22. júní 2011

Af hverju býr fólk ekki úti á landi?

Þessi pistill er 1528 orð og inniheldur 2 myndir. Áætlaður lestrartími er sex mínútur og 22 sek.

Það er mikill misskilningur að kvótakerfið eða frjálsa framsalið hafi lagt landsbyggðina í rúst. Vissulega seldu útgerðarmenn (og sveitarfélög) kvótann burt úr plássum með tilheyrandi röskun en hér er um að ræða ferli sem hófst löngu fyrir daga allra kvóta. Það er næstum glæpsamlega heimskulegt að við skulu norpa næstum öll á einu annesi í einhverri móðukenndri trú á það að hið gamla landnám Ingólfs standi á einhvern hátt nær umheiminum en restin af Íslandi.

Hér er mynd sem ég fékk lánaða af heimsíðu Gylfa Magnússonar við Háskólann. Skoðum hana aðeins:

Hér táknar rauða línan öfugt mikilvægi sjávarútvegs og landbúnaðar og bláa línan táknar það hlutfall þjóðarinnar sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Það er nokkuð ljóst að alla 20 öldina urðu samfelldar grundvallarbreytingar á atvinnuháttum og búsetu þjóðarinnar.

Sjáum nú sömu mynd með eilítilli viðbót:

Hér hef ég bætt við tveim línum. Græna línan táknar upptöku kvótakerfis í sjávarútvegi. Gula línan liggur við upphaf framsalsheimildar á kvóta.

Það þarf næstum fullkominn skort á almennri skynsemi og sögulegri þekkingu til að kenna kvótabraski eða kvótakerfi um ástandið í byggðamálum á Íslandi. Byggðaröskun var löngu byrjuð og hélst í hendur við innreið nútímans (sérstaklega vélvæðingar) og borgaralegs samfélags. Sú ímynd sem flest okkar hafa af landsbyggðinni langt fram eftir 20. öld er af sjávarbyggðum þar sem trillur og togarar vagga í höfnum og karlar og kerlingar vappa niður að höfn til vinnu. Það Ísland er löngu dautt. Það kemur ekki til baka.

Þeir, sem berjast fyrir grundvallarbreytingum í sjávarútvegi núna, leggja margir til að lausnin sé sú að hleypa fleirum inn í sjávarútveg. Það sé enda engin glóra í því að ekki sé gert út frá þeim stöðum sem næstir eru miðunum. 

Til þess vilja þeir innkalla eða fyrna kvóta og afhenda veiðiheimildir fólki sem veitir nýju lífi inn í sjávarbyggðirnar.

Með fullri virðingu fyrir sjómönnum þá líður landsbyggðin ekki fyrir tilfinnanlegan skort á sjómönnum. Landsbyggðin líður fyrst og fremst fyrir hina ósýnilegu borgarmúra sem umlykja höfuðborgarsvæðið og halda bróðurparti Íslendinga föngnum. 

Í dag búa tvöfalt fleiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Sem gæti talist eðlilegt ef Ísland væri þróunarríki eða örsmátt borgríki – en Ísland er eiginlega andstaðan. Nútímavætt menntasamfélag með næstum ógrynni af plássi. 

En hvað er þá að?

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að reynsla mín sé svipuð reynslu annarra sem þekkja mikinn fjölda fólks sem býr í dag á höfuðborgarsvæðinu en á bæði rætur sínar á landsbyggðinni og myndi svo gjarnan vilja búa úti á landi ef ekki væri fyrir nokkrar áberandi hindranir. Og mikið af þessu fólki hefur, á síðustu mánuðum, flutt til útlanda því þegar fólk er á annaðborð komið á ferð úr heimahögunum þá er ekki alltaf auðvelt að stoppa sig.

Það sem vantar út á land eru aðstæður fyrir vel menntað fólk í góðum störfum. Með börn. Og það dugar ekki að láta eins og þeir rómantískustu meðal landsbyggðarvargsins sem telja að úti á landi geti börn gengið sjálfala í fjallshlíðum og fjöru. Nútímamaðurinn vill vel menntaðan kennara í metnaðarfullum skóla – hvort sem sá skóli er á Grundarfirði eða í Grafarholti.

Árum saman hafa konur þessa lands sinnt þeirri borgaralegu „skyldu“ sinni að afla sér menntunar og auka þar með þær bjargir sem þær hafa yfir að ráða í viðhaldi og þróun íslensks samfélags. Strákarnir hafa setið eftir heima og látið teyma sig ólundarlega í gegnum skyldunámið – allt þar til þeir fá loks að ganga sjálfala í heimabyggðinni. Til verður ólífvænt kyrrstöðusamfélag. Loks gefast þeir líka upp og hverfa inn fyrir borgarmúrana þar sem þeir hokra með smurolíudrulluna á puttunum og leita þess sem sópaði öllum hinum inn fyrir múrana. Og þessi mikli straumur fólks gefur falskar hugmyndir um væntingar og viðheldur t.d. fáránlega háu húsnæðisverði og endalausum malbiksflöskuhálsum á leið til eða frá vinnu.

Við, sem þjóð, þurfum að fara að taka menntun svolítið alvarlega. Sjómanna- og bændasamfélagið er búið að vera deyjandi í meira en hundrað ár. Verkvitið eitt verður ekki í askana látið. Og um leið og við gerum það skilum við frá okkur kynslóðum Íslendinga sem vonandi átta sig á því að sú skekkja sem orðin er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis er ekki aðeins skaðleg, heldur hreint og beint heimskuleg.

Það sem landsbyggðina vantar eru betri skólar, betri heilsugæsla, betri löggæsla, betri samgöngur og samskiptatækni. Síðan að styðja við frumkvæði þeirra sem blása nýju lífi í gamlar glæður. Það þarf að gera þeim tugþúsundum Íslendinga sem elska heimabyggðina sína kleift að fara aftur heim og njóta þess sem nærsamfélagið hefur fram yfir fjölmennið. Það gengur ekki að eina fólkið á aldrinum 16 til 30 ára séu þeir sem ekki „komust“ neitt – eins og sumstaðar er.

Og þetta kostar peninga. Hundruði milljóna, jafnvel milljarða. Það sem vantar ekki er áhuginn og viljinn hjá unga fólkinu. En hvar á að fá peningana?

Ja, mér finnst það nokkuð borðleggjandi. Fyrir þrjátíu árum fengu útgerðarmenn afhent verðmæti sem orðið höfðu til í sjávarbyggðum á löngum tíma. Nokkrar kynslóðir höfðu lagt starfsþrek sitt og jafnvel líf að veði til að byggja hér upp einhvern verðmætasta sjávarútveg í heiminum. Síðan var arðurinn afhentur hópi manna, sem vissulega átti tilkall til arð – en ekki alls arðsins. Mér finnst þessvegna nærtækt að það sé einmitt sjávarútvegurinn sem leggi sitt af mörkum til endurreisnar landsbyggðarinnar.

Og sjávarútvegurinn er alveg aflögufær um hundruði milljóna, jafnvel milljarða, til að dæla inn í endurreisn landsbyggðarinnar. Hann borgar nú þegar 3 þúsund milljónir á ári í nýtingargjöld. 

Það er löngu tímabært að tekið sé á ranglæti kvótakerfisins. Þótt ekki sé nema vegna þess að þær bíða nú í röðum náttúruauðlindirnar sem bíða þess að pólitíkin taki afstöðu til nýtingar. 

En af einhverjum ástæðum fluttum við Íslendingar beint á malbikið með hrífutindana og flökunarnífinn í vösunum – við komumst ekki upp úr hugarfari 19. aldarinnar – þar sem verkvitið og iðnin voru æðst allra dygða og aðferðir iðnbyltingarinnar voru uppskrift að árangri. Þess vegna ferðumst við á gráum, ofsetnum færiböndum til og frá vinnu daglega. Þess vegna vilja öll fyrirtæki vera í kallfæri við uppskipunarhöfn og ráðuneytisbyggingar. Og þess vegna má varla hugsa þá hugsun til enda að enn séu fossar út um allt land sem enn á eftir að breyta í rafmagn.

Landinu er nú stjórnað af stjórnmálamönnum síðustu aldar. Landsforeldrarnir fæddust um og fyrir miðja síðustu öld. Og það kemur því kannski ekki á óvart að lausnirnar séu eftir því. Að hefja á ný til vegs og virðingar hlutverk trillukarlsins og smáútgerðarmannsins í sjávarbyggðum. Sem er álíka gáfulegt og að reyna að innleiða á ný hlutverk fiskverkakonunnar – sem er eitthvað það andstyggilegasta kúgunarhlutverk sem finnst í vestrænum veruleika.

Saga kvótakerfisins er samfelld sorgarsaga. Eitt af því sem hefur gert hana jafn langa og leiðinlega og raun ber vitni er að of stór hluti kerfisins hefur verið upp á ráðherranáð kominn. Það hefur verið hrært fram og til baka, tegundir eru í kvóta og utan kvóta – sérkerfi eru fyrir báta af mismunandi stærðum. Það er sífellt reynt að gera öllum til geðs. 

Þótt kvótakerfi sé alls ekkert draumakerfi þá er það að mörgu leyti skynsamlegra en aðrir kostir. Og kvótakerfið er sannarlega ekki ástæðan fyrir byggðaröskun og ofurvægi höfuðborgarinnar. Sá spírall hófst miklu fyrr og verður ekki stoppaður með öðru en menntun og virðingu fyrir þeim möguleikum sem landsbyggðin hefur upp á á bjóða – fyrir utan fiskveiðar og fossavirkjanir.

Engin ummæli: