16. júní 2011

Skýrsla í stað samvisku

Þessi pistill er 1518 orð og inniheldur 5 myndir. Áætlaður lestrartími er 379 og hálf sekúnda.

Ég sat við hliðina á amerískum manni í flugvél um daginn. Ég veitti því athygli að megnið af leiðinni las hann greinar úr hinum og þessum blöðum um efnahagsástandið í Grikklandi. Þegar vélin var að koma inn til lendingar í Keflavík spurði hann mig hvort ég væri íslenskur. Upp úr því spunnust nokkrar samræður. Hann spurði hvort efnahagsástandið væri að batna og ég sagði að það væri eiginlega of snemmt að segja til um það – það væri eiginlega enn rúmliggjandi og í öndunarvél og erfitt um það að segja hvernig því reiddi af ef það væri leyst úr fjötrum. Og þá spurði hann hvort ekki hefði farið fram mikil sjálfskoðun og endurbætur á innviðum þjóðarinnar eftir hrun. Ég sagði svo því miður ekki vera. Íslendingar væru betri í flestu en að finna sök hjá sjálfum sér. Auk þess hefði mikið af þeim siðferðilega krafti sem þarf í svoleiðis skoðun farið í mótmæli gegn valdhöfum – og svo auðvitað Icesave. Við hefðum eiginlega séð til þess að við værum svo upptekin við að vera reið hvert öðru og útlendingum að við hefðum ekki átt samtal sem þjóð um það hvernig við mættum bæta okkur.Nema hvað. Erfiðleikar okkar við að sjá eigin sök rista miklu dýpra og eru rótgrónari en svo að þeir eigi bara við um afleiðingar og orsakir efnahagshrunsins. Þennan þátt vantar að miklu leyti í menningu okkar. Og það er eitthvað svo augljóst ef maður hugsar málið. Skoðum tvö mál úr fréttum síðustu viku: biskupsmálið og hnútukast Imbu í Steingrím og Ögmund.

Karl biskup (sem mér finnst að ætti að segja af sér) er staddur í miðri orrahríð. Allt umhverfis hann sitja hýenur tilbúnar að snúa útúr og tæta í sig hvert hans orð. Nú síðast varð allt vitlaust vegna þess að hann sagðist harma að hafa brugðist væntingum þeirra kvenna sem sökuðu biskupinn ljóta um áreitni. Væntingum! hrópaði múgurinn reiður. Heldur maðurinn að þetta snúist um einhverjar fokkíng væntingar!? En ef maður skoðar viðbrögð annarra kirkjunnar manna þá kemur í ljós að allir sem tjáð hafa sig um þetta mál beita nákvæmlega sömu aðferð og Karl, þ.e. þeir vísa í eitthvað utan við sjálfa sig – eitthvað annað en eigin samvisku. Prestarnir flykkjast nú kringum skýrslu rannsóknarnefndar og dansa umhverfis hana eins og gullkálfinn forðum. Gullsmiðurinn, Róbert Spanó, fer fyrir rannsóknarréttinum og eftir hans orðum hreyfast nú kjálkar kirkjunnar manna. Skýrslan hefur sýnt okkur... Við samþykkjum ákúrur skýrslunnar... 

Skýrslan er aflátsbréfið sem hjó á hnútinn. Gervöll prestastétt sat með hnút í maganum, vitandi að hún hefði gert rangt – og loks þegar einhver skrifaði syndaregistur var hægt að gangast við því. Og iðrast. Iðrun í ljósi skýrslu.

En fyrirgefiði mér. Þetta er bara alls ekki málið. Málið snýst ekki um að sýna undirgefni þegar einhver ber vamm manns á borð. Málið snýst um að bæta það sem var í ólagi hjá manni sjálfum og varð til þess að manni varð á til að byrja með. Það á ekki að þurfa neina skýrslu til. Skýrsla verður aldrei tæmandi syndaregistur til að byrja með.Hið sama var uppi á teningnum með Imbu og þingmennina. Þar var líka skrifuð skýrsla. Og gott ef sú skýrsla var ekki leynt og ljóst fyrirmynd skýrslu kirkjunnar. Og þar voru ákúrur.

En sem sönnunargagn um gagnsleysi þess að leysa úr flækjum með svona skýrslum má sjá heimskulegt og asnalegt rifrildi Imbu við Vg-kumpánana síðustu daga. Það vita allir að Samfylkingin ákvað að hlífa sínu fólki við réttarhöldum. Málsvörn Imbu var allan tíma sú sama: Ég var bara utanríkisráðherra. Lesið starfslýsinguna og þá sjáið þið að ég fór ekki með málefni hrunsins.

Og það er alveg rétt. Eins og stjórnkerfinu er lýst hefði Imba ekkert átt að hafa með hrunið að gera. En hún hafði það nú samt. Mýmörg dæmi voru um það að hún fór freklega út fyrir starfssvið sitt og hún tók meira að segja þátt í því að halda fagráðherra óupplýstum um mál sem hann, en ekki hún, hefði átt að vera að stýra. Og hún hlustaði ekki á varnaðarorð af því hún hataði mælandann. Og henni varð margvíslega á í messunni.

Allt er þetta rakið í skýrslunni og henni gert að svara fyrir sig. Og alltaf sama svarið: Ég bar ekki ábyrgð samkvæmt starfslýsingu. Og svo var hún svo ósvífin að bæta við að þau tilfelli sem sannanleg voru um það að hún hefði farið út fyrir vald- og verksvið sitt væru eingöngu dæmi um óvenjulega mikla hjálpsemi og samviskusemi. Það var sumsé af hjálpsemi sem Imba (sem leiðtogi stjórnmálaflokks) tók í hendur sér landsstjórnina ásamt Haarde en algjörlega án ábyrgðar. Því ábyrgð er í lögum skilgreind út frá því sem á að vera, en ekki því sem er.

Þið fyrigefið en mér finnst þetta dálítið eins og að keyra bíl inn í almenningsgarð og keyra þar niður menn, dýr og dót – og sleppa svo við ákæru vegna þess að mönnum hefur yfirsést að láta umferðalög gilda víðar en á umferðargötum.


Og rifrildið milli Imbu og strákanna snérist ekki um hvort rétt eða rangt hefði verið gert. Það snérist um það nákvæmlega hvað stóð í tiltekinni skýrslu.

Sá, sem þarf skýrslu, til að meta eigin sök – hann er ekki fær um að meta eigin sök. Því það að meta eigin sök er ekki eftiráleikur. Það er ekki eitthvað sem þú gerir löngu eftir að þú hefur aðhafst. Það er eitthvað sem þú þarft að gera áðuren, eftirað og meðaná athöfn stendur. Þú þarft að meta breytni þína frá degi til dags.

Það, að ígrunda sjálfan sig aðeins eftirá, er ekki siðferðileg breytni. Það er syndaaflát. Og þótt kirkjulegir rannsóknarréttir og syndaaflát séu vissulega þægileg útfærsla á lífinu – þá er eiginlega fyrir löngu fullreynt með þá nálgun. Það er hið lifandi augnablik sem skiptir máli. Persónulegt samband einstaklingsins við réttlætið, gæskuna eða guð. Ekki persónulegt samband við samfélagsstofnun fyrir þess hönd.


Nú stendur yfir mál sem er næstum alveg eins og biskupsmálið. Mál Gunnars í Krossinum. Þar er trúarleiðtogi sakaður um áreitni. Hann harðneitar. Fyrir utan tvær hjarðir sem tóku strax afstöðu með Gunnari eða hinum „meintu“ fórnarlömbum, þá stendur þorri fólks lamaður. Og býður eftir því að einhver stofnun taki af skarið. Lögregla, saksóknari eða jafnvel – rannsóknarréttur Krossara. Fólk býður eftir stimpli sem ráða á persónulegri afstöðu.

Slíkt má ekki gera í kynferðisbrotamálum. Stofnanir samfélagsins hafa fyrir löngu sýnt að þær ráða ekki við slík brot. Þær eru oftast eins og læknir sem rótar í sári en skilur svo við það verra en það var. Það er einfaldlega þannig að sumt þarf að leika af fingrum fram. Það þarf að hafa til að bera siðvit. Móralskan kompás.

Það þarf ekki alltaf að falla dómur. Það á að vera nóg að til okkar leiti fólk í angist. Við eigum að geta tekið á móti því og hlúð að því. Ekki sem dómarar, heldur samborgarar – siðlegar manneskjur. Manneskja sem brotið hefur verið gegn er ekki endilega að leita að réttlæti eða hefnd. Hún er að leita að stuðningi. Og það er þessi stuðningur sem brást í biskupsmálinu. Þennan stuðning átti að veita óháð sekt eða sakleysi.

Engin ummæli: