8. apríl 2011

Kvöldlesning fyrir óákveðna um Icesave

Þessi pistill er 1682 orð. áætlaður lestrartími er sjö mínútur sléttar.

Í kvöld sofna margir í með kvíðahnút í maganum því þeir vita ekki hvað þeir eiga að kjósa á morgun. Eru jafnvel búnir að flakka dögum saman á milli jás og neis og óttast það að gera hræðilega skyssu. 

Ég held jáið hafi þetta. Hef haldið það allan tímann. Annað kæmi mér mjög á óvart. Það munu margir „guggna“ – láta hugfallast og sannfæra sjálfa sig um að það geti ekki verið lygi að neitun hafi hræðilegar afleiðingar í för með sér. Of margir hafi talað af of mikilli sannfæringu til að það geti verið lygi.

Ég get borið virðingu fyrir jái – ef jáið er upplýst og skynsamlegt. Ég ber enga virðingu fyrir jái sem byggir á blekkingum og hálfsannleik. Hið sama gildir um neiið. Margir ætla að segja nei af röngum ástæðum. 

Stjórnvöld brugðust. Þau létu málið í dóm kjósenda án þess að upplýsa kjósendur um málið. Fjölmiðlar brugðust. Morgunblaðið er hamslaust málgagn neisins á meðan jámenn ríða röftum víðast hvar annarsstaðar. Spunakarlar stýra umræðunni með hárnákvæmt tímasettum fréttum sem eiga að hafa sálræn áhrif frekar en upplýsandi. 

Við brugðumst. Við töluðum ekki saman. Görguðum áróður í hlustir hvers annars þegar við áttum að eiga samtal. Þyrpust á bak við menn, flokka og hagsmuni frekar en að leita ráða hjá eigin hyggjuviti og samvisku. 

Ég á auðvelt með að segja nei á morgun. Það er ekki vegna þess að ég sé illa menntaður eða óupplýstur, fátækur eða heimskur. Það er ekki vegna þess að ég sé fullur af þjóðrembingi eða áhættusækni. Það er ekki vegna þess að ég skilji ekki neikvæðar afleiðingar gjörða minna. Ég veit nákvæmlega hvað ég er að gera – og mun gera það glaður í bragði.

Það má vel vera að Bretum og Hollendingum dugi ekki að fá allt sitt úr þrotabúi Landsbankans. Það má vel vera að þeir meti það að fá vexti og viðurkenningu á umdeildri ábyrgð ríkisstjórna meira en að ljúka málinu friðsamlega. Það má vel vera að þeir verði ósáttir. 

En ég ætla ekki að friðþægja þeim. Ég ætla að gera það sem ég trúi að sé rétt. Ég ætla að breyta eftir þeirri viljareglu sem hefði gagnast best til að fyrirbyggja þetta rugl alltsaman og þeirri viljareglu sem líklegust er að koma okkur eitthvað áleiðis upp úr þessari hít.

Þjóð sem blindast af hagsmunum í stað grundvallarreglna er þjóð í vandræðum. Við höfum ekkert skynfæri sem er næmt á hagsmunamat. En við höfum réttlætiskennd – og skynsemi. Ég ætla að reiða mig á það sem ég hef.

Bankar eiga engan rétt á því að skattgreiðendur borgi til baka innistæður sem þeir eru búnir að sólunda. Fjármagnseigendur eiga engan rétt á því að peningar séu teknir úr vasa þeirra sem eiga engar innistæður í bönkum og færðir til þeirra. Það er óréttlátt. Við eigum ekki að hafa hemil á áhættu í bankakerfinu með því að grafa göng í vasa almennra borgara – við eigum að hafa hemilinn þannig að hann takmarki umsvif bankanna og áhættusækni. Við eigum að hafa hemil á bönkum með því að veita þeim gagnrýnið aðhald.

Teitur Atlason skrifar að nú sé ekki tíminn til að andæfa spilltu bankakerfi heimsins. Þetta sé ekki bardaginn til þess. Þetta er einmitt rétti tíminn. Hér er þjóð í fyrsta og eina skiptið spurð hvort hún ætli að láta kúga sig til að ábyrgjast með sínu skattfé óráðsíu banka. Það mun engin önnur þjóð fá þetta tækifæri. Til að komast í álíka færi og við erum nú þurfa þegnar annarra landa byssukúlur og götuvígi. Við – erum einfaldlega spurð. Og sum okkar verða reið. Reið yfir því að þurfa að svara. Finnst að þingmenn ættu að eiga málið við sínar samviskur – og blanda ekki samviskum okkar í málið.

Spurningin sem við erum að svara á morgun er þessi: „Ætlar íslenska ríkið að borga vexti af því fé sem fjármálastofnanirnar áttu ekki í tryggingarsjóði þegar á þurfti að halda? Og ætlar íslenska ríkið að borga mismuninn ef þrotabú bankana duga ekki til?“ Er tryggingarfélagið tryggt af þjóðinni?

Það er áhætta af bæði jái og neii. Í dag er áhætta af því að vera Ísland. Það var enn meiri áhætta að vera Ísland síðustu tvö ár. Einhvernveginn sigldum við í gegnum það. Það hverfur engin óvissa hvort sem maður segir já eða nei á morgun. 

Það versta sem gæti gerst ef við segjum nei er að dómstólar komist að því að það sé ekki leyfilegt að tryggja aðeins bankakerfi innanlands við bankahrun. Stjórnarandstaðan sagði á sínum tíma að það væri verið að dansa á línunni með þeirri aðgerð. Samfylkingin sagði að það stæðist lög. Leyfum henni að standa við það ef það er rengt. Innleysum gömul loforð áður en við tökum við nýjum.

Það versta sem gæti gerst ef við segjum já er að gjaldleyrishöft og neyðarlög verði dæmd ógild. Rök jásinna við því eru eitthvað á þá leið að ef það gerist þá séum við hvorteðer í svo djúpum skít að vandinn af Icesave væri eins fyrir lík að lenda í náriðli.  Sú fullyrðing hefur ekkert verið rökstudd. Þessu er aðeins skellt fram. Á sama hátt og margir jámenn sögðu fyrir stuttu að samþykkt Icesave þýddi að við losnuðum við gjaldeyrishöft. Hugmynd sem reyndist geðveik við skoðun.

Talandi um náriðla. Sumir vilja að við samþykkjum Icesave til að þurfa ekki að láta „fjármálaliðið“ okkar spila í náriðli eða ruslflokki. Halda að fjármagn muni streyma til landsins af því þjóðin sé tilbúin að taka ábyrgð á innistæðum í bönkum. Samt er enginn að tala um að lánshæfismat Íslands batni við að samþykkja Icesave. Það á bara að versna ekki. Svo segir þetta sama fólk að það hafi ekki átt neinn séns á lánum í tvö ár. Það er semsagt komin tveggja ára neikvæð reynsla á það hvort sá lánshæfisflokkur sem við erum að reyna að halda okkur í dugi til að fá lán. Skyldi vera eitthvað hint í því fyrir okkur?

Fjárfestar eru ekki hræddir við Ísland af því Íslendingar vilja ekki baktryggja tryggingarfélög íslenskra banka. Fjárfestar eru miklu hræddari t.d. við gjaldeyrishöftin sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að geta borgað Icesave. 

Ef við samþykkjum Icesave á morgun skiptir ekki lengur máli hvort okkur ber lagaskylda til að ábyrgjast tryggingarsjóð bankanna. Þá er skyldan orðin óvéfengjanleg. 

Þeir sem hafa lofað okkur því að þetta sé engin áhætta eru ekki ábyrgir gagnvart okkur með sama hætti og við verðum þá gagnvart Bretum og Hollendingum. Við getum engan sótt til saka ef við töpum á þessu. Við getum ekki talað um nauðasamninga eða þvingunaraðgerðir. Við völdum þetta sjálf.

Þótt við segjum nei erum við engan að svíkja. Við erum einfaldlega að staðfesta þá afstöðu að tap innistæðueigenda eigi að vera fjármagnað af bönkunum sjálfum. Það bendir allt til þess að þrotabúið eigi þessa peninga til – og því skuli sækja þá þangað. Verði þeim að góðu.

Bretar hafa fyrr farið í fýlu við okkur. Tugþúsundir Breta misstu lífsviðurværi sitt vegna kröfu Íslands um að þeir hættu að veiða fisk við Ísland. Ekki einn Breti mun tapa einu einasta pundi á því að við segjum nei á morgun. Þeir fjármunir sem breskir skattgreiðendur þurftu að leggja til svo greiða mætti innistæður Icesave á sínum tíma munu meira en koma til baka fái neyðarlögin að standa. Þegar allt kemur til alls mun fjáfesting breska ríkisins í Icesave reynast ein traustasta fjárfesting sem í boði hefur verið síðustu misserin.

Það er óbilgirni og græðgi sem rekur Breta áfram. Við eigum að taka þátt í leikriti sem heitir: „Það efast enginn um innistæðutryggingar í Evrópu“. Hálfgerðum farsa. Í laun fáum við – ekkert. Jú, frið. Við verðum látin í friði. 

Bretar og Hollendingar hafa í raun engan sérstakan áhuga á málaferlum út af EES-lögunum og jafnræðisreglunni. Það þarf ekki að efast um áhuga þeirra sem reyna að fella neyðarlögin og gjaldeyrishöftin. Þar er verið að hafa af fólki „raunverulegt fé“. En það er bara ekki fólk sem hefur uppgjafarheimsveldi á bak við sig. Þess vegna vilja margir að við gefum skít í það fólk en ekki Breta og Hollendinga. 

Og þrátt fyrir að breska og hollenska heimsveldið sé í raun orðið fátt annað en nokkur ryðguð þrælajárn og ránsfengur á þjóðminjasöfnum þá stendur á bak við það annað veldi og nýrra. ESB. ESB er EINA skynsamlega ástæða þess að nokkur ætti að berjast fyrir samþykkt Icesave. ESB mun skella í lás ef við segjum nei. Þeir vilja okkur ekki í partíið. Þar eru menn of uppteknir við að slökkva eldana í öllum hornum sambandsins. Þeir eiga nóg af jaðarríkjum í veseni til að vera að bæta við sig einhverjum óþægum villimönnum norður við Grænlandshaf. 

Það þarf að sanna að það sé hægt að temja okkur fyrst. 

5 ummæli:

Hefner sagði...

"Bankar eiga engan rétt á því að skattgreiðendur borgi til baka innistæður sem þeir eru búnir að sólunda. Fjármagnseigendur eiga engan rétt á því að peningar séu teknir úr vasa þeirra sem eiga engar innistæður í bönkum og færðir til þeirra. Það er óréttlátt."

Á þetta aðeins við ef innistæðurnar eru í erlendum útibúum? Ég tek fullkomlega undir það að fjármagnseigendur og stórfyrirtæki eigi ekki að fá endalausa fyrirgreiðslu sem er fjármögnuð með skattpeningum en ég get ekki séð að lágmarksinnistæðutrygging sé það versta í þeim efnum. Raunar langt í frá. Það er rétt að þetta er kannski eitt af fáum tækifærum þar sem almenningur er spurður en það skýrir t.d. ekki þá undarlegu þögn sem hefur verið um t.d. neyðarlögin sjálf. Af hverju mótmæltu því svo fáir að eignastrúktur landsmanna yrði nánast óbreyttur eftir hrun þrátt fyrir að eignirnar væru horfnar? Einhvern veginn held ég að línurnar væru talsvert öðruvísi á milli fylkinga ef málið snérist um íslenskar innistæður.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Munurinn á erlendum og innlendum útibúum fólst í því mati stjórnvalda að ekkert minna en full trygging dygði til að koma í veg fyrir bankaáhlaup innanlands og hrun kerfisins – sem nú er orðið að mestu peningalaust og nær eingöngu rafrænt.

Kona ein vann í banka þessa daga og til hennar streymdu viðskiptavinir í löngum röðum til að taka út allt sitt reiðufé.

Það þjónaði engum slíkum neyðartilgangi að bjarga innistæðum í erlendum útibúum.

Það er svo mjög góð spurning hjá þér hvort alltof langt hafi verið gengið í að tryggja eigur innanlands. Ég hef ekki hugsað mikið um þennan punkt en tel hann fyllilega réttmætan.

Hefner sagði...

Ég geri mér grein fyrir því að þetta var mat stjórnvalda alveg eins og það var mat breskra stjórnvalda að greiða út Icesave innistæðurnar til að koma í veg fyrir áhlaup. En eigum við sem sagt ekki að taka þátt í farsanum "Það efast enginn um innistæðutryggingar í Evrópu" en halda áfram með farsann "Það efast enginn um innistæðutryggingar á Íslandi"? Kerfishrun í Evrópu kemur okkur ekki við en á Íslandi þurfum við að halda kerfinu gangandi og það nánast óbreyttu þrátt fyrir hrun?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Fínn punktur. Ég held ég hafi tvisvar eða þrisvar bent á það hér á blogginu að 100% trygging innistæðna á Íslandi var aldrei lögfest og því er ekkert í sjálfu sér sem bendir til þess að hún sé í gildi.

Full trygging á Íslandi er þess vegna hugsanlega aðeins ein af þeim möntrum sem notaðar voru til að róa menn í hruninu.

Það er gríðarleg þörf á að taka til í því sem er að gerast í bankakerfinu á Íslandi. En því miður hafa stjórnvöld ekki kjark í það verkefni (ekki frekar en Icesave) og við höfum ekki fengið tækifæri til að hafa áhrif á það eins og með Icesave.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Í hugsanlegu dómsmáli gæti þessi staða komið upp.

B/H kvarta yfir því að við tryggðum íslenskar innistæður í topp -> í ljós kemur að þær eru það ekki -> panikk!

Hugsanlega ein af ástæðum þess að menn leggja ofurkapp á að „klára málið“?