10. apríl 2011

Hinar þrjár stoðir þriðja lýðveldisins Íslands

Þessi pistill er 1287 orð og inniheldur  6 myndir. Áætlaður lestrartími er 5 mínútur og 22 sek.


Við þurfum að byggja upp lýðveldi sem er betra en það sem nú iðar í fjörbrotunum. Þjóðin er klofin, stjórnmálin eru andlaus og hrein illska ríkir á milli lýðræðisstofnana samfélagsins, fjölmiðlarnir eru vanmegnandi og misnotaðir grimmilega af blaðamönnum, ritstjórum og eigendum.

Fyrsta „lýðveldið“ hrundi í kjölfar innbyrðisátaka. Það tók okkur nærri 700 ár að endurheimta það. Sjötíu árum seinna erum við komin á annað hnéð.

Auðvitað er ekkert annað að gera en að standa aftur upp, dusta af sér rykið og halda áfram. Við þurfum að byggja upp nýtt lýðveldi. Við þurfum að átta okkur á því að sá sopi sem við tókum af lýðveldishugsjón í gegnum danskprentaða bæklinga fyrir hundrað og fimmtíu árum sem innihéldu bergmál af frönskum og bandarískum hugsjónum – sá sopi hefur skilað sér niður úr meltingarkerfi þjóðarinnar. Við þurfum að fá okkur aftur að drekka. Fylla á hugsjónina og taka kúrsinn.

Hugsjónir leggjast ekki yfir heilar þjóðir eins og teppi. Þær spretta upp eins og grös á milli gangstéttarhellna. Nokkur slík grös eru nú þegar sprottinn upp úr steinrunnu og köldu landslagi íslenskrar pólitíkur. Nú vantar bara að veita þeim brautargengi. Mola burt grjótið og leyfa grasinu að vaxa.

Ég ætla að nefna þrenn slík grös.

Hin fyrsta er þátttaka almennings.

Almenningur hefur á síðustu misserum hrokkið í gang. Eins og stefnulaus gæsahópur sem hefur uppgötvað að fitin voru að frjósa föst við pollinn flaug hersingin af stað. Það þarf aðeins að marka stefnu og hefja oddaflug.Versti óvinur lýðræðisins er andvaraleysið. Áhugaleysi fyrir lýðræðinu. Virðingarleysi fyrir fjölbreytninni og skoðananamun. Lýðræðislegur réttur ber með sér lýðræðislegar skyldur. Það má vel vera að skerpa þurfi á lýðræðisskyldum Íslendninga – en þeir verða ekki fundnir sekir um áhugaleysi. Þeir hafa nú risið upp tugþúsundum saman og öðlast raddir. Mótmælt og meðmælt. Staðið í hárinu á stjórnvöldum og nú, í fyrsta skipti sem ég man eftir, neytt valdhafana af einni braut yfir á aðra. Neytt ríkisstjórnina til að snúast til varna fyrir Ísland. Sömu ríkisstjórn og almenningur á landinu kom til valda með því að hrekja þá fyrri frá völdum.

Lýðræðisþátttaka almennings getur orðið ein stoð undir nýju lýðræði.


Önnur stoðin felst í grundvallarstrúktúr pólitíkurinnar. Það að skapa vettvang fyrir lýðræðisþáttöku almennings. Þar hafa tveir íslenskir ráðamenn gert sér grein fyrir þunga straumsins og grafið fyrir hann farveg. Jóhönnu Sigurðardóttur eigum við það að þakka að hafin er vinna að nýrri stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem verður grundvallarplagg hins nýja lýðveldis.


Stjórnarskrá sem vonandi verður innblásin lýðræðisanda. Stjórnarskrá sem tekur mið af hinni hörðu gagnrýni sem fram kom á allt íslenska kerfið í Rannsóknarskýrslunni. Stjórnarskrá sem verður komandi kynslóðum vonandi svalandi drykkur ef hugsjónin byrjar aftur að þorna upp. Takist vel til mun nafn Jóhönnu Sigurðardóttur verða geymt og hennar minnst sem stórmennis (og hin snautlega frammistaða í sumum málum eins og Icesave mun gleymast).Hinn farvegsgrafarinn er Ólafur Ragnar Grímsson. Forsetinn sem virkjaði lýðinn. Fyrsti forsetinn sem hafði kjark til að taka málstað þjóðarinnar gegn valdhöfunum. Forsetinn sem örugglega bjargaði ríkisstjórninni frá sjálfri sér einu sinni og hugsanlega oftar. Forsetinn sem kom fram og talaði kjark í þjóðina á meðan valdamenn sátu tuðandi í eigin barm. Ólafur Ragnar Grímsson er mikilmenni í íslenskri sögu. Það er þegar orðið ljóst. Hann er maðurinn sem gerði þjóðaratkvæðagreiðslur að veruleika á meðan allir aðrir vildu bara tala um þær sem fjarlægja möguleika.

Önnur stoð undir hinu nýja íslenska lýðræði er hugrekki og stefnufesta Jóhönnu og Ólafs Ragnars og afsprengi þeirra: þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaráð. Þeir farvegir almannavaldsins sem þar urðu til.Þriðja stoð íslenska lýðveldisins verður að vera menntun. Við verðum að átta okkur á því að við verðum að gera miklu betur. Við þurfum að mennta lýðræðisþegna. Skólakerfið á Íslandi á að byggja á því að til sé samfélag án aðgreiningar. Samfélag sem virðir alla, samþykkir alla, finnur öllum hlutverk og stað. Ný rannsókn bendir til þess að starfsmenn skólanna hafi hvorki trú á né sannfæringu fyrir þeirri stefnu sem þeir eru ráðnir til að framfylgja. Á meðan er t.d. fötluðum börnum meinaður aðgangur að sérskólum þar sem starfar raunverulegt hugsjónafólk með sérhæfni. Börnin eru neydd til vistar í skólum hjá kennurum þar sem þau eru í raun og veru óvelkomin. Allt val um þetta mál er tekið frá foreldrunum.

Við þurfum líka að mennta fólk sem kann að rökræða, takast á við og leysa ágreining. Kann að gera greinarmun á mönnum og málefnum.Við verðum að hætta að líta svo á að það sé allt í lagi að stjórnmálamenn beri ekki með sér neina alvöru hugsjón, svo lengi sem þeir séu gott fólk. Það á ekki að vera í lagi að stjórnmálamaður gangi þvert gegn vilja þjóðarinnar og segi svo þegar hann er stoppaður af að hann ætli að endurvinna traustið og breyta um kúrs. Stjórnmálamenn eiga öðrum mönnum framar að vera rótfastir við veruleikann í stað þess að fjúka um í vindum ofan hans. Þeir eiga ekki að vera fljótandi manngerðir án grundvallarinntaks. Þeir eiga að vaxa upp frá prinsippum og vera kosnir í því trausti að þeir munu, hvað sem á dynur, vera prinsippum sínum trúir. Þeir mega ekki fljóta fram og til baka og skiptast á um að bölva hinum fyrir það sem þeir myndu sjálfir gera í þeirra sporum.

Það þarf að mennta alla þjóðina upp þannig að hver einasti maður hafi allavega tækifæri til að kynna sér grundvallarhugsjónir og rækta með sér persónulegar dygðir. Það þarf að dýpka fólk og hætta að hræðast mennskuna. Hætta að láta allt nám snúast um stök og þýði; stöður og hlutverk. Það þekkir enginn stöðu flóttamanna fyrr en þeir hafa horfst í augu við manneskju sem reka á úr landi. Það þekkir enginn mannlífið án þess að þekkja menn.

Á þessum þremur stoðum: að virkja fólk til lýðræðislegrar þátttöku og veita því farveg og mennta fólk upp til að það sinni hlutverkum sínum betur – getur íslenskt samfélag orðið fyrirmynd annarra lýðræðisríkja. 

Hvernig sem efnahagsstærðir hoppa upp eða niður þá getum við ekki tapað á að reyna að byggja upp þriðja íslenska lýðveldið.

2 ummæli:

Bjössi sagði...

http://silfuregils.eyjan.is/2010/02/01/you-ain´t-seen-nothing-yet/

Mikilmenni í íslenskri sögu? Ekki fyrr en hann smitast af fransós. Þótt það sé teóretískt jákvætt að virkja almenning til þátttöku í fleiri ákvörðunum er ég efins um að íslenskum almenningi sé treystandi til að ákveða margt. Ég fullyrði að mjööög margir kusu af fáfræði á laugardaginn var. Markmið ÓRG var eitt og aðeins eitt: að fá fólk til að gleyma ræðunni hér að ofan.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er ekkert teóretískt við það að virkja almenning – fólkið kaus. Snéri málinu á haus. Breytti málstað Íslands á augabragði eftir nokkur ár af mausi. Hann er fyrsti Forsetinn sem hefur virkjað lýðræðisegt vald almennings þegar það stangast á við vilja þingsins.

Hvort hann gerir það til að öðlast vinsældir, láta gleyma fortíð, hégóma eða fræðilegri sannfæringu er ég ekki dómbær á.

Eftir sitja aðgerðirnar og rökstuðningurinn. Hann er merkilegur.