22. júní 2009

Brown myndi ekki borga ICESAVE. Sagan sannar það.

Gordon Brown heldur á lofti einarðri afstöðu gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Evrópusambandið bakkar hann upp. Núna bakka Steingrímur Joð og Jóhanna hann líka upp.

Á sama tíma hefur Gordon Brown persónulega og um áraraðir haldið uppi fullkomlega gagnstæðri afstöðu í algjörlega sambærilegu máli.

Þannig var að upp úr aldamótum fóru fjölmörg bresk fyrirtæki á hausinn. Mörg þeirra tóku með sér lífeyri starfsmannanna. Þá var fjármálaráðherra téður Brown.

Í ljós kom að margir lífeyrissjóðir höfðu komist upp með að hafa ekki til reiðu fé til að standa við skuldbindingar sínar. Og þrátt fyrir það höfðu bresk stjórnvöld fullyrt að þeir væru öruggir.

Svo hrundu þeir og hundruð þúsunda manna og kvenna sáu á eftir sparnaði sínum í hyldjúpt svarthol.

Sá munur var á sjóðum þessa fólks og innistæðueigenda ICESAVE að margir höfðu tilneyddir greitt í sjóðina (það var skilyrði fyrir ráðningu) og flestir höfðu ekkert annað lifibrauð.

Viðbrögð ríkisstjórnar Bretlands var að harðneita ábyrgð á málinu og fullyrða að fólk yrði að sækja bætur í eignir sjóðanna sem fóru á hausinn.

Næsta skref var að breyta reglum og stofna bótasjóð sem öryggisnet ef sjóðir brygðust – en það var ekki gert afturvirkt.

Tony Blair viðurkenndi að staðan væri hörmuleg en að allt sem ríkið gerði til að hjálpa yrði að vera viðráðanlegt (affordable). Og þótt þeir vildu vissulega hjálpa væri ekki hægt að réttlæta notkun á skattfé almennings.

Og það varð uppreisn.

Fjölmiðlar fóru í stríð við stjórnvöld. Báðir flokkar fóru í stríð við stjórnvöld. Það varð uppreisn í Verkamannaflokknum. Fólkið, sem tapað hafði sjóðum, fór í mál og gerði kröfu um að málið yrði lagt fyrir Evrópudómstól því það fullyrði að það hefði mál gegn ríkisstjórninni samkvæmt evrópskum reglum.

Því neitaði ríkisstjórnin. Vildi ekki fara með málið þangað.

Þangað fór það nú samt, án þess að niðurstaðan yrði bindandi fyrir málsaðila, og niðurstaðan var sú að ríkinu hefði borið að sjá til þess að sjóðirnir hefðu betri tryggingar. Stjórnuninni hefði verið áfátt (inadequate).

Umboðsmaður breska þingsins tók málið fyrir og mælti á sömu leið. Sagði ríkið sekt um raðóstjórn (serial maladministration).

Og ríkið tapaði líka fyrir hæstarétti (High Court).

Ríkisstjórnin kaus að hunsa tilmæli umboðsmanns og mótmælti áliti Evrópudómstólsins.

En eftir gríðarlegan pólitískan þrýsting er svo komið að ákveðið hefur verið að stofna dómstól (tribunal) til að ákvarða bætur til þess fólks sem tapaði peningum við hrun sjóðanna. En ríkisstjórnin hefur gætt þess að viðurkenna aldrei að ríkið beri ábyrgð á tapinu þrátt fyrir að regluverki og eftirliti hafi verið ábótavant. Og það er talið útilokað að ríkið beri nema hluta af ábyrgðinni. Aðalábyrgðin sé hjá fyrirtækjunum sem fóru illa með fé fólks.

En það er vitað að Brown fer varlega í þessu máli. Ekki síst vegna þess hversu líkt það er máli íslensku bankanna.

Málin eru enda alveg eins.

Um er að ræða einkafyrirtæki sem komust upp með að fara óvarlega með sjóði fólks. Eftirliti hins opinbera var ábótavant og regluverkið ekki nógu traust. Allir eru sammála um ábyrgð ríkisins en þar sem engin lögsaga nær yfir málið hefur einföld neitun ríkisins dugað. Ákvörðun um að borga bætur er pólitísk fyrst og fremst. Það lítur enda illa út að hafa fé af gömlu fólki. Fimmtán manns deyja á hverjum degi frá peningunum sem það fær aldrei.

Íslenska ríkið getur hæglega neitað að borga ICESAVE og notað nákvæmlega sömu rök og breska ríkisstjórnin sjálf.

Kannski er merkilegast að upphæðirnar sem Brown hefur þrást við að borga og Blair á undan honum, m.a. með þeim rökum að ríkið hafi ekki efni á þeim, eru mjög sambærilegar við þær upphæðir sem nú er rætt um að íslenska ríkið taki á sig vegna ICESAVE.

Sjá t.d. hér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú getur bent á það að Brown sé fífl.

Staða Íslands er hins vegar ekki sambærileg við stöðu bresku stjórnarinnar í þessu máli.

Sjáðu t.d. http://gautieggertsson.blogcentral.is/blog/2009/6/22/serkennilegur-skilningur-laga/

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Málin eru fullkomlega sambærileg.

breskum stjórnvöldum bar skv. evrópulögum að tryggja eftirlaunasjóði.

tryggingar þeirra dugðu ekki til og fjöldi fólks tapaði miklu fé.

breska ríkið vísaði þá allri ábyrgð á sjóðina sjálfa og neitaði þrátt fyrir ótal úrskurði þar um að axla sjálft ábyrgð.

breska ríkið hefur ekki enn borgað, nú 8 árum seinna, og ráðherrar stjórnarinnar hótuðu að stöðva allar greiðslur sem dæmdar yrðu af sérstökum dómstól.

en nú þegir breska ríkið þunnu hljóði um málið vegna ICESAVE málsins.