7. apríl 2011

Hvað svo?

Þessi færsla er 380 orð. Áætlaður lestrartími er 1 mínúta og 34 sek

Icesave-kosningin er aðeins fyrsta hindrunin á vegi okkar sem þjóðar til farsældar. Okkar bíður ærið verk. Margt er að. Við þurfum að læra að fara með fleira en peninga.

Það er ekki út af peningaleysi sem sumt aldrað fólk býr við ömurlegan kost inni á kaldrifjuðum stofnunum þar sem skrápurinn á því er skrúbbaður einu sinni í viku á meðan beðið er eftir að það deyi svo aðrir komist að.

Það er ekki út af peningaleysi sem sannfæring stjórnmálamanna er frekar fáni en vindur. Að allt orð þeirra og æði er rótlaust rekald í straumiðu hagsmuna og hentileika.

Það er ekki út af peningaleysi sem Íslendingar hafa í aðdraganda Icesave-kosninganna staðið og öskrað framan í hvora aðra á milli þess sem þeir þyrla upp ryki og reyna að blekkja aðra til fylgilags.

Það var ekki út af peningaleysi sem þjóðin reyndi að fylla hverja glufu í skammdegismúrnum með veraldlegum eigum, mat, drykk og ferðalögum.

Peningaleysi er ekki rót vandans.

Rótin er sú að við vöndum okkur ekki nóg við að lifa. Í stað þess að mennta þjóðina upp til ábyrgðar, frumleika og sköpunar framleiðum við neytendur og framkvæmdamenn. Menntun er starfsþjálfun fyrst og fremst. Háskólinn býr til embættismenn en ekki hugsuði.

En það gæti verið að vora. Búið er að lengja kennaranám úr 3 árum í 5. Þar liggja mörg tækifæri.

Verið er að semja nýja stjórnarskrá. Það er í sjálfu sér ekki flókið mál. Það þarf fyrst og fremst að blása burt því feyskna skýli sem stjórnmálamenn á íslandi hafa talið felast í fjarlægðinni. Vegna þess að stjórnarskráin var gömul og samin af löngu dauðum körlum virðast menn hafa séð ástæðu til að fara ekki eftir henni.

Svo væri þjóðráð að henda burt stuðningi við kirkjuna í stjórnarskránni og setja í staðinn svipað ákvæði um fjölmiðla. Mikilvægi fjórða valdsins má alveg árétta í stjórnarskrá, því fjölmiðlalaust lýðræðisríki gengur ekki upp.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill