28. apríl 2011

Ég vil listamenn feiga

Þessi pistill er 902 orð og inniheldur 4 myndir. Áætlaður lestrartími er 3 mínútur og 45 sek.

Ég fæ reglulega senda gegnum ýmsa póstlista tölvupósta sem eru kynningar listamanna á sjálfum sér. Þetta eru tónlistarmenn, listmálarar, leikarar, rithöfundar og illskilgreinanlegir listamenn sem vilja að grunnskólar kaupi af þeim sýningar, bækur eða hvaðeina sem þeir bjóða upp á.

Einn slíkan póst fékk ég í kvöld. Þar vildi listamaður kenna kennurum að segja sögur.

Um þetta er í sjálfu sér ekkert nema gott að segja. En fyrirbærið „listamaður“ hefur í nokkurn tíma tæklað einhverja viðkvæma taug í mér. Mér er næst að halda að „listamaður“ sé álíka fráleitt hugtak og „séntilmaður“.

Áður en lengra er haldið vil ég að það komi skýrt fram að listamenn stuða mig ekki neitt á þann hátt að ég telji að þeir séu afætur eða liðleskjur sem ættu að fá sér alvöru vinnu eða míga í saltan sjó. Í þeim debatt tek ég tryggilega og algjörlega stöðu með listamönnunum. Ég styð meira að segja styrki til listamanna.

En mér finnst, og þetta er bara mín eindregna skoðun, listamenn margir hverjir upphæpa sig, líta stórt á sig og misskilja æskilegt hlutverk og tilgang listarinnar. Fyrir mér er list ein birtingarmynd sköpunargáfunnar. Hún spilar á allar nótur mannlegra tilfinninga. Hún örvar fegurðarskynið og ögrar andúðinni; strýkur hégómagirndina og segir sjálfinu til syndanna. List er hið eiginlega „season all“ – krydd í tilveruna.



Að mínu mati er list á allra færi – og ein vanmetnasta hæfnin sem hver einasta manneskja býr yfir. Og hugmyndin um að einstaka persónur séu sérstakir „listamenn“ finnst mér vera arfur frá þeim tíma sem menn töldu til sérstakra dygða að afneita nær öllum sínum hneigðum og hæfileikum og upplifa allt það sem fagurt var, gott og hæft við manninn í gegnum sérfræðinga. Venjulegt fólk átti að þegja og vera ekki fyrir. Til urðu gildi, leynireglur og klúbbar sem snérust um það eitt að halda tilteknum hæfileikum og þekkingu frá almenningi. Og í drambi sínu sátu klúbbmeðlimir á leynifundum þar sem þeir horfðu á aldingarðinn eins og Guð forðum og sögðu ýmist að það væri harla gott – en gripu annars inn í það sem þeim þótti farið aflaga.

Sérfræðingar eru að mínu mati, að langmestu leyti, gersamelga gagnlaust fólk. Og skaðlegt að því marki sem sérfræðingaæði stendur í vegi fyrir því að venjulegt fólki takist á herðar ábyrgð og hlutverk sem það ræður vel við – sé það hvatt til þess eða leitt í raunverulegan sannleika um möguleika sína.


Stephan G. var sjálfum sér læknir, lögfræðingur, prestur, smiður, kóngur, kennari, kerra, plógur og hestur. En svo var hann öðrum ljóðskáld. Og harla gott skáld að mörgu leyti. Aðrir máttu auðvitað skálda líka. Fullt var af amatörskáldum. En þau voru rækilega aðgreind frá alvöru skáldum. Og tíðni þeirra sem döðruðu með þessum óskammfeilna hætti við listagyðjuna stóð í hreinu og beinu samhengi við það hversu vel menn voru settir í hús þegar kom að því að höndla „valdið“ sem samfélagið misskipti af mikilli hind á þessum tíma á milli þeirra sem gátu látið sér vaxa glæst yfirskegg og hinna. Húsbóndi gat ort í hjáverkum. Húsfrú, ef hún var dálítil Bergþóra í sér. En ef ómagi eða annar aumingi þóttist listamaður var það eitt af mörgum augljósum sannindum um krankleika hans.

Ég vil „listamenn“ feiga.

Ég vil að hér hætti að spígspora um fólk sem auðkennir sig jafnvel með sérstökum klæðaburði, talsmáta eða jafnvel eiginnöfnum og reynir að svífa yfir mannlífinu eins og trúarleiðtogi sem treystir á það að hversdagsleikinn sé ekki eins áberandi gegnum skýið sem hann svífur á yfir höfðum venjulegs fólks.





Ég vil að „list“ verði sjálfsagt manneldismarkmið. Eitt af einkennum góðs stjórnmálamanns, kennara – eða hreinlega hverrar manneskju. Hinn rétti farvegur listarinnar er fljót sem rennur gegnum sérhvert hjarta, stundum strítt – stundum stillt. Listin á ekki heima í kekkjum, klumpum eða klökum. Fólk á ekki að ganga um löðrandi í list og smita almúgann með snertingu. List á að eiga sér jafnsjálfsagða uppsprettu í hverjum manni. Alveg eins og hver maður á að hætta að selja allar hugleiðingar og áhyggjur af heilsu sinni í hendur læknum – og taka sjálfur þátt í sjálfum sér. Alveg eins og mörgæsarklæddir menn með stromphatta eiga að hætta að fínstilla heilu byggðarlögin innan úr ofvöxnum stúkufundum – og ganga út á meðal fólks og taka þátt í sköpuninni. Þannig fáum við farsælt og gott samfélag. Þannig fáum við lífvænlegt samfélag til framtíðar.

Engin ummæli: