19. apríl 2011

Ranglæti x ranglæti = réttlæti?

Þessi pistill er 1777 orð og inniheldur 6 myndir. Áætlaður lestrartími er 7 mínútur og 24 sek.


Það er ofsalega einföld og þægileg sýn á klandrið sem við komum okkur í að hér hafi voldug illmenni farið sínu fram án þess að máttvana almenningur hafi mátt reisa rönd við því. Ísland sé þjóð tæplega þriðjungs úr milljón þar sem 99% eru fórnarlömb en 1% óværa – sem ber ábyrgð á ógæfu hinna.

Það hvarflar ekki að okkur að taka neina ábyrgð á nokkrum hlut sem aflaga fór. Og við sjáum ekki – þótt það blasi í raun við – að tilvera nútímaíslendingsins er hörgultilvera. Við erum illa menntuð, illa upplýst og okkur kemur illa saman.

Meðan við horfumst ekki í augu við brestina sem augljóslega eru í stofni þess trés hverrar krónu við byggjum þá horfum við ekki fram á blómlegri tíð.

Þegar við kusum um Icesave-samninginn var hópur fólks sem sagði nei – bara vegna þess að það leit svo á að það gæti fullkomlega þvegið hendur sínar af því fólki sem efndi til þessara skulda. Íslenska þjóðin væri alsaklaus. Og svo var vitnað í Laxness. Sá sem ekki nýtur gróðans á ekki að borga skuldirnar.



Ég persónulega þekki fjöldann allan af fólki, venjulegu fólki, sem fór á límingunum í uppsveiflunni. Var ekki fyrr búið að tapa nokkrum tíuþúsundköllum í púnturkom-bólunni þegar það lagði milljónir undir í lánabólunni; skipti um bíl á nokkra mánaða fresti, endurnýjaði innbúið, keypti eitthvað verulega dýrt til að hengja aftan í bílinn og keypti svo ennþá stærri heimreið og hús til að geyma bílinn við. Og margt af þessu fólki tapaði stórkostlega miklum peningum í hruninu.

Og svo mætti þetta fólk á Austurvöll. Barði þar potta eða stóð steinsnar frá dýra bílnum og bölvaði ríkisstjórninni, stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitinu – eins og þetta væri allt þeim að kenna. Eins og það ætti bara að vera eðlilegt að íslensk miðstéttarfjölskylda ætti að skipta um farartæki áður en rassfar myndaðist í því síðasta sem síðan sæti óhreyft á bílahóteli við Leifsstöð átta vikur á ári.

Óþægilega margt af þessu fólki hefur vitnað í Bjart upp á síðkastið.

Við erum í hrottalegri afneitun. Við sjáum ekki uppfyrir okkar eigin hagsmuni.

Íslendingar eru illa menntaðir og illa upplýstir. Í stað þess að byggja upp menntakerfi sem tekur við þér fimm eða sex ára og skilar þér sæmilega mótuðum út í flókið nútímasamfélag tuttugu árum seinna er menntunarpípan hriplek. Þar streyma enn út og hafa streymt árum saman tugþúsundir einstaklinga sem fara út í lífið með tilfinnanlegan menntunarskort í farteskinu.

Og því miður kemst skólakerfið ekki fyrir þennan skort heldur. Jafnvel langskólagengið fólk er mjög illa menntað. Enda varð íslenska menntakerfið til í þeim eina tilgangi að mennta embættismenn – og enn eimir af því. Embættismenn eru gagnvart menntun það sem ég-trúi-ekki-að-þetta-sé-ekki-smjör er viðbiti.


Núverandi ríkisstjórn fann að hún var að missa múginn úr höndum sér. Hann snérist gegn henni í Icesave-málinu. Og þá reyndi Bjarni Ben að nýta sér sogkraftinn í reiðiöldunni og koma höggi á ríkisstjórnina með vantrauststillögu. Það tókst upp að vissu marki. Og þá snýr ríkisstjórnin sér að því að siga múgnum á „sægreifana“. Sægreifi er nítjándualdar-aðalsmaður sem lifir hátt á því að arðræna landsbyggðina.


Sægreifi er erkióvinur íslenska múgsins, einhverskonar Marhnúta-Moriarty. Gamli arðræninginn.

Umræðan um kvótamál er svo öldungis heimskuleg og vitlaus að það tekur varla tali. Kvótakerfið er „lausn“ við bráðavanda sem varð ljós um miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar Hafró gaf út „Svörtu skýrsluna“ svokölluðu. Í henni sagði að Íslendingar væri búnir að blása upp sjósóknarbólu. Ofsafengin ágirnd landsmanna hafði tryggt að innan skamms yrði búið að þurrka upp helstu nytjastofna. Með lögum árið 1976 fékk Sjávarútvegsráðherra þrenn úrræði: Hann gat sett hömlur á veiðarfæri og veiðislóðir, hann gatt sett „lögregluskip“ á miðin til að draga úr brottkasti og hann gatt sett aflamark.

Brátt varð ljóst að grípa þurfti til öflugri ráðstafana og þá reyndu menn svokallað skrapdagakerfi. Það þótti ekki gefast vel. Þá reyndu menn við aflamarkskerfi (sem kallað er kvótakerfi). Munurinn á þessu tvennu er að í skrapdagakerfi máttu veiða þar til leyfilegur afli er kominn úr sjó og þá er sett stopp en aflamarkskerfi úthlutar hverjum sinni sneið úr leyfilegum afla sem hann getur þá veitt í hægindum sínum.

Hrun sjávarbyggða varð í kjölfarið hratt, alveg eins og ris þeirra hafði verið. Ströndin hafði gefið tekjuvon og því flykktist fólk þangað. Með bólunni stækkuðu sjávarbyggðir upp í margfalt það sem veiðarnar gátu borið. Samdráttur var óumflýjanlegur.

En kvótaúthlutunin var ranglát. Og vel hefði mátt dreifa gæðunum betur og jafnar en gert var. Byggðaröskun hefði ekki þurft að vera svo óhófleg. En byggðastefna á Íslandi er samfelld sorgarsaga. Og þau sveitarfélög sem þó áttu hlutdeild í sjávararðinum hafa langflest fyrir löngu innleyst hagnaðinn og sum hver sólundað honum. Það gerði t.d. Raufarhöfn sem fór frá því að vera eitt ríkasta sveitafélagið á Íslandi eftir að hafa innleyst kvótahagnað í að vera eitt það fáttækasta eftir að hafa fest hagnaðinn í áhættufjárfestingum í dottkom-bólunni. Peningar Raufarhafnarbúa hurfu í Vatnsmýrina og mynda nú nokkra veggi í höfuðstöðvum Decode. Og þarna voru ekki á ferð neinir sægreifar í arðránshug. Nei, þetta voru góðir og gegnir vinstrimenn, samflokksmenn og baráttubræður Steingríms J.



Akureyringar seldu sinn kvóta líka fyrir nokkrum árum og fengu marga peninga fyrir.

Það er enda búið að selja kvótann fram og til baka síðan honum var úthlutað á sínum tíma. Og fólkið sem keypti hann var ekkert verra fólk en þeir sem reka pitsustaði eða bílasölur. Það eru enda nærri þrjátíu ár síðan kvótanum var úthlutað til sílspikaðra sægreifa. Ef þjóðin væri oggulítið betri í reikningi þá ættu menn að sjá að annahvort situr kvótinn í höndum hálftíræðra lénsherra eða hann hefur færst úr stað.

Alla tíð hafa smábátar verið kerfi innan í kerfinu og mikill áróður hefur verið fyrir því að smábátasjómennska sé dygðug sjómennska. Þar sé einyrkinn á ferð. Sá sem stendur uppi í hárinu á togaraeigeindunum og hefur í sig og á með harðfylgi. Smábátakerfið varð að sjálfsögðu aðlaðandi fyrir fjármagnið þegar það naut pólitísks velvilja og ef einhver hefur fyrir því að skoða aflahæstu smábátana þá kemur í ljós að það eru hátækniferlíki sem liggja þétt upp við smábátamörkin eins og þau eru skilgreind en geta mokað fiski upp úr sjónum með óhugnarlegri skilvirkni.



Það er gott og gilt markmið að ætla að bæta fyrir ranglætið í kvótakerfinu. En lausnin þarf að vera réttlát. Stjórnvöld geta ekki komið upp kerfi, framfylgt því í tæpa þrjá áratugi, stuðlað með beinum og óbeinum hætti að fjárfestingu og skuldsetningu og síðan, einn góðan veðurdag, ákveðið að byrja upp á nýtt. Sorrí, það er bara ekki réttlátt.

Auk þess sem innköllun og endurúthlutun kvóta lagar ekkert – sem slík. Það þarf að tryggja réttláta endurúthlutun. Og hvað á að gera? Skrapdagakerfi? Hversvegna skyldi því hafa verið hent út á sínum tíma? Frjálsar smábátaveiðar? Uppboð? Happdrætti?

Hvað af þessu er réttlátt?

Gegn hverjum beinist ranglætið?

Hér þarf að sýna stillingu. Í stað þess að ala á hatri og andúð til þess eins að við þurfum ekki að horfast í augu við eigin bresti á að gagna djarft til verks og finna hin raunverulegu fórnarlömb rangláts kvótakerfis. Það eru sjávarbyggðir og íbúar þeirra. Það er fólkið sem tapað hefur tilverugrundvelli vegna þess að útgerðarmenn voru gráðugir og stjórnmálamenn voru misvitrir. Það eru hinir ungu sem ekki komast inn í greinina vegna þess að kvótinn er svo dýr. Og hugsanlega einhverjir fleiri.

En það eru ekki kunningjar mínir sem gráta nú jepplinginn og fellihýsið – og vilja fá arð af kvótakerfinu til að halda áfram að fjármagna eigin neyslu.

Innköllun kvóta skapar ekkert nema vandræði og býr til rangláta „lausn“ við ranglætinu. Miklu nær væri að hækka gjaldið á handhafa kvótans. Og mynda sjóð sem fer í að byggja upp sjávarbyggðir. Það væri hægt að búa til nýsköpunarstyrki, taka aftur upp sjómannaafsláttinn, veita hagstæð lán til kvótakaupa fyrir ungt fólk sem vill hefja sjómennsku. Það væri hægt að greiða fyrir grunnþjónustu á landsbyggðinni og gera hana að aðlaðandi búsetukosti. Í framtíðinni skiptir staðsetning síminna máli. Það væri hægt að efla mjög menntun á landsbyggðinni. Hefja innleiðingu nútímans þar – í stað þess að horfa sífellt til Reykjavíkur sem nafla Íslands.

Með þessu móti sigraði réttlætið. Og ekki halda eitt augnablik að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður sægreifanna. Að ég sé íhaldssamur varðhundur einhverra hagsmuna. Síður en svo. Mér er ekkert sérstaklega annt um þessa gaura á nútímalegu „verksmiðju“-smábátunum. Ég þekki engan sægreifa persónulega.

Ég er hinsvegar búinn að kynna mér málið mjög vel. Og mér er annt um réttlætið. Og skynsemina.



Og réttláta og skynsamlega leiðin er svo sannarlega ekki sú sem hleður ranglæti ofan í ranglæti og vonar að þar með muni réttlætið nást.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér og greinilegt að þá hefur kynnt þér málið vel. Sem fyrrverandi landsbyggðarfiskverkakona er þetta nákvæmlega það sem ég hef séð gerast síðustu 30 árin. Þeir sem fengu gjafakvótann seldu sig útúr greininni og fjárfestu í öðru. Aðrir fjárfestu í greininni þ.á.m. með kvótakaupum, notuðu jafnvel til þess eigið fé og sínar tekjur.

Nafnlaus sagði...

Þetta var rétt með 7 mínúturnar.
Góð grein en hrædd er ég um að Íslendingar láti sem fyrr heimskan 4-flokkinn teyma sig á asnaeyrunum en að ná svo skynsamlegri lendingu í þessu deilumáli. Því miður.

- sagði...

mjög góð grein.