25. apríl 2011

Heimsósómi, sápukassar og sumarbústaðir

Þessi færsla er 558 orð og innihleldur 5 myndir. Áætlaður lestrartími er 2 mínútur og 20 sek. 

Það rann upp fyrir mér ljós þegar ég las sentilljónustu áróðurs- og nöldufærsluna á netinu að umræðunni á íslenska netinu er stjórnað af miðaldra fólki – og þaðan af eldra.

Unga fólkið er of upptekið við eitthvað annað.

Þetta miðaldra fólk tók langflest persónulega afstöðu með eða á móti einhverri af þeim fjölmörgu hugmyndafræðum sem gerðu 20. öldina að „öld öfganna“ fyrir langalöngu síðan.

Og þótt hugsjónaeldurinn hafi síðan dofnað heilmikið í brjóstum þessa fólks og í stað hans komið smáborgaralegur hedónismi – þá virðist þetta fólk enn í dag vera fótgönguliðar í þeim milljónmanna sveitum sem tröðkuðu yfir Vesturlönd alla síðustu öld. Nema hvað núna er fótatakið fátæklegt og tekur enda við sundurfúinn sápukassa á stífbónuðum palli við snyrtilegan sumarbústað uppi í sveit.

Þetta fólk er ekki lengur vel læst á mannlífið. Það hleypur um víðan völl og málar yfir alla liti heimsins með hvítu eða svörtu.

Hugmyndafræði og hugsýnir þessa fólks passa ekki við veruleikann lengur frekar en fólkið sjálft passar í stúdentsfötin.

Eins og stórir, klunnalegir og ófleygir fuglar skoppar þetta fólk fram og aftur völlinn og eys upp svarthvítri málningunni með klónum og gargar: „Upp! Upp!“

En það tekst aldrei á loft.

Steinrunnin heimsmyndin er það eina sem fólkið á eftir. Niður ískalda veggi hennar seytlar hægdrepandi og gallsúrt eitur sem brennir burt hverja þá urt sem líkleg er til að taka sér bólfestu í sprungum eða rifum.

Nýja-Ísland er eins og brumhnappur sem kyrktur er í trénuðu hýði á endanum á visinni grein.

Þetta fólk trúir því í raun að nú fari fram lokaorrustan um Ísland. Að hér séu bara tvö lið. Svarta liðið og það hvíta. Og nú skuli barist til þrautar. Það heyrir í lúðrum lokabardagans. Fenrisúlfur er við það að gleypa sólina.



Þvílík flónska.

Eina feigðin sem blasir við er óumflýjanlegur og yfirvofandi líkamlegur dauði fólksins sjálfs. Ísland er ekki í neinni bráðri lífshættu. Hér á sér ekki stað neinn lokabardagi. Ferðin er rétt að hefjast.

Það er morgun á Íslandi. Það er kvöld í umræðunni – og stjórnmálunum.

Þegar tímabil deyr eru fjörbrot óumflýjanleg. Síðasta tilraun þeirra sem tilheyra hinum deyjandi heimi til að blása lífi í það sem þegar er dautt. Ísland iðar af þessum fjörbrotum. Tuttugasta öldin er dauð. Góðu heilli. Öldin sem gerði okkur öll að málóðum flónum. Öld öfgamannanna. Öld svarthvítu málningarinnar.

Á meðan gamalt eldfjall jós ösku yfir sveitir landsins lagðist askan úr líkbrennsluofni öfganna yfir umræðusviðið.


Nú liggur askan yfir landinu og eitrar drykkjarbólin.

Vonandi verður þessi öld – öld upprisu. Öld framfara.

Vonandi förum við að heyra yngri og ómþýðari raddir í umræðukór Íslands. Raddir fólks sem enn er andlega á lífi – en ekki bara afturgöngur síns yngra sjálfs.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhver sá besti bloggpistill sem ég hef lesið.
Frábær lesning.
Kv.
AS.