7. apríl 2011

Ruglandi umræðuþáttur um Icesave

Þessi pistill er 505 orð. Áætlaður lestrartími er 2 mínútur og 6 sek

Úff!

Eftir tvo fína þætti um Icesave ákvað Rúv að fá fólk í umræðuþátt til að ræða málið fram og aftur. Og þá fór auðvitað allt í fokk. Þetta var eins og að horfa á sandstorm. Fullyrðingum var mætt með fullyrðingum. Enginn tími til að greina stöðuna sem upp kom þegar fullyrðingar stönguðust á. Enginn krafinn um nákvæman rökstuðning á neinu. Hver fékk sínar tvær mínútur í einræðu. Engin samræða.

Þessi þáttur var núll prósent gagnlegur. Ein stór málfundarkeppni.

Ég skildi ekki nafna minn Hall. Hann sagðist ekki skilja hvernig gæti verið gengisáhætta þegar eignir þrotabúsins væru í útlenskum gjaldmiðlum. Vissi hann virkilega ekki að búið er að festa kröfu Íslands í þrotabúið í krónum og þar með búið að kippa okkar hlut í þrotabúinu úr sambandi við gengissveiflur?

Ég skildi heldur ekki Dóru Sif Tynes. Hún byrjaði á því að hún ætlaði að ræða málið þannig að hún gerði ekki upp á milli lagaraka Íslands og Bretlands. Og frá því sjónarhorni væri samningur skynsamlegur.

Dö!

Segjum að dólgur keyri yfir á rauðu ljósi og inn í hliðina á bílnum mínum, kemur svo út úr bílnum angandi af brennivíni og segir að hann hafi bara alls ekki farið yfir á rauðu, heldur ég. Og svo þrösum við um þetta smá stund uns okkur er boðið að ljúka málinu með sátt. Fiftífiftí. Þá væri að sjálfsögðu skynsamlegt að mér að taka því – ef ég legði málstað hans að jöfnu við minn.

Allt hreina málið snýst um að við leggjum einmitt ekki málstað Breta/Hollendinga að jöfnu við okkar. Við teljum okkur ekki hafa brotið lög. Við teljum að krafa þeirra sé ósanngjörn og ólögleg. En við óttumst afleiðingar þess að standa á rétti okkar. Við óttumst það líka að mat okkar á lögmætinu gæti að hluta eða heild reynst rangt. En það er á engan hátt skynsamlegt að bregðast við þeim ótta og þeim efa með því að meta lagarök þannig að báðir málstaðir séu jafn gildir.

Og svo varð þetta mjög undarlegt hjá Dóru. Hún sagði að skuldbindingin væri til staðar. Punktur. Ekkert ef eða kannski. Bara að það væri til staðar skuldbinding. Þá klóraði ég mér í hausnum og lyfti annarri augabrúninni. Þótti þetta glannaleg fullyrðing. En áður en ég náði að klára hugsunina var hún enn búin að skipta um skoðun. Nú var skuldbindingin kannski til staðar.

Þessar umræður voru nákvæmlega ekki neitt upplýsandi.

Og það var ekki Rúv að kenna.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þetta fínn þáttur. Best var upphafið. Ég treysti því að þeir sem gerðu samninginn þekki hann best. Horfðu aftur á þann part.
Ef svo Iceland selst á verði sem hugmyndir eru uppi um í dag þá er Icesave horfið. Er ekki bara fínst að ljúka svona deilumáli með samningum við nágrannaþjóðir þegar samningurinn er ásættanlegur fyrir okkur? Við höfum ekki hugmynd um hvað gerist ef við segjum nei. Við vitum að við förum í dómsmál en það tekur einhver ár og á meðan verðum við í ruslflokki og eigum erfitt með að fjármagna okkur áfram. Kannski vinnum við og þá er það bara kostnaðurinn við málareksturinn í einhver ár + kostnaðurinn við að hér sé allt í frosti í 3-5 ár. Það er örugglega meiri upphæð en er undir í núverandi samningi.
Ef við töpum þá liggja undir 1100 milljarðar á etv 7% vöxtum. Hvort er vænlegra? Ég ætla að segja JÁ.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég horfði mjög vel á fyrsta hlutann.

Getur þú útskýrt með skynsamlegum rökum af hverju Icesave-málið ætti ekki að vera úr sögunni ÞÓTT VIÐ SEGJUM NEI ef Icelands Foods selst á þessu verði?

Hefner sagði...

Held að megi nú einmitt fullyrða að RÚV beri talsverða ábyrgð á því hversu takmarkaður þessi þáttur var; of margir viðmælendur á of stuttum tíma. Það kemur sjaldan mikið út úr þáttum þar sem stjórnendur eru að mestu með hugann við tímamælingar, sbr. nánast alla umræðuþætti fyrir kosningar.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er sosum rétt. En það átti enginn séns í neinn þessara viðmælenda. Það var enginn mættur til að tala við neinn annan.

Jon Magnus sagði...

Tek undir með fyrsta kommentinu - það er glórulaust eftir að hafa hlustað á Lárus Blöndal (sem var harður andstæðingur I og II og fulltrúi stjórnarandstöðunnar) og hinn sem ég man ekki hvað heitir, lýsa því hvað er að fara gerast ef við höfnum þessum samningum.

Það kom fram í þessum þætti að við eigum nákvæmlega enga enga vini í þessu máli - enga! Ef við segjum nei þá verðum við búnir að svíkja ekki bara Hollendinga og Breta heldur líka norðurlandaþjóðirnar sem lánuðu okkur pening þegar við þörfnuðust hans sem mest strax eftir hrun.

Afleiðingarnar af því eru mjög óljósar við að hafna samningum. Þegar lítur út fyrir að við gætum sloppið við að borga nokkuð þá er það algerlega glórulaus vitleysa að taka ekki samningunum og halda áfram.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Jón,

þessir tveir menn komu ekki fram sem „frelsaðir efasemdarmenn“. Þeir komu fram sem samningamenn sem skilað hafa mjög góðum samningi sem þeir standa að sjálfsögðu með.

Að því sögðu er Lárus enn á því að lagaskylda sé ekki til staðar. Það er verið að neyða okkur til að samþykkja eitthvað sem margir telja ólöglegt.

Og spurningin stendur eftir. Ef til eru eignir í þrotabúinu sem klára málið. Af hverju ætti málið þá ekki að klárast þótt við segjum nei?

Geturðu sagt mér það?

Matti sagði...

Ég sá seinni hluta þáttarins og túlkaði hann þveröfugt við þig.

Í því felst vandi(nn). Við manneskjurnar hneygjumst gjarnan til að túlka jákvætt það sem styður okkar skoðun en með gagnrýnu hugarfari allt sem stangast á við skoðun okkar.

Mér þótti Frosti t.d. afar fullyrðingaglaður.

Innlegg Láru og Godds voru tilgangslaus. Yfirleitt er svona sjónvarpsþras gjörsamlega ónýtt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég skil ekki kommentið, Matti.

Það sem mér fannst verst við þáttinn og dæmin sem ég tek eru úr fyrri hlutanum. Ég er sammála með Láru og Godd. Nennti bara ekki að blogga um það.

Frosti fullyrti og Margrét bullaði. Ekkert var rannsakað, gagnrýnt eða rætt.

Það er punkturinn.

Hvað var það sem þú túlkaðir þveröfugt?