18. apríl 2011

Smekklaust grín

Ég er hrifinn af smekklausu gríni. Alveg eins og ég er hrifinn af smekklausum bókmenntum, lagatextum og list almennt.

En hrifning mín er ekki óblendin. Stundum poppar upp í kollinn pólitísk réttugsun og reynir að hafa af mér ánægjuna. Sérstaklega þegar mér finnst smekkleysan gegna því hlutverki að festa í sessi eða viðhalda ranghugmyndum eða brenglaðri heimsmynd.

En...samt. Kosturinn við mjög dökkan húmor og mjög svarta list er að þrátt fyrir allt býr í henni heiðarleiki. Og grínið eða listin – réttilega framreidd – er öflugur samfélagsspegill. Og raunar held ég okkur stafi mun meiri hætta af móðgunargirni og kafbátahúmor.

Það er sífellt verið að reyna að viðhalda ranghugmyndum og festa þær í sessi. En menn gangast ekki við því. Láta bara nægja að nota háð og innprenta mönnum hugtök og orðaforða sem leiðir þá einn veg frekar en annan. Einir hæðast að forsetanum, aðrir að forsætisráðherranum – og svo er barist um vald yfir umræðunni. Ósmekklegt grín er alltaf betra en grínið sem gerir ekki grein fyrir sér. Smekklaus djókur er auðþekkjanlegur.




Grínmyndin af Siv þar sem hún falbýður sig kommúnísku öflunum sem stýra eiga Íslandi hafði gildan punkt. Það sem gerði hana ósmekklega var ekki kúgun kvenna, karlremba eða nokkuð annað slíkt. Það sem fór yfir strikið var að þarna væru mynduð tengsl á milli Sivjar og vændis – þegar allir og ömmur þeirra hafa margoft heyrt þá kjaftasögu að barnsfaðir hennar sé dæmdur vændiskaupandi.

Í þessi ljósi var skopmyndin sérlega ósmekkleg. Því þarna var ýtt á veikan, persónulegan punkt.

En – þrátt fyrir þetta – átti skopmyndin rétt á sér. Og hún var ekkert brjálæðislega hneykslanleg.

Fyrir nokkrum misserum varð allt vitlaust í Bretlandi þegar Jimmy Carr lét þau orð falla að eini kosturinn við hernaðarbrölt Breta í Írak og Afganistan væri að þeir yrðu með sterkt lið á Ólympíuleikum fatlaðra 2012. Sami grínisti sagði, aðspurður um hvernig honum hefði liðið þegar hann frétti að Michael Jackson væri dáinn: „Svona svipað og þegar Díana prinsessa dó, mér gæti ekki verið meira sama.“

Þarna stakk grínistinn Carr rýtingnum á kaf í bakið á heilögu kúnni.



Simon Amstell sem stýrði frábærum þáttum sem heita Never Mind the Buzzcocks talaði einu sinni við gesti í þættinum um að sér þætti ósanngjarnt að hann væri sá einni í kunningjahópnum sem þekkti ekki Courtney Love. Þá var baunað á hann að hún myndi mylja hann eins og saltstöng. Hann svaraði að bragði og umhugsunarlaust: „Eða drepa mig og láta það líta út eins og sjálfsmorð.“

Við þennan einstaklega ósmekklega og særandi brandara uppskar Amstell mikinn fögnuð áhorfenda – enda er þetta drepfyndið á sinn hroðalega hátt. Hann áttaði sig strax á að hann hefði farið yfir strikið og reyndi að draga í land en varð lítið ágengt.

Jimmy Carr á þennan: „Níutíu og níu prósent kvenna kyssa með lokuð augu. Sem er ástæðan fyrir því að það er svo erfitt að finna nauðgara.“




Frankie Boyle sagði þegar hin 9 ára Shannon Matthews fannst á lífi eftir að hafa verið haldið fanginni ofan í skúffu undir rúmi á heimili barnaperra: „Þetta sannar bara það sem ég hef alltaf sagt. Þær ljótu finnast alltaf á lífi.“

Allt eru þetta verulega ósmekklegir og viðbjóðslegir brandarar ef höfð er í huga forsaga málanna. Þeir særa og hafa að háði sakleysingja og fólk sem á um sárt að binda. Samt hlær fólkið. Og með því að fá okkur til að hlæja opinbera grínistarnir okkur – fletta af okkur helgislepjunni og neyða okkur til að gangast við hluta af okkur sem of mörg okkar neita að kannast við.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kjaftasagan um vændiskaup Sifjarmanns? KJAFTASAGAN? Eins og kjaftasagan um að bankarnir hefðu fallið 2008 eða kjaftasagan um að það snjóaði í dag?

Nafnlaus sagði...

James Anthony Patrick

eða bara

Jimmy Carr.

http://en.wikipedia.org/wiki/Jimmy_Carr

Ragnar Þór Pétursson sagði...

1. sbr.
2. thx