Mér leiðist megnið af Icesave-umræðunni því þótt ég styðji nei þá er mér ekki alveg sama hvernig nei-ið er tilkomið. Icesave er nefnilega bara ein hrúga á vegi sem þarf að ryðja. Margar fleiri bíða.
Ef nei-ið vinnur á laugardaginn eins og allt virðist stefna í núna er það fyrst og fremst já mönnum sjálfum að kenna. Þeir voru komnir með þetta. Uns almenningur áttaði sig á einu.
Já-liðar hafa gert þau grundvallarmiðstök að vera of fullyrðingagjarnir. Þeir hafa ekki sýnt óvissunni þá virðingu sem henni ber.
Þeir hafa fullyrt um hroðalegar afleiðingar synjunar í töluverðum smáatriðum. Og menn hafa fullyrt um magnaðan ávinning í álíka smáatriðum.
Smám saman hefur fólk áttað sig á því að allar þessar fullyrðingar eru aðeins lýsingar á möguleikum – og í sumum tilfellum ekkert sérstaklega líklegum möguleikum.
Þá hafa já-menn ráðist að nei-fólki fyrir það að ætla að velja óvissuna.
Í Icesave-málið er innbyggð óvissa. Nei-menn hafa þurft að gangast við henni frá upphafi. Já-menn hafa afneitað henni. Með því afneituðu þeir sannleikanum.
Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun sýndi vaxandi styrk já-sins. Og þá urðu menn makráðir og værukærir. Héldu að þetta væri komið. Og ofmetnuðust. Duttu í að mála hlutina of sterkum litum.
Þá fékk fólkið nóg. Það fann lyktina sem hafði fram að því verið aðeins dauf angan. Blekkingarlykt.
Sá sem tekur afstöðu í óvissumáli og lætur sem hægt sé að velja hann án hættu brennir sig á því fyrr eða síðar.
Icesave varð til og blés út vegna þess að fólk kaus að afneita óvissu um bankaviðskipti og tryggingar. Það er því kannski viðeigandi að það endi svona.
1 ummæli:
Gríðargóður pistill. Sammála nánast öllu. Og þetta hrós kemur frá Já-manni.
Skrifa ummæli