5. apríl 2011

Icesave for Dummies (uppfært)

Þessi pistill er 2272 orð og inniheldur 10 myndir. Áætlaður lestrartími er 9 mínútur og 28 sek. (Uppfært og bætt 5.4.2011 kl. 16:20)
Í þessu íláti eru allar innistæður fólks á Icesave-reikningum Landsbankans. Einn góðan veðurdag fór Landsbankinn yfirum, íslenska ríkið tók hann yfir og stofnaði nýjan banka.

Blái liturinn táknar þá upphæð sem tryggingarsjóðurinn átti að tryggja. Græni liturinn táknar það fé sem sjóðurinn átti handbært

Evrópskar reglur kváðu um að ríkisstjórnir ættu að sjá til þess að bankar stofnuðu með sér tryggingarsjóði sem hefðu átt að tryggja u.þ.b. helming innistæðna á Icesave-reikningum. Í íslenska tryggingarsjóðnum var ekki nærri því nógu mikið fé. Bresk og hollensk stjórnvöld vildu fá að vita hvað stjórnvöld ætluðu að gera í því. Sérstaklega þar sem íslensk stjórnvöld höfðu gefið út að allar innistæður á reikningum á Íslandi væru tryggðar í topp. Eftir símtal Darlings og Árna Mathiesen fullyrti Darling að Íslendingar ætluðu ekki að tryggja Icesave innistæður. Eigur Landsbankans í Bretlandi voru frystar með svokölluðum hryðjuverkalögum til að vernda hagsmuni þarlendra.


Bretar og Hollendingar greiddu allar Icesave innistæður af eigin fé – ekki aðeins hið lögbundna lágmark.

Bretar og Hollendingar gripu til þess ráðs að greiða innistæður að fullu (og þannig vel umfram tryggingarlágmarkið) úr eigin vasa. Með því komu þeir í veg fyrir áhlaup á fleiri banka og ótta um fjármálakerfið.


Það fé vilja Bretar og Hollendingar nú fá endurgreitt.

Icesave-deilan svokallaða snýst um endurgreiðslu þess fjár. Með því að borga innistæðueigendum eignuðust Bretar og Hollendingar kröfu í þrotabú Landsbankans. En í stað þess að gera aðeins kröfu á það fóru þeir fram á að íslensk yfirvöld ábyrgðust endurgreiðslu þess hluta sem tryggingarsjóðurinn átti að greiða. Litið yrði á innborgunina á Icesave-reikningana sem lán til íslenska tryggingarsjóðsins með baktryggingu ríkisins.


Eignir landsbankans eru miklar en duga þó ekki til

Snúum okkur þá að eignum Landsbankans. Um verðmæti þeirra ríkti lengi og ríkir enn nokkur óvissa. Einnig er á huldu hvernig eignasafnið er samsett. En ljóst er að þegar Landsbankinn fór á hausinn átti hann ekki fyrir skuldbindingum sínum og hann á það ekki enn. Fjöldinn allur af fólki á kröfu á Landsbankans og við eðlilegar aðstæður myndu eignirnar skiptast á milli kröfuhafa eftir almennum reglum.


Með neyðarlögunum fengu innistæðueigendur forgang í eignir landsbankans. Bretar og Hollendingar eignuðust kröfur innistæðueigenda með því að borga þær upp.

Íslensk stjornvöld kusu að horfa framhjá þessum reglum og settu svokölluð neyðarlög. Samkvæmt þeim fá þeir sem áttu innistæður forgang yfir aðra kröfuhafa (t.d. eigendur skuldabréfa). Miðað við mat nú bendir allt til þess að eignir þrotabúsins dugi rétt tæplega fyrir þeim hluta krafna. Aðrir kröfuhafar þurfa að fara í mál fyrir íslenskum dómstólum og reyna að fá neyðarlögunum hnekkt. Takist þeim það njóta innistæðueigendur (sem eru Bretar og Hollendingar) ekki forgangs og fá minna upp í sínar kröfur.


Icesave 3 felur í sér að íslenska ríkið ábyrgist að tryggingarsjóðurinn íslenski borgi hollenska og breska sjóðunum lágmarks tryggingu auk vaxta.

Icesave 3 er samningur milli Breta/Hollendinga og Íslands um að Ísland ábyrgist greiðslu á þeim hluta innistæðna sem lágmarkstrygging átti að greiða. Auk þess borgar Ísland vexti fyrir „lánið“ aftur í tímann og til þess tíma sem lánið er greitt upp. Samkvæmt samningnum getur lánið framlengst ef það reynist hærra en reiknað var með og sett er þak á greiðslur ríkisins á hverju ári. Bretar/Hollendingar njóta svo forgangs í aðrar eignir þrotabúsins. Miðað við þennan samning og núreiknað verðmæti þrotabúsins mun hann líklega kosta 30 milljarða plús vexti í viðbót við það sem er í þrotabúinu.


Miðað við spár duga eignir bankans rétt tæplega fyrir forgangskröfum. Aðrir kröfuhafar fá ekki neitt og munu reyna að fá því hnekkt í dómsmáli þar sem fjallað verður um hvort neyðarlögin brjóti stjórnarskrárvarinn rétt fólks til eigna.

Gangi þetta eftir munu kröfuhafar fá til baka töluvert umfram lágmarkstryggingu á kostnað annarra kröfuhafa sem neyðarlögin ýttu aftar í röðina.

Lagarök Íslands og mótrök kröfuhafa


Lagarök Íslands hafa ekki verið formfest enn en felast í því að Bretar og Hollendingar eigi í raun ekki rétt á öðru en innihaldi tryggingarsjóðs auk síns hluta af þrotabúi bankans.

Íslendingar benda á tryggingarsjóðir innistæðueigenda virki þá aðeins ef litlir partar bankakerfa gefi upp öndina (eins og öll tryggingarkerfi). Íslenski sjóðurinn hafi að öllu leyti verið sambærilegur við sjóði annarra ríkja og þótt að í EES-reglum standi að ríki eigi að sjá til þess að fyrir hendi séu tryggingarsjóðir sem geti greitt úr tæpar 21 þúsund evrur til hvers innistæðueigenda þá myndi enginn sjóður geta það ef jafn stór hluti bankakerfis myndi hrynja og hrundi hér. Hvergi er í reglunum minnst þess að ríkisábyrgð sé á því sem svona kann að standa útaf.

Því sé Ísland ekki skuldbundið til að veita slíka ríkisábyrgð.

Bretar og Hollendingar kjósa að líta svo á að ábyrgð Íslands miðist við 21 þús. evrur tæpar á hvern innistæðueiganda – ef sjóðurinn dugi ekki til beri ríkinu að hjálpa sjóðnum að standa við rest.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent Íslendingum áminningarbréf þar sem þeir segja að Ísland hafi ekki innleitt reglur um tryggingarsjóði með fullnægjandi hætti fyrst innistæður voru ekki tiltækar þegar á þurfti að halda.

Ísland hefur ekki svarað því bréfi og því ekki skilgreint málstað sinn formlega.

Dómsmál um þetta atriði mun snúast um hvort íslenska ríkið skuli greiða lágmarkstryggingu ef sjóður dugir ekki til – og þar með er tekist á um ríkisábyrgð. Nokkuð óljóst er hvaða afleiðingar það hefði að tapa slíku máli. En allavega væri bara tekist á um lágmarkstrygginguna sem er rúmlega helmingur af eignum landsbankans eins og staðan er núna.

Hvort það yrðu sjálfkrafa forgangskröfur umfram aðrar er ekki ljóst. Ef svo væri er til meira en nóg fyrir þeim.

Auk þess segja Bretar og Hollendingar að Ísland hafi með óbeinum hætti mismunað eigendum innistæðna þegar Geir Haarde fullyrti að innistæður í bönkum á Íslandi væru tryggðar upp í topp – en hið sama gilti ekki í erlendum útibúum.

Þessu svara Íslendingar þannig að þetta hafi verið neyðarréttur. Um beina mismunun sé a.m.k. ekki að ræða því það skipti ekki máli hvers lenskir innistæðueigendur væru, bara hvar útibúin væru. Ef Íslendingar hefðu ekki gripið til þessara ráða þá hefði verið gert áhlaup á bankana og bankakerfið á Íslandi og þar með efnahagslífið allt lamast.

Þetta séu því aðgerðir ekki ósvipaðar beitingu „hryðjuverkalaga“ í Bretlandi. Neyðarráðstafanir til að koma í veg fyrir algjört hrun. Nema líkur séu miklu betri á því að íslensku aðgerðirnar hafi verið löglegri en hryðjuverkalög Breta.

Einhverjir lögfræðingar hafa auk þess bent á að yfirlýsingu Geirs hafi aldrei fylgt lagabreytingar. Að vísu voru innistæður aðgengilegar og fluttar yfir í Nýja-Landsbankans en um 100% tryggingu hafi ekki verið sett nein lög. Það sé því yfirhöfuð vafasamt að sú trygging hefði gildi ef á reyndi.

Ef höfðað verður dómsmál útaf óbeinni mismunun yrði það fyrir íslenskum dómstólum. Ef það mál færi á versta veg yrði líklega staðfest greiðsluskylda ríkisins á öllum inneignum. Það yrði gríðarlegt högg. En á móti benda menn á að neyðarrétturinn séu ein sterkustu rök Íslands í málinu og að jafnvel versti dómur yrði að öllum líkindum í íslenskum krónum og þar með væri gengisáhætta úr sögunni.

Þá er það málaferli vegna neyðarlaganna.

Bretar og Hollendingar hafa hag af því að neyðarlögin standi. Þau tryggja þeim eins og áður sagði forgang í þrotabúið. Örugglega mun reyna á þau fyrir dómi.

Verði neyðarlögin úrskurðuð ólögleg skiptist eignasafn þrotabúsins á milli fleiri aðila og Íslendingar þurfa að greiða hærri upphæð með Icesave 3.

Bretar og Hollendingar hafa (ásamt ESA) lofað að leggja önnur dómsmál á hilluna ef samningar um Icesave 3 verða samþykktir.

Áhætta og ávinningur



Ef Icesave 3 verður hafnað gætu neikvæðar afleiðingar orðið af ýmsu tagi. Þær helstu eru lagalegar, viðskiptalegar og pólitískar.

Pólitískar: Mörg ríki Evrópu (og m.a.s. norrænar þjóðir) hafa lagt á það mikla áheyrslu að við leysum Icesave-deiluna. Mörg þessara ríkja leggja ennfremur mikla áherslu á að sú lausn verði í sátt við Breta og Hollendinga. Enginn er sérstaklega spenntur fyrir dómsmáli. Ísland hefur notið margvíslegrar fyrirgreiðslu þessara ríkja og mun þurfa á henni að halda áfram. Þá er samstarf Íslands við AGS í uppnámi því þessi ríki eru valdamikil innan sjóðsins. Auk þess myndi neitun Icesave 3 setja aðlögunarferli Íslands við ESB í uppnám.

Viðskiptalegar: Mörg fyrirtæki á Íslandi eru í sárri þörf fyrir lánsfé. Greiningarfyrirtæki og aðrir hafa fullyrt að nei við Icesave myndi lækka lánshæfismat Íslands og þ.a.l. gera öll lán miklu dýrari (ef þau fengjust á annað borð) – jafnvel svo miklu dýrari að það næmi meiru en því sem Icesave kostar.

Lagalegar: Ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki innleitt reglur um tryggingarsjóði með réttum hætti OG að neyðarréttur réttlæti ekki fulla tryggingu innistæðna á Íslandi þá gæti ríkið verið dæmt til að borga enn hærri skaðabætur en Icesave-lánið kveður á um.

Andstæðingar Icesave benda á að mjög erfitt sé að spá fyrir um pólitískar og viðskiptalegar afleiðingar neitunar. Miklum afleiðingum hafi ítrekað verið spáð á ýmsum stigum málsins en allar slíkar spár hafi verið verulegt ofmat á neikvæðum viðbrögðum. Þá verði að reikna með því að Ísland gæti unnið málið gegn Bretum/Hollendingum að hluta/öllu leyti. Við það hlyti viðskiptalegur og pólitískur þrýstingur að léttast auk þess sem lánshæfi hlyti þá að batna mikið.

Ef Icesave 3 verður samþykkt er áhættan einnig til staðar. Fyrst og fremst lýtur hún að tvennu:

Synjun neyðarlaga myndi hækka kostnaðinn stórlega. Ef við skrifum undir Icesave 3 höfum við enga aðra kosti en að gangast við greiðslum þótt neyðarlög féllu úr gildi og þar með kæmu ekki eins miklar eignir á móti skuldinni.

Samþykkt Icesave þýddi að íslenska ríkið þyrfti að útvega verulega mikið af erlendum gjaldeyri til að standa straum af vaxtakostnaði (og hugsanlega höfuðstól). Slík kaup myndu, við eðlilegar aðstæður lækka gengi krónunnar töluvert. Slík lækkun á gengi myndi hækka höfuðstólinn talsvert enda er hann í evrum og pundum. Því yrði nauðsynlegt að hafa mikil höft á gjaldeyrismálum þann tíma sem við borgum af láninu. Loks má geta þess að sú upphæð sem við munum fá úr þrotabúi landsbankans mun ekki hækka í krónum þótt krónan veikist. Hún hefur verið fest í ákveðinni krónutölu. Krafan á hendur íslandi er ekki í krónum heldur evrum og getur því hækkað mikið. Þrjátíu milljarðar geta orðið níutíu eða tvöhundruð ef krónan veikist um 1 - 2% ársfjórðungslega næstu misserin. Meiri veiking þýðir einfaldlega enn hærri tölur.

Þá er óljóst hvort kröfur um lágmarkstryggingu njóti forgangs fram yfir aðrar forgangskröfur í þrotabúið. Ef þær fá forgang munu Íslendingar líklega ganga frá málinu með vaxtakostnaðinn einan. Ef ekki, gæti upphæðin orðið miklu hærri.

Þótt menn telji sig sjá ýmis merki þess að viðskiptalegir og pólitískir hagsmunir Íslands batni við að samþykkja Icesave 3 þá höfum við ekki fyrir því neina tryggingu. Það er ekkert víst að auðvelt verði að fá lán (eða skynsamlegt í því árferði sem þá verður). Það er enn fremur ekkert víst að við fáum aðra eða betri fyrirgreiðslu meðal annarra þjóða. Hugboð um neikvæðar afleiðingar þess að móast við hafa hingað til reynst röng og það gæti alveg átt eins við um hugboð um jákvæðar afleiðingar. Yfirlýsingar matsfyrirtækja um lánshæfismat eru í besta falli tortryggilegar enda hafi sömu fyrirtæki í einhverjum tilfellum spáð góðu gengi íslenskra banka augnablikum áður en þeir hrundu.

Engin ummæli: