20. júní 2011

Kvótakerfið er ekki vandamálið

Þessi pistill er 771 orð og inniheldur 3 myndir. Áætlaður lestrartími er 3 mínútur og 12 sek

Það er skrítið – raunar stórundarlegt – að fólk verði hvumsa þegar hagfræðingar benda á að það að ganga milli bols og höfuðs á kvótakerfinu sé hagfræðilega óskynsamlegt. Kvótakerfið er hagfræðilegt módel – og raunar miklu skynsamlegra hagfræðimódel en flest önnur sem stungið var upp á þegar verið var að reyna að koma böndum á sjávarútveg (eitt fól m.a.s. í sér að skattleggja frjálsar veiðar svo ofsalega að menn misstu áhugann á veiðunum þegar aflamarki væri náð).

Kvótakerfið er samt ekki gallalaust. Kerfið hefur t.a.m. aldrei virkað eins og það er teiknað upp. Sjómenn og útgerðarmenn hafa alltaf veitt miklu meira en kerfið leyfir og kastað þeim fiski sem minnst er á græðandi dauðum í sjóinn aftur. Einhverjir hafa auk þess landað grimmt framhjá vigt. Mér var einu sinni sýnt glæsilegt einbýlishús úti á landi sem stóð ögn fyrir utan aðal byggðina. Húsið var algjörlega á skjön við önnur hús í þorpinu, bæði að stærð og glæsileika. Þarna, var mér sagt, bjó útgerðarmaður sem miklum auð hafði safnað með hreinu og tæru „svindli“. Þessi sami útgerðarmaður hefur farið mikinn gegn kvótakerfinu í orði og riti og fer enn.

Kerfi sem erfitt er að framfylgja er ekki sérlega gott kerfi. En stundum þarf einfaldlega að gera ríkar kröfur og berjast við að ná þeim. Heilbrigðis- og hollustumál hafa t.a.m. verið þannig fyrirbæri. Ef þjóðin fengi sjálf að ráða þá færi kennsla fram í hriplekum brunagildrum, matur væri eldaður innan um rottur og myglu og afgreiðslufólk sundstaða væri einnig lífverðir, einkabílum væri ekið á öðru hundraðinu á milli staða og þeim síðan lagt upp á umferðareyjum og gangstéttum. Stundum krefst almannahagur þess að fólk geri betur en því sjálfu finnst ásættanlegt – og brottkast og löndun framhjá vigt eru í eðli sínu svoleiðis mál.

Vandinn við kvótakerfið er að það er „hagfræðilegt“ módel. Það tekur ekki mið af pólitískum eða félagslegum veruleika. Enda reyndist mönnum um of að starta kerfinu á sínum tíma, of fáir fengu of mikið án þess að hafa til þess unnið. Og kvótakerfið hefur ekki mildað það mikla högg sem sjávarbyggðir landsins urðu fyrir í kjölfar hruns þorskstofnsins við Ísland.

En það er að mínu viti mjög bagaleg leið til að ná pólitískum og félagslegum markmiðum að láta stjórnmálamenn handstýra hluta kvótakerfisins. Því jafnvel þótt tilkall margra núverandi handhafa kvóta sé vafasamt þá er engu vafasamara tilkall sumra þeirra sem nú bíða í röðum eftir að fá sína „hlutdeild“ í arðinum. Upprunalega var úthlutað eftir veiðireynslu á tilteknu tímabili. Að úthluta nú með einhverjum skilyrðum er í sjálfu sér ekki svo ólíkt, því auðvitað munu þeir koma fyrstir inn sem hafa veiðireynslu og þekkingu á atvinnugreininni – en eru af einhverjum ástæðum ekki í kvótakerfinu í dag. Það segir sig sjálft að einhverjir þessara manna verða einmitt þeir sem hafa selt sig út úr greininni. Hafa hirt arðinn af auðlindinni sem þeir vilja nú fá aftur – ókeypis.

Besta lausnin er sú einfaldasta. Sú sem nær markmiðunum með minnstu róti.

Lausnin er alls ekki svona handavinna og ráðherravæði. Lausnin er einföld. Látum kvótakerfið halda sér. En hækkum nýtingargjaldið og setjum skýr þjóðareignarákvæði í lög. Þetta nýtingargjald kemur á móti starfsöryggi hjá útgerðinni og þessu gjaldi verður úthlutað til þeirra sem hafa borið skertan hlut frá borði. Það verður notað til eflingar menningar- og atvinnulífi á landsbyggðinni. Það verður notað til að bæta kjör aldraðra sjómanna og fiskvinnslufólks. Það verður notað til að laða ungt og drífandi fólk út í bæina sem misst hafa unga fólkið til Kópavogs og Reykjavíkur. Það verður notað til að veita ungu fólki athafnalán sem vill fara í rekstur (t.d. fiskveiðar eða ferðamennsku) í gömlum sjávarbyggðum.


Þetta er hellingur af peningum. Hellingur. Og það er ekki nema réttlátt að útgerðin borgi fyrir afnotin. En þótt „þjóðin“ eigi fiskinn í sjónum þá fer því fjarri að þjóðin eigi öll sama tilkall til arðsins. Það á ekki að nota veiðiarðinn til að bjarga ofurskuldsettum íbúðareigendum á höfuðborgarsvæðinu eða í mislæg gatnamót við Kringluna. En það er líka misskilningur að aðeins sjómenn og útgerðarmenn eigi slíkt tilkall. Það voru mistökin sem gerð voru í upphafi.

Engin ummæli: