14. júní 2011

Hvernig ekki á að endurheimta æru


Gunnlaugur Sigmundsson er flestum, sem fylgjast eitthvað með stjórnmálum, kunnugur fyrir tvennt: Að vera pabbi Sigmundar Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og að eiga að hafa á einhvern dularfullan og framsóknarlegan hátt orðið ægilega ríkur. Fæstir, þar á meðal ég, hafa hingað til nennt að setja sig eitthvað sérstaklega inn í það með nákvæmlega hvaða hætti hann á að hafa orðið ríkur en nú er aldeilis komin ástæða til þess því Gunnlaugur hefur ákveðið að stefna íslenskum bloggara af vinstri vængnum. Og smá eftirgrennslan leiðir í ljós að þegar Gunnlaugi er misboðið þá er full ástæða til að trúa að mjög harkalega sé að honum vegið því þetta er maður sem vílar ekki fyrir sér að slá frá sér og fella dóma. Þannig kallar hann bloggarann „galinn“ og á sínum tíma óskaði hann Sverri Hermannssyni dauða – og vítiskvala í ofanálag. Sverrir skyldi (eins og Gunnlaugur hafði hróðugur eftir sjálfum sér fyrir nokkrum árum) „fara til helvítis og það í láréttri stöðu.“

Það má ljóst vera að þegar maður sem segir öðrum að fara til helvítis og kallar þá galna segist verða að verja æru sína fyrir dómstólum þá hefur eitthvað mikið gengið á.

Eftir allmikla rannsókn á því hver þessi framsóknarmennska Gunnlaugs átti að hafa verið þá hef ég fengið út eftirfarandi atburðarás (þetta er haft eftir grein Agnesar Bragadóttur um málið): Gunnlaugur átti að hafa verið pólitískt settur til að stjórna fyrirtæki A. Fyrirtæki A átti ráðandi hlut í fyrirtæki B og fór Gunnlaugur að stjórna því líka. Nú vildi svo til að vegna starfa sinna fyrir A þá hafði Gunnlaugur upplýsingar sem skiptu miklu máli fyrir fyritæki B og framtíðarhorfur þess. Síðan ákveður stjórn fyrirtækis A að selja hlut sinn í fyrirtæki B. Gunnlaugur stingur upp á verði sem síðan er sett á hlutabréfin. En illa gengur að selja þau. Um svipað leyti fer Gunnlaugur að kaupa hluti í B á bak við tjöldin. Hið sama gerir kona hans. Þau eignast brátt nokkuð stóran hluta. Þegar stjórnarformaður A kemst að þessu verður hann bálreiður við Gunnlaug og vill hann burt úr A. Gunnlaugur hættir í A en heldur því fram að það hafi verið að hans frumkvæði og m.a. vegna þess að honum lynti almennt ekki við stjórnarformanninn – en ekki sérstaklega út af þessum kaupum. Líður nú og bíður. Ákveðið er að minnka hlutafé í fyrirtæki B og við það stækkar hlutur Gunnlaugs og frúar enn. Og síðan rýkur verðmæti B upp m.a. vegna pólitískrar fyrirgreiðslu sem þó átti að vera skilyrt við það að engir sérstaklega stórir hluthafar yrðu að B. Fyrirgreiðslu sem Gunnlaugur hafi, vegna starfa sinna hjá A og B, haft betri skilning á en aðrir.

Sum sé, þetta er sagan sem Teitur ætlaði að vísa í. Eitthvað skolaðist það til hjá Teiti enda virðist hann hafa vísað í söguna eftir minni en ekki flett henni upp. Það sem Teitur mundi var að tengsl Gunnlaugs við Framsóknarflokkinn hefðu komið honum í þá aðstöðu að hagnast persónulega og að til þess hefði hann m.a. notað konuna sína. Smáatriðin eru svo eitthvað á reiki hjá Teiti.

Um leið og Gunnlaugur kvartaði undan bloggfærslunni var hún tekinn burt en eftir sátu linkar í grein Agnesar sem lýsir í grófum dráttum atburðarásinni hér að ofan.

Og hér er vandinn.

Í lýsingu Agnesar Bragadóttur koma fram mjög alvarlegar ásakanir um störf Gunnlaugs og þá atburði sem leiddu til þess að hann varð sterkefnaður. Hann sá af einhverjum sökum ekki ástæðu til þess að kæra hana fyrir mannorðsmorð. Né heldur þá fjöldamörgu sem héldu sömu sögu á lofti. Nú hinsvegar kýs hann að kæra bloggara sem vísar í sömu sögu en skolar að einhverju leyti til aukaatriðum sögunnar. Og þá spyr maður: ef Teitur verður dæmdur, verður það vegna þess að Gunnlaugur er saklaus af þeim ásökunum sem Teitur ber á hann eða vegna þess að Teitur er ekki nógu vandvirkur í framsetningu ásakananna? Er Gunnlaugur að fara í mál út af aðalatriðunum eða aukaatriðunum?

Sú staðfesta Gunnlaugs að fara í mál við Teit bendir til þess að hann hafi ekki þolinmæði fyrir gróusögum um sig. En bendir þolinmæði hans gagnvart Agnesi Bragadóttir þá til þess að hún fari með rétt mál? Og ef Gunnlaugur vinnur málið gegn Teiti – fær hann þá æruna til baka?

Auðvitað ekki. Hann fær ekki æruna til baka fyrr en hann fer í mál við Agnesi Bragadóttur og Morgunblaðið. Ef það er þá hægt lengur. Þar liggur ásökunin. Þar liggur uppspretta allra brigslyrða um Gunnlaug.

Og hann þarf að vinna það mál.

Ég á eftir að sjá það gerast.

Engin ummæli: