5. apríl 2011

Leikskólakennarar grafa upp stríðsöxina

Þessi pistill er 253 orð. Áætlaður lestrartími er 1 mínúta og 4 sek

Haraldur Freyr Gíslason er nýr formaður Félags leikskólakennara. Það eru nokkur tíðindi.

Kennarasamband Íslands með öllum sínum undirfélögum hefur verið mjög þunglamalegt og lítið andríkt. Eftir að grunnskólakennarar voru dæmdi inn í skólana eftir síðasta verkfall fór öll orka nýrrar stjórnar í ímyndarherferð. Vigdís Finnbogadóttir og fleiri voru látnir lýsa því yfir að fátt væri verðmætara en góður kennari. Lítið frjótt hefur bæst við. Forystan hefur lítið endurnýjast og þegar einn lætur af störfum færist bara annar upp.

Forystunni er vorkunn. Að stýra landssamtökum kennara er dálítið eins og að stjórna samtökum fólks með mótstöðuþrjóskuröskun. Það er erfiðara að stýra FG eða KÍ heldur en þingflokki Vg.

Afleiðing þess er ákveðin lömun út á við. Hægfara, praktísk nálgun.

En nú er búið að níðast nóg á leikskólakennurum til að þeir kjósa „herskáan“ foringja. Og þótt hann hafi áður komið fram fyrir alþjóð í húsdýrabúningi þá er hann alls enginn trúður. Í gegnum málflutning hans er þykkur, málefnalegur þráður. Hann er enginn gnarr.

Ég óska leikskólakennurum til hamingju með formanninn og vona að þeir fari að berjast á móti. Og svo má restin af KÍ taka slaginn með þeim.

Engin ummæli: