14. júní 2011

Karl biskup ætti að segja af sér.

Ég bjó til fésbókarsíðu þar sem ég held fram þeirri skoðun minni að biskupinn ætti að segja af sér. Með því er ég ekki að segja að Karl sé stórkostlega brotlegur. Alls ekki. Ég held Karl sé mjög góður og grandvar maður. En hann hefur bæði tækifæri og ástæðu til að sýna í verki að hin kristna kirkja snýst ekki um völd eða upphefð – heldur þá allra smæstu og réttlætið. Kirkjan lét teyma sig í þá vegferð að traðka á sínum minnstu systrum. Karl tók þátt í því. Auðmýkt er æðri dygð en dugnaður.


Hér er lýsingin á síðunni:


Karl Sigurbjörnsson átti margvíslega aðkomu að biskupsmálinu á sínum tíma. Krafa um að hann stígi til hliðar nú er krafa um endurnýjun og sættir. Aðgerðar- og sinnuleysi kirkjunnar manna, sem þjöppuðu sér með athöfnum sínum eða athafnaleysi utan um illgjörðarmann, hefur verið þeim nær algjörlega afleiðingalaust. Á meðan hafa fórnarlömbin setið upp með afleiðingarnar. Kirkjan hefur glatað trausti og varpað fram af sér þeirri mynd að hún sé stofnun sem fyrst og fremst viðheldur sjálfri sér – jafnvel þótt ranglæti þurfi til. Afsögn biskups nú má túlka sem hógværa en siðferðislega mikilvæga leið til þess að iðrast en ennfremur sýnir það að biskupinn hefur í raun og sann það traust á kirkjunni að hún velji verðugan eftirmann hans – sem þó er snöggtum auðveldara verk kirkjunni en að læra af hinum herfilegu mistökum sínum.


Hér er síðan sjálf:


http://www.facebook.com/pages/Mér-finnst-að-Hr-Karl-Sigurbjörnsson-biskup-ætti-að-segja-af-sér/218959094804926?sk=info

Engin ummæli: