21. maí 2011

Besti skólinn!

Þessi pistill er 899 orð og inniheldur 4 myndir. Áætlaður lestrartími er 3 mínútur og 45 sek.Það er ekkert einfalt við góða menntun. Af því leiðir að fyrirbærið „góður skóli“ er mjög flókið. En skóli er eitt af því sem kemur öllum við – og þar sem fólk vill gjarnan hafa skoðun á öllum hlutum sem því koma við (hvort sem það skilur þá eða ekki) þá er heilmikill markaður fyrir skoðanir á skólum.

Eitt er þó ekki flókið skóla, hvort sem þeir eru góðir eða lélegir. Hugtakið „skóli“ felur í sér að þar „skólist menn“ – að menn breytist. Að menn komi ekki út úr þeim sömu menn og þeir fóru í þá til að byrja með. Skóli sem aðeins viðheldur einhverjum er ekki góður skóli – hvort sem hann viðheldur snillingi eða blábjána.

Skólinn hefur svipað hlutverk og læknir. Læknir læknar. Hann bætir. Einhver kemur til læknis og fer frá honum betri en hann kom – eða a.m.k. betri en hann hefði annars orðið. Læknir sem breytir ekki heilsu sjúklinga sinna er ekki merkilegur læknir. Hvort sem heilsa þeirra er almennt góð eða slæm.


Frábær skóli er, eins og frábær læknir, skóli sem getur tekið við manneskju í hvaða ástandi sem er – og skilað henni frá sér miklum mun betri en hann tók við henni. Góður læknir myndi aldrei víkja sér undan því að hitta veikt fólk. Hann myndi aldrei setja heilsufarsskilyrði fyrir þjónustu sinni og halda úti þeim sem mest þyrftu á hjálp hans að halda. Góður læknir myndi raunar leggja sig fram um að verða að mestu liði þar sem hans væri mest þörf.

Sama gerir góður skóli. Hann hjálpar þeim mest sem mesta hjálp þurfa. Þeim, sem verst myndi reynast að „skólast“ af sjálfsdáðum.

En á Íslandi hefur smám saman orðið til sú almenna ranghugmynd að sá skóli sé bestur sem að minnsta gagninu kemur. Skólinn sem aðeins hjálpar þeim sem eru meira og minna fullfærir um að hjálpa sér sjálfir. Og því betri skólinn – sem hlutverk hans er veigaminna í lífi nemendanna.

Og hvað getur skóli gefið þeim sem eiga allt sem hann á annað borð nennir að gefa? Jú, fyrst og fremst fordild. Hann getur boðið þér að tilheyra hópi hinna „bestu“ á formlegan og opinberan hátt. Hann getur kitlað egó og reynt að innræta keppnisskap. Hann getur reynt að skilgreina hvar þú hefur forskot á aðra og svo skorað á hina veikari í at. Hann getur boðið þér dús.


Úr þessum skólaskrímslum hafa streymt hundruð og þúsundir af sinnulausum og andlega vanræktum sauðum – sem hafa raðað sér á bása í samfélaginu. Ófleygir, vegna þess að þeir hafa aldrei fengið þá áskorun að verða meira en þeir eru.  Þeim hefur aðeins verið kennt að vera stoltir – nei, montnir – af því sem þeir eru. Og þetta fólk fyllir embætti kynslóð fram af kynslóð og horfir til samstúdentanna sem gátu ekki sætt sig við þau örlög að verða ljósrit af þvældu ljósriti með sámúðarfullri hryggð, hjörðin trúir að þeir sem ekki þrifust í hinu smáborgaralega sæluríki hafi ratað af leið ofan í flöskuháls, róttækni eða rótleysi.

Allt það fólk sem hefur unnið Íslandi hvað mestan skaða kemur úr „bestu“ skólum landsins. En skólarnir mörkuðu engin þau spor í sálir þessa fólks sem gætu dugað til að afstýra hörmungunum. Reyndust þegar allt kom til alls aðeins dýfingarskólar fyrir læmingja – þegar þeir hefðu átt að vera að kenna sund.

Góður skóli er skóli sem breytir þér. Hjálpar þér að verða að betri manni en þú ert.

Þeir skólar, sem þessa dagana er hampað sem bestum, eru í raun engu meiri menntasetur en skilastöðvar Endurvinnslunnar. Þær flokka. Og skila. Þær velja úr þá nemendur sem hvorteðer eru svo sterkir að þeir myndu koma út úr næstum hvaða skóla sem er tilbúnir í háskólanám.


Þeir eru eins og ofaldir og ofstrekktir lýtalæknar sem dunda sér við að endurraða fæðingarblettum í andlitum forríkra, iðjulausra kerlinga – á meðan þúsundir manna líða skort allt umhverfis.

MR er ósköp ómerkilegur skóli. Það er Versló líka. MR gæti voðalega lítið gert fyrir nemanda sem virkilega þyrfti á hjálp að halda. Til að þessir skólar haldist uppi á stalli sínum eru þeir algjörlega háðir því að fá ekki til meðferðar aðra en þá sem þurfa minnst. Í hópi lækna eru þeir hómópatar. Fullir af froðukenndu snakki – en nær lausir við alminlegt innihald.

En það er eitt sem þessir skólar gera vel. Það er að ala upp frammámenn í þjóðfélagi eins og því sem við höfum búið í fram að þessu. Þessu sem er siðferðilega, hugmyndalega og efnahagslega gjaldþrota.

10 ummæli:

Símon sagði...

Það var einmitt áhugavert að sjá á listanum sem Frjáls Verslun lét fyrir sig gera var VMA neðstur. Skóli sem tekur við hvaða nemanda sem er og býður upp á mikinn fjölda mismunandi brauta fyrir mismunandi nemendur. Á meðan MR tekur aðeins við nemendum sem ná 8 eða hærra í meðaleinkunn og býður þeim upp á tvær brautir.

Pétur Maack sagði...

Glæsilegur pistill!

Það er engu við hann að bæta.

Nafnlaus sagði...

Það er nú meira hvað þessi greining virðist ætla að hafa langan eftirmála.

Það er auðvitað vonlaust að setja fram mat á skóla sem er fullkomið. En þarna var bara sett upp 1 mat.

Varðandi þitt mat á góðum skóla, þá það heldur ekki fullkomið og langt því frá. Enginn skóli stenst þá kröfu að vera vel við "alla". Bentu mér á þann skóla sem er ekki með brottfall?

TómasHa sagði...

Ætlaði ekki að skilja eftir nafnalausa athugasemd. Það leiðréttist hér með.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://maurildi.blogspot.com/2010/11/katrin-jakobs-verur-fara-vinna.html

http://maurildi.blogspot.com/2009/06/samrmdu-profin.html

Ég hef um langa hríð haft horn í síðu framhaldsskólanna. Þeir eru latir, makráðir og metnaðarlausir með örfáum undantekningum. Þessar undantekningar eru svo sannarlega ekki „bestu skólar“ Íslands.

Á meðan grunnskóla- og leikskólastarf er í ofboðslegri þróun og deiglu þá eru framhaldsskólarnir götóttir eins og sáld og út um götin falla hundruð barna á ári þjóðfélaginu öllu til vansa og óheilla.

Snærós sagði...

Frábær pistill og háréttur

Hildur Lilliendahl sagði...

Djöfull er þetta gott, Ragnar. Frábært. Takk.

Henrik Garcia sagði...

Kaldhæðið er, fyrst "MR er ómerkilegur skóli", og þú notar þessa líkingu með lækna, að flestir læknar á Íslandi eru einmitt gamlir MR-ingar...

Ég furða mig á alhæfingu og dómi af þessu tagi, einnig "fullir af froðukenndu snakki – en nær lausir við alminlegt innihald." Að þessari næstsíðustu efnisgrein slepptri er greinin þó að mörgu góð og sönn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég ætla nú ekki að fara í einhvern sandkassaleik, Henrik, en það er æði freistandi að benda á að ægilega stór hluti lækna á Íslandi er einmitt ekki sérlega góðir læknar – á sama hátt og MR er ekki sérlega góður skóli.

En ætli ég sleppi því ekki.

GuðjónV sagði...

Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þú hefðir tvö gráhvirflandi horn í síðu MR og Verzló.