21. apríl 2011

Hræsni DV


Blaðamaður hjá DV sá ástæðu til þess að „klaga“ mbl.is fyrir Persónuvernd vegna heimskulega veftíví-þáttarins Löggur. Umkvörtunarefnið (réttilega) það að fjölmiðlamenn skuli ryðjast inn á heimili fólks í fylgd með lögreglu og miðla upplýsingum um umhverfi og persónugreinanlegar upplýsingar um fólk – sem enn hefur ekki verið dæmt fyrir neinn glæp.

Held að DV ætti að líta sér nær. Þeir sáu að minnsta kosti ekkert athugavert við það að birta viðtal við konu sem sakar meira og minna heilan árgang ungra barna í litlu sveitarfélagi um viðbjóðslegt framferði og gefið er í skyn að uppspretta ólátanna sé að dóttir konunnar hafi ekki viljað taka þátt í kynferðilegum athöfnum með einhverju hinna barnanna. 

Að einu leyti eru þessi mál sambærileg. Um er að ræða persónugreinanlegar upplýsingar um fólk. Að einu leyti eru málin ólík. DV leyfir það að miðillinn sé notaður til að vega að börnum. Börnum, fjandinn hafi það.

Enda koma kommentahýenurnar og vega að börnunum á vef DV. Kalla þau ýmsum ónefnum og ota brýndum heykvíslunum í átt að þeim. 

Nú eru sem sagt öll börn á ákveðnum aldri í heilu sveitarfélagi litin hornauga og höfð til háðungar og skammar vegna þess að DV kaus að leggja til hliðar heilbrigða skynsemi og sjálfsagt siðvit – og á sama tíma klagar miðillinn Moggann vegna þess að sýndar voru innréttingar í einhverju dópgreni – og með því gátu þeir sem komu í grenið áttað sig á því að þar væri höndlað með dóp – eins og þeir hafi ekki vitað það fyrir.

Hræsni.

Engin ummæli: