6. apríl 2011

Hinn íslenski Göbbels

Þessi pistill er 219 orð. Áætlaður lestrartími er 55 sek

Jónas Kristjánsson kallar Egil Ólafsson íslenskan Göbbels útaf auglýsingum um íslenska barnaþræla í kolanámum.

Jónas ofmetur Egil hressilega með þeim orðum – eða vanmetur Göbbels. Göbbels kom ekki Hitler til valda með barnslegri einlægni. Hann notaði (og notaði vel) ísmeygilegt undirferli. Fasismi þrífst aldrei sem ríkjandi afl með því að tala of hreint út. Göbbels hefði enda hvorki notað hákarlaauglýsingu eða kolanámuáróður.

Á ekki Göbbels að hafa sagt: „Ef lygin er endurtekin nógu oft þá verður hún sannleikur?“ Þeir sem þekkja til bloggs Jónasar sjá að þrátt fyrir ónákvæmni í líkingum þá þekkir Jónas aðferðir Göbbels dável. Bloggaðu nógu oft um sama hlutinn en ekki skrifa of mikið í einu, þá fælirðu fólk frá. Ekki hvetja til gagnrýnnar hugsunar. Slembdu framan í fólk fullyrðingum. Veldu orð þín vandlega. Kallaðu ofríki „friðarumleitanir“. Reyndu að ala á tortryggni gagnvart óvinum þínum. Uppnefndu þá og hæddu.

Enginn íslendingur skrifar af meiri hind eftir línu hins göbbelska skóla en Jónas Kristjánsson sem getur ekki unnt Agli þess að paunkast á móti „friðarsamningnum“ Icesave3.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta tók ekki nema ca. 20 sek. En þú ert væntanlega að skrifa fyrir seinlæsa hópinn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ne, ég skrifa kannski svona frekar fyrir þá sem lesa til skilnings.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Það merkilegasta við þessa Göbbels-tilvitnun er að hún er sams konar lygi og hún lýsir. Hann altso sagði þetta aldrei, eða einu sinni neitt þessu líkt – ég man ekki nákvæmlega hvernig það var, en þetta er líklega útúrsnúningur á gagnrýni hans á bresku propaganda, sem hann sagði ekki bera neina virðingu fyrir sannleikanum og myndi þess vegna ekki gera tilætlað gagn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Jú, jú. Auðvitað sagði hann þetta ekki. Frú Antoinette minntist ekki einu orði á kökur og Neró kunni ekki á fiðlu. Og vissulega skemmtilegt dæmi eins og þú bendir á.

Axel Þór sagði...

Ánægður með að margir skuli sjá í gegnum Jónas. Þú ert orðinn einn af mínum uppáhalds-bloggurum síðustu daga. Ég lofa samt engu um framhaldið.