6. mars 2011

Vilhjálmur Þorsteinsson og rökin þrennÉg hef einu sinni áður fett fingur út í málflutning Vilhjálms Þorsteinssonar um Icesave-málið. En nú hefur hann skrifað grein þar sem hann reynir að rökstyðja þá skoðun sína að okkur beri að taka samningnum um Icesave. Og þetta er enginn smá rökstuðningur. Hann bendir á að færa megi siðferðisrök, lagarök og nytjarök fyrir já-i.

Vandinn við rökræðu og sérstaklega eins og þá sem Vilhjálmur ber á borð er að það má skilja það „að færa rök fyrir einhverju“ á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er það yfirborðskenndur skilningur. Samkvæmt þeim skilningi er maður að færa rök fyrir einhverju þegar maður tiltekur rök sem styðja eða andæfa tiltekinni afstöðu. Og þannig er röksemdafærsla Vilhjálms. En hinn, dýpri og eðlilegri, skilningur þess að færa rök fyrir einhverju er ekki aðeins að tína til rök, heldur einnig – og fyrst og fremst – að gera upp á milli rakanna. Það er, stefna saman rökum sem styðja ákveðna afstöðu og rökum sem styðja hana ekki og sýna fram á hvor rökin eru sterkari.


Það er nefnilega engin alvöru röksemdafærsla að tína til tilfallandi röksemdir sem styðja eina skoðun og skoða ekki aðrar. Það er gerviröksemdafærsla, sem er ein tegund af áróðri.

Nú er ekkert af því að stunda röksemdafærslu af því tæi sem Vilhjálmur gerir. Það er bara fínt að einhver taki saman röksemdir með eða á móti einhverju. En það sem ekki er í lagi er að bera það svona á borð:

„En eftir að hafa kynnt mér þetta mál rækilega er ég sannfærður um að það er betra að samþykkja fyrirliggjandi samning en að hafna honum. Rökin fyrir því eru þrenns konar: siðferðileg, lagaleg og svo hrein nytjarök.“ (hér)

Hér gefur hann til kynna að þau rök sem hann nú telur upp séu nægilega sterk til að byggja á þeim afstöðu með samningnum.

En rök Vilhjálms eru ekki sterk. Það er að minnsta kosti hægt að stefna gegn þeim álíka sannfærandi rökum sem styðja gagnstæða niðurstöðu. Skoðum rökin og byrjum á þeim siðferðilegu.

Siðferðilegu rökin, eins og Vilhjálmur beitir þeim, eru þau að menn eiga að standa við orð sín, vera traustsins verðir og gera öðrum eins og þeir vilja láta koma fram við sig. Síðan breytast siðferðilegu rökin í þann punkt að ríkið hafi ekki gætt hagsmuna innistæðueigenda fyrir athæfum eigenda landsbankans.

Hér hlýtur maður að svara með þeim hætti að þjóðin getur ekki orðið ábyrg fyrir efndum loforða hálfsturlaðra bankamanna. Og þjóðin er ekki sjálfkrafa ábyrg fyrir mistök og vanhæfni stjórnmálamanna sinna. Það voru ekki „við“ sem þeystum um koppagrundir og ginntum fólk til að leggja fé inn á Icesave. Það voru ekki „við“ sem lofuðu Bretum og Hollendingum að þeir myndu fá allt sitt til baka. Annarvegar voru það útrásarvíkingar, sem enginn veit hvar eru nú, og hinsvegar stjórnmálamenn og diplómatar sem smurðu „loforðum“ hvar sem þeir fundu fyrirstöðu. Það voru hinsvegar „við“ sem stoppuðum þennan loforðaflaum af með því að hafna Icesave á sínum tíma. Síðan þá hafa stjórnvöld fengið annan séns til að lenda málinu farsællega og það er svo okkar að ákveða hvort það er nógu vel gert. Annars verðum við hreinlega að standa við orð okkar frá fyrri atkvæðagreiðslu og vera traustvekjandi með því að hafna samningum, ekki satt?

Þjóðin ber ekki ábyrgð á öllum verkum valdhafanna. Og valdhafarnir bera ekki ábyrgð á öllum verkum fjármálafyrirtækja. Hér er nefnilega verið að nota ábyrgðarhugtakið vitlaust. Það ábyrgðarhugtak sem hér á við er að fjármálafyrirtækin báru ábyrgð gagnvart ríkinu og ríkið gagnvart þjóðinni. Og þessi „ábyrgðarkeðja“ brást.

Það sem brást ekki var hinsvegar „innistæðutryggingarkerfið“ sjálft. Kerfi sem Þorsteinn leyfir sér (eftir að hafa kynnt sér þetta mál „rækilega“) að kalla innistæðutryggingu undir íslenska ríkinu. Sem hún var alls ekki. Raunar hefði slík trygging verið skýlaust brot á EES-samningnum. Ríki mega ekki tryggja innistæður fjármálastofnana. Lögin kveða skýrt á um það að fjármálafyrirtækin skuli sjálf hafa með sér tryggingarsjóð. Og að ríkið skuli sjá til þess að það sé gert (þessir sjóðir geta svo haft margvíslegar heimildir til lántöku eftir efnum og aðstæðum).


Það var gert. Í þennan sjóð átti að setja 1% af innistæðum. En það var gert með þeim hætti að árin voru gerð upp og svo bætt í sjóðinn ef innistæður uxu umfram sjóðinn (sem alls ekki var alltaf). Í þennan sjóð vantaði þegar bankarnir hrundu vegna þess að innlánin höfðu vaxið ofsalega hratt á fáum mánuðum og sjóðurinn náði ekki að fylgja eftir.

En þótt sjóðurinn hefði náð að halda sér í þessu eina prósenti þá hefði það aldrei nokkru sinni dugað til að bæta skaðann af hruninu innan þess tímaramma sem tilskipunin segir til. Það er ekki vegna þess að sjóðurinn sé hér í einhverjum veigamiklum atriðum ólíkur sjóðum annarra landa. Það er einfaldlega vegna þess að hér hrundi megnið af bankakerfinu í einu vetfangi.

Einhverjir vilja halda því fram að ríkinu hafi borið að hafa hér innistæðutryggingarsjóð sem gæti þrátt fyrir allt staðið við skuldbindingar sínar við hrun. Sem mundi þá auðvitað þýða að allt sem lagt væri inn í banka undir 21 þúsund evrum færi í þennan sjóð og fyrstu 21 þúsund evrurnar af öllum öðrum innistæðum. Slíkt bankakerfi myndi aldrei ganga upp. Og það er sérstaklega tiltekið í evrópsku tilskipuninni að tryggingarkerfið ætti ekki að ógna stöðugleika kerfisins.

Það má vel vera að einhverjir haldi því fram að ríkið sé samt skuldbundið. En á móti því er stefnt þeirri skoðun að tryggingarsjóður hafi á Íslandi verið í samræmi við skyldur landsins og að þessu leyti berum við ekki ábyrgð sem ríki. Og það er hin opinbera afstaða Íslands í málinu.

Vilhjálmur hlýtur því að vera að meina að hin fyrri afstaða sé meira sannfærandi. Þ.e. að ríkið beri ábyrgð á því sem hann ranglega kallar, tryggingu ríkisins. Þeirri skoðun deili ég ekki. Mér finnst algjörlega órökrétt að ætlast til þess að tryggingarsjóður eigi að sjá til þess að allir fái sitt þótt algjört hrun verði. Ég er nokkuð viss um það að ekkert ríki myndi gera slíkar kröfur til sín, þótt þau kjósi að horfa fram hjá gullnu reglunni hans Vilhjálms og gera þá kröfu til okkar.

En Vilhjálmur er bæði að tala um sanngirni og lögfræði (hann grautar þessu dálítið saman og því lendir þetta saman hér). Honum finnst þetta líka sanngjarnt því fólkið sem lagði inn þessa peninga bjóst við því að fá þá til baka.

Réttlæti snýst um að hver fái sitt. Vissulega. En réttlæti er dálítið flóknara oft en Vilhjálmur vill viðurkenna. Ef hjólinu mínu er stolið er ekkert réttlæti fólgið í því að fara niður á lögreglustöð og taka hjól af lögregluþjóni af því að hann átti að koma í veg fyrir að þjófar gengju lausir. Til að dæmið sé réttlátt verð ég að fá hjólið mitt bætt vegna þess að einhver hefur tekið á sig ábyrgð á því að ég fái nýtt hjól verði mínu stolið (sem er spurningin um lagaskylduna) eða ég að fá hjólið bætt af þeim sem stálu hjólinu til að byrja með. Öll önnur dæmi eru ekki til marks um réttlæti. Því þótt það sé réttlátt að maður fái peninginn sinn aftur þá er ekki endilega réttlátt að sá peningur sé tekinn úr vasa hvers sem er.

Fyrir utan það að þetta fólk sem Vilhjálmi finnst ekki nema sanngjarnt að fái féð sitt aftur er nú þegar búið að fá peningana. Þannig að siðferðisrökin hans eru þegar uppfyllt. Breska og hollenska ríkið greiddi þessu fólki. Vilhjálmur hefði því átt að segja að breska og hollenska ríkið ætti siðferðilega kröfu á íslenskan almenning.

Það getur vel verið að einhver slík siðferðiskrafa sé til staðar. En það er ekkert víst. Eitt er ljóst að bresk og hollensk stjórnvöld borguðu þennan pening ekki út af siðferðisástæðum. Það voru önnur og miklu jarðbundnari ástæður fyrir því. Í raun virkar þessi krafa dálítið á mig eins og ef Geiri á Goldfinger ætlaði að rukka mömmu Jóns stóra vegna skemmda á hótelherbergi í Frankfurt.

Bretar hafa í raun sýnst siðferðislega afstöðu sína í nákvæmlega samskonar máli. Þeim bar samkvæmt evrópskum lögum að láta vera til staðar kerfi sem verndaði eftirlaun verkafólks. Þrátt fyrir þessa skyldu tókst fyrirtækjum að sólunda eftirlaunasjóðum fjölda fólks. Og í þessu tilfelli var málið mjög ljóst. Bretar áttu að borga. Þeir voru meira að segja dæmdir til þess. Og siðferðilegra verður málið ekki svarthvítara. Fólkið hafði unnið alla ævi fyrir þessum peningum og stóð nú á barmi fátæktar og ótímabærs dauða. Hvað gerði breska ríkið? Það neitaði að borga. Með hvaða rökum? Ekki með lagalegri óvissu. Nei, þeir notuðu svipuð rök og Bjarni Ármannsson. Að borga þessa skuld væri óréttlætanleg meðferð með almannafé. Og fólkið dó í þúsundatali frá þessum peningum. Meira um það hér.

Bretar hafa hvorki siðferðilega yfirburði í málinu né lögin á sínu bandi. Vissulega má leggja fram siðferðilega og lagalegan rökstuðning eins og Vilhjálmur gerir. En sá rökstuðningur stenst ekki skoðun. Hann er í það minnsta ekki sannfærandi.

Skoðum þá praktísku rökin. Að það borgi sig fyrir Ísland að borga.

Praktísku rökin eru þau að jafnvel þótt við ættum ekki að borga þá væri hægt að beita okkur svo mikilli pólitískri kúgun að við margtöpuðum á því.

Málið snýst nefnilega á endanum ekki endilega um lög, rétt eða siðferði. Það snýst um það að valdamikið fólk heimtar að við borgum og er með óljósar hótanir um slæmar afleiðingar þess að samþykkja ekki Icesave 3.

Okkur hefur verið hótað öllu illu alla leið í þessu máli. Hvert einasta skref og hver einasta ákvörðun hefur verið tekin undir demóklesarsverði. Bretar hafa alltaf ætlað að steypa okkur fram af hyldýpisbarmi. AGS átti ekki að koma nálægt okkur fyrr en málið væri leyst. Við fengjum hvergi lán.


Ekkert hefur gengið eftir. Engar hótanir. Engar bölbænir.

Þið fyrirgefið þótt ég gefi ekki túskilding fyrir greiningarhæfni og dómgreind þeirra sem barist hafa fyrir samningum hingað til.

Það er nú einu sinni þannig að Bretar og Hollendingar hafa eftir sem áður alla hagsmuni af því að fá sem mest af sínu fé til baka. Synjun Icesave 3 segir ekkert um það að þeir fái ekki féð. Hún segir aðeins að þeir fái þetta fé á eðlilegum forsendum. Að eignum verði komið í verð og þeir fái síðan greitt eins og allir aðrir – en njóti ekki pólitísks ofurvægis.

Og það að hörku verði beitt gegn okkur. Hingað til hefur hinn diplómatíski heimur haft vit á því að fara ekki í „stríð“ við heilar þjóðir. Það er alltaf einhver Saddam eða Gaddafí eða Mílósévits. Það er vegna þess að það er auðveldara að réttlæta mislöglegar og missiðrænar árásir ef óvinurinn hefur andlit (helst miðaldra karlmannsandlit). Ef þjóðin fellir Icesave er það þjóðin sem er óvinurinn. Og þú getur ekki ráðist gegn heilli þjóð án þess að taka stóra diplómatíska áhættu.

Ef þjóðin fellir Icesave eru skilaboðin skýr. Við göngum ekki að afarkostum. Við samþykkjum hvorki skiðferðilega né lagalega ábyrgð á málinu. En fyrst og fremst berum við ekki pólitíska ábyrgð. Hví skyldi þjóðin enda bera pólitíska ábyrgð þegar þingheimur er nýbúinn að sýkna sjálfan sig svogottsem að fullu af slíkri ábyrgð? Við höfum ekkert á móti því að Bretar og Hollendingar fái féð. En það fé skal koma fram sem úttektir úr sjóðum þeirra sem brugðust, ekki sem niðurskurður á heilbrigðis- og menntakerfinu.

Ef rétt er að áhættan af samningi sé komin niður í ekki neitt þá hlýtur það að tákna um leið að áhætta Breta og Hollendinga af því að samningurinn falli sé kominn í ekki neitt.

Engin ummæli: