingu.

En við erum andlaus. Og dálítið heimsk. Við tortryggjum unglinga og ungt fólk. Við persónugerum vandamálin og þegar við sjáum lítið hjól í gagnverki djammsins tætast af öxli sínum og molna í milljón bita virðumst við ekki geta horft á heildarmyndina. Við skiljum ekki að það erum við, í sameiningu, sem höfum hannað neysluheim, sem eðli málsins samkvæmt, umbreytir hverju barninu af öðru í neytanda. Flestir komast að vísu sæmilega óskaddaðir frá þessum heimi – en það er vitað mál að það gera ekki allir.

Og þegar jafnvel kornungt fólk fer sjálfu sér að voða í myrkari afkimum þessa leiðindaheims höfum við ekki einu sinni dug til að hneykslast aliminlega og vaða í þessar ljótu rottur, fullorðnu mennina sem hafa sálarmorð og svívirðu á samviskunni. Við afgreiðum þá og börnin sem þeir meiða sem sömu sort af fólki. Ógæfufólk sem hefur fyrirgert virðingu sinni og manngildi.

Að hluta til stafar þetta af stórkostlega yfirborðskenndri sýn á manninn. Tækni og vísindi hafa fært okkur framfarir og gert okkur kleift að berjast gegn margvíslegum göllum og vandræðum. En eitt af því sem tækni og vísindi hafa líka gert er að svipta okkur ábyrgð, villt okkur sýn á orsök og afleiðingu. Allt er smættað niður í hold. Ef ekki er auðvelt að mæla það, þá er það líklega ekki til.



Í stað þess að fyrirbyggja vandamál reynum við að fullkomna leiðir til að takast á við þau þegar þau koma upp. Fyrirtæki hafa jafnvel stórkostlegan hag af því að nógu stórir hópar fólks veikist – og veikist illa – til að hægt sé að gera þá að langtíma neytendum lyfja.

Og þegar búið er að smætta mannlífið í mælanlegar kjötstaðreyndir þá einblínir fólk á kíló, fituprósentu, blóðfitu og blóðþrýsting – eins og þessar tölur séu á einhvern hátt kjarninn í tilvistinni. Og sama tæknihyggja smitar aðra þætti lífsins. Það má gera næstum tæmandi lista yfir neyslueinstaklinginn með því að tyggja upp tölfræðilegar staðreyndir: eignarhluti í fasteign, fituprósenta, laun, menntunargráða o.s.frv.

Með fullri virðingu fyrir þessu öllu þá er þessi áhersla á mælanlegan árangur dálítið eins og að ganga inn á bókasafn þar sem situr fjöldi fólks og blaðar í bókum – og mæla gagnið sem fólk hefur af lestrinum með því að skrá niður blaðsíðutölin. Sá sem mest hefur lesið hefur bætt sig mest.


Ef djammið er lágpunktur neyslunnar er metorðahlaðborðin hápunkturinn. Menn eyða allri starfsævinni í að „verða eitthvað“ í augum annarra og sjálfs sín. Komast svo að því alltof seint að útsýnið af toppi metorðafjallsins er ansi tómlegt.

Þú skapar ekki heilsteypta manneskju með því að ákveða hvort þú fílar Stones eða Bítlana; drekkir Carlsberg eða Guinnes; notir iPhone eða Nokia; farir til Kanaríeyja eða Alicante; greiðir þér til hægri eða vinstri; hrífist af ljóskum eða dökkhærðum; klárar master eða ekki; elskir nautasteik eða kjúkling; haldir með KR eða Val. Tilgangur lífsins er ekki að raða sér á bása.

Hver er hann þá?

Mín skoðun er þessi: það er ekki neyslan sem skiptir máli, það er það sem situr eftir þegar henni er lokið. Alveg eins og blaðsíðutalið segir ekkert um það hvort bókin hafi haft róttæk áhrif. Hvað gefur neyslan þér? Ekki rétt á meðan, heldur hvað gengur þú með frá borði þegar hún er yfirstaðin?

Er það mórall? Sektarkennd? Skömm? Vanlíðan? Fíkn í meira? Tómlæti? Leiði?




Ef svo er þá er neyslan mjög líklega innihaldslaus eða skaðleg.

Ef við gerum þá kröfu til okkar að vaxa af neyslu okkar, viðhalda lífsþorsta og löngun í fjölbreyttar upplifanir – þá nýtum við neysluþörf okkar til að byggja upp manneskju. Og það er verulega ólíklegt að manneskja sem raunverulega gerir þessar eða álíka kröfur til neyslu sinnar falli í það far að stunda innantóma „djammneyslu“ af vananum einum.


Svo lengi lærir sem lifir. Þú ert ekkert sérstakt þótt þú sért með masterspróf. Þú ert heldur ekkert sérstakt þótt þú sért grænmetisæta eða drekkir Guinness. Allt þrennt getur samtsemáður verið þættir í mjög sérstöku og gefandi lífshlaupi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eru fleiri en fjórar myndir lygari!